föstudagur, maí 18, 2012

Opið bréf til verðtryggingarinnar


Opið bréf til verðtryggingarinnar  | eða
 Pollýanna verður kaldhæðin   | eða
Tilraun til sjálfs-sefjunar

Kæra verðtrygging,
ég veit ekki hvar ég á að byrja eða hvað ég á að segja. Þú hefur fylgt mér undarnfarin ár og ég hef gert mitt besta til að styðja við þig og styrkja stöðu þína. Ég borga og borga og borga og þú stækkar og stækkar og stækkar. Þú stækkar hraðar en börnin mín en samt veita þau mér mun meiri hamingju en þú. Mér skilst að þú sért nauðsynleg til að bankar og lífeyrissjóðir geti lifað af. Bankinn þarf jú sitt. Það er allt orðið svo dýrt um þessar mundir. Einhvern veginn þarf bankinn að komast í gegnum mánuðinn. Kæra verðtrygging, þú gefur þeim tækifæri til að hafa belti og axlabönd og ef það dugar ekki til þá koma eflaust einhverjir aðrir til bjargar eins og ríkissjóður og samtakamáttur fólksins í landinu. Greiðsluvilji þorra þjóðarinnar ef allt um þrýtur. En þú ert víst nauðsynleg og ég vona svo heitt að allir peningarnir sem ég hef gefið þér hafi verið notaðir til góðs. Þeir hafa eflaust verið notaðir til að borga starfsfólkinu góð laun og notaðir til að hvetja fólk áfram til að vaxa og dafna og eflast í þroska og hugrekki og umburðarlyndi og allt heila klabbið sem er svo nauðsynlegt og allt of langt mál að telja upp í einni belg og biðu.

Kæra verðtrygging, þegar ég hugsa til þín þá fer ég stundum að velta því fyrir mér hversu klárt fólkið var sem fann þig upp. Og tel mér trú um að þetta hafi verið nákvæmlega sama fólkið og fann upp seðilgjöldin. Þvílík snilld. Þvílík trygging fyrir framvöxt og öryggi bankastofnana og lífeyrissjóða.

Kæra verðtrygging, núna er ég að selja íbúðina mína og hætti fljótlega að styrkja þig. En væntanlegur kaupandi tekur við þér og ég treysti því að hann muni sinna þér eins vel og ég hef gert hingað til. Hann á bara eftir að skrifa undir og taka þannig formlega við þér. Hann heitir Jens.
               
Kæra verðtrygging, ég ætla að hætta að eiga íbúðalán og skunda með bjartsýni á leigumarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu. Hann er svo yndislegur, hef ég heyrt. Kæra verðtrygging, ég mun samt áfram sinna þér og viðhalda þér en bara óbeint. Ég treysti því að væntanlegur leigusali minn sé dyggur stuðningsaðili þinn. Og allir leigusalar framtíðarinnar. Og ég mun áfram styðja við þig, beint eða óbeint, fram á grafarbakkann. Börnin mín taka síðan við en nú þegar finna þau fyrir þér þegar buddan er rýr en bankinn þarf jú sitt, ekki satt.
               
Kæra verðtrygging, ég veit ekki hvað ég get sagt að lokum nema kannski þetta (ef ég mundi senda þér póstkort þá mundi ég skrifa þetta):

Kæra verðtrygging,
ég vona að tilvist þín hafi
á einhvern hátt,
sem mér er enn hulin,
auðgað lífið
í þessu fallega landi.

Engin ummæli: