föstudagur, ágúst 26, 2005

Í nótt ætla ég að forðast ískrið í hliðinu

Sendibréf úr sveitinni
Ungur maður sá yfirsjónum yfir umkomuleysi mínu og bauð mér gistingu á bæ sínum. Hér býr hann einn með hundinum sínum og feimnin við kvenkynið alveg að sliga hann. Ég lagðist til svefns í annars hrörlegu gestaherberginu og fékk fiðring í fingurna að taka til hendinni. Og það var strax um morguninn sem ég stóðst ekki mátinn að rétta fram hjálparhönd þar sem hann böglaðist við að sjóða hafragraut fyrir næturgestinn. Er á leið rétti ég hverja hjálparhöndina af annarri og það varð að þegjandi samkomulagi að ég fengi að vera. Hann lét snarlega af allri gestrisni enda engin þörf fyrir slíkt. Tók að mér skrælnuð pottablómin, fitugar eldhúsgardínurnar og saurugt salernið. Ég ílengdist og bókstaflega kippti öllu í liðinn. Ungi maðurinn virðist kunna þessu vel og tekur framkvæmdum mínum af æðruleysislegri þögn. Andvarpar í tólið þegar háöldruð móðir hans reynir að fjarstýra honum af elliheimilinu. Og setur mæðu í röddina um leið og hann samþykkir allt hennar mál. Hundurinn er búinn að taka mig í sátt enda kræsilegir afgangar í dalli hans á hverju kvöldi. Hann flaðrar upp um mig á morgnana þegar ég staulast fram úr gestaherberginu. Þá er ungi maðurinn þegar sestur, tiplar fingrunum á borðið og bíður eftir hafragrautnum. Svona er nú komið fyrir mér þessa dagana og sem ég skrifa þetta bréf sit ég alklædd í rúminu með töskuna við hurðina. Í nótt mun ég hverfa og ungi maðurinn mun vakna í fyrramálið og bíða mín við borðið fram eftir degi. Smám saman mun hann þó minnast mín sem vorfuglsins ljúfa sem fór á miðju sumri. Í nótt ætla ég að forðast ískrið í hliðinu og klifra yfir girðinguna. Ég mun ganga niður á veg og reka út puttann. Síðan mun ég vinda mér að fyrstu ungu konunni sem ég mæti og bjóða henni hressingardvöl á bæ unga mannsins. Svona sé ég um aðra og verð nú að ljúka bréfinu því hundurinn er farinn að hrjóta í næsta herbergi. Hafðu það nú gott Ufsi minn og skilaðu kveðju til Jónsa.

Þín einlæg
Sigga

sunnudagur, ágúst 21, 2005

Dýrðin í ásýnd ljósanna


Þá er menningarnótt afstaðin og mergðin horfin aftur í úthverfin. Flugeldasýning Orkuveitunnar var glæsileg sem fyrr. Krafturinn í sýningunni var sannfærandi og góður stígandi í byrjunarkaflanum. Fjölbreytni litanna var ekki nægileg að mínu mati, þar sem heilu kaflarnir voru eintóna með sömu gerð sprenginga. Þetta gerði sýninguna fyrirsjáanlega þar sem við upphaf hvers kafla gat maður verið viss um framhald hans, lengd og hávaða. Það hefur augljóslega skapast viss hefð í sprengjutakti sýninga sem þessarar og saka ég því höfund þessarar sýningar blákalt um skort á frumleika. Þessi stígandi sem endar í ritríku sprengiregni eins og Bolero (og jú líka kynlíf) en slokknar síðan í hápunkti sínum er orðin ansi þreyttur.
Næsta ár vil ég sjá sýninguna fjara út, enda á lítilli, aumri rakettu og koma þannig áhorfendum í opna skjöldu.

föstudagur, ágúst 19, 2005

Vika í sumarbústað

Þá er ferðalagi sumarsins lokið. Dvaldi í heila viku í sumarbústað (án veraldarvefs og annars vafsturs) og gott að geta bara valið um rás 1 eða rás 2 þegar útvarpið glumdi heilu og hálfu dagana um litla timburhúsið. Yfirleitt varð rás 1 fyrir valinu og einn daginn gátum við skötuhjúin ráðið gátuna um fugl dagsins. Annars ótrúlegt hvað þarf lítið til að gleðja smáborgarasálir sem okkar. Uppþvottavél, heitur pottur og grill eru hin heilaga þrenning smáborgarans. Grillið er faðirinn, uppþvottavélin sonurinn og gufan sem stígur úr pottinum er heilagur andi. Annars stóðum við í ströngu í uppeldi 18 mánaða dóttur sem hefur ekki ennþá lært að umgangast drullupolla. Að mínu mati á maður að stappa vel í pollunum og láta þar við sitja, hún vill helst leggjast niður, dífa andlitinu ofan í og fá sér sopa.

föstudagur, ágúst 12, 2005

Bjart vantar mjólkurkú

Á hverjum degi lít ég við á www.bjartur.is á ferð minni um vefinn. Bókaforlag sem gefur út skrambi góðar bækur og er með hóp flottra penna. Þegar ég lít inn á heimasíðu forlagsins er ég hálft í hvoru alltaf að vonast til að sjá þennan texta: ,,Kvenrithöfund vantar til Bjarts. Þarf að vera með góðan, persónulegan stíl og geta skrifað texta sem hefur meiri áhrif á heiminn en kaffi og súkkulaði til samans. Hávaxin og ljóshærð með áhuga á útivist (til fjalla). Handrit óskast við fyrsta tækifæri. Mjólkurkú vantar í Sumarhús." Og þá mundi maður kannski slá til. Í þeirri von að Bjartur stefndi á aukna flóru í búskapnum, eitthvað fleira en bara rollur og hund.

mánudagur, ágúst 01, 2005

Barkahlymur

Núna er ég búin að hósta í eina viku og þreyta farin að segja til sín. Það var orðið erfitt að anda þangað til ég fékk pensilín uppáskrifað vegna guls hors sem væntanlega er orsök sýkingar í nef- og ennisholum. Neðst á lyfseðlinum stóð: ein ljóðabók með hækum, eitt ljóð þrisvar á dag. Í apótekinu fékk ég staut með tvílitum pillum og bókina ,,Leðurblakan og perutréð" eftir Yosa Buson (í þýðingu Óskars Árna Óskarssonar). Núna sest ég niður 3x á dag, gleypi eina pillu og les eina hæku. Og þegar vikukúrnum lýkur verður mér um megn að vita hvort það var pensillínið eða hækurnar sem lækkuðu rostann í hóstanum. Kannski verð ég orðin fíkinn í hækur og mæti til lækna um allan bæ í von um fleiri.
Hóstinn er mjög ljótur því ég hósta með barkanum (get reyndar líka talað með barkanum) þannig að hlymur minn er eins og frá versta skrímsli. Mér varð ljóst í dag að þetta útilokar t.d. það að ég geti sest niður á fínum veitingastað og skorið pent mína steik með rymjandi drunandi hóstahávaða glymjandi um sali. Ef þú lesandi góður heyrir álengdar djúpar hryglur og sérð hor flæða um stræti þá er skrímslið ég ekki víðs fjarri.

Kenwood bílaútvarp

Núna er flotta Kenwood útvarpið í bílnum mínum að spila sitt síðasta og ólmast um eins og biluð hrærivél. Þetta er mjög flott útvarp sem lokar sér þegar er slökkt á bílnum og með góðum geislaspilara. Útvarpsstöðvarnar detta inn og út. Og áðan stóð á skjánum flottum, digital stöfum ,,Bylgjan" um leið og raddir úr BBC ómuðu í gegnum skruðningana í umræðuþætti um fjölmiðlaheiminn í Kína og Japan. Ég tók þann pól í hæðina að ákveða að nú væri Bylgjan að flytja listaverk með skruðningum og breskum röddum til að kanna viðbrögð ökumanna. Ég lét ekki gabbast!!