föstudagur, apríl 20, 2007

sunnudagur, apríl 15, 2007

6:45 / 260

Á slaginu 6:45 á hverjum morgni hrópar feykiróan í næsta herbergi: Ég er vöknuð!!! Þá hrópa ég á móti: Komdu að kúra! og þar með fer dagurinn af stað. Og sum kvöld skokka ég hring um bæinn og eftir að ég fann tröppurnar 260 þá eru brauðfæturnir smám saman að styrkjast. Sem sagt, mikið að gera og nauðsynlegt að setja HVÍLD og nóg af henni inn í dagskrána.

laugardagur, apríl 07, 2007

Kraftbirtingarhljómur hugmynda



Kvöldin mín eru full af bókum og netrápi en sjónvarpslampinn kaldur. Kveikti þó á heimilisaltarinu um daginn og rakst á raunveruleikaþátt um leitina að ameríska uppfinningamanninum. Hafði bara nokkuð gaman af. Sérstaklega þar sem ég rifjaði upp alla bílskúrs-uppfinningamennina sem ég talaði við í gamla starfinu. Neistinn í augunum á þeim þegar þeir lýsa uppgötvunun sínum er svo heillandi. Þessi drifkraftur þegar hugmyndir fá orð, form og tilgang.



Í ameríkunni er hægt að fá einkaleyfi á öllu undir sólinni á meðan í Evrópu og þar með talið Íslandi eru reglurnar mun, mun strangari. Þess vegna fussaði ég og sveiaði yfir öllum uppfinningunum í þættinum sem höfðu ekki nógu mikið nýnæmi, voru ekki með nógu háa uppfinningahæð og vitað mál að fagmenn á viðkomandi sviði geta auðveldlega látið sér detta í hug að leysa vandann akkurat svona.

laugardagur, mars 31, 2007

Háspenna

Þá bíður maður spenntur við tölvuna eftir lokatölum í álverskosningunni. Á morgun er ár síðan ég gekk inn til þáverandi yfirmanns míns með uppsagnarbréf í höndunum, í fyrsta skipti á ævinni. Þurfti að ítreka að þetta væri ekki aprílgabb. Í fyrramálið munum við þjóta fyrir allar aldir úr dyrunum í þvældum sparifötum með skonsur á bakka til að mæta í fermingu í Hveragerði. Vonandi rústar rokið ekki hárgreiðslunni. Hvað ætli íslenska rokið hafi margar hárgreiðslur á samviskunni?

fimmtudagur, mars 22, 2007



Fylltist einhverri fáránlegri þörf fyrir að básúna Olivier Messiaen. Fann þessa flottu heimasíðu um kallinn. Eitt merkasta tónskáld 20. aldar. Messiaen var strangtrúaður kaþólikki og samdi mikið af trúarlegri tónlist. Var líka forfallinn áhugamaður um fugla og skráði fuglasöng í frönskum skógum sem síðan rataði á nótnablöðin. Hann var líka áhugamaður um austurlenska dulspeki og blandaði austrænum áhrifum saman við fugla og kaþólisma. Flott blanda!!


Einu sinni átti ég disk með Turangalila sinfóníunni hans, en lánaði hana og hún kom aldrei aftur. Sinfónía sem verður kannski aldrei flutt á Íslandi því hún tekur víst 2 klst. í flutningi. Mæli með Kvartetti um endalok tímans (Quatuor pour la fin du temps) sem var saminn og frumfluttur í fangabúðum nasista.



Á næsta árið verða liðin 100 ár frá fæðingu Messiaen og þá á víst að halda ráðstefnu í Englandi. Humm, kannski maður setji upp alpahúfu og skelli sér í húsmæðraorlof!!

sunnudagur, mars 18, 2007

Í frumskógi á fjallvegum

Helginni var eitt í einangrum í sumarbústaðnum Frumskógi. Setti síðasta punktinn á handritið ,,Fjallvegir í Reykjavík" á nánast sama tíma og þingið lauk störfum eftir 4 ára basl. Mitt basl hefur staðið í 7 ár. Þó með mislöngum hléum. Hef týnt mér í dútli við að taka út orð, setja inn orð, stytta og snurfusa. Það snjóaði endalaust svo að skokk-gírinn fékk að liggja í töskunni. Mokaði mig hins vegar út í gær og vil að vaðstígvél fylgi svona bústöðum. Í dag sá ég svona för í snjónum:
oIo
oIo
oIo

I á reyndar að móta óbrotna línu - sem sagt hoppandi mús. Heimförin tók nánast þrjá klukkutíma í hálkugaddi og skafrenningi - hélt ég mundi ekki hafa það upp Kambana en komst yfir heiðina með því að halda mig nálægt einum jeppanum. Nú verður herjar á yfirlesurum og vonandi kemur kjarnyrt gagnrýni út úr því. Stefnt er á útgáfu með vorinu.

þriðjudagur, mars 13, 2007

Farfuglar og flækingar



mættir til landsins. Haftyrðillinn t.d. mættur sem flækingur en var áður staðfugl, hitinn hefur borið hann ofurliði. Sagt er að engir tveir fuglar séu eins og að hver og einn hafi sín persónueinkenni í félagslegum tengslum hópsins. Fuglar finnast mér merkileg fyrirbæri enda löngum öfundað þá af þessum holóttu beinum sem m.a. gera þeim kleift að fljúga. Annars hægt að sjá spennandi fréttir á http://www.fuglar.is/ - það að rýna út í rigningasortann eftir fuglum finnst mér alltaf jafn heillandi. Ímynda mér alltaf fuglaáhugamenn með lítið gogg-nef og spörfuglslegt göngulag.

sunnudagur, febrúar 25, 2007

1. sunnudagur í föstu


Fjólublámi í loftinu. Tími Passíusálma fram að fyrsta sunnudegi eftir fyrsta fulla tungl eftir vorjafndægur. Reiknið nú!

föstudagur, febrúar 16, 2007

Bókaormur kemst í kálhaus

Loksins loksins náði ég að klára Rigningu í Nóvember eftir Auði Ólafsdóttur. Skemmtileg og vel skrifuð bók. Ég hef í langan tíma ætlað að lesa þessa bók en alltaf hafa skólabækur og annað dundur staðið í vegi fyrir því.



Í kjölfarið var plastið rifið af annari bók sem hefur prýtt hillur mínar í eitt ár. Loksins loksins kemst ég í Karitas án titils en ég hef heyrt marga lofsama þá bók, eins og hún snerti einhverja strengi í hjörtum fólks. Fyrsti kaflinn lofar góðu og Kristín er fantagóður og þéttur penni.


Síðast en ekki síst er ég að lesa þessa sjálfshjálparbók eftir John Bradshaw í íslenskri þýðingu. Og geri merkilegar uppgötvanir í hverri setningu. Bók sem mig grunar að hafi valdið þöglum byltingum í lífi margra.

föstudagur, febrúar 09, 2007

Útkoma

Út eru komnar tvær nýjar bækur hjá Nykri: Gárungagap eftir Emil Hjörvar Petersen og Oubliette eftir Kára Pál Óskarsson.
Fást í öllum betri bókabúðum.
Og í fórum skáldanna á afslætti, skyldir þú rekast á þá á förnum vegi.

sunnudagur, febrúar 04, 2007

Ocimum basilicum

Ljóðaupplestur Nykurs var hin besta skemmtun og gekk nokkuð vel að mínu mati. Reyndar finnst mér skelfilega ógnvekjandi að lesa sjálf en kemst í gegnum það með frösum eins og ,,stígðu inn í óttann", ,,engri áhættu fylgja engin mistök" og það besta er ,,slepptu tökunum á öðrum og skoðunum þeirra".

Það sem kætir mig mest er hve litskrúðugur Nykurinn er með ólíka einstaklinga og ólík skáld. Fjölbreytileikinn er styrkleiki og í þessari fullkomnu uppskrift hrópa ég ,,pant vera basilíkan!!!". Þessa dagana er basilíka uppáhalds kryddjurtin mín og fær að fljóta með í alla potta. Ég hef hafnað bragðgóðu tilboði um að vera hvítlaukssaltið í hópnum og held mig við basilíkuna (einær jurt af varablómaætt). Þau ykkar sem hafið ekki smakkað basilíku skuluð gera það strax!

miðvikudagur, janúar 31, 2007

Þá hef ég kvatt starfsfélaga með trega í annað skipti á einu ári. Tárin eru gufuð upp af stýrinu.
Framundan er upplestrarkvöld Nykurs næsta föstudagkvöld kl. 21 á Litla ljóta andarunganum. Allir aðdáendur ljóða til sjávar á sveita velkomnir.
Hér kemur auglýsingin:

Útgáfu- og upplestrarkvöld Nykurs

Fögnum! Út eru komnar þrjár ljóðabækur hjá útgáfu- og skáldafélaginu Nykri! Því efnir Nykurinn til upplestrarkvölds.

Staður: Litli ljóti Andarunginn við Lækjargötu

Stund: Næstkomandi föstudagskvöld, 2. feb, kl. 21:00

Eftirfarandi Nykurskáld lesa úr nýútkomnum verkum sínum:

Emil Hjörvar Petersen : Gárungagap

Kári Páll Óskarsson: Oubliette

Arngrímur Vídalín: Endurómun upphafsins

Einnig lesa: Jón Örn Loðmfjörð og Bjarney Gísladóttir

Gestalesari kvöldsins: Kristín Svava Tómasdóttir

Allir velkomnir

Enginn aðgangseyrir!

þriðjudagur, janúar 23, 2007



Þegar ég get engan veginn munað hvenær ég fór síðast í bíó þá er tími kominn til að fara í bíó. Góður mælikvarði. Fór í gærkvöldi á Babel (ekki af því að ég fékk þá snilldarhugmynd heldur af því að Sólveig vinkona mín stakk upp á því) og mæli með henni. Samskiptaleysi, tungumálaörðugleikar, einangrun, sorg og allt þar á milli og meira til.

laugardagur, janúar 20, 2007

Frosthörkur

inn í merg. Í fyrradag kættist ég yfir gæsasporum í snjónum því þá vissi ég að þegar snjóa leysir verður ekki allt vaðandi í eplastykkjum og brauðmolum fyrir utan hjá mér. Ekki nema ég sé að halda uppi bústinni músafjölskyldu. Í kjölfarið bjó ég til nýjustu spakmælin mín: Molarnir rata til sinna - hvort sem það er mús, gæs, þúfutittlingur eða vindur þá eru örlög molanna ekki lengur í mínum höndum þegar þeir hrynja úr mínum höndum.
Annars áhugaverð þessi þörf fyrir að básúna góðverkum sínum í von um glimrandi álit annarra.

fimmtudagur, janúar 04, 2007

Tölvuvölva

Gleðilegt nýtt ár! Viðburðarríkt ár að baki. Skólastúss, tvær uppsagnir, Ameríkuferð og hundruðir góðra stunda með Freyju. Plötur ársins: Illinois með Sufjan Stevens og Garden með Zero 7. Bók ársins: Eyrbyggja. Tónleikar ársins: Nick Cave (ekki úr miklu að velja). Leiksýning ársins: Skoppa og skrítla (ekki úr miklu að velja). Maður ársins: Kiddilíus sem tók þá ákvörðun á árinu að hefja skólagöngu á því næsta.
Framundan er nýtt starf hjá STEF (þar sem ég verð lærlingur Urðar Nykursskálds), Þorrinn, febrúarafmælin öll og vaxandi birtuskilyrði seinnipartanna.

Í tengslum við fyrirsögnina verð ég að taka fram að orðið tölva er eitt best heppnaða nýyrði síðustu aldar en það er sett saman úr orðunum völva og tala. Orðið tölva beygist í öllum föllum með -ölv-í stofni. Hins vegar segja margir talva sem er einmitt áhugaverð áhrifsbreyting sem orðið völva varð fyrir fyrr á öldum. Í forníslensku beygðist orðið völva, völu, völu, völu (sbr. Völuspá, ekki völvuspá og reyndar með öðru hljóði en númtíma ö). Síðan varð hlutfallsbundin áhrifsbreyting frá orðum eins og gata sem varð til þess að völva varð vala í nefnifalli. Síðan varð útjöfnun beygingardæmis það sem viðskeytið -v- er alhæft og aftur varð hlutfallsbundin áhrifsbreyting frá orðum eins og gata sem leiddi til orðsins valva í nefnifalli. Orðið tölva hefur væntanlega þess vegna tilhneigingu til að beygast sem talva.
Þessi æsispennandi fróðleikur er bara til að minna mig á að 12. des. síðast liðinn skrópaði ég í próf sem leiðir til þess að næsta sumar mun ég liggja yfir fróðleik sem þessum og freista þess að taka mitt fyrsta sumarpróf. Og verð altalandi á víkingatungu (bókstaflega). En fram að vori læt ég skólabækur eiga sig.

þriðjudagur, desember 26, 2006

Tsunami

Í dag eru tvö ár liðin frá flóðbylgjunni á Indlandshafi. Hér er ókláraður texti sem ég skrifaði í kjölfarið.

Með titrandi tsunami tár

Lítið rumsk á botninum og skrímslið vaknaði af dvala. Reis upp og æddi af stað í allar áttir, í einu. Öskraði niður í djúpið svo dimmt og svart að enginn heyrði nema næmir fiskar og dýr til stranda. Bungaðist yfir hafflötinn og þegar kom að landi setti það upp vegginn og skellti sér yfir allt sem á vegi þess varð. Gekk á land og murkaði lífið úr hverri tóru.

Á landakortinu eru dregnar öruggar línur milli lands og sjávar og tunglið togar hafið fram og til baka. En hafið gekk á land og át lítil börn, óheppna ferðamenn og fátækt bóndafólk. Sölumaður sólgleraugna hvítnaði með munninn fullan af sjó. Sóldýrkandi sá sólina aftur, liðinn. Kornabarn sveif með straumnum úr örmum. Sárfætt kona stóð í rústunum, leitandi ellefu barna sinna. Ellefu brosandi munna, tuttugu og tveggja dansandi fóta.

Áður en aldan kom sogaðist sjórinn frá landi. Þúsundir spriklandi fiska lágu á þurru landi og fólkið þeysti út að ströndinni, til að týna fiska og taka myndir. Til að ganga í opinn dauðann.

Ég týndi úrinu mínu, giftingarhringnum, skóm og sokkum. Ég týndi barninu mínu. Ég týndi lífi. Hef ekki ennþá fundið það, er í þann veginn að gefa upp alla von. Í þann veginn að týna líka voninni. Ég mun aldrei í lífinu gleyma táraflóðinu sem ég drukknaði í. Þeir sem stóðu og horfðu á okkur deyja dóu líka, lífsþorstinn hvarf og sorginn gekk á land og murkaði lífslöngun úr öllu kviku.

Heilar breiður af blómum. Þúsundir blóma á þúsund ofan. Með titrandi tár, sem tilbiðja guð sinn og deyja.

sunnudagur, desember 24, 2006

Kveðja



Til hamingju með jólin til ykkar beggja sem gægist hér inn. Ég gat ekki valið á milli þessara gömlu jólakorta, þau fá því bæði að fljóta með. Hafið það sem best með von um viturlegt bloggbull á nýju ári. Njótið og þakkið!

miðvikudagur, desember 20, 2006

Vaskr maðr

Nú er höfuðið á mér að springa af fróðleik um Íslendingasögurnar. Prófið verður ekki fyrr en kl. 13:30 á morgun og eftir það byrjar jólaundirbúningurinn fyrir alvöru. Jólarykið hefur dreift sér um alla íbúð og kannski fær það bara að vera áfram, jólaryk er betri kostur en jólastress. Og nýlega tók ég þá viturlegu ákvörðun að vera ekki í skóla á næstu önn heldur setja kennsluréttindanámið á salt og leyfa því að súrna vel í einhvern tíma. Þá get ég notið þess að lesa allt sem tönn á festir og geta valið sjálf bókakostinn (ég fæ vatn í munninn).

miðvikudagur, desember 06, 2006

Mig grunar að síminn minn sé hleraður. Það er alltaf einhver draugur á línunni, niðurbældur hósti. Stundum heyri ég andardrátt í miðjum allegorískum samtölum um veðrið. Við móðir mín erum alltaf jafn undrandi á því hvað veðrið er ólíkt í Keflavík og Kópavogi. Nú mun ríkissaksóknari eflaust biðja sýslumanninn hér í bæ að rannsaka málið - nú þegar ég hef tjáð grundsemdir mínar. Og ég mun biðja um gagn-hlerunarbúnað á símann.

föstudagur, desember 01, 2006

Bergmál genesis

Upprisa Nykurs orðin að veruleika og fyrsta nykraða ljóðabókin komin út eftir langt hlé. Mæli með Endurómun upphafsins eftir ungskáldið Arngrím sem er líka hátíðlegur íslenskunemi (sem hefur vonandi lesið Mín káta angist eftir Guðmund Andra Thorson).

Mæli líka með öllum þessu óþekktu, örstuttu en bráðskemmtilegu Íslendingasögum með liggja í gömlum bókum á bókasöfnum um allt land. Las nýlega Króka Refs Sögu og mæli með henni.

Annars er ég sjá fyrir endann á svakalegri vinnutörn þar sem mörg hundruð blaðsíður af skemmtilegum útboðslýsingum áttu hug minn allan. Þar komu slökkvikerfi, yfirborðsfrágangur, kúlulokar og fleira kræsilegt við sögu og nauðsynlegur kokteill að blanda ljóðum og Íslendingasögum við lestur hvers dags.