Nauðþurftir á Háskólatorgi
(um stöðu Háskóla Íslands í samfélagi þjóðanna - eða einföld tilraun til að vera sniðug)
Á neðri hæð Háskólatorgs er salernisaðstaða sem vekur
athygli þegar inn er komið. Þarna er röð af alls 13 klósettum. Það sem stingur
í stúf er að vaskarnir eru 12, sápustandar og ruslafötur eru 5 talsins en handblásarar
bara 4. Hvaða hugmyndafræði liggur þarna að baki? Hvaða heimsmynd ákveður að
handblásarar megi vera þrefalt færri en klósettin? Hvers eiga hendurnar að
gjalda?
Ástæðurnar geta verið ýmsar eins og t.d. að klósett eru mun
ódýrari en rafknúnir handblásarar. Hvort svo sé veit ég ekki og satt best að
segja nenni ég ekki að rannsaka það í þaula. Sú skýring sem ég tel líklegasta
er sú hugmynd að skárra er að bíða í röð eftir handblásara en klósetti. Þá
hefur maður val, ef tíminn er naumur, að sleppa því að þurrka hendurnar. Maður
getur síður kosið, ef klósettin væru bara fjögur og handblásararnir þrettán, að
sleppa því bara að kúka þegar þörfin er knýjandi og fá bara blástur á hendurnar
í staðinn. Þetta er kannski forgangsröðun á þörfunum. Ástæða þess að ég stíg
inn fæti er jú sú að mér er mál (ekki að ég þurfi að þurrka eða þrífa hendur)
og þeirri þörf þarf að sinna sem fyrst. Háskólinn getur státað sig af því að
sinna þessari brýnu þörf af stakri prýði, sérstaklega á þessum hluta
Háskólasvæðisins. Það er líka eitthvað fríkað við það að koma inn, alveg í
spreng, og geta valið á milli þrettán hvítra hásæta og geta gert þarfir sínar í
friði og ró, hugsandi til allra hinna tólf sem fengu ekki sinnt hlutverki sínu
þetta skiptið en bíða engu að síður átekta.
Ég er ekki að ýkja þegar ég segi:
Háskóli Íslands er á meðal tíu bestu í heimi þegar kemur að því að ganga örna
sinna.
2 ummæli:
Einfaldasta skýringin er sú að í HÍ er reiknað með að það taki styttri tíma að þvo sér um hendurnar en fara á WC ,hvor sem menn sinna þörfum til baks eða kviðar. Svo eru menn auðvitað fljótastir að þurka hendurnar því ef röðin er löng eru bara buxnaskálmarnar notaðar. Eða pilsfaldurinn.
En ég sé að þú hefur náð að tileinka þér akademíska hugsun á þessum háskólaárum þínum ;)
Hafrún
Takk fyrir það Hafrún - ég held að þurrkun í buxnaskálmar hafi aukist til muna með tilkomu þessara handónýtu handblásara. Verðugt rannsóknarefni.
Sjáumst annars vonandi í Hamarsfirði í sumar :-)
Skrifa ummæli