föstudagur, maí 26, 2006

Hrun á skipulagi

Framtíðarplön síðustu 6 mánaða hrundu í gær, fæ ekki að útskrifast vegna skorts á einingum (og dómgreind ónafngreindra). Þegar eitthvað hrynur geta óvæntir hlutir vaxir úr rústunum - allt fer eins og þá á að fara. Ég skima eftir arfa eða grasi í rykmekkinum.

Keyrði framhjá ungum sjálfstæðismönnum í dag og fylltist gremju (best að fara ekki út í þá sálma). Finnst sorglegast af öllu að í velmegunarþjóðfélaginu okkur þá er normið hinn hrausti, vinnandi karlmaður og allt annað er utanveltu og mætir afgangi á einhvern hátt: konur (fá flestar lægri laun en karlkynið), börn, aldraðir, öryrkjar.

föstudagur, maí 19, 2006á tveimur vikum hefur grasið grænkað
Aspirnar eru að taka við sér í Asparvogi
(þær eru að ná yfirhöndinni í Kópavogi, kosningarnar næstu helgi verða blekking)
Keilir og Trölladyngja út um stofugluggann

mánudagur, maí 15, 2006

Sögur úr nóttinniStundum koma hversdagslegar en bragðgóðar sögur til manns úr óvæntum áttum. Eftir örstutt innlit í bæjarlífið síðustu helgi ákvað ég stuttu eftir miðnætti að taka enga áhættu og setjast inn í næsta leigubíl. Þar sem leigubílaspjall getur verið jafn skemmtilegt og það er þurrt þá prufaði ég að brjóta ísinn með því að spyrja ,,lítur ekki bara út fyrir rólegt kvöld?" og bílstjórinn svaraði: ,,jú það er öruggt þegar fréttist að þú hefur yfirgefið svæðið" - þar með náði hann að bræða mig.
Ég ræddi við gamla karlinn um samanburð á bílamenningu á Íslandi og Þýskalandi og ýmislegt fleira.
Þegar bíllinn keyrði inn í myrkrið á Nýbýlaveginum kom sagna-andinn yfir bílstjórann og hann rifjaði með hláturgusum upp þessa sögu:

Þegar ég var að keyra með konunni minni í Þýskalandi þá rákumst við eitt kvöldið á íslenskan bíl í miðju Þýskalandi. Það var augljóst að bílinn var frá Íslandi því hann var með gamalt og gott J númer. Svo skemmtilega vildi til að ég átti hjá mér gamlan sektarmiða í vasanum og ég laumaði honum undir bílþurrkuna á þeim íslenska (hláturgusa). Síðan biðum við átekta til að sjá viðbrögðin hjá eigandanum en ekkert bólaði á honum. Þar sem við vorum tímabundin urðum við að fara og gaman hefði verið að sjá svipinn á eigandanum (hlátur). Við vitum ekki enn hvort eigandinn var íslenskur eða þýskur.

Kannski er gamli íslenski sektarmiðinn sem rataði á íslenska bílinn í Þýskalandi ennþá stór ráðgáta í lífi einhvers.

föstudagur, maí 12, 2006Ef ég fengi að ráða þá væru helgimyndir frá miðöldum upp um alla veggi í íbúðinni minni. Ég hef hins vegar sætt mig við ljósmynd af ölduróti við klappir í Nýju Mexíkó sem gætu allt eins verið úr ólgandi íslenskri fjöru.

þriðjudagur, maí 09, 2006Ljóðið er sest niður
í formi misturs

vorið er bara yfirvarp

fimmta frumefnið er
að taka bólfestu

heimsyfirráð
skríður handan
við húshorn

fimmtudagur, maí 04, 2006

Allt milli himins og jarðar

Er það eina sem mér datt í hug sem titill því mig langar að segja frá ýmsu merkilega ómerkilegu. Við mæðgurnar röltum í rokinu í morgunn á leikskólann. Á leiðinni var ekki þverfótandi fyrir ánamöðkum. Ábyrgðarfull móðirin benti dótturinni á undur náttúrunnar en átti síðan fullt í fangi með að vera góð fyrirmynd og trampa ekki á verslings skriðdýrunum. Hvað gerðist? Af hverju komu þeir upp í nótt/morgunn? Hvernig bárust boðin á milli þeirra?

Tilboðum um ókeypis skólagráður rignir hingað inn og hver veit nema maður láti freistast. Efast þó um að ég geti pantað kennsluréttindanám og leyfisbréf til að vera kennari á netinu. Það væri þó þægilegt að losna við þetta púl að þurfa að frumlesa um 80% af efninu og hamast við að leggja á minnið kenningar og karla fyrir prófið í næstu viku. Og komast upp með það, taka fínt próf og gleyma síðan herlegheitunum viku síðar. Þetta er dæmi um slæman vana sem maður heldur ósjálfrátt í af því að maður hefur komist upp með það hingað til. Vonandi verður raunin ekki önnur í ár.

Örlítið af orð-skrímslum sem ég hef heyrt. ,,Endursölugóður" er farið að heyrast í bíla-auglýsingum, hvað er nú það? Og ,,íbú(ð)alýðræði" er eitthvað sem frambjóðendur tönglast á og ég skil ekki heldur hvað þýðir. Sjálfstæðisflokkurinn lofar ,,fleiri gæðastundum" - hvað er nú það? er þetta kosningaloforð sem er hægt að standa við? Annars er orðskrímslið ,,heildarlausnir" að hjaðna í auglýsingum en það hefur valdið mér miklum kvölum að heyra það. Mikið hefur maður það gott þegar maður hefur ekki undan öðru að kvarta en furðulegum orðskrímslum sem mæta manni á stangli.