Á básunum allt í kringum mig eru alla jafna vélaverkfræðingar að teikna flóknar myndir af túrbínum og öðru kræsilegu (að ég held). Allir eru með þykkar bækur í hillunum frá námsárunum sem eflaust þarf stundum að grípa í. Þetta fékk mig til að hugsa hve gaman væri að hafa vinnu þar sem maður getur raðað námsbókunum upp (og ekki drukknað í þeim heima hjá sér). Þá væru hillurnar mínar fullar af trúartextum, Ágústínusi, Aristótelesi, Snorra Sturlusyni, málfræði, bókmenntasögu, Ingvari Sigurgeirssyni og Howard Gardner. En hvað væri ég að gera? Jú eflaust að teikna flóknar myndir af nýrri heimsendakenningu (sem liti út eins og túrbína).
Áðan setti ég námsbók um Excel í hilluna mína, afar stolt. Og minni mig á að við sitjum öll á básum eins og beljur og þráum ekkert nema hamingju og einhvern snefil af innri ró.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli