föstudagur, desember 28, 2007

Gleðileg jól


Spennan var svo mikil á aðfangadag hjá skottunni að hún hvatti móður sína allan daginn til að fara nú að elda kvöldmatinn. Því hún vissi að pakkarnir koma á eftir matnum. Í fyrsta skipti í langan tíma var hún búin með matinn sinn á undan foreldrunum. Og hvatti foreldrana óspart áfram um að klára nú matinn sinn. Síðan var farið í pakkana og óhætt að segja að þemað í ár hafi verið bleikt með prinsessuívafi. Á jóladag og annan í jólum voru síðan jólaboð um allar trissur og mjög gaman að hitta fjölskylduna og borða góðan mat. Þökkum kærlega fyrir okkur - fyrir alla pakkana, matinn og jólakortin!!

þriðjudagur, desember 11, 2007

Framundan

er m.a. upplestur hjá MFÍK sem er skammstöfun á Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna. Það er eflaust mjög göfugur félagsskapur og mér líst vel á hópinn sem les upp næsta laugardag. Sjá hér.

Fjölmennið!

laugardagur, desember 01, 2007

Það var óneitanlega hressandi í gærmorgun þegar ég hljóp úr leikskólanum eftir að hafa kysst dótturina bless og settist inn í drossíuna. Í útvarpinu var Úlfhildur Dagsdóttir að tala um bókmenntagönguna sem verður einmitt í dag kl. 14, sjá hér. Og þegar ég hélt af stað inn í kaldan og svartan morguninn sagði hún frá því að í upphafi göngunnar verður lesið úr ljóðabók sem ekki hefur mikið borið á. Þar voru komnir Fjallvegir í Reykjavík.

Það gleður textahöfund þegar textar hans gleðja aðra.

þriðjudagur, nóvember 20, 2007

Berrassaðurpylsusali veður uppi í nýjasta hefti Tímarits máls og menningar, þökk sé mér. Áhugasamir næli sér í eintak.

Er þessa mínútuna að uppgötva hljómsveit sem er nokkuð svöl - tékkið á blóðflokknum eða Blooodgroup.

föstudagur, nóvember 09, 2007

Skráningarskrímslið


óskar þjóðinni til hamingju með daginn. Sem sagt í vinnunni skrái ég alla nýja höfunda, öll ný lög, allan flutning í útvarpi, sjónvarpi, tónleikum, jarðarförum...., alla nýja diska og fleira ásamt samstarfsfólki. Íslensk tónlist og reyndar líka stundum erlend er líf og yndi skráningarskrímslisins.

miðvikudagur, nóvember 07, 2007

Upplestrar framundan!

Næsta sunnudag mun ég lesa upp úr nýju bókinni á Bókasafni Kópavogs, sjá hér: http://www.bokasafnkopavogs.is/frettirpage.asp?ID=1359

Miðvikudaginn 14. nóvember verður síðan upplestur á Bókasafni Hafnarfjarðar í tilefni Norrænu bókasafnsvikunnar. Þemað í ár eru ,,sterkar kvenímyndir" enda 100 ár frá fæðingu Astridar Lindgren. Nánar auglýst síðar.
Sama kvöldið verður reyndar Þórðarvaka á Sólon þar sem mörg skemmtileg skáld munu stíga á stokk - líka nánar auglýst síðar.

Annars hef ég sett upp kynjakvótagleraugun þegar ég horfi á Kiljuna - í síðasta þætti voru bara karlmenn viðmælendur og líka í þeim þar síðasta ef ég man rétt (fyrir utan Kolbrúnu) - í næsta þætti mun Kristín Svava vera fulltrúi kvenkynsins - ,,Stattu þig stelpa!"

sunnudagur, október 28, 2007

Fyrir röð tilviljana


sátum við Helga vinkona mín á tónleikum Rúnka Tjúll í Laugardalshöllinni í gærkvöldi og skemmtum okkur vel.

Margir góðir slagarar voru teknir og bakraddirnar stóðu sig alveg jafn vel og allir aðrir söngvarar kvöldsins. Oft er gaman að fylgjast með hvenær bakraddirnar þurfa að góla og hvenær ekki. Ef ég mundi vilja frysta einhverjar 2 sekúndur af tónleikunum þá er það andarakið sem Jóhann Helgason (bakraddasöngvari kvöldsins) stóð í myrkrinu á sviðinu með putta í öðru eyranum og gólaði ,,nýrnakast" úr laginu ,,Harð snúna Hanna".

Þegar Gylfi Ægis kom og tók ,,Stolt siglir fleyið mitt" hvaflaði að mér að auðvitað kæmi þetta lag til greina sem þjóðsöngur (í ljósi textans í viðlaginu) en síðan hef ég hugsað málið betur og komist að raun um að það er ekki sniðugt.

Sem sagt skemmtilegir tónleikar þar sem Rúnki var sannkallaður Herra rokk.

sunnudagur, október 21, 2007

Þá

er Fréttablaðið búið að afgreiða ritdóm með stæl. Nóg komið af ritdómum og vonandi verða þeir ekki fleiri, maður getur verið mjög sáttur við 5 dóma og ekki allir sem fá dóma svo víða. Fyrstu viðbrögð við Fréttablaðs dóminum var að senda dómaranum kúamykju í pósti en síðan las ég þennan texta úr góðri bók:

Er ég að sóa tíma mínum og orku í að berjast gegn aðstæðum sem ekki eru svo merkilegar að ástæða sé til að gefa þeim gaum? Ég ætla ekki að láta ímyndunarafl mitt gera smávægilega örðugleika að miklu vandræðum. Ég ætla að reyna að gera mér ljósa grein fyrir aðstæðunum og gefa þeim ekki meira vægi eða veita þeim meiri athygli en þær verðskulda...

Og ég læt nægja að senda dómaranum góða strauma og sendi mér og bókakorninu ennþá fleiri. Stundum eru dagar manns fullir af lúxusvandamálum og alltaf gott að átta sig á því.

fimmtudagur, október 11, 2007


Síðasta laugardag kom ritdómur um nýju bókina. Ekki upplífgandi sá dómur en Þröstur Helgason hefur fullan rétt á sínum skoðunum.

Síðasta mánudag kom hins vegar dómur í Íslandi í dag á Rás 2 þar sem Jón Yngvi Jóhannsson kom með ritdóm sem var meira að skapi höfundarins - hér má sjá síðu þar sem dómurinn birtist: http://blogg.visir.is/gagnrynandinn

miðvikudagur, október 03, 2007

Krydd dagsins


er kóríander. Keypti ferskan kóríander í gær (í fyrsta skipti á ævinni) og brytjaði laufin út í dýrindis pastarétt kvöldsins. Og ég er ástfangin!

Hélt lofræður um kóríander yfir hausamótunum á vinnufélögunum í dag og síðan smurði ég (af stakri tilviljun) kóríander pestó yfir brauðið. Hér er fróðleikur um jurtina.

Nú verður kóríander rifinn yfir kvöldmatinn næstu tvær vikur eða svo.

föstudagur, september 14, 2007


Á milli tarna rýni ég í bækur.

Frá því á vormánuðum hef ég lesið þessar ljóðabækur sem ég mæli hiklaust með: Hnattflug eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur; Á stöku stað með einnota myndavél eftir Árna Ibsen og Sumir láta eins og holdið eigi sér takmörk sem er frábært bók eftir Véstein Lúðvíksson. Þar sem ég er líka svo heppin að eiga eintök af þessum bókum geta ættingjar, vinir og kunningjar fengið þær lánaðar.

Þessa stundina er ég bæði að lesa Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð eftir Arto Paasilinna sem er full af finnskum svarthúmor og Borg eftir Rögnu Sigurðardóttur sem kemur skemmtilega á óvart.

Undir þeim bíða Ágrip af sögu traktorsins á úkraínsku eftir Marinu Lewycka og Frá gósenlandinu eftir Kirsten Hammann - en báðar voru gestir Bókmenntahátíðar í þessari viku (og ég sá þær báðar lesa upp í Iðnó). Ennþá fleiri bíða á eftir þeim og þýðir lítið að tíunda það heldur betra að slíta sig frá tölvunni yfir í bækurnar.

laugardagur, september 08, 2007

VeðurkrónaEftir að hafa hlustað á ófáar vangaveltur í fjölmiðlum um óhagstæðar sveiflur íslensku krónunnar þá gerði ég uppgötvun í miðjum eldhúsverkum. Íslenska krónan er einfaldlega eins og íslenska veðrið. Alltaf að breytast og óútreiknanleg.
Í framhaldi fór hausinn á mér að fabúlera um að kannski hefur veðrið þessi áhrif á krónuna eða krónan þessi áhrif á veðrið. Auðvitað getum við hent krónunni út í vindinn og tekið upp evru en við getum ekki losað okkur við veðrið. Verst að geta ekki fengið krónufræðinga sem spá í sveiflurnar fram í tímann eins og veðurfræðingar spá í loftþrýsting og millibör.

Þegar hver millinn á fætur öðrum kemur og segir að krónan sé ómöguleg veit ég ekki alveg hverju ég á að trúa. Og spyr mig: getur verið að þeir sýni núna hjarðhegun? Byrjaði ein kindin að jarma og þá tóku allar hinar undir í kór?

mánudagur, september 03, 2007

Af speki

Stundum er gott að eiga Spakmælabókina þar sem má finna fræg og fleyg orð í gamni og alvöru. Því stundum þarf maður á speki að halda og í bókinni góðu er meira að segja hægt að finna glúrin spakmæli um verðbólgu. Við skulum vona að ég komist aldrei í þá aðstöðu að þurfa að nýta mér þann spakmælaflokk úr bókinni. Í ljósi útgáfubrölts sumarsins stenst ég ekki þá freistingu að birta þessi fleygu orð:

Að gefa út ljóðabók er eins og að kasta rósablaði
ofan af Mont Blanc
og bíða eftir bergmálinu.

ók. höf.

fimmtudagur, ágúst 30, 2007

Annar ritdómur kominn í hús. Úlfhildur Dagsdóttir dæmir Fjallvegina á bókmenntavef borgarbókasafnsins (www.bokmenntir.is) - sjá hér.

laugardagur, ágúst 25, 2007


Ég minnist þessi ekki að hafa nokkurn tímann þrifið af jafn mikilli gleði og ánægju og í gærkvöldi. Þessi ómælda gleði stafaði af því að loksins loksins er prófið í íslensku máli að fornu búið og nú get ég snúið mér að rykkornum (sem ekki er skortur á hér um slóðir) í staðinn fyrir wa-stofan, ija-stofna, wan-stofan og aðra won-stofna.
Hins vegar lærði ég skemmtilega ljóðrænar setningar við lesturinn mikla. Setningar á borð við ,,afturvirk fjarlíking", ,,framvirk samlögun" og margt fleira.

föstudagur, ágúst 17, 2007

Í staðinn

fyrir að mæta á stórtónleikana á Laugardalsvelli í kvöld hef ég tekið þá ákvörðun að leggjast yfir forna beygingu lýsingarorða. Í kjölfarið mun ég get snúið mér að fornri beygingu atviksorða og fornafna á næstu dögum. Ég mun ekki síður svitna en tónleikagestirnir.

miðvikudagur, ágúst 15, 2007

ATHÚtgáfu- og skáldahópurinn Nykur stendur fyrir þéttri og spennandi ljóðadagskrá á Austurvelli kl. 22-23 á Menningarnótt, laugardaginn 18. ágúst.

Eftirfarandi skáld lesa úr ljóðum sínum:
Andri Snær Magnason
Davíð Stefánsson
Emil Hjörvar Petersen
Kári Páll Óskarsson
Toshiki Toma
Sigurlín Bjarney Gísladóttir
Arngrímur Vídalín
Andri Örn Erlingsson
Nína Salvarar

Þetta er þrælgóð blanda af gömlum og nýjum skáldum - Andri Snær og Davíð hafa gefið út allnokkrar ljóðabækur, Emil, Kári, Arngrímur og Sigurlín Bjarney hafa öll nýverið gefið út sín fyrstu verk, og Toshiki Toma, prestur innflytjenda á Íslandi, mun nú í haust gefa út fyrstu ljóðabók sína, Fimmta árstíðin. Andri Örn og Nína eru svo nýjustu og ferskustu meðlimirnir í Nykri.

Allir velkomnir, aðgangur að sjálfsögðu ókeypis - kl. 22-23 á Austurvelli - rétt fyrir flugeldasýninguna.

sunnudagur, ágúst 12, 2007

Af Kjalvegi


Gangan um Kjalveg gekk vel en reyndi ansi vel á vöðva, liðamót og hugarfar. Að vera algjörlega síma- og fréttalaus var svolítið skrítin upplifun. Fyrsta dagleiðin var frá Hvítárnesi til Þverbrekknamúla um 13 km leið sem tók um 4-5 klst í norðan roki (og stundum moldroki). Skálinn við Þverbrekknamúla er ótrúlega notalegur og þar gátum við hvílt okkur vel, enda líkaminn eflaust í áfalli yfir óvæntu álagi. Til dæmis hef ég nýrun grunuð um að hafa farið á einhvern yfirsnúning. Á myndinni er Sólveig við vörðuna sem vísar leið að brúnni ógurlegu yfir Fúluhvísl. Á næstu mynd sést í brúna og Hrútfell gnæfir yfir. Frá brúnni var stutt í skálann.


Það voru þungir og stirðir fætur sem héldu af stað daginn eftir út í drungalegt veður og framundan um 20 km dagleið til Hveravalla. En það rættist úr veðrinu, vindinn lægði og sólin kom upp. Auk þess var landslagið mun fjölbreyttara en deginum áður og ótrúlega hressandi að stika upp brattlendi þegar maður er búinn að kjaga á jafnsléttu endalaust. Þrír hælsærisplástrar björguðu mér alveg.
Síðan komum við inn í grösugan Þjófadal og skálinn þar er ótrúlegt krútt. En við nýttum hann bara í að hita vatn á brúsa og svo var haldið áfram. Hefði ég verið sauðaþjófur hér í firndinni hefði Þjófadalur verið góður valkostur fyrir sumardvöl.

Það er algengt að heilu hestastóðin fari þessa leið og þess vegna gengum við mest í troðningum. Á vegi okkar urðu m.a. syngjandi lóur og tortryggnar kindur. Að lokum mættum við á Hveravelli og þá var ég búin að ganga í um 2 klst með þrjósku og þrautseigju að vopni. Gangan tók bara um 8 klst en það er líka alveg nóg. Á Hveravöllum beið okkar heit laug, hrein föt, grillkjöt og rauðvín.
Við fengum fínt veður (fyrir utan rokið fyrsta daginn) en daginn eftir að göngunni lauk kom rok og rigning og ekki hundi út sigandi.
Strax um kvöldið staulaðist ég um eins og farlama gamalmenni. En aðeins tveimur dögum síðar var eins og ekkert hefði í skorist - ótrúlegt hvað líkaminn jafnar sig fljótt.

þriðjudagur, júlí 31, 2007

Fyrsti ritdómurinn

kominn í hús. Rakst á þennan dóm Gauta Kristmannssonar á nýju bókina mína (best að opna krækjuna í Explorer).

Fjallvegir í Reykjavík komnir í flestar bókabúðir á 1900 kr. Ég sel þó beint á 1500 kr. Þeir sem vilja fá sent eintak í pósti geta lagt inn á mig og sent mér heimilisfang sitt á sigurlinbjarney@gmail.com - slíkt eintak myndi kosta 1600 kr.

mánudagur, júlí 30, 2007

Og komin

Framundan er ganga um Kjalveg hinn forna. Áttaviti og smurðar flatkökur á leiðinni í bakpokann. Við Sólveig ætlum að taka þessa 3 daga göngu á 2 dögum og sofnum vonandi ekki í hvernum á Hveravöllum. Óttablandin tilhlökkun. Alltaf gott að vita að maður hefur næga þrjósku til að komast á leiðarenda, hvað sem fætur og axlir segja.

Þá er bara að vona að hann haldist þurr.

fimmtudagur, júlí 19, 2007

Farin


í frí frá neti, tölvupósti, íslenskri sól og bókastússi. Töskur fullar af bókum um forníslensku, Stínu, Kjalveg og Þjáningu annarra. Danskur ís mun fullkomna þá blöndu.

Nánari upplýsingar veita loftskeytastöðvar.

föstudagur, júlí 13, 2007

Í nótt ætla ég að forðast ískrið í hliðinu og klifra yfir girðinguna


er titill á sögu sem (mér til mikillar undrunar, en það er önnur saga) er birt í kilju með nýjasta Mannlífi. Aðalsöguhetjan er gömul kona á þvælingi um landið, á flótta undan einhverju óræðu. Einu sinni áttu bréfin hennar heima inni í ólokinni skáldsögu sem grotnar nú í skúffum.

Annars eru Fjallvegir komnir í hús og dreifast um bókabúðir eftir helgina. Fyrstir koma, fyrstir fá. Seinir koma, seinir fá þó!

föstudagur, júlí 06, 2007


Ég fetti fingur út í óvænta skýjadruslu á kápumyndinni og við það frestast prentunin um viku. Vonandi ekki lengur. Þjandans þolinmæðin þrautir þrýtur að vanda?

Nú bægi ég frá mér kvöldsólinni og rýni (að fúsum og frjálsum vilja, ótrúlegt) í hljóðvörp, klofningu og stóra brottfall. Ef ég kemst í gegnum þennan forníslensku-hreinsunareld þá verður það bara Pollýönnu að þakka - en sjáum hvað setur.

sunnudagur, júní 24, 2007

Að hlaupa út í buskann


Danmerkurförin var yndisleg í alla staði fyrir utan höfuðverkinn yfir öllum nýju verkefnunum í vinnunni þar sem hringitónar, niðurhal og DVD koma við sögu. Veðrið var einstaklega gott og fyrsta daginn varð ég þess heiðurs aðnjótandi að vera líklega eina konan á Strikinu sem var bæði í sokkum og í ullarkápu. En síðan áttaði ég mig á veðrinu og fór að þora út peyslulaus.
Hápunktur ferðarinnar var óvænt þátttaka í kvennahlaupi Alt for damerne þar sem 18000 konur hlupu á þremur kvöldum.

Á kvöldskokkinu í gærkvöldi silaðist ég framhjá pollum í fótbolta og þá fór ég að rifja upp fótboltaárin mín. Ég byrjaði að æfa fótbolta með Reyni Sandgerði í fyrsta stelpuflokknum þegar ég var 10-12 ára (man ekki alveg hvaða ár). Í nokkur ár var ég haldin miklu fótboltaæði og reyndi ítrekað að ná valdi á boltanum. En skankarnir flæktust alltaf jafn mikið fyrir mér og ég náði mestum árangri sem markvörður í innanhúsfótbolta - þá gátu skankarnir náð út um allt. Á þessum tíma hóf ég markvisst að hrækja út um allt (ekki reyndar innanhús) og það passaði flott að labba lúin á takkaskónum frá malarvellinum og hrækja hægri vinstri.

Á fyrstu æfingunni vorum við um 15-20 stelpur að elta einn bolta (bókstaflega). Fyrsti leikurinn við Keflavík fór 15-0 ef ég man rétt (fyrir þeim auðvitað) en á nokkrum árum náðum við yfirhöndinni og urðum Reykjanesmeistara (eða var það Suðurnesjameistarar?) - þökk sé Malla sem öskraði, hoppaði og stappaði í okkur stálinu.
Hefði ég fengið að ráða þá hefði ég æft hástökk og frjálsar en ekkert slíkt var í boði í sjávarþorpinu og því varð fótboltinn ofan á. Seinna sneri ég baki við þessu óþarfa hoppi, lagðist í bóklestur, píanóspil og ómarkvisst gítarplokk. Hef ekki átt afturkvæmt í boltann.

sunnudagur, júní 17, 2007

Skollaleikur


er saga sem birtist í smásagnahefti Nýs Lífs. Eldsnemma í fyrramálið verður það Kaupmannahöfn og lærlingsstörf hjá Nordisk Copyrigt Bureau. Við heimkomu komast Fjallvegirnir vonandi, vonandi í prentun.

fimmtudagur, maí 31, 2007

61 gráða norður, 21 vestur


Eftir að hafa tekið GPS punkta á vel völdum stöðum í borginni að morgni Hvítasunnudags komst ég að þeirri almennu vitneskju að nánast allt borgarlandið er á sömu lengdar- og breyddargráðu. Það skeikar bara um mínútur og sekúndur. Skeikar því ekki alls staðar, í lífinu, ef því er að skipta?

Lauk sömuleiðis um helgina bókinni Never let me go eftir Kazuo Ishiguro. Höfundur sem er ótrúlega lunkinn við að skrifa texta með þunga, ofurþunga undiröldu.

Annars þarf ég að athuga hvort ég sé nokkuð að brjóta höfundarrétt með því að birta kápumyndir. Einhver upplýsi mig sem veit betur!! Verandi rótandi í þannig rétti alla daga þá hef ég kannski fengið snefil af virðingu fyrir honum.

fimmtudagur, maí 17, 2007

Óformlegar þreifingar


hafa dunið á manni í fréttatímunum undanfarna daga. Mér er fyrirmunað að skilja hvað þetta þýðir nákvæmlega. Sögnin að þreifa hefur vissulega þá merkingu að leita fyrir sér, kanna möguleika eða undirtektir. Sé hin merking orðisins hins vegar skoðuð: snerta á, fara höndum um, fálma eða þukla - þá verða hinar óformlegu þreifingar óneitanlega spaugilegar.

Á þriðjudaginn gerðist ég svo fræg að valda minni fyrstu aftanákeyrslu. Það kom ekki að sök þar sem blikkdósirnar beygluðust lítið og farþegar sluppu algjörlega heilir. Lögreglan kom á svæðið (eftir að ég reyndi að hóa í þau þegar þau keyrðu framhjá) og við Friðsemd fylltum út tjónaskýrsluna. Strax í gær kom bréf frá tryggingafélaginu þar sem þeir innheimta frá mér tjónaskýrsluna. Og síðastliðna nótt vakti lögreglan okkur upp og þar sem ég stóð svefndrukkin fyrir framan laganna verði þá hvarflaði að mér eitt sekúndubrot að þeir væru komnir til að hirða ökudólginn eða að innkalla tjónaskýrsluna. En síðan kom á daginn að þeir fóru íbúðavillt í leit sinni að drykkfelldur ökuníðingi.

Annars náði ég í skottið á Pétursþingi í dag. Erindi Péturs sjálfs í lok þingsins var glæsilegt - það mun eflaust birtast í einhvers konar safnriti næsta haust, mæli með því þegar þar að kemur. Hver veit nema þetta verði flutt í Víðsjá í næstu viku en upptökutækin mölluðu allan tímann.

fimmtudagur, maí 10, 2007

Fríða frænka

er í Klassart, og líka Smári frændi. Og reyndar er Pálmar bróðir þeirra kominn á bassann og þá vantar bara Særúnu í bakraddirnar. Góð lög sem verða betri við hverja hlustun. Eftirvænting eftir disknum magnast. Skoðið þessi lög.

þriðjudagur, maí 08, 2007

Ekki meir, Geir!

Var fyrirsögn á frægum plötudómi sem margir muna enn eftir. Setningin hefur lifnað við í kollinum á mér eftir að auglýsingar með Geir segja að traust efnahagsstjórn sé stærsta velferðarmálið. Hvað er efnahagsstjórn? Hvað er traust efnahagsstjórn? Hvenær verður hún ótraust? Einhverra hluta vegna sé ég alltaf XD sem flokk fyrirtækja og atvinnurekenda - veit ekki alveg af hverju.

Næst held ég að XD muni segja: það kom vor á eftir vetrinum og síðan kom sumar - en ekkert víst að það gerist aftur að ári ef önnur ríkisstjórn verður við líði.

föstudagur, apríl 20, 2007

sunnudagur, apríl 15, 2007

6:45 / 260

Á slaginu 6:45 á hverjum morgni hrópar feykiróan í næsta herbergi: Ég er vöknuð!!! Þá hrópa ég á móti: Komdu að kúra! og þar með fer dagurinn af stað. Og sum kvöld skokka ég hring um bæinn og eftir að ég fann tröppurnar 260 þá eru brauðfæturnir smám saman að styrkjast. Sem sagt, mikið að gera og nauðsynlegt að setja HVÍLD og nóg af henni inn í dagskrána.

laugardagur, apríl 07, 2007

Kraftbirtingarhljómur hugmyndaKvöldin mín eru full af bókum og netrápi en sjónvarpslampinn kaldur. Kveikti þó á heimilisaltarinu um daginn og rakst á raunveruleikaþátt um leitina að ameríska uppfinningamanninum. Hafði bara nokkuð gaman af. Sérstaklega þar sem ég rifjaði upp alla bílskúrs-uppfinningamennina sem ég talaði við í gamla starfinu. Neistinn í augunum á þeim þegar þeir lýsa uppgötvunun sínum er svo heillandi. Þessi drifkraftur þegar hugmyndir fá orð, form og tilgang.Í ameríkunni er hægt að fá einkaleyfi á öllu undir sólinni á meðan í Evrópu og þar með talið Íslandi eru reglurnar mun, mun strangari. Þess vegna fussaði ég og sveiaði yfir öllum uppfinningunum í þættinum sem höfðu ekki nógu mikið nýnæmi, voru ekki með nógu háa uppfinningahæð og vitað mál að fagmenn á viðkomandi sviði geta auðveldlega látið sér detta í hug að leysa vandann akkurat svona.

laugardagur, mars 31, 2007

Háspenna

Þá bíður maður spenntur við tölvuna eftir lokatölum í álverskosningunni. Á morgun er ár síðan ég gekk inn til þáverandi yfirmanns míns með uppsagnarbréf í höndunum, í fyrsta skipti á ævinni. Þurfti að ítreka að þetta væri ekki aprílgabb. Í fyrramálið munum við þjóta fyrir allar aldir úr dyrunum í þvældum sparifötum með skonsur á bakka til að mæta í fermingu í Hveragerði. Vonandi rústar rokið ekki hárgreiðslunni. Hvað ætli íslenska rokið hafi margar hárgreiðslur á samviskunni?

fimmtudagur, mars 22, 2007Fylltist einhverri fáránlegri þörf fyrir að básúna Olivier Messiaen. Fann þessa flottu heimasíðu um kallinn. Eitt merkasta tónskáld 20. aldar. Messiaen var strangtrúaður kaþólikki og samdi mikið af trúarlegri tónlist. Var líka forfallinn áhugamaður um fugla og skráði fuglasöng í frönskum skógum sem síðan rataði á nótnablöðin. Hann var líka áhugamaður um austurlenska dulspeki og blandaði austrænum áhrifum saman við fugla og kaþólisma. Flott blanda!!


Einu sinni átti ég disk með Turangalila sinfóníunni hans, en lánaði hana og hún kom aldrei aftur. Sinfónía sem verður kannski aldrei flutt á Íslandi því hún tekur víst 2 klst. í flutningi. Mæli með Kvartetti um endalok tímans (Quatuor pour la fin du temps) sem var saminn og frumfluttur í fangabúðum nasista.Á næsta árið verða liðin 100 ár frá fæðingu Messiaen og þá á víst að halda ráðstefnu í Englandi. Humm, kannski maður setji upp alpahúfu og skelli sér í húsmæðraorlof!!

sunnudagur, mars 18, 2007

Í frumskógi á fjallvegum

Helginni var eitt í einangrum í sumarbústaðnum Frumskógi. Setti síðasta punktinn á handritið ,,Fjallvegir í Reykjavík" á nánast sama tíma og þingið lauk störfum eftir 4 ára basl. Mitt basl hefur staðið í 7 ár. Þó með mislöngum hléum. Hef týnt mér í dútli við að taka út orð, setja inn orð, stytta og snurfusa. Það snjóaði endalaust svo að skokk-gírinn fékk að liggja í töskunni. Mokaði mig hins vegar út í gær og vil að vaðstígvél fylgi svona bústöðum. Í dag sá ég svona för í snjónum:
oIo
oIo
oIo

I á reyndar að móta óbrotna línu - sem sagt hoppandi mús. Heimförin tók nánast þrjá klukkutíma í hálkugaddi og skafrenningi - hélt ég mundi ekki hafa það upp Kambana en komst yfir heiðina með því að halda mig nálægt einum jeppanum. Nú verður herjar á yfirlesurum og vonandi kemur kjarnyrt gagnrýni út úr því. Stefnt er á útgáfu með vorinu.

þriðjudagur, mars 13, 2007

Farfuglar og flækingarmættir til landsins. Haftyrðillinn t.d. mættur sem flækingur en var áður staðfugl, hitinn hefur borið hann ofurliði. Sagt er að engir tveir fuglar séu eins og að hver og einn hafi sín persónueinkenni í félagslegum tengslum hópsins. Fuglar finnast mér merkileg fyrirbæri enda löngum öfundað þá af þessum holóttu beinum sem m.a. gera þeim kleift að fljúga. Annars hægt að sjá spennandi fréttir á http://www.fuglar.is/ - það að rýna út í rigningasortann eftir fuglum finnst mér alltaf jafn heillandi. Ímynda mér alltaf fuglaáhugamenn með lítið gogg-nef og spörfuglslegt göngulag.

sunnudagur, febrúar 25, 2007

1. sunnudagur í föstu


Fjólublámi í loftinu. Tími Passíusálma fram að fyrsta sunnudegi eftir fyrsta fulla tungl eftir vorjafndægur. Reiknið nú!

föstudagur, febrúar 16, 2007

Bókaormur kemst í kálhaus

Loksins loksins náði ég að klára Rigningu í Nóvember eftir Auði Ólafsdóttur. Skemmtileg og vel skrifuð bók. Ég hef í langan tíma ætlað að lesa þessa bók en alltaf hafa skólabækur og annað dundur staðið í vegi fyrir því.Í kjölfarið var plastið rifið af annari bók sem hefur prýtt hillur mínar í eitt ár. Loksins loksins kemst ég í Karitas án titils en ég hef heyrt marga lofsama þá bók, eins og hún snerti einhverja strengi í hjörtum fólks. Fyrsti kaflinn lofar góðu og Kristín er fantagóður og þéttur penni.


Síðast en ekki síst er ég að lesa þessa sjálfshjálparbók eftir John Bradshaw í íslenskri þýðingu. Og geri merkilegar uppgötvanir í hverri setningu. Bók sem mig grunar að hafi valdið þöglum byltingum í lífi margra.

föstudagur, febrúar 09, 2007

Útkoma

Út eru komnar tvær nýjar bækur hjá Nykri: Gárungagap eftir Emil Hjörvar Petersen og Oubliette eftir Kára Pál Óskarsson.
Fást í öllum betri bókabúðum.
Og í fórum skáldanna á afslætti, skyldir þú rekast á þá á förnum vegi.

sunnudagur, febrúar 04, 2007

Ocimum basilicum

Ljóðaupplestur Nykurs var hin besta skemmtun og gekk nokkuð vel að mínu mati. Reyndar finnst mér skelfilega ógnvekjandi að lesa sjálf en kemst í gegnum það með frösum eins og ,,stígðu inn í óttann", ,,engri áhættu fylgja engin mistök" og það besta er ,,slepptu tökunum á öðrum og skoðunum þeirra".

Það sem kætir mig mest er hve litskrúðugur Nykurinn er með ólíka einstaklinga og ólík skáld. Fjölbreytileikinn er styrkleiki og í þessari fullkomnu uppskrift hrópa ég ,,pant vera basilíkan!!!". Þessa dagana er basilíka uppáhalds kryddjurtin mín og fær að fljóta með í alla potta. Ég hef hafnað bragðgóðu tilboði um að vera hvítlaukssaltið í hópnum og held mig við basilíkuna (einær jurt af varablómaætt). Þau ykkar sem hafið ekki smakkað basilíku skuluð gera það strax!

miðvikudagur, janúar 31, 2007

Þá hef ég kvatt starfsfélaga með trega í annað skipti á einu ári. Tárin eru gufuð upp af stýrinu.
Framundan er upplestrarkvöld Nykurs næsta föstudagkvöld kl. 21 á Litla ljóta andarunganum. Allir aðdáendur ljóða til sjávar á sveita velkomnir.
Hér kemur auglýsingin:

Útgáfu- og upplestrarkvöld Nykurs

Fögnum! Út eru komnar þrjár ljóðabækur hjá útgáfu- og skáldafélaginu Nykri! Því efnir Nykurinn til upplestrarkvölds.

Staður: Litli ljóti Andarunginn við Lækjargötu

Stund: Næstkomandi föstudagskvöld, 2. feb, kl. 21:00

Eftirfarandi Nykurskáld lesa úr nýútkomnum verkum sínum:

Emil Hjörvar Petersen : Gárungagap

Kári Páll Óskarsson: Oubliette

Arngrímur Vídalín: Endurómun upphafsins

Einnig lesa: Jón Örn Loðmfjörð og Bjarney Gísladóttir

Gestalesari kvöldsins: Kristín Svava Tómasdóttir

Allir velkomnir

Enginn aðgangseyrir!

þriðjudagur, janúar 23, 2007Þegar ég get engan veginn munað hvenær ég fór síðast í bíó þá er tími kominn til að fara í bíó. Góður mælikvarði. Fór í gærkvöldi á Babel (ekki af því að ég fékk þá snilldarhugmynd heldur af því að Sólveig vinkona mín stakk upp á því) og mæli með henni. Samskiptaleysi, tungumálaörðugleikar, einangrun, sorg og allt þar á milli og meira til.

laugardagur, janúar 20, 2007

Frosthörkur

inn í merg. Í fyrradag kættist ég yfir gæsasporum í snjónum því þá vissi ég að þegar snjóa leysir verður ekki allt vaðandi í eplastykkjum og brauðmolum fyrir utan hjá mér. Ekki nema ég sé að halda uppi bústinni músafjölskyldu. Í kjölfarið bjó ég til nýjustu spakmælin mín: Molarnir rata til sinna - hvort sem það er mús, gæs, þúfutittlingur eða vindur þá eru örlög molanna ekki lengur í mínum höndum þegar þeir hrynja úr mínum höndum.
Annars áhugaverð þessi þörf fyrir að básúna góðverkum sínum í von um glimrandi álit annarra.

fimmtudagur, janúar 04, 2007

Tölvuvölva

Gleðilegt nýtt ár! Viðburðarríkt ár að baki. Skólastúss, tvær uppsagnir, Ameríkuferð og hundruðir góðra stunda með Freyju. Plötur ársins: Illinois með Sufjan Stevens og Garden með Zero 7. Bók ársins: Eyrbyggja. Tónleikar ársins: Nick Cave (ekki úr miklu að velja). Leiksýning ársins: Skoppa og skrítla (ekki úr miklu að velja). Maður ársins: Kiddilíus sem tók þá ákvörðun á árinu að hefja skólagöngu á því næsta.
Framundan er nýtt starf hjá STEF (þar sem ég verð lærlingur Urðar Nykursskálds), Þorrinn, febrúarafmælin öll og vaxandi birtuskilyrði seinnipartanna.

Í tengslum við fyrirsögnina verð ég að taka fram að orðið tölva er eitt best heppnaða nýyrði síðustu aldar en það er sett saman úr orðunum völva og tala. Orðið tölva beygist í öllum föllum með -ölv-í stofni. Hins vegar segja margir talva sem er einmitt áhugaverð áhrifsbreyting sem orðið völva varð fyrir fyrr á öldum. Í forníslensku beygðist orðið völva, völu, völu, völu (sbr. Völuspá, ekki völvuspá og reyndar með öðru hljóði en númtíma ö). Síðan varð hlutfallsbundin áhrifsbreyting frá orðum eins og gata sem varð til þess að völva varð vala í nefnifalli. Síðan varð útjöfnun beygingardæmis það sem viðskeytið -v- er alhæft og aftur varð hlutfallsbundin áhrifsbreyting frá orðum eins og gata sem leiddi til orðsins valva í nefnifalli. Orðið tölva hefur væntanlega þess vegna tilhneigingu til að beygast sem talva.
Þessi æsispennandi fróðleikur er bara til að minna mig á að 12. des. síðast liðinn skrópaði ég í próf sem leiðir til þess að næsta sumar mun ég liggja yfir fróðleik sem þessum og freista þess að taka mitt fyrsta sumarpróf. Og verð altalandi á víkingatungu (bókstaflega). En fram að vori læt ég skólabækur eiga sig.