sunnudagur, október 28, 2007

Fyrir röð tilviljana


sátum við Helga vinkona mín á tónleikum Rúnka Tjúll í Laugardalshöllinni í gærkvöldi og skemmtum okkur vel.

Margir góðir slagarar voru teknir og bakraddirnar stóðu sig alveg jafn vel og allir aðrir söngvarar kvöldsins. Oft er gaman að fylgjast með hvenær bakraddirnar þurfa að góla og hvenær ekki. Ef ég mundi vilja frysta einhverjar 2 sekúndur af tónleikunum þá er það andarakið sem Jóhann Helgason (bakraddasöngvari kvöldsins) stóð í myrkrinu á sviðinu með putta í öðru eyranum og gólaði ,,nýrnakast" úr laginu ,,Harð snúna Hanna".

Þegar Gylfi Ægis kom og tók ,,Stolt siglir fleyið mitt" hvaflaði að mér að auðvitað kæmi þetta lag til greina sem þjóðsöngur (í ljósi textans í viðlaginu) en síðan hef ég hugsað málið betur og komist að raun um að það er ekki sniðugt.

Sem sagt skemmtilegir tónleikar þar sem Rúnki var sannkallaður Herra rokk.

sunnudagur, október 21, 2007

Þá

er Fréttablaðið búið að afgreiða ritdóm með stæl. Nóg komið af ritdómum og vonandi verða þeir ekki fleiri, maður getur verið mjög sáttur við 5 dóma og ekki allir sem fá dóma svo víða. Fyrstu viðbrögð við Fréttablaðs dóminum var að senda dómaranum kúamykju í pósti en síðan las ég þennan texta úr góðri bók:

Er ég að sóa tíma mínum og orku í að berjast gegn aðstæðum sem ekki eru svo merkilegar að ástæða sé til að gefa þeim gaum? Ég ætla ekki að láta ímyndunarafl mitt gera smávægilega örðugleika að miklu vandræðum. Ég ætla að reyna að gera mér ljósa grein fyrir aðstæðunum og gefa þeim ekki meira vægi eða veita þeim meiri athygli en þær verðskulda...

Og ég læt nægja að senda dómaranum góða strauma og sendi mér og bókakorninu ennþá fleiri. Stundum eru dagar manns fullir af lúxusvandamálum og alltaf gott að átta sig á því.

fimmtudagur, október 11, 2007


Síðasta laugardag kom ritdómur um nýju bókina. Ekki upplífgandi sá dómur en Þröstur Helgason hefur fullan rétt á sínum skoðunum.

Síðasta mánudag kom hins vegar dómur í Íslandi í dag á Rás 2 þar sem Jón Yngvi Jóhannsson kom með ritdóm sem var meira að skapi höfundarins - hér má sjá síðu þar sem dómurinn birtist: http://blogg.visir.is/gagnrynandinn

miðvikudagur, október 03, 2007

Krydd dagsins


er kóríander. Keypti ferskan kóríander í gær (í fyrsta skipti á ævinni) og brytjaði laufin út í dýrindis pastarétt kvöldsins. Og ég er ástfangin!

Hélt lofræður um kóríander yfir hausamótunum á vinnufélögunum í dag og síðan smurði ég (af stakri tilviljun) kóríander pestó yfir brauðið. Hér er fróðleikur um jurtina.

Nú verður kóríander rifinn yfir kvöldmatinn næstu tvær vikur eða svo.