mánudagur, júní 11, 2012

Slitrur frá Eyrarbakka


Ég á hálfan dag og eina nótt eftir í pínulitlu húsi hér á Eyrarbakka. Er búin að skrifa slatta, mest eitthvað bull sem aldrei stóð til. Hef líka slípað til eldri myndir og bætt við tónum. En mikið svakalega er þetta einmanalegt. Sérstaklega eftir að rafhlaðan í símanum kláraðist. Einu tengslin við umheiminn eru netið og fjandans fésbókin. Og auðvitað kjörbúðin á bensínstöðinni. Ég mundi ekki halda það út í margar vikur að sitja ein á afskekktum stað og skrifa. Fólkið á næstu bensínstöð fengi nóg af mér.

Það er búið að vera vindasamt frá því ég kom. Einn daginn var glaðasólskin en hífandi rok. Hina hefur verið meira gjóla eða andvari. En fullt af sól, nóg af sól. Ætli sé við öðru að búast? Lyktin er skemmtileg blanda af sveitalykt og fjörulykt. Lykt af þara er svo himnesk að það mætti tappa henni á flöskur

Þegar ég kem í svona lítil og gömul hús þá byrja ég ósjálfrátt að beygja mig undir dyrakarma en síðan er reglulega eins og ég detti úr takti og fæ bylmingshögg á ennið. Til að sjá andlitið í spegli þarf ég að taka djúpa hnébeygju. Og þegar ég lít út um gluggann og eitthvað kvikt ber við augun þá skerpist athyglin til muna og maður fer að rýna, spá og spekúlera.  Túlka og oftúlka.

Áðan var verið að slá í nálægum garði og sláttuvélin hefur verið af einhverri sérstakri sort því þetta hljómaði eins og suð í risaflugu. Það er ekki óvanalegt að traktorar keyri framhjá á Túngötunni (einni af tveimur aðalgötum þorpsins). Áðan vappaði hani framhjá. Síðan kemur fyrir að maður sér hjónakorn í gönguferð þar sem konan tifar fimm skrefum á undan bóndanum sem stígur þung og ólundarleg skref.

Ég skokkaði lítinn hring um þorpið í gær og hljóp til baka eftir brimvarnargarðinum með þorp á hægri hönd og sjó á vinstri. Mæli með því! Annars fannst mér merkilegt að sjá hvað grunnskólinn er nálægt Litla Hrauni. Hvernig ætli það sé að ganga í skóla sem er nokkur hundruð metrum frá stærsta öryggisfangelsi landsins?

Næsta hús er lítið og sætt eins og þetta en rautt og garðurinn í órækt. Ég get ekki séð að nokkur búi í húsinu. Hvernig ætli það sé að búa í húsi með garði? Hvernig ætli það sé að vera með hól í garðinum (eins og í næsta garði)? Eða álfastein? Hvernig ætli það sé að búa í appelsínugulu húsi? Öll þorp eru með að minnsta kosti eitt appelsínugult hús.

Í fyrradag steig ég út og fór að mæna í kringum mig. Þá allt í einu sá ég ungan mann sitja á hólnum í næsta garði. Mér sýndist hann kjamsa á stráum. Mér brá svo að ég rauk aftur inn. Og læsti. Var ekki viss hvort þetta var draugur eða huldumaður. Í gær var þessi sami ungi maður að vökva stærðarinnar garð með vini sínum. Ég lá á glugganum. Er það eðlilegt að ungir menn vökvi kartöflugarða á sunnudagsmorgni? Er ungum mönnum almennt umhugað um kartöflugrös? Eru þeir kannski að rækta eitthvað annað undir svörtu plastpokunum? Hann var með lopahúfu og sólgleraugu. Er ég kannski bara uppfull af fordómum í leit að tilbreytingu í þessu fátæklega hoki mínu í þessu húsi?

Í morgun þegar ég vaknaði var ekkert heitt vatn. Þannig áskotnaðist mér einhver tilbreyting, frí frá orðunum og ég keyrði (hér keyra allir, að sjálfsögðu) út að bensínstöð sem er líka kjörbúð og spurði út í vatnið. Þar reyndist líka heitavatnslaust  og engar upplýsingar. Þetta er ráðgáta. Vonandi kemur vatnið á seinnipartinn svo ég geti endurtekið leikinn á brimvarnargarðinum. Ég skolaði af bílnum og gömlu tebollurnar í kjörbúðinni náðu ekki að heilla mig.

Á leiðinni til baka sá ég tvo unglingsstráka mála bekk. Annar var lítill, horaður og grettinn á meðan hinn var þybbinn og fýldur og ég hugsaði „Þetta er unglingavinnan“ – en varla það hljóta að vera fleiri unglinga hérna.

Hér er fallegt. Lítil krúttleg hús, stór og stirðbusaleg hús og engu minna krúttleg og allt þar á milli. Hér rétt hjá eru nokkrir skúrar og þar af tveir ryðgaðir. Hvað er þetta með ryðgaða skúra? Af hverju finnast mér þeir svona ótrúlega heillandi? Og garðar í órækt þar sem puntstrá, njólar og hvannir vaða upp um allt. Gefið mér bara ryðgaðan skúr og garð í órækt, þá er ég alsæl! Er þorpið smækkuð mynda af heiminum? Kallar þorpið fram rómantíska óra í hugum borgarbúa? Óra sem eiga lítið skylt við raunveruleikann. Veit ekki, en þeir eru skemmtilegir, þessir órar.

2 ummæli:

krumma sagði...

hljómar eins og tónlist, vantar bara vitann, ég á mér draum um að búa í vita, og einangrunin, drottinn minn ég væri alsæl og færi aldrei á bensínstöðina, sérlega ekki keyrandi

knús á þig frá krummastelpunni

Nafnlaus sagði...

Að sitja í skála í eyðifirði, fésbókarlaus, internetlaus, bensínstöðvarlaus, með eld í kamínunni meðan rigningin lemur gluggna er draumaaðstaðan mín. Það væri gaman að komast að því hvað ég héldi það lengi út.
Raunveruleikinn er auðvitað sá að þegar tölvuna vantar verða afköstin lítil og skriftin er svo slæm að ég á erfitt með að skilja hvað ég skrifaði.
Mig dreymir samt um að eiga svona viku annað slagið.
Hafrún