Það var gott að upplifa svartnættið á eigin skinni á þessum svarta degi. Pabbi hristi höfuðið með símtólið á eyranu þegar hann sagði mér áðan að stundum finnst honum aðrir lifa á annari plánetu en hann. Þegar hann var polli voru ljósin alltaf slökkt á þorpinu kl. 12 á miðnætti og kveikt aftur kl. 8 næsta morgunn. Mamma er að vinna til kl. 22 og við urðum sammála um að hún yrði að fikra sig heim með náttsjónina að vopni og hann ætlaði að ganga á móti henni (vonandi fóru þau ekki á mis í myrkrinu). Karlarnir frá Orkuveitunni sem þurftu að slökkva ljósin hafa kannski hrist höfuðið eins og pabbi.
Þegar ljósin voru loksins kvödd (tala ekkert um hinar kveðjurnar) fengu auglýsingaskiltin enn meiri athygli og á skýjuðum himninum sveimuðu flugvélar eins og stjörnur. Og svo tóku flugeldarnir við. Í myrkrinu er einhver dulin afhjúpun - heilög stund eða tryllt af ótta, allt eftir andlegu ástandi hverju sinni. Ég held við þolum illa myrkrið, viljum frekar horfa á stjörnuljós og flugelda en blikandi stjörnuhiminn. Rafsuðublind af skjáum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli