föstudagur, september 14, 2007


Á milli tarna rýni ég í bækur.

Frá því á vormánuðum hef ég lesið þessar ljóðabækur sem ég mæli hiklaust með: Hnattflug eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur; Á stöku stað með einnota myndavél eftir Árna Ibsen og Sumir láta eins og holdið eigi sér takmörk sem er frábært bók eftir Véstein Lúðvíksson. Þar sem ég er líka svo heppin að eiga eintök af þessum bókum geta ættingjar, vinir og kunningjar fengið þær lánaðar.

Þessa stundina er ég bæði að lesa Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð eftir Arto Paasilinna sem er full af finnskum svarthúmor og Borg eftir Rögnu Sigurðardóttur sem kemur skemmtilega á óvart.

Undir þeim bíða Ágrip af sögu traktorsins á úkraínsku eftir Marinu Lewycka og Frá gósenlandinu eftir Kirsten Hammann - en báðar voru gestir Bókmenntahátíðar í þessari viku (og ég sá þær báðar lesa upp í Iðnó). Ennþá fleiri bíða á eftir þeim og þýðir lítið að tíunda það heldur betra að slíta sig frá tölvunni yfir í bækurnar.

laugardagur, september 08, 2007

Veðurkróna



Eftir að hafa hlustað á ófáar vangaveltur í fjölmiðlum um óhagstæðar sveiflur íslensku krónunnar þá gerði ég uppgötvun í miðjum eldhúsverkum. Íslenska krónan er einfaldlega eins og íslenska veðrið. Alltaf að breytast og óútreiknanleg.
Í framhaldi fór hausinn á mér að fabúlera um að kannski hefur veðrið þessi áhrif á krónuna eða krónan þessi áhrif á veðrið. Auðvitað getum við hent krónunni út í vindinn og tekið upp evru en við getum ekki losað okkur við veðrið. Verst að geta ekki fengið krónufræðinga sem spá í sveiflurnar fram í tímann eins og veðurfræðingar spá í loftþrýsting og millibör.

Þegar hver millinn á fætur öðrum kemur og segir að krónan sé ómöguleg veit ég ekki alveg hverju ég á að trúa. Og spyr mig: getur verið að þeir sýni núna hjarðhegun? Byrjaði ein kindin að jarma og þá tóku allar hinar undir í kór?

mánudagur, september 03, 2007

Af speki

Stundum er gott að eiga Spakmælabókina þar sem má finna fræg og fleyg orð í gamni og alvöru. Því stundum þarf maður á speki að halda og í bókinni góðu er meira að segja hægt að finna glúrin spakmæli um verðbólgu. Við skulum vona að ég komist aldrei í þá aðstöðu að þurfa að nýta mér þann spakmælaflokk úr bókinni. Í ljósi útgáfubrölts sumarsins stenst ég ekki þá freistingu að birta þessi fleygu orð:

Að gefa út ljóðabók er eins og að kasta rósablaði
ofan af Mont Blanc
og bíða eftir bergmálinu.

ók. höf.

fimmtudagur, ágúst 30, 2007

Annar ritdómur kominn í hús. Úlfhildur Dagsdóttir dæmir Fjallvegina á bókmenntavef borgarbókasafnsins (www.bokmenntir.is) - sjá hér.

laugardagur, ágúst 25, 2007


Ég minnist þessi ekki að hafa nokkurn tímann þrifið af jafn mikilli gleði og ánægju og í gærkvöldi. Þessi ómælda gleði stafaði af því að loksins loksins er prófið í íslensku máli að fornu búið og nú get ég snúið mér að rykkornum (sem ekki er skortur á hér um slóðir) í staðinn fyrir wa-stofan, ija-stofna, wan-stofan og aðra won-stofna.
Hins vegar lærði ég skemmtilega ljóðrænar setningar við lesturinn mikla. Setningar á borð við ,,afturvirk fjarlíking", ,,framvirk samlögun" og margt fleira.

föstudagur, ágúst 17, 2007

Í staðinn

fyrir að mæta á stórtónleikana á Laugardalsvelli í kvöld hef ég tekið þá ákvörðun að leggjast yfir forna beygingu lýsingarorða. Í kjölfarið mun ég get snúið mér að fornri beygingu atviksorða og fornafna á næstu dögum. Ég mun ekki síður svitna en tónleikagestirnir.

miðvikudagur, ágúst 15, 2007

ATH



Útgáfu- og skáldahópurinn Nykur stendur fyrir þéttri og spennandi ljóðadagskrá á Austurvelli kl. 22-23 á Menningarnótt, laugardaginn 18. ágúst.

Eftirfarandi skáld lesa úr ljóðum sínum:
Andri Snær Magnason
Davíð Stefánsson
Emil Hjörvar Petersen
Kári Páll Óskarsson
Toshiki Toma
Sigurlín Bjarney Gísladóttir
Arngrímur Vídalín
Andri Örn Erlingsson
Nína Salvarar

Þetta er þrælgóð blanda af gömlum og nýjum skáldum - Andri Snær og Davíð hafa gefið út allnokkrar ljóðabækur, Emil, Kári, Arngrímur og Sigurlín Bjarney hafa öll nýverið gefið út sín fyrstu verk, og Toshiki Toma, prestur innflytjenda á Íslandi, mun nú í haust gefa út fyrstu ljóðabók sína, Fimmta árstíðin. Andri Örn og Nína eru svo nýjustu og ferskustu meðlimirnir í Nykri.

Allir velkomnir, aðgangur að sjálfsögðu ókeypis - kl. 22-23 á Austurvelli - rétt fyrir flugeldasýninguna.

sunnudagur, ágúst 12, 2007

Af Kjalvegi


Gangan um Kjalveg gekk vel en reyndi ansi vel á vöðva, liðamót og hugarfar. Að vera algjörlega síma- og fréttalaus var svolítið skrítin upplifun. Fyrsta dagleiðin var frá Hvítárnesi til Þverbrekknamúla um 13 km leið sem tók um 4-5 klst í norðan roki (og stundum moldroki). Skálinn við Þverbrekknamúla er ótrúlega notalegur og þar gátum við hvílt okkur vel, enda líkaminn eflaust í áfalli yfir óvæntu álagi. Til dæmis hef ég nýrun grunuð um að hafa farið á einhvern yfirsnúning. Á myndinni er Sólveig við vörðuna sem vísar leið að brúnni ógurlegu yfir Fúluhvísl. Á næstu mynd sést í brúna og Hrútfell gnæfir yfir. Frá brúnni var stutt í skálann.


Það voru þungir og stirðir fætur sem héldu af stað daginn eftir út í drungalegt veður og framundan um 20 km dagleið til Hveravalla. En það rættist úr veðrinu, vindinn lægði og sólin kom upp. Auk þess var landslagið mun fjölbreyttara en deginum áður og ótrúlega hressandi að stika upp brattlendi þegar maður er búinn að kjaga á jafnsléttu endalaust. Þrír hælsærisplástrar björguðu mér alveg.




Síðan komum við inn í grösugan Þjófadal og skálinn þar er ótrúlegt krútt. En við nýttum hann bara í að hita vatn á brúsa og svo var haldið áfram. Hefði ég verið sauðaþjófur hér í firndinni hefði Þjófadalur verið góður valkostur fyrir sumardvöl.

Það er algengt að heilu hestastóðin fari þessa leið og þess vegna gengum við mest í troðningum. Á vegi okkar urðu m.a. syngjandi lóur og tortryggnar kindur. Að lokum mættum við á Hveravelli og þá var ég búin að ganga í um 2 klst með þrjósku og þrautseigju að vopni. Gangan tók bara um 8 klst en það er líka alveg nóg. Á Hveravöllum beið okkar heit laug, hrein föt, grillkjöt og rauðvín.
Við fengum fínt veður (fyrir utan rokið fyrsta daginn) en daginn eftir að göngunni lauk kom rok og rigning og ekki hundi út sigandi.
Strax um kvöldið staulaðist ég um eins og farlama gamalmenni. En aðeins tveimur dögum síðar var eins og ekkert hefði í skorist - ótrúlegt hvað líkaminn jafnar sig fljótt.

þriðjudagur, júlí 31, 2007

Fyrsti ritdómurinn

kominn í hús. Rakst á þennan dóm Gauta Kristmannssonar á nýju bókina mína (best að opna krækjuna í Explorer).

Fjallvegir í Reykjavík komnir í flestar bókabúðir á 1900 kr. Ég sel þó beint á 1500 kr. Þeir sem vilja fá sent eintak í pósti geta lagt inn á mig og sent mér heimilisfang sitt á sigurlinbjarney@gmail.com - slíkt eintak myndi kosta 1600 kr.

mánudagur, júlí 30, 2007

Og komin

Framundan er ganga um Kjalveg hinn forna. Áttaviti og smurðar flatkökur á leiðinni í bakpokann. Við Sólveig ætlum að taka þessa 3 daga göngu á 2 dögum og sofnum vonandi ekki í hvernum á Hveravöllum. Óttablandin tilhlökkun. Alltaf gott að vita að maður hefur næga þrjósku til að komast á leiðarenda, hvað sem fætur og axlir segja.

Þá er bara að vona að hann haldist þurr.

fimmtudagur, júlí 19, 2007

Farin


í frí frá neti, tölvupósti, íslenskri sól og bókastússi. Töskur fullar af bókum um forníslensku, Stínu, Kjalveg og Þjáningu annarra. Danskur ís mun fullkomna þá blöndu.

Nánari upplýsingar veita loftskeytastöðvar.

föstudagur, júlí 13, 2007

Í nótt ætla ég að forðast ískrið í hliðinu og klifra yfir girðinguna


er titill á sögu sem (mér til mikillar undrunar, en það er önnur saga) er birt í kilju með nýjasta Mannlífi. Aðalsöguhetjan er gömul kona á þvælingi um landið, á flótta undan einhverju óræðu. Einu sinni áttu bréfin hennar heima inni í ólokinni skáldsögu sem grotnar nú í skúffum.

Annars eru Fjallvegir komnir í hús og dreifast um bókabúðir eftir helgina. Fyrstir koma, fyrstir fá. Seinir koma, seinir fá þó!

föstudagur, júlí 06, 2007


Ég fetti fingur út í óvænta skýjadruslu á kápumyndinni og við það frestast prentunin um viku. Vonandi ekki lengur. Þjandans þolinmæðin þrautir þrýtur að vanda?

Nú bægi ég frá mér kvöldsólinni og rýni (að fúsum og frjálsum vilja, ótrúlegt) í hljóðvörp, klofningu og stóra brottfall. Ef ég kemst í gegnum þennan forníslensku-hreinsunareld þá verður það bara Pollýönnu að þakka - en sjáum hvað setur.

sunnudagur, júní 24, 2007

Að hlaupa út í buskann


Danmerkurförin var yndisleg í alla staði fyrir utan höfuðverkinn yfir öllum nýju verkefnunum í vinnunni þar sem hringitónar, niðurhal og DVD koma við sögu. Veðrið var einstaklega gott og fyrsta daginn varð ég þess heiðurs aðnjótandi að vera líklega eina konan á Strikinu sem var bæði í sokkum og í ullarkápu. En síðan áttaði ég mig á veðrinu og fór að þora út peyslulaus.
Hápunktur ferðarinnar var óvænt þátttaka í kvennahlaupi Alt for damerne þar sem 18000 konur hlupu á þremur kvöldum.

Á kvöldskokkinu í gærkvöldi silaðist ég framhjá pollum í fótbolta og þá fór ég að rifja upp fótboltaárin mín. Ég byrjaði að æfa fótbolta með Reyni Sandgerði í fyrsta stelpuflokknum þegar ég var 10-12 ára (man ekki alveg hvaða ár). Í nokkur ár var ég haldin miklu fótboltaæði og reyndi ítrekað að ná valdi á boltanum. En skankarnir flæktust alltaf jafn mikið fyrir mér og ég náði mestum árangri sem markvörður í innanhúsfótbolta - þá gátu skankarnir náð út um allt. Á þessum tíma hóf ég markvisst að hrækja út um allt (ekki reyndar innanhús) og það passaði flott að labba lúin á takkaskónum frá malarvellinum og hrækja hægri vinstri.

Á fyrstu æfingunni vorum við um 15-20 stelpur að elta einn bolta (bókstaflega). Fyrsti leikurinn við Keflavík fór 15-0 ef ég man rétt (fyrir þeim auðvitað) en á nokkrum árum náðum við yfirhöndinni og urðum Reykjanesmeistara (eða var það Suðurnesjameistarar?) - þökk sé Malla sem öskraði, hoppaði og stappaði í okkur stálinu.
Hefði ég fengið að ráða þá hefði ég æft hástökk og frjálsar en ekkert slíkt var í boði í sjávarþorpinu og því varð fótboltinn ofan á. Seinna sneri ég baki við þessu óþarfa hoppi, lagðist í bóklestur, píanóspil og ómarkvisst gítarplokk. Hef ekki átt afturkvæmt í boltann.

sunnudagur, júní 17, 2007

Skollaleikur


er saga sem birtist í smásagnahefti Nýs Lífs. Eldsnemma í fyrramálið verður það Kaupmannahöfn og lærlingsstörf hjá Nordisk Copyrigt Bureau. Við heimkomu komast Fjallvegirnir vonandi, vonandi í prentun.

fimmtudagur, maí 31, 2007

61 gráða norður, 21 vestur


Eftir að hafa tekið GPS punkta á vel völdum stöðum í borginni að morgni Hvítasunnudags komst ég að þeirri almennu vitneskju að nánast allt borgarlandið er á sömu lengdar- og breyddargráðu. Það skeikar bara um mínútur og sekúndur. Skeikar því ekki alls staðar, í lífinu, ef því er að skipta?

Lauk sömuleiðis um helgina bókinni Never let me go eftir Kazuo Ishiguro. Höfundur sem er ótrúlega lunkinn við að skrifa texta með þunga, ofurþunga undiröldu.

Annars þarf ég að athuga hvort ég sé nokkuð að brjóta höfundarrétt með því að birta kápumyndir. Einhver upplýsi mig sem veit betur!! Verandi rótandi í þannig rétti alla daga þá hef ég kannski fengið snefil af virðingu fyrir honum.

fimmtudagur, maí 17, 2007

Óformlegar þreifingar


hafa dunið á manni í fréttatímunum undanfarna daga. Mér er fyrirmunað að skilja hvað þetta þýðir nákvæmlega. Sögnin að þreifa hefur vissulega þá merkingu að leita fyrir sér, kanna möguleika eða undirtektir. Sé hin merking orðisins hins vegar skoðuð: snerta á, fara höndum um, fálma eða þukla - þá verða hinar óformlegu þreifingar óneitanlega spaugilegar.

Á þriðjudaginn gerðist ég svo fræg að valda minni fyrstu aftanákeyrslu. Það kom ekki að sök þar sem blikkdósirnar beygluðust lítið og farþegar sluppu algjörlega heilir. Lögreglan kom á svæðið (eftir að ég reyndi að hóa í þau þegar þau keyrðu framhjá) og við Friðsemd fylltum út tjónaskýrsluna. Strax í gær kom bréf frá tryggingafélaginu þar sem þeir innheimta frá mér tjónaskýrsluna. Og síðastliðna nótt vakti lögreglan okkur upp og þar sem ég stóð svefndrukkin fyrir framan laganna verði þá hvarflaði að mér eitt sekúndubrot að þeir væru komnir til að hirða ökudólginn eða að innkalla tjónaskýrsluna. En síðan kom á daginn að þeir fóru íbúðavillt í leit sinni að drykkfelldur ökuníðingi.

Annars náði ég í skottið á Pétursþingi í dag. Erindi Péturs sjálfs í lok þingsins var glæsilegt - það mun eflaust birtast í einhvers konar safnriti næsta haust, mæli með því þegar þar að kemur. Hver veit nema þetta verði flutt í Víðsjá í næstu viku en upptökutækin mölluðu allan tímann.

fimmtudagur, maí 10, 2007

Fríða frænka

er í Klassart, og líka Smári frændi. Og reyndar er Pálmar bróðir þeirra kominn á bassann og þá vantar bara Særúnu í bakraddirnar. Góð lög sem verða betri við hverja hlustun. Eftirvænting eftir disknum magnast. Skoðið þessi lög.

þriðjudagur, maí 08, 2007

Ekki meir, Geir!

Var fyrirsögn á frægum plötudómi sem margir muna enn eftir. Setningin hefur lifnað við í kollinum á mér eftir að auglýsingar með Geir segja að traust efnahagsstjórn sé stærsta velferðarmálið. Hvað er efnahagsstjórn? Hvað er traust efnahagsstjórn? Hvenær verður hún ótraust? Einhverra hluta vegna sé ég alltaf XD sem flokk fyrirtækja og atvinnurekenda - veit ekki alveg af hverju.

Næst held ég að XD muni segja: það kom vor á eftir vetrinum og síðan kom sumar - en ekkert víst að það gerist aftur að ári ef önnur ríkisstjórn verður við líði.