fimmtudagur, mars 09, 2006

Villur í tímaskyni

Þegar ég var lítil kom það oft fyrir að öll fjölskyldan vaknaði klukkutíma of snemma án þess að átta sig á því. Ég gekk af stað í skólann og áttaði mig ekki á tímavillunni fyrr en ég kom að myrkum og harðlæstum skólanum. Og varð annað hvort að dúsa á skólalóðinni í leit að öðrum krökkum sem áttu svipaðar fjölskyldur eða bara rölta aftur heim.

Það kom líka oft fyrir þegar ég var krakki að rölta um þorpið að ég starði svo stíft á næstu hús eða fólk á rölti að ég gekk á ljósastaura. Ég var alltaf að ganga á ljósastaura. Hjólaði meira að segja einu sinni á kyrrstæðan bíl því ég var að dáðst að Svarta Péturs límmiðanum á hjólinu mínu (límmiðar sem fengust með samnefndum íspinnum). Í dag hef ég lært að horfa fram þegar ég geng áfram, hef svo oft lent í því að horfa eitthvert annað og gangi niður annað fólk.

Þessa dagana er birtan að aukast það hratt að það bíður upp á örlítinn rugling, maður vaknar og heldur að klukkan sé meira en hún er. Og kaffileytið lengist um nokkra klukkutíma.

Engin ummæli: