sunnudagur, janúar 29, 2006
Annað sýnishorn af Fjallvegum í Reykjavík
Suðurlandsbraut í vestur (við Hallarmúla)
Þennan veg, í þessa átt, er best að keyra á sólríkum og heiðskýrum degi. Ekki sakar að hafa nýlokið lestri á Snæfellsjökli í garðinum og vera með andrúm bókarinnar enn fyrir vitunum. Nærsýnir fægi þokuna af gleraugunum en réttsýnir skulu setja upp sólgleraugu. Með hraði. Því annars geta syndir heimsins endurvarpast af jöklinum og blindað saklaus augu. Andvarinn má vera úr hvaða átt sem er, af hafi eða frá nærliggjandi húsum. Hann má hafa læðst meðfram veggjum og liðið á milli húsa áður en hann smígur inn um opna bílrúðuna. Um fram allt verður hann að vera þögull og hægur svo að þú verðir hans ekki var, svo að hann feyki ekki andrúmi nýlesinnar bókar frá vitunum og hástemdar hugsanir fjúki ekki aftur í skott.
Óvæntir hlutir gerast sjaldan. En þegar það gerist er það eins og rennblautur alki þurrkist upp, alls kostar óvíst og kannski einu sinni á ævi, gefi maður því gætur. Fyrir vikið að manni vikið eins og konfektmola í harðæri, mjúkar hægðir í harðlífi.
Því stundum, endrum og sinnum, lónir Snæfellsjökull í nesinu í fjarska. Hangir í lausu lofti, albúinn til uppstigningar. Upphafinn af nefmæltu skáldi, eins og ekkert sé eðlilegra fyrir ofvaxinn klaka en að vera bendlaður við kristnihald. Þegar þú keyrir Suðurlandsbrautina í vestur, til móts við Laugardalinn, skaltu horfa á jökulinn og meðtaka þau skilaboð sem hann sendir þér. Og þá veistu að hann mun stíga upp til himna, setjast við hægri hönd borgarinnar og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða. En fyrst þarf að kossfesta hann, deyða og grafa og Pílatus er ennþá í felum í borginni. Þú veist ekki hvar hann er en þegar þú keyrir Suðurlandsbrautina áfram í vestur hverfur Snæfellsjökull á bak við hús og þú skimar eftir landshöfðingjanum á milli húsa, í húsasundum og nærliggjandi bílum.
Og þú keyrir þennan veg á hverjum degi, um hádegi, með Snæfellsjökul í garðinum í aftursætinu og forðast að líta á bókasafnssektina fyrir aftan þig. Þegar þú keyrir þennan veg, í þessa átt, á sólríkum og heiðskýrum degi máttu umfram allt ekki gleyma sólgleraugunum. Því einn daginn muntu sjá landshöfðingjanum bregða fyrir milli húsa og þú lítur í áttina að jöklinum og þá verður hann horfinn. Stiginn upp til himna.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli