miðvikudagur, mars 29, 2006

Í svefnslitrum

vakna oft hugmyndir og ef ég kveiki ekki ljósið og arka fram úr til að festa þær á blað þá hverfa þær yfirleitt inn í svefninn. Þessi lifði nóttina: Hvað ætli mörg prósent þjóðarinnar sé þessa stundina í mikilli sorg út af ástvinamissi? Hvað ætli mörg prósent þjóðarinnar sé vansvefta eftir eyrnabólgu barnsins, áhyggjur eða rifrildi (ímynduð og raunveruleg) næturinnar? Hvað ætli mörg prósent þjóðarinnar hafi þurft kaffi í morgun til að komast af stað inn í daginn? Hvað ætli mörg prósent þjóðarinnar glími við fjárhagsáhyggjur? Hvað ætli mörg prósent þjóðarinnar glími við gremju og sjálfsvorkun? Samt siglir þjóðarskútan, vinnumarkaðurinn gengur eins og smurð vél og kannski kemur sú stóra prósenta þjóðarinnar sem eru vinnualkar þjóðarbúinu til bjargar. Þetta er djúpt!

laugardagur, mars 25, 2006

Heyrðu? (með áherslu á u-inu)

Mér finnst að Katla mætti nota tækifærið og gjósa núna. Núna er besta tækifæri aldarinnar - sjálfur Björn gæti haldið alvöru blaðamannafund.

Annars er sú sem kveður burt snjó og leiðindi komin til landsins. Ætli leiðindin bráðni niður í jörðina með snjónum? Ég heyrði einhvers staðar að Englendingar skjóta Lóuna sér til skemmtunar og matar - ætli það sér rétt? Er það ekki Lóan sem á að segja ,,dirrindí"? - þegar hún vælir um móa þá heyri ég bara ,,heyrðu?" með áherslu á u-inu. Annars skemmtilega ólíkar stöllur: Lóan (Hutrie Pie á frönsku) og Krían (Stern Artic), kannski maður tjái sig nánar um Kríu skömmina síðar.

laugardagur, mars 18, 2006

Þokumóða


Uppáhaldsveðrið mitt í dag. Vonandi komið til að vera. Heimurinn breytist þegar kyrr dulúðin leggst yfir. Stórar vinnuvélar við veginn sýnast skrýmsli frá forsögulegum tíma og hver veit nema að fólkið sem birtist úr þokunni komi úr næsta steini eða steinsteypta stólpa?
Kannski er þoka uppáhaldsveðrið mitt því ég ólst upp í endalausu roki og hvassviðri, alla daga, öll ár. Kyrrðin í þokunni er öskrandi andstæða þess.

þriðjudagur, mars 14, 2006

Pyttur




Einn af mörgum pyttum sem ég fell reglulega í er að vera meira human doing en human being. Ætli sé hægt að þýða það sem að vera manngera frekar en mannvera?

sunnudagur, mars 12, 2006

Hringvegur


Í gærkvöldi náði ég þessum hring á 4 klukkutímum: Kópavogur, Ítalía, Belgíska Kongó og Kópavogur.
Allir staðir frábærir, Belgíska Kongó hreinasta snilld - aldraðar kerlingar eru vannýtt auðlind, hvernig væri að virkja þær?
Komst að þeirri heimspekilegu niðurstöðu að allt fer í hringi. Maður kemur alltaf aftur heim, hvort sem heim er íbúð, bær, land eða hugarástand.

fimmtudagur, mars 09, 2006

Villur í tímaskyni

Þegar ég var lítil kom það oft fyrir að öll fjölskyldan vaknaði klukkutíma of snemma án þess að átta sig á því. Ég gekk af stað í skólann og áttaði mig ekki á tímavillunni fyrr en ég kom að myrkum og harðlæstum skólanum. Og varð annað hvort að dúsa á skólalóðinni í leit að öðrum krökkum sem áttu svipaðar fjölskyldur eða bara rölta aftur heim.

Það kom líka oft fyrir þegar ég var krakki að rölta um þorpið að ég starði svo stíft á næstu hús eða fólk á rölti að ég gekk á ljósastaura. Ég var alltaf að ganga á ljósastaura. Hjólaði meira að segja einu sinni á kyrrstæðan bíl því ég var að dáðst að Svarta Péturs límmiðanum á hjólinu mínu (límmiðar sem fengust með samnefndum íspinnum). Í dag hef ég lært að horfa fram þegar ég geng áfram, hef svo oft lent í því að horfa eitthvert annað og gangi niður annað fólk.

Þessa dagana er birtan að aukast það hratt að það bíður upp á örlítinn rugling, maður vaknar og heldur að klukkan sé meira en hún er. Og kaffileytið lengist um nokkra klukkutíma.

miðvikudagur, mars 08, 2006

Hrafnar

Þegar ég keyrði í morgun norður Snorrabrautina flaug hrafn á næsta húsþak með eitthvað hvítt í goggi og lenti að snæðingi. Auk þess sátu tveir hrafnar til móts við hvorn annan á sitt hvorum ljósastaurnum og römmuðu Snorrabrautina inn með krunki sínu. Og þegar ég steig úr bílnum við Höfðatún ómaði krunk um hverfið. Ég held þeir hyggi á allsherjar yfirtöku ljósastaura.

þriðjudagur, mars 07, 2006

Lyklaskipti

Mér finnst ég alltaf vera að horfa á lyklaskipti í fréttatímum. Hátíðlegar afhendingar ráðuneytislykla. Það er eins og ekkert sé auðveldara en að vinda sér í og skipta, hægri vinstri, um ráðuneyti. Að vera ráðherra er eins og að færa sig frá kassa 1 yfir á kassa 2 í kjörbúðinni - allt svipuð verk, sama kjaftæðið í kúnnunum!

fimmtudagur, mars 02, 2006

,,Mikið að gera, mikið að gera" (Stubbarnir)


Á miðvikudaginn lét ég nemendur finna nýtt íslenskt nafn á i-pod, það kom lítið út úr því nema tvær tillögur: potti og MP3-spilar. Nýyrðadagbók íslenskrar málstöðvar stingur hins vegar upp á tónhlöðu, spilastokk, podda o.fl. Poddi finnst mér líklegt til vinsælda - en spennandi að sjá hver þróunin verður.

Er sem sagt á kafi í æfingakennslu og fékk það vandasama verk að kenna íslenska málsögu. Þuldi upp ættartölur indóevrópskra mála í dag og í fyrsta tíma í fyrramálið mun ég þruma germönsku hljóðfærsluna og annað kræsilegt yfir nemendum. Ég mun hins vegar krydda kennsluna með rúnum og nokkrum skemmtilegum galdrarúnum frá 17. öld.

Myndin hér að ofan er einmitt ein slík - hana skal rista á oststykki eða fisk og mun sá sem það borðar ekki halda niðri neinum mat - svona ælurúnir. En þar sem maður er orðin andleg, umburðarlynd og gremjulaus manneskja þá hvarflar ekki að manni nokkuð svona hrufl í osta eða fiska, öðrum til miska.

Tilvitnunin hér að ofan er tekin úr þætti Stubbanna. Þar þeytast þeir um allt, holt og hæðir, og hrópa ,,mikið að gera, mikið að gera!!!" og þulurinn segir ,,dag einn í stubbalandi var mikið að gera hjá stubbunum" - stundum er maður svolítið eins og þeir.