sunnudagur, maí 20, 2012

Lokað bréf til Péturs Gunnarssonar sem nú hefur verið opnað


(ritað um vetur en birt að vori)

Í fyrirlestri þínum Pétur, Skáldatali, þann 20. október síðastliðinn í Háskóla Íslands ræddir þú meðal annars tíðarandann. Eða öllu heldur andleysi tíðarandans. Eftir fyrirlesturinn sat ég eftir með örlítinn beyg. Ég fór að vona að þú hefðir rangt fyrir þér og að spádómar þínir myndu ekki rætast. Spádómar um að brátt myndi tækninýjunga-blaðran springa framan í okkur; að innan skammt yrðum við að endurskoða líf okkar og taka upp aðra lifnaðarhætti. Pétur, það er svo erfitt að skipta um gír; stilla á annan takt. Úr pontunni lastu fyrir okkur fyrsta ljóðið í fyrstu ljóðabók þinni, Splunkunýr dagur, sem segir svo margt um jörðina og fegurðina; segir allt sem þú vildir segja.
Pétur, ég vil segja þér að af jarðarinnar hálfu byrja allir dagar, punktur (punktur komma strik).  Jörðin snýst og alls staðar er nýr dagur að byrja með nýjum upphafspunkti, nýjum tækifærum. Dagurinn byrjar og ekkert meira en það. Jörðin fer sinn hring af innra lögmáli sem hún veit ekki af sjálf og hugsar ekki út í. Hvort eitthvað sé fagurt eða ekki kemur málinu ekki við,  af jarðarinnar hálfu.
Fugl flögrar upp á trjágrein og menn falla í stafi og mynda óteljandi tengingar í höfðinu um frelsi og fegurð, ástina og lífið og allt þar á milli. Fuglinn horfir yfir landið og hugsar: Þarna er vatn, þarna er tré, þarna er matur og þangað ætla ég að fara. Hvort vatnið er fagurt eða sólarupprásin einstök kemur málinu ekki við og slíkt hvarflar ekki að honum. Vonandi verður mannshugurinn aldrei svona. Vonandi horfir maðurinn aldrei á vatnið og tréð og hugsar: Þarna er vatn, þarna er tré, þarna eru fjárfestingarkostir, þarna get ég grætt og þangað ætla ég að fara, sama hvað það kostar. Pétur, það er af mannsins hálfu sem allir dagar byrja einhvern veginn og af minni hálfu byrja allar bækur þínar fallega. Er fegurðarskyn mannsins farið að minnka hættulega mikið? Er hægt að búa til vísitölu sem mælir fegurðarskyn þjóðar? Getur verið að þarna liggi hin raunverulega hætta mannsins, mesta tortímingarógn jarðar og alls lífsanda sem þyngdaraflið þrýstir niður á hana?
Á sama tíma og hvert mannsbarn fæðist með vísi að fegurðarskyni er maðurinn orðinn helsti ógnvaldur jarðar. Í því liggur átakanleg þversögn. Það þarf að hlúa að þessu fegurðarskyni og leyfa því að þroskast. Við þann þroska þarf að tengja færnina til að setja sig í spor annarra (manna og dýra) og skilning á viðkvæmni alls sem lífsanda dregur.
Dagarnir byrja, líða og enda. Árstíðir skiptast á og jörðin snýst sinn hring. Öll náttúran sinnir sínu hlutverki og kannski er í því fólgin mesta fegurðin; að sinna sínu hlutverki. Maðurinn þarf að finna hlutverk sitt og sinna því.
En ég vil segja þér Pétur að það er síðasta ljóðið í bókinni sem má ekki gleymast; þar eygi ég von. Haltu áfram að vera barnið sem lýst er í þessu ljóði og ég skal gera mitt til að boða mikilvægi fegurðarskynsins. Þá verða kannski dagar okkar ljóð.

Ps-3
um hvað tölum við
um hvað skulum við tala
því hugsunin hrópar á orð
sem lengi hafa verið falin
sem of lengi lágu undir snjó
vor!!
kom vor að bræða snjóinn
og fylla hjörtun grasi blómi og sól

hvenær verða dagar okkar ljóð
og draumar okkar hold og bein og blóð
hendur okkar fullar af veruleika
fullar með vídd og lit og hljóm
hvar er barn að hrópa við séum nakin
hver spinnur okkur loginn falskan vef
burt út!!
því lífið kveður dyra
og ryður af sér tímans logna fargi
of lengi barstu vatn í lekri fötu
og burðaðist með afskræmt tónvillt líf
nú skaltu frjáls og æska í hverju svari
orð þín vængjuð spinna nýjan sannleik
sjálft lífið er í vil
og ljós heimsins í hjörtum okkar

(Pétur Gunnarsson, 1973 Splunkunýr dagur. Heimskringla, Reykjavík, bls. 99-100.)

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Skáldleg opinlokuð bréf kalla á comment í sama anda en skyggnið er innan við einn kílómetir, múkkinn sofnaður á vognum og með honum andríkið. Afskaplega er nú samt gaman að lesa bloggið þitt mín kæra.
Kveðja úr Austfjarðarþokunni
H.