fimmtudagur, mars 02, 2006

,,Mikið að gera, mikið að gera" (Stubbarnir)


Á miðvikudaginn lét ég nemendur finna nýtt íslenskt nafn á i-pod, það kom lítið út úr því nema tvær tillögur: potti og MP3-spilar. Nýyrðadagbók íslenskrar málstöðvar stingur hins vegar upp á tónhlöðu, spilastokk, podda o.fl. Poddi finnst mér líklegt til vinsælda - en spennandi að sjá hver þróunin verður.

Er sem sagt á kafi í æfingakennslu og fékk það vandasama verk að kenna íslenska málsögu. Þuldi upp ættartölur indóevrópskra mála í dag og í fyrsta tíma í fyrramálið mun ég þruma germönsku hljóðfærsluna og annað kræsilegt yfir nemendum. Ég mun hins vegar krydda kennsluna með rúnum og nokkrum skemmtilegum galdrarúnum frá 17. öld.

Myndin hér að ofan er einmitt ein slík - hana skal rista á oststykki eða fisk og mun sá sem það borðar ekki halda niðri neinum mat - svona ælurúnir. En þar sem maður er orðin andleg, umburðarlynd og gremjulaus manneskja þá hvarflar ekki að manni nokkuð svona hrufl í osta eða fiska, öðrum til miska.

Tilvitnunin hér að ofan er tekin úr þætti Stubbanna. Þar þeytast þeir um allt, holt og hæðir, og hrópa ,,mikið að gera, mikið að gera!!!" og þulurinn segir ,,dag einn í stubbalandi var mikið að gera hjá stubbunum" - stundum er maður svolítið eins og þeir.

Engin ummæli: