þriðjudagur, júlí 18, 2006



Ein af þeim mörgu gloríum sem ég hef fengið í gegnum tíðina var að kaupa Eyrbyggju á ensku til að slá tvær flugur í einu höggi - viðhalda enskunni og lesa íslendingasögu. Síðan þá hefur bókin legið ólesin í hillunni.
Klárað Skugga vindsins á Akureyri í síðustu viku og var mjög ánægð með bókina. Upplifði í miðju ferðalagi þann tómleika að hafa enga bók að leita til. Þegar ég er heima bölva ég öllum ólesnu bókunum sem taka tíma minn frá skriftum en þegar ég hef enga nærtæka þá er eins og eitthvað vanti. Byrjaði á Eyrbyggju (á íslensku) um leið og ég kom heim til að vera betur undirbúinn fyrir miðaldabókmenntastappið næsta haust.

Á morgun fer ég í nýju vinnuna að semja um kaup og kjör. Var að spá í að fara með hárið í tagl og tala djúpum rómi. Gæti kannski híft kaupið upp um einn launaflokk við það að setja á mig bláa bindið sem ég keypti í Englandi árið 1995. Kannski ég dembi á mig rakspíra.

Ef einhvern vantar enska útgáfu af Eyrbyggju þá látið mig vita.