hefur átt allan hug minn síðustu 22 mánuðina. Hér er síðan hennar:
http://www.barnaland.is/barn/16023
laugardagur, desember 31, 2005
fimmtudagur, desember 29, 2005
Óskar og bleikklæddu konuna
ætti að lesa í öldrunarstarfi kirknanna í Reykjavíkurprófastdæmum. Þá mundu þær öldruðu bleikklæddu konur sem jafnframt eru fyrrverandi glímukappar fá þá hugmynd að heimsækja barnaspítalann.
þriðjudagur, desember 27, 2005
Óskar og bleikklædda konan
var hin ljúfasta lesning. Komst ekki yfir í þriðja hlutann á þríleiknum eftir Erik-Emmanuel Schmitt þar sem jólin brustu á. Fékk tvær bækur í jólagjöf, annars vegar Sumarljós eftir Jón Kalman og hins vegar ævisögu Halldórs Laxness eftir Halldór Guðmundsson. Dembdi mér beint í Laxnesinn og tek Halldór með mér í rúmið þessi kvöldin. Verst hvað hann er feitur og þungur. Ævisagan er skemmtileg lesning og mikilvægt í fyrstu köflunum að höfundur minni mann á aldur skáldsins því maður fer ósjálfrátt að hugsa að hann sé um 30 ára þegar hann er í raun 19 ára. Af hverju var maður ekki svona unglingur? Lokaði sig af á afskekktu erlendu hóteli til að ljúka tveimur handritum - láta mömmu gömlu borga brúsann?? Þarf að ná að klára ævisöguna ásamt Sumarljósinu fyrir miðjan janúar því þá taka skólabækurnar yfirhöndina.
laugardagur, desember 17, 2005
Þreif áðan umgjörðina um jólamatinn
Hlustaði á suðaustan strekking í varpinu með hausinn í ísskápnum. Það skal ekki væsa neinn strekkingum um jólaölið og hrygginn í skápnum þegar stundin kemur. Þegar jötur heimsins dæsa yfir jöxlunum sem róta í þeim á hverjum degi. Og léttreykt, sykurbrúnuð hamingjan stígur úr varpinu með hugheilar kveðjur. Einu sinni á ári fær maður að heyra þetta spariorð ,,hugheilar" - ekkert hálfkák eða ,,hughálfar" neitt. Sem sagt ég ætlaði að fá mér bjór (þann eina sem til er í íbúðinni, væntanlega ekki sá eini í húsinu því hér búa hundruðir) og þrífa ísskápinn. En snerist síðan hugur og ákvað að þrífa hann að afloknu skyrdrykkjaþambi og fá mér síðan mjólkurglas með marmaraköku. Og lesa síðan bókina Óskar og bleikklædda konan (ef ég man titilinn rétt). Svona er maður orðinn ráðsettur kökufíkill.
Ég var einu sinni tónlistarnörd
Heillaðist af Messiaen og keypti ævisögu hans í erlendri bókabúð. Límdi upp á vegg mynd af honum þar sem hann stendur með alpahúfu í miðjum frönskum skógi að skrifa niður fuglasöng.
Gekk svo langt að kaupa viðtal við hann á geisladiski og þegar diskurinn var kominn í tækið kom í ljós að viðtalið fór fram á frönsku sem ég skildi lítið í.
Fór ein á tónleika sinfóníuhljómsveitar Bournemouth til að hlusta á Vorblót eftir Stravinsky, átti erfitt með mig því mig langað að hoppa úr sætinu og dansa. Rútan sem flutti mig á tónleikana var full af ellilífeyrisþegum með silfurgrátt hár í kollum. En þetta var fyrir rúmlega 10 árum síðan.
Og ég missti mig í brit-poppinu í kringum 1994-1997. Heillaðist af Elastica og fannst Justin Frischermann söngkonan ansi kúl, þar sem hún var þáverandi kærasta Damons í Blur og fyrrverandi hans Brett Anderson í Suede - ansi kúl stelpa. Hvað ætli hún sé að gera núna? Ætli Elastica sé ennþá til? Kannski er hún að troða upp í kvöld á pub í Sheffield, heimabæ Pulp.
Komst á snoðir um Kristin Hersh og uppgötvaði Blond on Blond og Desire með karlinum Bob. Að ógleymdu Waits æðinu sem hefur enn ekki hjaðnað. Hann átti afmæli 7. des síðastliðinn. Verst hvað mann langar alltaf í viskí þegar maður hlustar á hann. Og verst hvað ég og viskí eigum stutta en slæma sögu saman. Verst að mér finnst viskí ekkert sérstaklega gott.
Verst hvað hausinn á mér er fullur af gagnslitlum tónlistarupplýsingum.
Gekk svo langt að kaupa viðtal við hann á geisladiski og þegar diskurinn var kominn í tækið kom í ljós að viðtalið fór fram á frönsku sem ég skildi lítið í.
Fór ein á tónleika sinfóníuhljómsveitar Bournemouth til að hlusta á Vorblót eftir Stravinsky, átti erfitt með mig því mig langað að hoppa úr sætinu og dansa. Rútan sem flutti mig á tónleikana var full af ellilífeyrisþegum með silfurgrátt hár í kollum. En þetta var fyrir rúmlega 10 árum síðan.
Og ég missti mig í brit-poppinu í kringum 1994-1997. Heillaðist af Elastica og fannst Justin Frischermann söngkonan ansi kúl, þar sem hún var þáverandi kærasta Damons í Blur og fyrrverandi hans Brett Anderson í Suede - ansi kúl stelpa. Hvað ætli hún sé að gera núna? Ætli Elastica sé ennþá til? Kannski er hún að troða upp í kvöld á pub í Sheffield, heimabæ Pulp.
Komst á snoðir um Kristin Hersh og uppgötvaði Blond on Blond og Desire með karlinum Bob. Að ógleymdu Waits æðinu sem hefur enn ekki hjaðnað. Hann átti afmæli 7. des síðastliðinn. Verst hvað mann langar alltaf í viskí þegar maður hlustar á hann. Og verst hvað ég og viskí eigum stutta en slæma sögu saman. Verst að mér finnst viskí ekkert sérstaklega gott.
Verst hvað hausinn á mér er fullur af gagnslitlum tónlistarupplýsingum.
þriðjudagur, desember 13, 2005
Hún stormaði um í sjóstormi við hafið
Hafdís bjó í litlu húsi við sjóinn og þar var alltaf rok. Græn málningin var byrjuð að flagna af húsinu og axlirnar á snúrunum farnar að síga undan þvottinum sem sveiflaði sér í rokinu á hverjum degi. Stundum náðu svunturnar að losa sig af snúrunum og flugu út á haf. Hún var þybbin með rauðar kinnar og bjúg á puttunum. Hárið var þykkt og sítt og féll niður á bak eins og gruggugur foss sem ýfðist upp í rokinu. Stundum leit hún upp frá þvottinum og horfði á sjóinn froðufella, brjótast um í bylgjunum og taka heljarstökk að landi. En það var sama hvað sjórinn reyndi, hann sogaðist alltaf til baka. Og á hverjum degi var rok, en henni var alveg sama því hún vann og hamaðist eins og stormsveipur með rauðar varir. Hún skrúbbaði, skúraði, eldaði og saumaði. Hún stormaði um í sjóstormi við hafið. Karlinn hennar hét Hafliði og var langur og mjór og fölur. Alla daga formælti hann rokinu og þorði ekki út því þá fauk hann um eins og fjöður. Og hann kallaði konu sína Hafdísarmey og sá hana stundum storma framhjá. En á kvöldin lokkaði hún hann til sín með söng sem rétt heyrðist í vindinum. Og Hafliði var vindbarinn og stormsleginn eftir faðmlögin hennar sem voru eins og litlar rokrákir. Því svo var hún hlaupin aftur til starfa. Stundum gat fokið í hana þegar hann neitaði að mála húsið. Hann vildi frekar horfa á hana út um saltþveginn gluggann og formæla rokinu. Og hann var ekki glaður daginn sem hún læsti hann úti með græna málningu. Þá faðmaði hann snúrustaurana og hrópaði á hjálp framan í vindgusurnar. ,,Við búum á síprumpandi hjara í einhverju rassgati," sagði hann og vildi flytja á betri slóðir. Röddin hennar yfirgnæfði rokið, hún hrópaði ,,nei!" og við það sat.
Tímarit Máls og Menningar, september 2005
Tímarit Máls og Menningar, september 2005
fimmtudagur, desember 01, 2005
Af huldumanni
Það stefnir í að bókin Sumarljós og svo kemur nóttin eftir Jón Kalman Stefánsson verði jólabókin í ár frá mér til mín. Ég stökk hæð mína af gleði úr græna sófanum yfir Kastljósinu áðan þegar sú bók var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna enda höfundurinn fantagóður. Reyndar hafði ég stokkið nokkrum sekúndum áður yfir bókinni Hrafninn eftir Vilborgu Davíðsdóttur, það verður nýársgjöfin frá mér til mín í ár. En aftur að Jóni. Allt frá því að Sumarið bakvið brekkuna kom út hef ég reynt að lesa allt eftir hann enda heillaði sá bókaflokkur mig það mikið að ég gaf sjóaranum föður mínum allar bækurnar og hann kolféll fyrir Sumrinu og vitnaði í ,,ekkert er jafn sorglegt og skurðir í rigningu" og fleira spaklegt í heilt ár á eftir. Þegar ég síðan þurfti aftur að lesa bókina í íslenskunámi fór ég og keypti loksins bókina og þá sagði forleggjarinn mér að sígandi lukka bókarinnar kæmi á óvart þar sem höfundur hafði bannað að bókin yrði auglýst. Það þótti mér mjög virðingarvert í auglýsingahelvítinu sem allir virðast knúnir til að taka þátt í.
þriðjudagur, nóvember 29, 2005
Blikksmiðir í Edinborg
Já veisluhöldin og ferðalögin halda áfram. Það er ekki eins og maður sé illa haldinn, fátækur námsmaður þessa mánuðina slíkt er veldið á manni þessi misserin. Jú enn ein utanlandsferðin, núna til Edinborgar á árshátíðarferð rómaðrar blikksmiðju í bænum. Við skötuhjúin skulfum undan köldu skosku rigningunni og yljuðum okkur í flóðalýstum búðunum. Jólagjafirnar voru afgreiddar á einu bretti og Edinborgarkastali gnæfði yfir í öllum sínum ljóma. Niðurstaða að ferð lokinni: hingað kem ég aftur (að sumri til)!!! Nú gefst ég endanlega upp á því að setja inn myndir - hefur ekki tekist hingað til, rembdist við að setja flotta mynd af Esjunni við þann texta og mynd frá Búdapest við tilsvarandi texta þannig að mynd af Edinborgarkastala verður að bíða frekari færni í tölvuklambri af minni hálfu.
sunnudagur, nóvember 13, 2005
Að gleyma jöklum
Og veisluhöldin halda áfram. Í gærkvöldi fór ég á árshátíð í hjálparsveitinni minni. Hún var haldin í hlöðu og viðstaddir voru í lopapeysum með stórar og sterkar flöskur á borðum. Einn maður úr sveitinni sem er ýmist undir bílum að gera við, úti á bát eða uppi á fjöllum sat ofurölvi við borð og sagði í miðri frásögn ,,æ ég er búinn að drekka svo mikið að ég man ekki nafnið á jöklinum sem við fórum yfir" og var alveg miður sín. Þá er það svart, þegar maður er búinn að drekka frá sér nöfn á jöklum!!! Verst hvað það er langt síðan ég hef farið í almennilega gönguferð. Þessa dagana hreyfi ég mig ekki nema á milli bíls og húss og borða súkkulaði í tonnatali. Og kaffi, já og kaffi.
föstudagur, nóvember 11, 2005
Ferðin til Búdapestar
var draumi líkust. Ferðaðist með samstarfskonu minni á fyrsta farrými, gisti á flottu hóteli og sótti ráðstefnu um einkaleyfa-upplýsingar (gagnabanka og slíkt). Ráðstefnan var haldin á fimm stjörnu hóteli og fyrirlesararnir voru mjög formfastir í þeirri sterku hefð að standa við púltið og masa í hátalara, jafnvel með glærusýningu. Áhorfendur þurftu ekkert að gera annað en að hlusta. Í þeirri kennslufræði sem ég er að læra þykir fyrirlestrarformið dæmt til að mistakast, áheyrendur meðtaka ekki efnið vel og sofna fljótt - kannski á þessi áhersla ekki við um fullorðna. Allaveganna virðist hefðin festast harðar og harðar í kennsluaðferðum eftir því sem nemendahópurinn er eldri og lærðari. Fórum í leðruðum rútum í lögreglufylgd í þinghúsið í Búdapest og gengum um gyllta sali sem eru ólýsanlegir. Fengum endalaust góðan mat en lentum síðan á Slóvena sem útnefndi sig persónulegan leiðsögumann fyrir okkur um sögu Ungverjalands, Slóveníu og fleira. Hann var alltaf að segja okkur hvað ungverskar konur eru sérstaklega klárar að hugsa alltaf um fjölskylduna sína og sauma og prjóna (og ekki á flandri í útlöndum, langt frá heimili og börnum eins og við). Kvöldið í þinginu var himneskt enda ekki annað hægt þar sem brot af himnaríki var sitt í veggi og loft byggingarinnar. Næsta kvöld á eftir fórum við í fornri lest á stórt lestarsafn og átum á okkur gat ásamt um 4-500 manns af öllum þjóðernum - og allir áttu það sameiginlegt að fýla einkaleyfi (jéjéjé). Jazzbandið mynti mig á myndirnar hans Woody litla. Einhverra hluta vegna féllu fyrirlestrarnir alveg í skuggann fyrir matnum, vínunum og mannflórunni. Eftir að hafa borðar þríréttar í öll mál kastaði napur vindurinn mér að flugrútunni og heima tóku við bleyjuskipti (og auðvitað góð faðmlög) og skyr.
föstudagur, nóvember 04, 2005
Finnst þér ekki Esjan vera sjúkleg?
Sæbrautin fram og aftur. Tryggvi keyrir Sæbrautina fram og aftur á hverjum degi. Á bíl merktum fyrirtækinu og þegar hann bíður á rauðu ljósi við Höfðatún finnur hann hvernig spennan magnast. Í sama mund og hann beygir inn á Sæbrautina finnur hann traustið og haustið koma til sín af hafi. En hann segir þetta engum því tilfinningin er óræð og fálmkennd, úr tómu lofti gripin, af úfnu hafi fengin. Tryggvi endasendist eftir götunni í sendiför dagsins, á bíl merktum fyrirtækinu, og hún fylgir honum eftir alla leið. Eins og gestgjafi fylgir gesti sínum alla leið út að hliði, fylgir hún honum þar til hann beygir í suður. Og þá sér hann í baksýnisspeglinum hvernig hún dillar skottinu og hverfur lúpuleg bak við næsta hús.
Við aksturinn fer hann að hugsa og lætur hugann reika. Þá kemur að því einn dumbaðan rigningadag að hann veit að hún er tík sem spangólar við hafið. Hann er ekki fyrr kominn á Sæbrautina en hún mætir við hlið hans, lallar með honum með lafandi tunguna, gjóar til hans augunum annars lagið og lætur ekkert trufla sig í trausti sínu.
Og þegar dumbaði rigningadagurinn er að kvöldi kominn ýlfrar hún lágt undir lágnætti og þá veit hann að hún saknar hans nú þegar og mun flaðra upp um hann næsta dag. Því núna veit hún að hann veit.
Næsta dag smýgur einstaka sólargeisli í gegnum vindbarin ský. Hann þykist ekki taka eftir henni, blístrar í hina áttina, hækkar í útvarpinu og plokkar slummu úr nefinu. Þá urrar hún út í loftið, lyftir upp fæti og mígur yfir hann.
Esjan er tík.
Lesbók Moggans 22.1.2005
Við aksturinn fer hann að hugsa og lætur hugann reika. Þá kemur að því einn dumbaðan rigningadag að hann veit að hún er tík sem spangólar við hafið. Hann er ekki fyrr kominn á Sæbrautina en hún mætir við hlið hans, lallar með honum með lafandi tunguna, gjóar til hans augunum annars lagið og lætur ekkert trufla sig í trausti sínu.
Og þegar dumbaði rigningadagurinn er að kvöldi kominn ýlfrar hún lágt undir lágnætti og þá veit hann að hún saknar hans nú þegar og mun flaðra upp um hann næsta dag. Því núna veit hún að hann veit.
Næsta dag smýgur einstaka sólargeisli í gegnum vindbarin ský. Hann þykist ekki taka eftir henni, blístrar í hina áttina, hækkar í útvarpinu og plokkar slummu úr nefinu. Þá urrar hún út í loftið, lyftir upp fæti og mígur yfir hann.
Esjan er tík.
Lesbók Moggans 22.1.2005
fimmtudagur, október 27, 2005
Í morgun sköruðust tvær tilviljanir
í lífi mínu. Ég keyrði í frostinu vestur Álfhólsveginn á leiðinni í tíma í Lífsleikni að kenna um samkynhneigð - og í útvarpinu ómaði viðtal í Laufskálanum um samkynhneigð. ,,Skemmtileg tilviljun" hugsaði ég og lagði bílnum, en þá beið önnur bak við næsta horn. Kennslan mín frestaðist um viku þar sem leikkonan Guðrún Ásmundsdóttir var mætt á svæðið og hún valdi að tala um heim ljóðsins. Fjallaði m.a. um Jón úr Vör og las með svo miklum tilþrifum úr Þorpinu að mér vöknaði um augun. Einmitt fyrr í vikunni var ég að kenna íslensku og lét nemendur greina ljóð úr Þorpinu. ,,Skemmtileg tilviljun" hugsaði ég og fékk að heyra um músétin eintök Jóns af bókinni (kannski meira um það síðar - það rataði reyndar í ljóð í hádeginu sem síðan gufaði út í frostið með banananum sem datt úr pokanum mínum þegar ég arkaði djúpt hugsi úr búðinni). Já margar eru furðurnar í heimi kennaranemans - ætli álfarnir við álfhólsveginn hafi eitthvað með þetta að gera?
Meira um ferðalagið til Vínar (eða öllu heldur ferðalagið til Kaupmannahafnar)
Á þremur dögum upplifði ég 4 flugtök og 4 lendingar á ferð minni til Vínar. Margt rennur í gegnum hugann á slíkum andartökum og margar óvæntar spurningar koma fram, t.d. kom þessi: ,,Hvernig ætli mér myndi líða ef í flugvélinni væri leikari sem er ein að aðalpersónunum í Lost???" En að öðru: í flugvélinni á leiðinni til Kaupmannahafnar sat Bragi Ólafsson rithöfundur nokkrum sætaröðum fyrir framan mig. Hann sat einn við gluggann og sætið við hlið hans laust. Mig klæjaði í fingurna að setjast hjá honum og verða óþolandi sessunautur eins og í bókinni Gæludýrunum - en ég sat á mér.
laugardagur, október 22, 2005
,,Yfir heiðan morgun"
Á einhverju bókainnkaupafyllerínu hér um árið (örugglega í Perlunni) keypti ég ljóðabókina ,,Yfir heiðan morgun" eftir Stefán Hörð Grímsson. Beit það síðan í mig að þessa bók ætti ég að geyma og gefa einhverjum ljóðelskum ættingja eða vini við gott tækifæri. En síðan eru liðin mörg ár og einhvern veginn hefur bókin gleymst ofan í skúffu í glansandi plastinu. Þar sem ég er að fara að kenna í næstu viku um atómskáldin og þ.á.m. Stefán Hörð þá tók á þá ákvörðun að finna bókina. Gramsaði í gærkvöldi í skúffunni, dróg hana fram, settist hátíðlega við tölvuna og reyndi að vinna á plastinu. Aftan á bókinni var örlítið gaf á plastinu og ég ákvað að leggja þar til atlögu. En þá skrapa ég í bókina með nöglinni og snarhætti. Því gatið í plastinu, á bókinni hans Stefán Harðar, blasti við mér eins og starandi brostið auga vants. Ennþá er bókin í plastinu, mér finnst eins og hún heimti að vera í örygginu sem plastið veitir - kannski geri ég aðra atlögu á eftir og hver veit nema vötnunum fjölgi.
Í Vín eru margar styttur
Skrapp í þrjá daga til Vínarborgar núna í október - þurfti að sækja námskeið um einkaleyfagagnabanka!!! Hljómar spennandi! Vín minnti mig svolítið á blöndu af Munchen og Prag. Fullt af fallegum görðum og ef maður leit upp með glæsilegu byggingunum voru alltaf einhverjir ábúðafullir englar eða heilagar meyjar að mæla mann út. Ég náði að villast eitt skiptið og af ótta við að virðast "túristi" þá hvarflaði ekki að mér að draga upp kortið á miðri götu og reka nefið ofan í það. Settist frekar inn á matsölustað og reyndar að festa ljósmyndaminni á kortið. Og það bjargaðist - komst fyrir vikið í gegnum hvern hallargarðinn á fætur öðrum. Það var furðuleg upplifun en þar sem ég ferðast svo sjaldan þá hef ég alltaf mikinn vara á mér í útlöndunum. Og þegar ég gekk um gangana á flugstöðinni þá slakaði ég á því ég vissi: ,,við erum öll túrista hér inni" - kannski túristar í eigin lífi?? Í vélinni frá Kaupmannahöfn var allt pakkað af fólki og þegar við lentum loksins gat ég stunsað út í Flugrútun (að sjálfsögðu eftir að hafa fjárfest í vinum mínum Winston og Peter Lehmann). Vegaframkvæmdir í Hafnarfirði ollu því að við rúntuðum þann bæ þveran og endilangan og þegar við loksins, loksins komum á BSÍ þá var kæruleysið alveg búið að ná tökum á mér - ég hljóp út úr rútunni - kurteis dani hljóp á eftir mér með veskið mitt (sem ég hef misst á leiðinni) og sem ég beið eftir leigubíl uppgötvaði ég: Ég gleymdi töskunni í rútunni!!! Og rútan var farin burt, taskan fór sem sagt aðra ferð á Leifstöð og ég hrósaði happi daginn eftir þegar ég sótti hana þar sem fartölvan lifði allt ferðalagið af. En ég ætlaði ekki að skrifa um Vín - frekar bók eftir Stefán Hörð Grímsson - set það í næstu færslu.
föstudagur, október 07, 2005
Fjallvegir í Reykjavík - sýnishorn
- Lítið sýnishorn af fjallvegum í Reykjavík - einn af mörgum!! Kannski koma fleiri síðar.
- Tom arkar krullhærður og djúpraddaður norður Lækjargötu
Slarkið setur harkið í sálina og ég veit að svartar krullurnar standa út í loftið. Ég arka norður Lækjargötu, staldra við ljósastaur og muldra lag um tóma viskísflösku. Það er móskuleg þoka í röddinni og textinn leiðist út í súrrealíska frasa um heimsendi í súpuskálinni. Ég sé strætisvagn og hugsa mig ekki tvisvar um. Vagnstjórinn lítur mig hornauga. Léttklædd kona vindur sér að mér og biður mig, bljúgróma, að syngja um Downtown train en ég lít út um gluggann og segir henni eins og er ,,því miður það er ekki hægt, ekki í borg eins og þessari þar sem eru engar lestir”. ,,Og engir lestir” bætir hún við og strýkur mér um lærið. Við það tekur vagninn af stað og morgunbirtan ræðst að mér frá glugganum, eins og herskari svartra regnhunda. Ég styð mig við súluna og mæni út um framrúðuna. Og þegar vagninn stöðvar á rauðu ljósi við Lækjartorgið blasir Esjan við mér. Það er slark og hark í morgunskímunni og Esjan er hvít. Minnir mig á að það er ennþá vetur, svartur vetur með hvítum snjórákum. Ég get ekki beðið eftir nóttinni. Nóttin er köttur sem malar við fætur mér, mjúkur og svartur. Pissar viský yfir skóna mína. Fyllir þá af gullnum vökva sem ég drekk þar til ég vakna í strætisvagni. Á rauðu ljósi við Lækjartorgið, á leið norður Lækjargötu, og Esjan blasir við mér, dettur í flasið á mér. Þannig vakna ég á hverjum morgni, vagnstjórinn lítur mig hornauga og léttklædd kona situr við hlið mér, í fýlu því ég neita að syngja angurværa rámsöngva.
Vegurinn til Hólmavíkur leiddi mig hingað
Óskar Árni Óskarsson er flott prósaskáld. Hann og afi minn eiga lítið sameiginlegt - nema kannski að rata í sinn hvorn pistilinn eftir mig í hinu víðlesna tímariti Bókasafnið hér um árið. Geri tilraun til að láta þá fylgja hér - athugið pistlarnir mínir eru neðst! http://www.bokasafnid.is/26arg/baekuroglif.html Ef Óskar Árni er hestamaður eða söngvari, nú eða tekur í nefið þá á hann kannski eitthvað sameiginlegt með afa mínum heitnum - en ég efast um að svo sé.
föstudagur, september 30, 2005
Á bak við tjöldin eru völdin
Æ þarf aðeins að tjá mig um Baugsmálið fræga. Eftir tíu ár munu þreyttir framhaldsskólanemar þurfa að skrifa heimildaritgerðir um Baugsmálið fræga og valdablokkirnar sem kepptu um völd, peninga, völd og peningar af starkri hógværð. Það hóta allir að kæra alla - með þessu framhaldi hættir fólk að kippa sér upp við slíkar hótanir. Mér er bara um megn að ímynda mér allt sem fer fram á bak við tjöldin - úfff kannski vil ég ekki vita það :-)
Vasadiskóið hennar Jóhönnu af Örk
Ég keyrði Laugarveg í vestur við Nóatún, gafst upp á bullinum á ríkisstöðvunum og setti á 97.7 (hvað sem sú stöð heitir nú, Xið, Radíó, XRadíó... - æ ég hlusta alltaf bara á rás 1) og þá hljómaði Smiths lag í tækinu. Big mouth strikes again. Nema með einhverri annarri hljómsveit - nokkuð flottur söngur (sjálfsagt á ég að vita hverjir þetta eru, en ég er orðin gömul sál sem hlustar á rás 1). En textanum var breytt lítillega - kannski svo að unga kynslóðin skildi textann. Í staðinn fyrir ,,Now I know how Joan of Arc felt, as the flames rose to her roman nose and her walkman startet to melt..." var sagt "...as the flames rose to her roman nose and her cd drive started to melt". Vasadiskó er náttúrulega úrelt og ungt fólk veit ekki hvaða forntæki það er. Mig minnir allaveganna að það hafi verið cd drive frekar en einhver önnur tækninýjung.
sunnudagur, september 18, 2005
Hvar er draumurinn?
Þriðjudaginn 13. sept. sat ég í Norræna húsinu og hlustaði á viðtal við rithöfundana Javie Cercas og James Meek. Silja Aðalsteinsdóttir settist við hliðina á mér og mig langaði að spyrja: Hvenær kemur næsti hefti af TMM? Því ég vissi ekki að þá þegar var heftið (með litlu sögunni minni) komið í póstkassann heima. En hún var fljót að flytja sig um set yfir til kunningja. Smám saman fylltist salurinn og einhvern tímann í miðju viðtali (tímaskynið hvarf) kom gömul kona inn í salinn. Hún var í síðri rauðri kápu og ég hugsaði samstundist að greyið kerlingin hefði álpast þarna inn af einhverri rælni, kannski ætlað á salernið en endað í viðtali á útlensku. Hún settist við hliðina á mér og eftir miklar vangaveltur komast ég að þeirri niðurstöðu að hún var á réttum stað. En þá kom drungaleg hugsun óvænt í flasið á mér. Í gegnum árin hef ég oft skrifað um gamlar kerlingar og allt í einu fannst mér þessi kona vera fulltrúi þeirra allra - sendiboði úr skrifum mínum sem þurfti að koma til mín skilaboðum, fyrir hönd allra heimsins kerlinga. Eins og að persóna úr skrifum mínum væri mætt til að ræða við mig, til að leiðrétta rangan misskilning eða koma skoðunum sínum betur að inn í textann. Þegar viðtalinu við James Meek lauk og fólk reis á fætur þá leit ég opinmynnt á konuna, tilbúin að hlusta á visku hennar.
Fimmtudaginn 15. sept mætti ég óvenju snemma í Iðnó og ekki einu sinni búið að opna salinn. Þegar hann opnaði gat ég valið mér sæti af kostgæfni, annað en hægt er að segja um þá sem voru svo óheppnir að mæta 20-30 mín. síðar. Paul Auster var stjarna kvöldsins en Einar Kárason og Kristín Eiríksd. komu sterk inn. Að vanda mætti ég ein, enda ekki miklum bókmenntaáhuga að dreifa á meðal vina og vandamanna (að undanskildum skipstjóranum föður mínum, en hann mundi ekki láta sjá sig í léttvínssamsæti sem þessu) og reyndi að vera svolítið kúl á því. Hverfa dularfull út um hurðina og fyrir utan var margt um manninn og ég reyndi að missa ekki kúlheitin við það að ganga út úr húsinu. Og sá ekki steypustólpa sem stóð upp úr stéttinni og rakst harkalega utan í hann. Beit á jaxlinn en gat ekki annað en misst út úr mér ,,ááá" en með kúlheit í röddinni og strunsaði af stað að bílnum.
Næsta dag framkallaðist marblettur á hægra lærinu á mér. Mér finnst ég sjá svip Austers í blettinum.
Í gærkvöldi endaði ég á balli með Sálinni. Hljómsveitin sem ég dýrkaði sem unglingur en sneri síðan baki við því ég þurfti frekar að hlusta á Waits, Cave, P.J. Harvey og Breeders. Vinkona mín hefur haldið tryggð sinni við Sálina og ég lét tilleiðast. Þetta fékk mig til að rifja upp árið þegar hljómplatan ,,Hvar er draumurinn?" kom út. Þá sat ég límd við útvarpstækið og náði upptökum af frumflutningi allra laganna. Kunni þau síðan utanað loksins þegar platan kom út. Kannski eru textarnir hans Stebba miklir, duldir áhrifavaldar í skrifum mínum - hvur veit??
Sem sagt spennandi vika að baki, full af hori á öxl - og horið heldur áfram að streyma úr kvefaðri dóttur minni. Ekki gott að líta of mikið um öxl því þá gæti nef mitt fests í horinu.
Fimmtudaginn 15. sept mætti ég óvenju snemma í Iðnó og ekki einu sinni búið að opna salinn. Þegar hann opnaði gat ég valið mér sæti af kostgæfni, annað en hægt er að segja um þá sem voru svo óheppnir að mæta 20-30 mín. síðar. Paul Auster var stjarna kvöldsins en Einar Kárason og Kristín Eiríksd. komu sterk inn. Að vanda mætti ég ein, enda ekki miklum bókmenntaáhuga að dreifa á meðal vina og vandamanna (að undanskildum skipstjóranum föður mínum, en hann mundi ekki láta sjá sig í léttvínssamsæti sem þessu) og reyndi að vera svolítið kúl á því. Hverfa dularfull út um hurðina og fyrir utan var margt um manninn og ég reyndi að missa ekki kúlheitin við það að ganga út úr húsinu. Og sá ekki steypustólpa sem stóð upp úr stéttinni og rakst harkalega utan í hann. Beit á jaxlinn en gat ekki annað en misst út úr mér ,,ááá" en með kúlheit í röddinni og strunsaði af stað að bílnum.
Næsta dag framkallaðist marblettur á hægra lærinu á mér. Mér finnst ég sjá svip Austers í blettinum.
Í gærkvöldi endaði ég á balli með Sálinni. Hljómsveitin sem ég dýrkaði sem unglingur en sneri síðan baki við því ég þurfti frekar að hlusta á Waits, Cave, P.J. Harvey og Breeders. Vinkona mín hefur haldið tryggð sinni við Sálina og ég lét tilleiðast. Þetta fékk mig til að rifja upp árið þegar hljómplatan ,,Hvar er draumurinn?" kom út. Þá sat ég límd við útvarpstækið og náði upptökum af frumflutningi allra laganna. Kunni þau síðan utanað loksins þegar platan kom út. Kannski eru textarnir hans Stebba miklir, duldir áhrifavaldar í skrifum mínum - hvur veit??
Sem sagt spennandi vika að baki, full af hori á öxl - og horið heldur áfram að streyma úr kvefaðri dóttur minni. Ekki gott að líta of mikið um öxl því þá gæti nef mitt fests í horinu.
fimmtudagur, september 01, 2005
Peter Lehmann
var mikill hugsuður á 19. öld. Hann kollvarpaði fummyndakenningu Platóns og setti fram hina byltingarkenndu skuggamyndarkenningu stórborganna. Sagði kenningar um hella úreltar og nútímamanninum ófært að skilja slík hugtök, vildi heldur sjá umfjöllun um skuggamyndir stórborga þar sem skuggamyndir ganga um húsveggi. En kenningin var skotin niður, drepin og grafin (í helli) af ný-platonistum!! Nei nú hætti ég þessu bulli - þessari hræðilega gegnsæu sögufölsun. En það breytir ekki þeirri staðreyndir að ég hef hugsað til Lehmanns síðan á laugardaginn.
Þá hitti ég hann (hálfan) á góðum veitingastað, drakk hann í mig með gómsætri kjúklingabringu og síðan þá hef ég hugsað þegar ég horfi á sjónvarpið:
* Davíð Oddsson gerir fríverslunarsamning við Færeyjar: ætli hann hafi fengið sér Peter Lehmann hvítvín fyrir eða eftir fréttamannafundinn??
* Þulurinn glottir dagskrána: hann er örugglega nýbúinn að dreypa á ísköldum Lehmann.
* Lögregluforinginn hleypur eftir krimmanum, á regnvotu stræti um dimma nótt: ætli hann fái sér Peter Lehmann að góðri handtöku lokinni???
Og þannig hef ég hugsað háleitar hugsanir þessa vikuna og hver veit nema ég fjárfesti í einni flösku áður en árinu lýkur.
Þá hitti ég hann (hálfan) á góðum veitingastað, drakk hann í mig með gómsætri kjúklingabringu og síðan þá hef ég hugsað þegar ég horfi á sjónvarpið:
* Davíð Oddsson gerir fríverslunarsamning við Færeyjar: ætli hann hafi fengið sér Peter Lehmann hvítvín fyrir eða eftir fréttamannafundinn??
* Þulurinn glottir dagskrána: hann er örugglega nýbúinn að dreypa á ísköldum Lehmann.
* Lögregluforinginn hleypur eftir krimmanum, á regnvotu stræti um dimma nótt: ætli hann fái sér Peter Lehmann að góðri handtöku lokinni???
Og þannig hef ég hugsað háleitar hugsanir þessa vikuna og hver veit nema ég fjárfesti í einni flösku áður en árinu lýkur.
föstudagur, ágúst 26, 2005
Í nótt ætla ég að forðast ískrið í hliðinu
Sendibréf úr sveitinni
Ungur maður sá yfirsjónum yfir umkomuleysi mínu og bauð mér gistingu á bæ sínum. Hér býr hann einn með hundinum sínum og feimnin við kvenkynið alveg að sliga hann. Ég lagðist til svefns í annars hrörlegu gestaherberginu og fékk fiðring í fingurna að taka til hendinni. Og það var strax um morguninn sem ég stóðst ekki mátinn að rétta fram hjálparhönd þar sem hann böglaðist við að sjóða hafragraut fyrir næturgestinn. Er á leið rétti ég hverja hjálparhöndina af annarri og það varð að þegjandi samkomulagi að ég fengi að vera. Hann lét snarlega af allri gestrisni enda engin þörf fyrir slíkt. Tók að mér skrælnuð pottablómin, fitugar eldhúsgardínurnar og saurugt salernið. Ég ílengdist og bókstaflega kippti öllu í liðinn. Ungi maðurinn virðist kunna þessu vel og tekur framkvæmdum mínum af æðruleysislegri þögn. Andvarpar í tólið þegar háöldruð móðir hans reynir að fjarstýra honum af elliheimilinu. Og setur mæðu í röddina um leið og hann samþykkir allt hennar mál. Hundurinn er búinn að taka mig í sátt enda kræsilegir afgangar í dalli hans á hverju kvöldi. Hann flaðrar upp um mig á morgnana þegar ég staulast fram úr gestaherberginu. Þá er ungi maðurinn þegar sestur, tiplar fingrunum á borðið og bíður eftir hafragrautnum. Svona er nú komið fyrir mér þessa dagana og sem ég skrifa þetta bréf sit ég alklædd í rúminu með töskuna við hurðina. Í nótt mun ég hverfa og ungi maðurinn mun vakna í fyrramálið og bíða mín við borðið fram eftir degi. Smám saman mun hann þó minnast mín sem vorfuglsins ljúfa sem fór á miðju sumri. Í nótt ætla ég að forðast ískrið í hliðinu og klifra yfir girðinguna. Ég mun ganga niður á veg og reka út puttann. Síðan mun ég vinda mér að fyrstu ungu konunni sem ég mæti og bjóða henni hressingardvöl á bæ unga mannsins. Svona sé ég um aðra og verð nú að ljúka bréfinu því hundurinn er farinn að hrjóta í næsta herbergi. Hafðu það nú gott Ufsi minn og skilaðu kveðju til Jónsa.
Þín einlæg
Sigga
Ungur maður sá yfirsjónum yfir umkomuleysi mínu og bauð mér gistingu á bæ sínum. Hér býr hann einn með hundinum sínum og feimnin við kvenkynið alveg að sliga hann. Ég lagðist til svefns í annars hrörlegu gestaherberginu og fékk fiðring í fingurna að taka til hendinni. Og það var strax um morguninn sem ég stóðst ekki mátinn að rétta fram hjálparhönd þar sem hann böglaðist við að sjóða hafragraut fyrir næturgestinn. Er á leið rétti ég hverja hjálparhöndina af annarri og það varð að þegjandi samkomulagi að ég fengi að vera. Hann lét snarlega af allri gestrisni enda engin þörf fyrir slíkt. Tók að mér skrælnuð pottablómin, fitugar eldhúsgardínurnar og saurugt salernið. Ég ílengdist og bókstaflega kippti öllu í liðinn. Ungi maðurinn virðist kunna þessu vel og tekur framkvæmdum mínum af æðruleysislegri þögn. Andvarpar í tólið þegar háöldruð móðir hans reynir að fjarstýra honum af elliheimilinu. Og setur mæðu í röddina um leið og hann samþykkir allt hennar mál. Hundurinn er búinn að taka mig í sátt enda kræsilegir afgangar í dalli hans á hverju kvöldi. Hann flaðrar upp um mig á morgnana þegar ég staulast fram úr gestaherberginu. Þá er ungi maðurinn þegar sestur, tiplar fingrunum á borðið og bíður eftir hafragrautnum. Svona er nú komið fyrir mér þessa dagana og sem ég skrifa þetta bréf sit ég alklædd í rúminu með töskuna við hurðina. Í nótt mun ég hverfa og ungi maðurinn mun vakna í fyrramálið og bíða mín við borðið fram eftir degi. Smám saman mun hann þó minnast mín sem vorfuglsins ljúfa sem fór á miðju sumri. Í nótt ætla ég að forðast ískrið í hliðinu og klifra yfir girðinguna. Ég mun ganga niður á veg og reka út puttann. Síðan mun ég vinda mér að fyrstu ungu konunni sem ég mæti og bjóða henni hressingardvöl á bæ unga mannsins. Svona sé ég um aðra og verð nú að ljúka bréfinu því hundurinn er farinn að hrjóta í næsta herbergi. Hafðu það nú gott Ufsi minn og skilaðu kveðju til Jónsa.
Þín einlæg
Sigga
sunnudagur, ágúst 21, 2005
Dýrðin í ásýnd ljósanna
Þá er menningarnótt afstaðin og mergðin horfin aftur í úthverfin. Flugeldasýning Orkuveitunnar var glæsileg sem fyrr. Krafturinn í sýningunni var sannfærandi og góður stígandi í byrjunarkaflanum. Fjölbreytni litanna var ekki nægileg að mínu mati, þar sem heilu kaflarnir voru eintóna með sömu gerð sprenginga. Þetta gerði sýninguna fyrirsjáanlega þar sem við upphaf hvers kafla gat maður verið viss um framhald hans, lengd og hávaða. Það hefur augljóslega skapast viss hefð í sprengjutakti sýninga sem þessarar og saka ég því höfund þessarar sýningar blákalt um skort á frumleika. Þessi stígandi sem endar í ritríku sprengiregni eins og Bolero (og jú líka kynlíf) en slokknar síðan í hápunkti sínum er orðin ansi þreyttur.
Næsta ár vil ég sjá sýninguna fjara út, enda á lítilli, aumri rakettu og koma þannig áhorfendum í opna skjöldu.
föstudagur, ágúst 19, 2005
Vika í sumarbústað
Þá er ferðalagi sumarsins lokið. Dvaldi í heila viku í sumarbústað (án veraldarvefs og annars vafsturs) og gott að geta bara valið um rás 1 eða rás 2 þegar útvarpið glumdi heilu og hálfu dagana um litla timburhúsið. Yfirleitt varð rás 1 fyrir valinu og einn daginn gátum við skötuhjúin ráðið gátuna um fugl dagsins. Annars ótrúlegt hvað þarf lítið til að gleðja smáborgarasálir sem okkar. Uppþvottavél, heitur pottur og grill eru hin heilaga þrenning smáborgarans. Grillið er faðirinn, uppþvottavélin sonurinn og gufan sem stígur úr pottinum er heilagur andi. Annars stóðum við í ströngu í uppeldi 18 mánaða dóttur sem hefur ekki ennþá lært að umgangast drullupolla. Að mínu mati á maður að stappa vel í pollunum og láta þar við sitja, hún vill helst leggjast niður, dífa andlitinu ofan í og fá sér sopa.
föstudagur, ágúst 12, 2005
Bjart vantar mjólkurkú
Á hverjum degi lít ég við á www.bjartur.is á ferð minni um vefinn. Bókaforlag sem gefur út skrambi góðar bækur og er með hóp flottra penna. Þegar ég lít inn á heimasíðu forlagsins er ég hálft í hvoru alltaf að vonast til að sjá þennan texta: ,,Kvenrithöfund vantar til Bjarts. Þarf að vera með góðan, persónulegan stíl og geta skrifað texta sem hefur meiri áhrif á heiminn en kaffi og súkkulaði til samans. Hávaxin og ljóshærð með áhuga á útivist (til fjalla). Handrit óskast við fyrsta tækifæri. Mjólkurkú vantar í Sumarhús." Og þá mundi maður kannski slá til. Í þeirri von að Bjartur stefndi á aukna flóru í búskapnum, eitthvað fleira en bara rollur og hund.
mánudagur, ágúst 01, 2005
Barkahlymur
Núna er ég búin að hósta í eina viku og þreyta farin að segja til sín. Það var orðið erfitt að anda þangað til ég fékk pensilín uppáskrifað vegna guls hors sem væntanlega er orsök sýkingar í nef- og ennisholum. Neðst á lyfseðlinum stóð: ein ljóðabók með hækum, eitt ljóð þrisvar á dag. Í apótekinu fékk ég staut með tvílitum pillum og bókina ,,Leðurblakan og perutréð" eftir Yosa Buson (í þýðingu Óskars Árna Óskarssonar). Núna sest ég niður 3x á dag, gleypi eina pillu og les eina hæku. Og þegar vikukúrnum lýkur verður mér um megn að vita hvort það var pensillínið eða hækurnar sem lækkuðu rostann í hóstanum. Kannski verð ég orðin fíkinn í hækur og mæti til lækna um allan bæ í von um fleiri.
Hóstinn er mjög ljótur því ég hósta með barkanum (get reyndar líka talað með barkanum) þannig að hlymur minn er eins og frá versta skrímsli. Mér varð ljóst í dag að þetta útilokar t.d. það að ég geti sest niður á fínum veitingastað og skorið pent mína steik með rymjandi drunandi hóstahávaða glymjandi um sali. Ef þú lesandi góður heyrir álengdar djúpar hryglur og sérð hor flæða um stræti þá er skrímslið ég ekki víðs fjarri.
Hóstinn er mjög ljótur því ég hósta með barkanum (get reyndar líka talað með barkanum) þannig að hlymur minn er eins og frá versta skrímsli. Mér varð ljóst í dag að þetta útilokar t.d. það að ég geti sest niður á fínum veitingastað og skorið pent mína steik með rymjandi drunandi hóstahávaða glymjandi um sali. Ef þú lesandi góður heyrir álengdar djúpar hryglur og sérð hor flæða um stræti þá er skrímslið ég ekki víðs fjarri.
Kenwood bílaútvarp
Núna er flotta Kenwood útvarpið í bílnum mínum að spila sitt síðasta og ólmast um eins og biluð hrærivél. Þetta er mjög flott útvarp sem lokar sér þegar er slökkt á bílnum og með góðum geislaspilara. Útvarpsstöðvarnar detta inn og út. Og áðan stóð á skjánum flottum, digital stöfum ,,Bylgjan" um leið og raddir úr BBC ómuðu í gegnum skruðningana í umræðuþætti um fjölmiðlaheiminn í Kína og Japan. Ég tók þann pól í hæðina að ákveða að nú væri Bylgjan að flytja listaverk með skruðningum og breskum röddum til að kanna viðbrögð ökumanna. Ég lét ekki gabbast!!
fimmtudagur, júlí 21, 2005
Guð gaf mér mann eftir að þessi 50 orða örsaga var samin
Rif úr síðu minni
Mig vantar rjóðan mann sem segir kinnroðalaust sögur úr fornum bókum. Spilar á harmoníku fyrir hrútana og dansar af mér skóna undir hlöðuvegnum. Grætur yfir dauðu flugunum á mykjuhaugnum og óförum Helgu fögru. Ég tek rif úr síðu minni, sveifla því eins og slöngu og hrópa: ,,Guð, gefðu mér mann!"
(og teljið nú!!)
Mig vantar rjóðan mann sem segir kinnroðalaust sögur úr fornum bókum. Spilar á harmoníku fyrir hrútana og dansar af mér skóna undir hlöðuvegnum. Grætur yfir dauðu flugunum á mykjuhaugnum og óförum Helgu fögru. Ég tek rif úr síðu minni, sveifla því eins og slöngu og hrópa: ,,Guð, gefðu mér mann!"
(og teljið nú!!)
föstudagur, júlí 15, 2005
Í kjarna mannkynsins eru bústnar konur og tannlausir karlar
Í gegnum aldirnar hefur ekkert breyst, þrátt fyrir iðnbyltinguna, sjálfstæði, stríð og uppskerubresti. Bústnar konur hafa alltaf ruggað sér eins í lendunum og tannlausir karlar snýtt sér af krafti. Sá hlymur ómar um aldir.
Þegar ég les skáldverk
býð á höfundinum sæti í sófanum, býð honum kaffi sem hann afþakkar af kurteisi (svo ég slepp við að setja bolla á borð fyrir gest sem aðrir sjá ekki) og síðan ræði ég málin við skáldið um verkið, um setningar, samhengi orðanna og dálæti mitt á lífleika persónanna. Og skáldið er ekkert nema eyru þar sem ég tala í stuðluðum stökum og lausbundnum rímum.
Fúga í c-moll
Einu sinni dreymdi mig um að leggjast yfir formgerð fúgunnar og skrifa síðan sögu í sama stíl. Margradda söng sem skiptist á stefjum. En ég lét þar við sitja, að detta þetta í hug.
Hvenær ætli einhverjum detti í hug að semja blogg-tónverk með því að taka upp á band upplestur af þúsundum bloggsíðna á öllum heimsins tungum og spila síðan allt kraðakið þar sem hömrun á lyklaborð slær taktinn. Yrði gott sýnishorn af nútímanum: gargandi geðveiki!
Hvenær ætli einhverjum detti í hug að semja blogg-tónverk með því að taka upp á band upplestur af þúsundum bloggsíðna á öllum heimsins tungum og spila síðan allt kraðakið þar sem hömrun á lyklaborð slær taktinn. Yrði gott sýnishorn af nútímanum: gargandi geðveiki!
Leynibloggarinn!!
Ég hef ekki sagt neinum frá þessu bloggi mínu. Fer samt annars lagið inn á síðuna til að athuga hvort einhver hafi gert athugasemdir við orð mín. Eins og ég leiti að staðfestingu á því að einhver lesi þetta, eða að enginn lesi þetta. Kann ekki að setja upp teljara - kann bara að pikka á lyklaborð. Í hvert sinn sem ég set inn færslu hugsa ég ,,Hana hér, nú skrifa ég á hverjum degi, því ekki nennir fólk að lesa færslulausa síðu, gamlar fréttir" og síðan hraðspólar klukkan og ég ranka aftur við mér mörgum vikum síðar. Var að hugsa um að dæla inn gömlum prósum og brotum úr örsögum (örbrotum).
Þokumóða við ströndina
Það var þokumóða við ströndina þegar hann gekk frá sjoppunni í verbúðina. Sjávarmistur við landganginn þegar hann færði töskuna frá þreyttu höndinni yfir á þá sprækari. Og svo aftur til baka. Það sem átti að vera ein vertíð í litlu þorpi, eitt ævintýri áður en landshlutaflakk hæfist, varð að fimmtíu árum í þessu þorpi. Súlka, eiginkona, barn, hús og grafa. Fimmtíu ár af vinnu, með fjallið yfir sé og þokumóðu í nösunum, á stöku stað.
Þetta vissi hann ekki þegar hann gekk yfir í verbúðina og hugsaði að nú þyrfti hann að venjast því að hafa fjall austan megin við sig, ekki vestan, og haf vestan megin við sig, ekki austan. Og þokumóðan minnti á heimaslóðir en seinna, fimmtíu árum síðar, vissi hann sem er: þoka er óalgeng í þessum landshluta.
Þetta vissi hann ekki þegar hann gekk yfir í verbúðina og hugsaði að nú þyrfti hann að venjast því að hafa fjall austan megin við sig, ekki vestan, og haf vestan megin við sig, ekki austan. Og þokumóðan minnti á heimaslóðir en seinna, fimmtíu árum síðar, vissi hann sem er: þoka er óalgeng í þessum landshluta.
fimmtudagur, júní 30, 2005
,,Mál er að mæla"
Það sagði beljan í smásögu Þórarins Eldjárns þegar sögumaðurinn lá með upptökutæki í fjósinu. En þessi færsla á ekki að fjalla um beljur og þaðan af síður um fjós og aðra fnykstaði. Hún á að fjalla um kaffi og súkkulaði. Þau eru hjón sem halda mér gangandi yfir daginn í vinnunni, hvetja mig til dáða yfir pappírum um uppfinningar á sviði lífrænnar efnafræði og öðru undri. Gefa mér klapp á bakið yfir tölvunni og koma málstöðvunum í gang þegar ringlaði uppfinningarmenn mæta til mín inn á gafl. Fá fæturna til að ganga frá tölvunni að prentaranum og frá prentaranum að ljósritunarvélinni. Og aftur til baka. Kaffi er uppfinning allra tíma. Kaffi keyrir hagkerfið. Kaffi er bensín fyrir svefndrukkna. Súkkulaði linar þjáningar heimsins.
mánudagur, maí 30, 2005
Þrjóska fram í rauðan dauðann
Jæja best að halda áfram að tala við daufdumban heiminn - öskra inn í þögnina í logninu en það heyrir enginn í mér því allir eru staddir í hávaðaroki sem ýlfrar fyrir eyrum þeirra. Sé að þessi bloggheimur er flókinn - sumir maka krókinn á því að vitna í aðra bloggara (sem elska sjálfir að í þá sé vitnað og lesa því slík blogg) og út um allt eru blogg um önnur blogg. Tilvísanakerfi þar sem maður upphefur sjálfan sig (og aðra í leiðinni) með því að vitna í mæta menn (karlmenn eru sérstaklega góðir í þessu, þ.e. að vitna í hverja aðra) og þar með opinbera eigin kúlheit.
Er gremja í orðum mínum? Má vera, þá er best að renna fyrir trantinn og halda í háttinn. Góða nótt! Megirðu eiga góðar hlymfarir í nótt.
Er gremja í orðum mínum? Má vera, þá er best að renna fyrir trantinn og halda í háttinn. Góða nótt! Megirðu eiga góðar hlymfarir í nótt.
sunnudagur, maí 15, 2005
Hlymur var einn í heiminum!!
Úff ég kann ekkert á þetta bloggbull. Kann ekki að finna önnur blogg, kann ekki að leita eftir nöfnum eða innihaldi eða nokkru gagnlegu. Mér finnst ég ein í heiminum. Búin að stofna síðu sem enginn veit af og enginn les - eins og ég standi í mannþröng í miðri borg og það sér mig enginn og heyrir enginn hvað ég segi. Sama þó ég segi fallegustu orð sem til eru, með klámkjaft eða dómsdagsorð á vörunum þá sér mig enginn. Því ég er ósýnileg. Hlymur sem heyrist ekki.
Er þetta kannski hámark sjálfshyggjunnar - að tala við sjálfan sig fyrir framan alheiminn í þeirri öruggu trú að enginn heyri - ég get alveg eins dáðst að spegilmynd minni og ekki samkjaftað við gyðjuna hinum megin!
Er þetta kannski hámark sjálfshyggjunnar - að tala við sjálfan sig fyrir framan alheiminn í þeirri öruggu trú að enginn heyri - ég get alveg eins dáðst að spegilmynd minni og ekki samkjaftað við gyðjuna hinum megin!
Útgáfudraumar
Jæja þá halda draumarnir áfram að herja á mann - súrrealískir og fjarstæðukenndir eins og draumum er einum lagið. Mig langar að gefa út litla bók í sumar eða haust - helst í sumar svo ég drukkni ekki í flóðinu. Er með handrit sem er langt komið en þarf að snurfusa heilmikið - þarf bara að gefa mér tíma í snurfus (ekki bloggbull). Kemur í ljós hvort buddan eða bankinn fjármagni þetta eða hvort ég gugni á endasprettinum!!
föstudagur, maí 13, 2005
Það er nýr hlymur í skrokknum
Ef skrokkurinn er bloggheimurinn þá er nýr hlymur kominn fram!! Það þarf ekki að fara í grafgötur með það mikið lengur hlymur þýðir hljómur.
Búinn að klóra mér í höfðinu í margar vikur ,,núna verð ég að prufa svona blogg-bull" en bíddu bíddu ,,hvað á bloggið að heita???" Og þar hefur allt stoppað. Álíka stór spurning og ,,hvað á barnið að heita?"
Tók skyndiákvörðun áðan og opnaði íslenska orðabók og HLYMUR hljómaði af síðunni.
Búinn að klóra mér í höfðinu í margar vikur ,,núna verð ég að prufa svona blogg-bull" en bíddu bíddu ,,hvað á bloggið að heita???" Og þar hefur allt stoppað. Álíka stór spurning og ,,hvað á barnið að heita?"
Tók skyndiákvörðun áðan og opnaði íslenska orðabók og HLYMUR hljómaði af síðunni.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)