sunnudagur, janúar 29, 2006

Annað sýnishorn af Fjallvegum í Reykjavík


Suðurlandsbraut í vestur (við Hallarmúla)
Þennan veg, í þessa átt, er best að keyra á sólríkum og heiðskýrum degi. Ekki sakar að hafa nýlokið lestri á Snæfellsjökli í garðinum og vera með andrúm bókarinnar enn fyrir vitunum. Nærsýnir fægi þokuna af gleraugunum en réttsýnir skulu setja upp sólgleraugu. Með hraði. Því annars geta syndir heimsins endurvarpast af jöklinum og blindað saklaus augu. Andvarinn má vera úr hvaða átt sem er, af hafi eða frá nærliggjandi húsum. Hann má hafa læðst meðfram veggjum og liðið á milli húsa áður en hann smígur inn um opna bílrúðuna. Um fram allt verður hann að vera þögull og hægur svo að þú verðir hans ekki var, svo að hann feyki ekki andrúmi nýlesinnar bókar frá vitunum og hástemdar hugsanir fjúki ekki aftur í skott.

Óvæntir hlutir gerast sjaldan. En þegar það gerist er það eins og rennblautur alki þurrkist upp, alls kostar óvíst og kannski einu sinni á ævi, gefi maður því gætur. Fyrir vikið að manni vikið eins og konfektmola í harðæri, mjúkar hægðir í harðlífi.

Því stundum, endrum og sinnum, lónir Snæfellsjökull í nesinu í fjarska. Hangir í lausu lofti, albúinn til uppstigningar. Upphafinn af nefmæltu skáldi, eins og ekkert sé eðlilegra fyrir ofvaxinn klaka en að vera bendlaður við kristnihald. Þegar þú keyrir Suðurlandsbrautina í vestur, til móts við Laugardalinn, skaltu horfa á jökulinn og meðtaka þau skilaboð sem hann sendir þér. Og þá veistu að hann mun stíga upp til himna, setjast við hægri hönd borgarinnar og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða. En fyrst þarf að kossfesta hann, deyða og grafa og Pílatus er ennþá í felum í borginni. Þú veist ekki hvar hann er en þegar þú keyrir Suðurlandsbrautina áfram í vestur hverfur Snæfellsjökull á bak við hús og þú skimar eftir landshöfðingjanum á milli húsa, í húsasundum og nærliggjandi bílum.

Og þú keyrir þennan veg á hverjum degi, um hádegi, með Snæfellsjökul í garðinum í aftursætinu og forðast að líta á bókasafnssektina fyrir aftan þig. Þegar þú keyrir þennan veg, í þessa átt, á sólríkum og heiðskýrum degi máttu umfram allt ekki gleyma sólgleraugunum. Því einn daginn muntu sjá landshöfðingjanum bregða fyrir milli húsa og þú lítur í áttina að jöklinum og þá verður hann horfinn. Stiginn upp til himna.

miðvikudagur, janúar 25, 2006

,,Hvað var það sem dróg þig á brott þennan dag?"

Í tilefni þess að nú hefur dauðadómur íslenskunnar verið kveðinn upp leyfi ég þessari setningu að koma hér fram. Gott dæmi um arfaslaka íslensku sem hljómar í titillaginu á einhverju arfaslæmu lagi sem ég hef verið að heyra á rás tvö - ég hef aldrei náð kynningunni á laginu og leikur því forvitni á að vita hvort þetta sé frumsaminn texti eða þýddur úr engilsaxnesku. En dauðadómurinn hefur valdið því að ég fór að grúska í rykugum bókum til að leyta að bók eða ljóði eftir Eggert Ólafsson þar sem íslenskan er kona sem liggur banaleguna (læt vita ef ég finn þetta).

Enskan er eins og uppistöðulón sem breiðir sér yfir íslenskuna, ber fram leir í ástkæra ilhýra læki.

fimmtudagur, janúar 19, 2006

Skrattfærsla

Ég drattast hér yfir skólaverkefni um kennsluaðferðina Skrattfærslu (Devil's Advocacy) þar sem kenna þarf nemendum að vera ósammála eigin skoðunum og geta orðað gangrök. Landsleikur í handbolta glymur í bakgrunni og þegar áhorfendur hvetja liðið áfram finn ég fyrir hvatningu. Eftir því sem klappið magnast þá pikka ég hraðar. Ég þykist bara heita Ísland og fæ endalausa hvatningu. Góð leið til námsárangur!

Orð huldumanna ber að virða

Þegar Kalmaninn mælir, þagna svitastorkin andlit. Ræðu hans má finna hér.

mánudagur, janúar 16, 2006

Norsk tekaka a la Rúna í Kaldárseli

Í upphafi 10. áratugar síðustu aldar starfaði ég í Kaldárseli. Þar var Sigrún Sumarrós ráðskona, í daglegu tali kölluð Rúna. Hún bakaði nánast á hverju kvöldi yndislega norska teköku sem ég elskaði. Eitt sumarið náði ég að bæta á mig 5 kílóum á 4 vikum þökk sé þeirri norsku. Núna hef ég tekið uppskriftina upp á mína arma og ligg í kökunni þessa köldu og myrku daga.

Norsk tekaka

150 gr. smjörlíki
250 gr. sykur
140 gr. hveiti
125 gr. kókósmjöl
2 egg
2 tsk. lyftiduft

Krem:
150 gr. flórsykur
2-3 msk smjörlíki
2 msk kaffi
2 msk kakó

Njótið!!

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Eru niðurgangstímar framundan?

Heyrði í morgun fyrir tilviljun viðtal í útvarpsþætti. Þar var verið að ræða við einhvern viðskipta-spekúlant um ýmislegt varðandi starfsmannaleigur og atvinnumarkaðinn. Viðmælandinn lenti í þeim ógöngum að tala um uppgangstímana sem nú eru og í framhaldi um "niðurgangs"tíma sem gætu verið framundan.
Hræðilega ógöngur þar!!

Annars finnst mér fyndið að sjá stutt viðtöl í sjónvarpsfréttum við framáfólk úr viðskiptalífinu. Mér finnst svo algengt að það tali óvenju hratt og óskýrt og maður (enda er maður hægur í tíðinni) þarf að hafa sig allan við til að skilja - t.d. held ég að þegar einhver segir fjárfsting á miklu hraða þá er það einhver sem er klár og snar í snúningum og fjárfstir hægri vinstri hraðar en ljósið!!

sunnudagur, janúar 08, 2006

Dauðasyndirnar sjö

Hér má sjá dauðasyndir uppfinningamannsins. Þessa syndir eru eflaust ansi algengar. Ætli sé hægt að yfirfæra þær yfir á rithöfunda? Eða aðrar starfsstéttir? Tjáið ykkur!

Braut fegurðarinnar, braut sannleikans


Reykjanesbraut er fallegasta braut landsins. Ef ekki heimsins. Aðeins vetrarbrautin gæti staðist samanburð. Hlutfall apalhrauns og helluhrauns er fullkomið, mosar og fléttur út um allt og þar er nánast alltaf rok. Á björtun dögum sést út á Snæfellsjökul.
Ég mæli sérstaklega með rútuferð eftir brautinni. Vanti þig hugljómun eða innblástur þá sestu í SBK rútu eða flugrútuna og óvæntir hlutir gerast.

laugardagur, janúar 07, 2006

Stífla


í ennisholum getur haft víðtæk áhrif. Stíflan breiðist út um allt. Hún stíflar hugsanir og setur hellur í eyrun svo maður greinir ekki bull frá kjaftæði. Kemur af stað ritstíflu þannig að bullið berst fram í fingurgóma. Ég legg mig í líma um, af augljósum ástæðum, að forðast vaska og salerni.

þriðjudagur, janúar 03, 2006

Ljóðhornið

Svo undir tók


Sumir kaffisopar
eru svo fullir
af hamingju

að mann undrar
og getur sér til um
að hún búi
í kaffibaunum
sem voru týndar
á kólumbískri plantekru
um leið og samstarfsfélagi
sagði skrítlu

Svo undir tók
á ekrunni