mánudagur, júlí 31, 2006
Var
að uppgötva sáluhjálp skokkarans. Hljóp með fisléttan ipod og Prodigy gerði sporin léttari. Fór allt frá Metallicu til Presley í litlu 15 mínútna skokki. Er aðeins að reyna að koma mér úr húsi til að stækka vöðvana og fá líf í kinnarnar. Og fimmtán mínútur duga til þess að ég arka út á svalir til að kafna ekki innandyra, verð fjólublá í framan en með hamingjusamt, stækkandi hjarta. Vonandi sparkar tónhlaðan mér oftar út úr húsi.
sunnudagur, júlí 30, 2006
Vopn í útrýmingarhættu
er fyrirsögn sem ég vil sjá í fjölmiðlum. Þjóðir heims ættu að einbeita sér fyrst að því að útrýma vopnum til að geta útrýmt fátækt í heiminum. Þegar þjóðum og þjóðarleiðtogum finnst í lagi að eiga vopn og eyða mannslífum þá stafar jörðinni ógn af þeim. Það hefur orðið 80% gengisfelling á kærleika og umburðarlyndi í heiminum og markarsvirði haturs og hefnda hefur aukist. Sendum óvopnaðar kærleikssveitir inn á skrifstofur þjóðarleiðtoga. Hver er glæpur barnanna í Líbanon sem eru stráfelld þessa dagana??
Rakst fyrir tilviljun á þessa síðu.
þriðjudagur, júlí 25, 2006
Upprifjun
Ég er með teflonheila sem hrindir öllu frá sér. Þess vegna sit ég núna sveitt yfir fróðleik um Þingvelli og Skálholt því á morgun fer ég með fróðleiksþyrsta ferðalanga um uppsveitir Árnessýslu. Er föst á nýja Skálholtsvefnum þar sem maður getur drukkið í sig söguna. Mig langar alltaf að kynnast tímaflakki, geta breytt mér í flugu og hangið á fjósavegg eða kirkjuvegg þegar ég les svona lagað. Til dæmis hefði verið gaman að suða á glugganum þegar Brynjólfur Sveinsson handlék dýrmæt handrit áður en hann sendi þau út til danakonungs. Eða sveima yfir mykjuhauk þegar Jóni Gerekssyni var drekkt eða suða skoðun mína yfir nýhöggnum hausamótunum á Jóni Arasyni og sonum. Ég þarf að komast í kynni við uppfinningamann sem sendir fólk aftur í tímann í líki flugna.
laugardagur, júlí 22, 2006
Fréttir af ferð og hugmynd
Framundan er bíltúr í Skagafjörðinn með stoppi í matskálum við þjóðveg eitt. Hópur af fólki (þar sem ég þekki nokkra) ætlar að fara í raft en við mæðgur skottumst um tjaldstæðið á meðan. Keyrði Reykjanesbrautina um daginn og fékk hugmynd að nýrri glæpasögu. Sagan er um konu sem skrifar glæpasöguna ,,Þjóðvegur eitt" og hlýtur Gaddakylfuna í smásagnasamkeppni. Konan fer síðan að lenda í ýmsu furðulegu við akstur þar sem vörubílar og flutningabílar reyna ítrekað að keyra hana niður. Að lokum finnst hún látin í vegkantinum á Reykjanesbraut... En sem betur fer eru sumar hugmyndir ekki merkilegri en svo að þær rata í lítið blogg og ekki meira. Hvert ætli sé hlutfallið (í prósentum) af góðum eða lélegum hugmyndum sem maður fær - kannski spurning um að leyfa hugmyndum að vaxa á meðan sumar hugmyndir hafa enga vaxtamöguleika. Jæja nóg komið af of mörgum orðum.
fimmtudagur, júlí 20, 2006
Bragi í Eden
er látinn. Maðurinn sem byrjaði að selja grænmeti við þjóðveginn og húsmæður úr höfuðborginni flykktust austur. Síðan byggði hann Eden, þetta fyrirbæri sem er eins og skot úr bíómynd eftir Fellini. Ég fer reglulega með ferðamenn í Eden og það er skrítin tilhugsun að geta ekki bent þeim á gráhærða manninn bak við afgreiðsluborðið sem byggði húsið.
Þegar ég var krakki dvaldi amma mín í Hveragerði og ég var mjög sátt við það því þá komst ég reglulega í Eden og tívolí, það var toppurinn á tilverunni.
Minningin um Braga lifir á meðan Eden fær að standa og slitnu stólarnir prýða matsöluna.
Þegar ég var krakki dvaldi amma mín í Hveragerði og ég var mjög sátt við það því þá komst ég reglulega í Eden og tívolí, það var toppurinn á tilverunni.
Minningin um Braga lifir á meðan Eden fær að standa og slitnu stólarnir prýða matsöluna.
þriðjudagur, júlí 18, 2006
Ein af þeim mörgu gloríum sem ég hef fengið í gegnum tíðina var að kaupa Eyrbyggju á ensku til að slá tvær flugur í einu höggi - viðhalda enskunni og lesa íslendingasögu. Síðan þá hefur bókin legið ólesin í hillunni.
Klárað Skugga vindsins á Akureyri í síðustu viku og var mjög ánægð með bókina. Upplifði í miðju ferðalagi þann tómleika að hafa enga bók að leita til. Þegar ég er heima bölva ég öllum ólesnu bókunum sem taka tíma minn frá skriftum en þegar ég hef enga nærtæka þá er eins og eitthvað vanti. Byrjaði á Eyrbyggju (á íslensku) um leið og ég kom heim til að vera betur undirbúinn fyrir miðaldabókmenntastappið næsta haust.
Á morgun fer ég í nýju vinnuna að semja um kaup og kjör. Var að spá í að fara með hárið í tagl og tala djúpum rómi. Gæti kannski híft kaupið upp um einn launaflokk við það að setja á mig bláa bindið sem ég keypti í Englandi árið 1995. Kannski ég dembi á mig rakspíra.
Ef einhvern vantar enska útgáfu af Eyrbyggju þá látið mig vita.
sunnudagur, júlí 16, 2006
Gaddakylfa er komin á píanóið í dulargervi blómavasa - fínt að grípa til hennar ef innbrotsþjófar mæta. Líður stundum eins og laumufarþega um borða í glæpaskipi. Annars var fríið fyrir norðan fyrirtak og blíða annan hvern dag en rigning hina. Brúðkaup Nonna og Rósu í gær að Hólum var alveg glæsileg veisla og takk fyrir okkur!
laugardagur, júlí 08, 2006
Þá hefst ferðalag til Akureyrar, veðurspáin segir rigning. Ljúkum ferðinni í brúðkaupi á Hólum (vonandi í brakandi blíðu). Það verður gaman að sjá hve fljótt internet-fráhvarfseinkennin segja til sín. Áhugasamir um ,,diskóey vestur af Grænlandi" (orðabókarlýsing á kvenmannsnafni) fylgist með Kastljósi næsta þriðjudag.
miðvikudagur, júlí 05, 2006
Fyrir þau ykkar sem eruð á leið til suður Englands mæli ég með þessu hóteli. Lily Langtry hefur eitthvað verið að ásækja mig og vill að ég skrifi pistil um sig.
Annars er allt að gerast á þessum dimmu júlídögum. Míkrafónninn besti vinur minn í vinnunni og á morgun fæ ég tækifæri til að segja þjóðsöguna um Marbendil í annað skipti í sömu vikunni. Komin með nýja vinnu. Rigningin dunar. Síðasta sunnudag gekk ég til fundar við fortíð mína og hitti sjálfa mig fimm ára. Alltaf nýr ótti til að yfirstíga. Úði og rigning handan við næsta hól. Næsta vika verður frí á Akureyri með stuttri dagsferð í höfuðborgina, sem hljómar furðulega öfugsnúið. Og rigning.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)