föstudagur, október 30, 2015

Þegar madrígalarnir þagna

Í fjarlægu landi fannst nýverið kona sem reyndist hvorki sjálfbær né arðbær (til hægri á myndinni). Þessi sama kona hefur þann háttinn á að syngja daglega fyrir fólkið í landinu sem nýtur þess að hlýða á söng hennar. Söngur hennar er jafnvel orðinn hluti af daglegu munstri margra, þegar madrígalinn byrjar á morgnana klukkan ellefu fara margir ósjálfrátt að huga að hádegismatnum. Svona mætti lengi telja. Stjórnvöld í þessu landi komust að því að hún er í raun óarðbær og vilja grípa í taumana. Ráðherra söngmála sagði í viðtali: ,,Við munum auðvitað ekkert slátra henni, þetta er bara grundvöllur til frekari umræðna um það hversu slæm staða hennar er. Við þurfum að gera eitthvað í málinu, við þurfum að draga hana saman."


Þær sögur eru á reiki að söngur hennar sé hægt og sígandi að hverfa, að fljótlega munu madrígalarnir þagna og þar með munu landsmenn glíma við ótímabæran næringarskort því hádegismaturinn mun gleymast. En þetta eru óstaðfestar sögur. Rétt í þessu hvíslaði lítill fugl: ,,Stjórnvöld ætla ekki að slátra henni, en þau ætla að svelta hana, það er svo miklu mannúðlegra, markaðsöflin verða að ráða, öllu óarðbæru ber að útrýma."

sunnudagur, júlí 19, 2015

Frísemd

Öðru hverju loka ég fésbókar-aðgangi mínum og í ferlinu haka ég iðulega við dálkinn ,,örvæntið ekki, ég kem aftur" þegar forritið spyr mig um ástæðuna. Fyrstu dagarnir geta orðið mjög erfiðir og mér líður oft eins og ég sé í sjálfskipaðri útlegð frá samfélaginu. Hins vegar verður þetta til þess að ég þarf að leita annarra leiða til að hafa samband við fólk og jafnvel taka upp símann og segja ,,hæ". Í þetta skipti ákvað ég að fríið myndi standa yfir í eina viku og þess vegna mæti ég aftur galvösk á svæðið á morgun. Í þetta skipti hefur þó friðsemdin (eða frísemdin) verið minni því fésbókin sendir mér tölvupósta þrisvar á sólarhring þar sem mér er velt upp úr öllu því sem ég er að missa af og reynt að lokka mig með öllum ráðum til að skrá mig aftur inn (sjá mynd sem er kannski of lítil, finnið þá stækkunarglerið í skúffunni). Þetta hefur orðið til þess að efla enn frekar í mér þvermóðskuna, ef væri ekki fyrir þessa pósta væri ég eflaust löngu búin að springa á limminu.

Í hvert skipti sem ég loka og held inn í frísemdina reynist það alltaf áhugaverð reynsla - þá get ég kannað viðbrögð mín, vanahegðun, deyfidoðann, áreitið og minnst mig á að ég ber ábyrgð á áreitismagninu og vananum sem stundum getur orðið eins og kápa úr súrkáli (æ þið vitið hvað ég meina og sjáið þetta algjörlega fyrir ykkur, finnið þið ekki líka lyktina?)

Vonandi get ég næst hakað í einhvern dálk sem frábiður mér allar tilkynningar í tölvupósti.

Annars spretta kartöflugrösin sem aldrei fyrr og ég fagna hverjum regnlausum degi því hann þýðir rölt í garðinn að vökva. Börnin spretta líka ó seisei já.

föstudagur, apríl 17, 2015

Blaðröndin


Dreymdi að einhver væri að stela appelsínugulum kagga en ég hélt í bandið sem lá úr honum og kom í veg fyrir stuldinn en þurfti að halda mjög fast og vaknaði og framkvæmdi morgunverkin bæn hugleiðsla hafragrautur með granateplum (hvar væri heimurinn án granatepla) og sítrónuvatn og kaffi og Beinhvít skurn og svo lesnar umfjallanir um annála um Heklugos og þá kom hugmyndin um allar þessar spássíur.

Öll höfum við smakkað blöð og vitum vel að það er hægt að borða þau. Það er hægt að skera spássíuna úr öllum bókum landsins og þá er komið margra ára fóður fyrir fátæka námsmenn þessa lands og lánasjóðurinn gæti bara lokað og ávaxað sitt pund fyrir feitu árin. Munnbleyttar blaðsíður með granateplum er framtíðin. Blaðsúpa með spássíubrauði, namminamm.Hver ætlar að skrifa fyrstu matreiðslubókina?

Fjársjóðir landsins eru hér, við handfjötlum þá á hverjum degi.

mánudagur, apríl 13, 2015

Hækjurnar sem halda okkur uppi

Þegar kona býr til umsókn sem hún þorir varla að gera og vantar hugrekkis-hækjur þá les hún bókina Beinhvít skurn eftir Soffíu Bjarnadóttur og hlustar á P J Harvey á meðan. Þá kemur þetta. Í ljósinu fyrir ofan mig liggur dauð fluga. Í nótt dreymdi mig rjúkandi kúk í kraumandi klósetti. Í hugann ryðst stöðugt þessi skipun, aftur og aftur: ,,Leggðu á djúpið! Leggðu á djúpið!"

miðvikudagur, mars 11, 2015

Birting(ar)mynd/hljóð

Í gær gekk ég í áttina að kaffistofunni í Árnagarði og hugsaði ,,Já, nú fer að byrja ljóðatími hjá SP, blessaður karlinn þarf að þvælast þetta í vonda veðrinu". Um leið og ég steig inn á kaffistofuna var SP það fyrsta sem ég sá.

Ég: Nei blessaður, mér varð einmitt hugsað til þín rétt áður en ég gekk hingað inn.
SP: Þá birtist ég. Ef þú hugsar til mín þá mun ég birtast. Þetta er alltaf þannig. Maður hugsar eitthvað og þá birtist það.

(Í framhaldinu fór fram samtal á myndmáli sem er undirgrein tungumáls þar sem tunga tjáir myndir og örvar þannig heilann til að skynja og sjá og skilja)
--------

Byrjaði fyrir örfáum dögum að hlusta aftur á Illinois með Sufjan Stevens í bílnum mínum. Komst síðan loksins loksins í jóga áðan (kraftaverk gegn flenskuskít) og þar birtist nýr kennari sem spilaði einmitt lag af disknum í tímanum. Þetta hér:


En svo er líka að koma út nýr diskum með Sufjan og hér er eitt spunkunýtt sem var rétt í þessu að detta inn í jútúbuna:



Sem sagt, það sem maður hugsar mun birtast (sérstaklega ef maður ætlar ekki að þvinga fram birtinguna) og það sem maður hlustar mun heyrast á nýjum stað - það er undursamlegt að geta undrast :-)

fimmtudagur, febrúar 12, 2015

Á meðan ég geng og hlusta á lag um orð sækja á mig orð um fætur

Það er hollt að ganga eftir gangstéttum í snjó og kulda. Fara frá A til B með tónlist í eyrunum og hugsa ekkert eða bara eitthvað út í bláinn. Áðan birtust þessar spurningar: Hvaðan kemur þetta orð sköflungur? Eiga sköflungur og kálfi eitthvað sameiginlegt annað en nálægð á fótlegg? Er sköflungur sá sem veður skafla? Og þá kannski með kálf í eftirdragi? Hvaðan kemur þetta?

Finn ekki orðsifjabók á snörunni svo þetta heldur áfram að vera ráðgáta. Þar rakst ég þó á orðið sperrileggur sem er ekki síður áhugavert. Og ekki nóg með að eiga svona furðuleg orð yfir furðulega parta af líkamanum heldur getur maður allt eins búist við því að í náttúrunni leynist hóll, dalur eða fjall sem ber sama heiti (það ku víst vera til fjall sem heitir Sköflungur).

Kannski var það tónlistin sem kom þessu af stað en ég var einmitt að hlusta á þetta lag þegar sköflungar og kálfar fóru að ásækja mig:


Niðurstaða: Hugsanir spretta úr líkamanum, hreyfing á líkama skapar tengingar og býr til nýjar hugmyndir :-)


laugardagur, janúar 31, 2015

thjíle um nótt

Síðasta miðvikudag skilaði ég af mér stóru verkefni og því fylgdi svo mikið spennufall að ég fékk kvef í kjölfarið og vaki um nætur en glugga þá bara í bók eftir Roberto Bolano sem ber sama nafn og þetta lag og á kápu bókarinnar er tré í laginu eins og landið í titlinum og skrítið að það er líka tré sem fylgir með þessu lagi kannski er þetta sántrakkið við bókina kannski er þetta sándtrakkið við sál mína. Annars er ég ekki að tengja við þessa bók, er bara með hugann við kvefið og verkefnið en leyfi orðunum að líða hjá, tek þau inn og læt líkamann um að melta, frásoga næringarefnin í skjóli nætur. Annars má alveg fara að koma vor, svona bráðum.




miðvikudagur, janúar 21, 2015

Ssssssssssefjunarmáttur

Ég vaknaði nokkuð óvænt klukkan fjögur í nótt og fann tilgang lífsins undir koddanum og ég sá að allt það góða í lífinu byrjar á S.

Sitja     standa              skokka             synda   sofa     sópa     súpa     skríða
syngja              snúa sér að ljósinu
sinna sjálfum sér                     samþykkja sig
semja sögur
skrifa ljóð
sinna stelpu og strák
sdansa
snara.is
sjóast í samskiptum
sýna samkennd
standa með sér og sínu og sínum
segja satt
sigla sinn sjó
seigla
súpa seiðið af s... eitthvað
standa aftur upp
sjá skammdegið koma og fara

Vera í s-inu sínu

sátt
sannleikurinn
skessur
strindberg
sorgin
síma til guðs
sdansa
sjóga
sálin og skúmaskot hennar
skassið
allt sem er sjaldgæft og/eða síðbúið
sjór      sól       ský       stjörnur           samlokur         sérar og senjórítur                  snjór    spor
sasen
sushi (og hvítvín)
SÚKKULAÐI
steiktar sætar kartöflur (sjúkt)
sérstakur saksóknari

Sandgerði
Sínaífjall
stór
sprengidagur
sláttur í hjarta og vængjum
sérhljóðar og samhljóðar
sdansa
sleikjó
Suður-Ameríka
sameinast        samlagast
sjúga skinn
syndga
strjúka
spila á spil eða hljóðfæri
sdansa
= samasem
allar Suðurgötur þessa lands

skip                 steinar             sandur             sjávarfang        sykur   salt       sultur   sveppir
slippur
selir
skógarstígur
sippuband á skógarstígnum
skjóta rótum (í skóginum með sippuband í hendi)

strætó              stjörnumerki               skæpspjall
stökkva (upp fram niður)
stíga (upp fram niður)
stútfullir svefnpokar
sjöunda sporið
sár sem gróa
sdansa
sæmd
sigur
Að ónefndur öllum Stínum, Siggum, Siddum, Sjonnum og Siljum þessa heims.

Ég segi það satt!