föstudagur, júlí 22, 2016

Kveðjubréf til rauðrar drossíu

Uppsala, 22. júlí 2016

Kæra drossía,

Ég er flutt af klakanum og skil þig eftir á malarstæði nálægt KR vellinum í Vesturbænum. Þú hefur verið auglýst til sölu. Mikið á ég eftir að sakna þín. Þetta afmarkaða rými sem færist á milli staða er svo fallegt, bakkar, beygir, bremsar, skransar. Aksturslag þitt var einstaklega ljóðrænt man ég, þú leiðst um heiminn í einstakri fegurð. Og gerir enn, það á bara önnur manneskja eftir að njóta þess. Rétt áðan sat ég í sófa og las bók eftir Teju Cole og þá rifjaðist upp fyrir mér að hann sat einu sinni í farþegarsætinu þínu. Og þá fór ég að rifja upp öll andlitin sem hafa vermt farþegarsæti þín, vá þvílík fegurð. Hér er tilraun til að rifja upp hverjir hafa setið í þessum sætum undanfarin fjögur ár.


Börnin mín
Frændsystkini
Vinir barnanna minna (best af öllu er að vera með fullan bíl af börnum á leiðinni í ísbúð, það er fátt sem toppar það)
Pabbi
Siddi bróðir
Flestar vinkonur mínar

Af erlendum höfundum man ég eftir umræddum Teju Cole (þar heillaðist hann af Telemann-disk Melkorku Ólafsdóttur), Hassan Blasim, Katja Kettu, Kjell Espmark, Georgi Gospodinov, Rachel Joyce og Madeline Miller.

Það er fátt skemmtilegra en að gefa skutl. Fara frá A til B með nýja manneskju í sætinu, reyna að hafa augun á götunni og fylgjast með umferðinni og spjalla á sama tíma um allt og allt. Það er einstakt að fá inn í bílinn ókunna manneskju og kynnast á ferðinni, taka inn landið fagra og tala.Kæra drossía við fórum líka um landið, fórum nokkrar ferðir á Eyrarbakka og í ýmsa sumarbústaði nálægt höfuðborginni. Við héngum mikið á Reykjanesbrautinni og þú þekkir eflaust þá leið eins og bremsuborðana á þér. Svo fórum við í Hamarsfjörð, Djúpavog, Höfn, Egilsstaði og Seyðisfjörð fyrir fjórum árum. Tókum síðan Akureyri ári síðar. Já, við fórum á Lýsuhól tvisvar til að dansa yfir heila helgi, þá varstu í stuði. Við fórum oft í Kjósina í sweat og einu sinni sprakk á þér á leiðinni þangað. Svo sprakk á þér um daginn á leiðinni í Húsafell. Alltaf fékkstu vaska drengi til að koma að hjálpa þér og ringluðum eiganda þínum.Fyrsti bíllinn minn (Suzuki Baleno) var rauður eins og þú. Þegar ég keypti hann og fór að keyra um þá eins og opnaðist fyrir nýja æð í skáldskaparflæðinu. Núna hef ég engan bíl og óttast að æðin lokist. En húsið sem ég er flutt í er rautt eins og þú. Ég hef aldrei áður búið í rauðu húsi og er spennt að sjá hvaða áhrif það hefur. Tölvan sem ég hef skrifað hvað mest á undanfarin ár er líka rauð. Hef litað hár mitt rautt undanfarin ár. Hvar værum við án rauða litsins og án þín kæra rauða drossía sem getur svo margt. Rauður opnar æðar, blóðæðar.

Svei mér þá þegar ég rifja upp stundir okkar saman langar mig ekkert að selja þig. En ég trúi því og treysti að þú fáir góðan eiganda sem passar þig vel. Svo þegar ég sný aftur leita ég þig uppi, elti þig á röndum og geri viðstöðulaust tilboð í þig svo að nýr eigandi gefst upp og leyfir mér að fá þig aftur.

Þar til þá, góða ferð!föstudagur, október 30, 2015

Þegar madrígalarnir þagna

Í fjarlægu landi fannst nýverið kona sem reyndist hvorki sjálfbær né arðbær (til hægri á myndinni). Þessi sama kona hefur þann háttinn á að syngja daglega fyrir fólkið í landinu sem nýtur þess að hlýða á söng hennar. Söngur hennar er jafnvel orðinn hluti af daglegu munstri margra, þegar madrígalinn byrjar á morgnana klukkan ellefu fara margir ósjálfrátt að huga að hádegismatnum. Svona mætti lengi telja. Stjórnvöld í þessu landi komust að því að hún er í raun óarðbær og vilja grípa í taumana. Ráðherra söngmála sagði í viðtali: ,,Við munum auðvitað ekkert slátra henni, þetta er bara grundvöllur til frekari umræðna um það hversu slæm staða hennar er. Við þurfum að gera eitthvað í málinu, við þurfum að draga hana saman."


Þær sögur eru á reiki að söngur hennar sé hægt og sígandi að hverfa, að fljótlega munu madrígalarnir þagna og þar með munu landsmenn glíma við ótímabæran næringarskort því hádegismaturinn mun gleymast. En þetta eru óstaðfestar sögur. Rétt í þessu hvíslaði lítill fugl: ,,Stjórnvöld ætla ekki að slátra henni, en þau ætla að svelta hana, það er svo miklu mannúðlegra, markaðsöflin verða að ráða, öllu óarðbæru ber að útrýma."

sunnudagur, júlí 19, 2015

Frísemd

Öðru hverju loka ég fésbókar-aðgangi mínum og í ferlinu haka ég iðulega við dálkinn ,,örvæntið ekki, ég kem aftur" þegar forritið spyr mig um ástæðuna. Fyrstu dagarnir geta orðið mjög erfiðir og mér líður oft eins og ég sé í sjálfskipaðri útlegð frá samfélaginu. Hins vegar verður þetta til þess að ég þarf að leita annarra leiða til að hafa samband við fólk og jafnvel taka upp símann og segja ,,hæ". Í þetta skipti ákvað ég að fríið myndi standa yfir í eina viku og þess vegna mæti ég aftur galvösk á svæðið á morgun. Í þetta skipti hefur þó friðsemdin (eða frísemdin) verið minni því fésbókin sendir mér tölvupósta þrisvar á sólarhring þar sem mér er velt upp úr öllu því sem ég er að missa af og reynt að lokka mig með öllum ráðum til að skrá mig aftur inn (sjá mynd sem er kannski of lítil, finnið þá stækkunarglerið í skúffunni). Þetta hefur orðið til þess að efla enn frekar í mér þvermóðskuna, ef væri ekki fyrir þessa pósta væri ég eflaust löngu búin að springa á limminu.

Í hvert skipti sem ég loka og held inn í frísemdina reynist það alltaf áhugaverð reynsla - þá get ég kannað viðbrögð mín, vanahegðun, deyfidoðann, áreitið og minnst mig á að ég ber ábyrgð á áreitismagninu og vananum sem stundum getur orðið eins og kápa úr súrkáli (æ þið vitið hvað ég meina og sjáið þetta algjörlega fyrir ykkur, finnið þið ekki líka lyktina?)

Vonandi get ég næst hakað í einhvern dálk sem frábiður mér allar tilkynningar í tölvupósti.

Annars spretta kartöflugrösin sem aldrei fyrr og ég fagna hverjum regnlausum degi því hann þýðir rölt í garðinn að vökva. Börnin spretta líka ó seisei já.

þriðjudagur, júlí 14, 2015

Afskrift er styrkur er hugtak er orð er skilgreiningaratriði er jarm

Svei mér þá, þegar ég les fréttir um Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN) verð ég oft svo hissa og langar helst að kynna mér þetta allt í þaula, setjast niður og lesa reglurnar fram og til baka og reyna að skilja þetta en síðan minni ég mig á að orkan mín vill komast annað, þar sem er meira súrefni og óvænt fegurð. Örstutt frétt um afstöðu menntamálaráðherra til sjóðsins vakti með mér hroll:

http://www.visir.is/illugi-vill-endurskoda-lanakerfi-lin/article/2015707149959

Hann segir fullum fetum að það að afskrifa lán sé það sama og styrkur. Ég hef aldrei áður séð þá frumlegu skilgreiningu. Eru þá allar afskriftir bankanna í kjölfar hrunsins og almennt afskriftir íbúðalánasjóðs og annarra sjóða kallaðar ,,styrkir"? Hefur styrkjakerfið í atvinnulífinu þá ekki orðið einum of mikið undanfarin 10 ár? Hafa þessar afskriftir verið settar í samhengi við aðrar afskriftir annarra sjóða? Reyndar rek ég núna augun í sömu ,,styrkjahugsun" í formála famkvæmdastjóra sjóðsins í ársskýrslu 2014 :-(

Síðan kemur fram sú sorglega staðreynd að ungir námsmenn séu helst í vanskilum við lánasjóðinn. Það er greinilega vilji hjá þeim sem stjórna sjóðnum að breyta honum og þá vonandi til hins betra. Vonandi verða þessi vanskil skoðuð í stærra samhengi - hvað veldur því að ungir námsmenn eiga erfitt með að borga af lánum sínum? Hvernig spilar þetta allt saman? Nýlega spratt upp einkarekinn lánasjóður sem sýnir vel að einhver góðavon er í því að lána námsmönnum. Þegar stjórnendur LÍN barmar sér yfir vanskilum og ,,styrkjum" vekur slíkur lánasjóður mikla furðu.

Mér finnst sjálfsagt að setja skuldaþak og skoða heildrænt hvernig bæta megi aðstöðu til náms. Síðan væri hugmynd að afburðanámsmenn fengju skuld sína fellda niður við útskrift að hluta eða í heild. Þeir námsmenn sem setja á stofn stöndugt, arðvænlegt nýsköpunarfyrirtæki gætu fengið láninu umbreytt í styrk inn í fyrirtækið eða niðurfellingu.

Námsmenn sem taka námslán og fjármagna þannig að fullu námið sitt eru ekki byrði á þjóðfélaginu, þeir eru vaxtasprotar.

Læt þetta duga í bili - næst kemur miklu meiri óvæntfegurðartjáning og eitthvað um hringina, hvernig allt fer í hring. (Myndin tengist efni bloggsins þráðbeint)

föstudagur, apríl 17, 2015

Blaðröndin


Dreymdi að einhver væri að stela appelsínugulum kagga en ég hélt í bandið sem lá úr honum og kom í veg fyrir stuldinn en þurfti að halda mjög fast og vaknaði og framkvæmdi morgunverkin bæn hugleiðsla hafragrautur með granateplum (hvar væri heimurinn án granatepla) og sítrónuvatn og kaffi og Beinhvít skurn og svo lesnar umfjallanir um annála um Heklugos og þá kom hugmyndin um allar þessar spássíur.

Öll höfum við smakkað blöð og vitum vel að það er hægt að borða þau. Það er hægt að skera spássíuna úr öllum bókum landsins og þá er komið margra ára fóður fyrir fátæka námsmenn þessa lands og lánasjóðurinn gæti bara lokað og ávaxað sitt pund fyrir feitu árin. Munnbleyttar blaðsíður með granateplum er framtíðin. Blaðsúpa með spássíubrauði, namminamm.Hver ætlar að skrifa fyrstu matreiðslubókina?

Fjársjóðir landsins eru hér, við handfjötlum þá á hverjum degi.

mánudagur, apríl 13, 2015

Hækjurnar sem halda okkur uppi

Þegar kona býr til umsókn sem hún þorir varla að gera og vantar hugrekkis-hækjur þá les hún bókina Beinhvít skurn eftir Soffíu Bjarnadóttur og hlustar á P J Harvey á meðan. Þá kemur þetta. Í ljósinu fyrir ofan mig liggur dauð fluga. Í nótt dreymdi mig rjúkandi kúk í kraumandi klósetti. Í hugann ryðst stöðugt þessi skipun, aftur og aftur: ,,Leggðu á djúpið! Leggðu á djúpið!"

miðvikudagur, mars 11, 2015

Birting(ar)mynd/hljóð

Í gær gekk ég í áttina að kaffistofunni í Árnagarði og hugsaði ,,Já, nú fer að byrja ljóðatími hjá SP, blessaður karlinn þarf að þvælast þetta í vonda veðrinu". Um leið og ég steig inn á kaffistofuna var SP það fyrsta sem ég sá.

Ég: Nei blessaður, mér varð einmitt hugsað til þín rétt áður en ég gekk hingað inn.
SP: Þá birtist ég. Ef þú hugsar til mín þá mun ég birtast. Þetta er alltaf þannig. Maður hugsar eitthvað og þá birtist það.

(Í framhaldinu fór fram samtal á myndmáli sem er undirgrein tungumáls þar sem tunga tjáir myndir og örvar þannig heilann til að skynja og sjá og skilja)
--------

Byrjaði fyrir örfáum dögum að hlusta aftur á Illinois með Sufjan Stevens í bílnum mínum. Komst síðan loksins loksins í jóga áðan (kraftaverk gegn flenskuskít) og þar birtist nýr kennari sem spilaði einmitt lag af disknum í tímanum. Þetta hér:


En svo er líka að koma út nýr diskum með Sufjan og hér er eitt spunkunýtt sem var rétt í þessu að detta inn í jútúbuna:Sem sagt, það sem maður hugsar mun birtast (sérstaklega ef maður ætlar ekki að þvinga fram birtinguna) og það sem maður hlustar mun heyrast á nýjum stað - það er undursamlegt að geta undrast :-)

fimmtudagur, febrúar 12, 2015

Á meðan ég geng og hlusta á lag um orð sækja á mig orð um fætur

Það er hollt að ganga eftir gangstéttum í snjó og kulda. Fara frá A til B með tónlist í eyrunum og hugsa ekkert eða bara eitthvað út í bláinn. Áðan birtust þessar spurningar: Hvaðan kemur þetta orð sköflungur? Eiga sköflungur og kálfi eitthvað sameiginlegt annað en nálægð á fótlegg? Er sköflungur sá sem veður skafla? Og þá kannski með kálf í eftirdragi? Hvaðan kemur þetta?

Finn ekki orðsifjabók á snörunni svo þetta heldur áfram að vera ráðgáta. Þar rakst ég þó á orðið sperrileggur sem er ekki síður áhugavert. Og ekki nóg með að eiga svona furðuleg orð yfir furðulega parta af líkamanum heldur getur maður allt eins búist við því að í náttúrunni leynist hóll, dalur eða fjall sem ber sama heiti (það ku víst vera til fjall sem heitir Sköflungur).

Kannski var það tónlistin sem kom þessu af stað en ég var einmitt að hlusta á þetta lag þegar sköflungar og kálfar fóru að ásækja mig:


Niðurstaða: Hugsanir spretta úr líkamanum, hreyfing á líkama skapar tengingar og býr til nýjar hugmyndir :-)


laugardagur, janúar 31, 2015

thjíle um nótt

Síðasta miðvikudag skilaði ég af mér stóru verkefni og því fylgdi svo mikið spennufall að ég fékk kvef í kjölfarið og vaki um nætur en glugga þá bara í bók eftir Roberto Bolano sem ber sama nafn og þetta lag og á kápu bókarinnar er tré í laginu eins og landið í titlinum og skrítið að það er líka tré sem fylgir með þessu lagi kannski er þetta sántrakkið við bókina kannski er þetta sándtrakkið við sál mína. Annars er ég ekki að tengja við þessa bók, er bara með hugann við kvefið og verkefnið en leyfi orðunum að líða hjá, tek þau inn og læt líkamann um að melta, frásoga næringarefnin í skjóli nætur. Annars má alveg fara að koma vor, svona bráðum.
miðvikudagur, janúar 21, 2015

Ssssssssssefjunarmáttur

Ég vaknaði nokkuð óvænt klukkan fjögur í nótt og fann tilgang lífsins undir koddanum og ég sá að allt það góða í lífinu byrjar á S.

Sitja     standa              skokka             synda   sofa     sópa     súpa     skríða
syngja              snúa sér að ljósinu
sinna sjálfum sér                     samþykkja sig
semja sögur
skrifa ljóð
sinna stelpu og strák
sdansa
snara.is
sjóast í samskiptum
sýna samkennd
standa með sér og sínu og sínum
segja satt
sigla sinn sjó
seigla
súpa seiðið af s... eitthvað
standa aftur upp
sjá skammdegið koma og fara

Vera í s-inu sínu

sátt
sannleikurinn
skessur
strindberg
sorgin
síma til guðs
sdansa
sjóga
sálin og skúmaskot hennar
skassið
allt sem er sjaldgæft og/eða síðbúið
sjór      sól       ský       stjörnur           samlokur         sérar og senjórítur                  snjór    spor
sasen
sushi (og hvítvín)
SÚKKULAÐI
steiktar sætar kartöflur (sjúkt)
sérstakur saksóknari

Sandgerði
Sínaífjall
stór
sprengidagur
sláttur í hjarta og vængjum
sérhljóðar og samhljóðar
sdansa
sleikjó
Suður-Ameríka
sameinast        samlagast
sjúga skinn
syndga
strjúka
spila á spil eða hljóðfæri
sdansa
= samasem
allar Suðurgötur þessa lands

skip                 steinar             sandur             sjávarfang        sykur   salt       sultur   sveppir
slippur
selir
skógarstígur
sippuband á skógarstígnum
skjóta rótum (í skóginum með sippuband í hendi)

strætó              stjörnumerki               skæpspjall
stökkva (upp fram niður)
stíga (upp fram niður)
stútfullir svefnpokar
sjöunda sporið
sár sem gróa
sdansa
sæmd
sigur
Að ónefndur öllum Stínum, Siggum, Siddum, Sjonnum og Siljum þessa heims.

Ég segi það satt!

þriðjudagur, desember 16, 2014

Útburður

Útvarpspistill fór í loftið áðan. Textinn er að hluti til ennþá í dulvitundinni og þegar ég las þetta upp þurfti ég ítrekað að minna mig á að anda. Ekki gleyma að anda. En málefnið er brýnt: lestur, tungumál, bækur og hvernig við skynjum heiminn í gegnum bækur og hinn illi virðisaukaskratti. Byrjar á mínútu 26. Hljóðin frá sýningu Haraldar Jónssonar skapa andrúmsloftið. Hlustið líka á alla hina snilldina.

http://www.ruv.is/sarpurinn/vidsja/16122014

Það er sérstaklega ánægjulegt að  þátturinn skuli vera stútfullur af konum!!

mánudagur, desember 15, 2014

15. desember


,,Á afmælisdaginn minn er ég alltaf jafn hissa á því að ég skuli ná að verða eldri en mamma." Þetta sagði mamma við mig þegar ég hringdi í fyrra til að óska henni til hamingju með afmælið. Amma Fríða í Sandvík var 61 árs þegar hún lést og mamma virtist alltaf búast við því að hennar biðu sömu örlög. Hún talaði mjög blátt áfram og opinskátt um dauðann og alltaf brá mér jafn mikið þegar setning byrjaði á ,,Þegar ég dey, þá ..." og þá vildi ég frekar taka upp léttara hjal. Í þessu símtali fyrir nákvæmlega ári síðan vissum við hvorugar að í raun átti hún bara 36 daga eftir á lífi.

Mamma hélt alla tíð mikið upp á Björgvin Halldórsson og síðustu ár fór hún oft fögrum orðum um Mugison. Þetta lag fær því að hljóma til minningar um fallega og ljúfa konu.
laugardagur, desember 13, 2014

Um flækju ólíkra þráða

(Vikugamall flaumur)
Í eyrunum hljóma sögur sem Sun Kil Moon sönglar í einföldum laglínum og ég les mér til um náttúrufræðirit Jóns lærða og langar að komast beint í handritin og hugsa um að fá mér kaffi og læt hugann reika til sonarins sem bakar piparkökur í leikskólanum og dótturinnar sem prjónar bangsaföt í skólanum og svo reyni ég að gleyma ekki fegurðinni sem er fólgin í kyrrlátum snjóflyksum á trjágreinum og varða leið mína um gangstéttar þennan dag þar sem öllu ægir saman en það er ekkert nýtt, þetta er bara venjulegur dagur með óvenjutæran huga. Svona gerist margt í einu á sama tíma á mörgum plönum og sviðum og víddum. Ólíkir þræðir þjappast saman í flækju sem er í raun ekki flækja heldur lífið eins og það er. Dreymdi í nótt sápukúlugjörning með krakkahópi og enn einn morguninn vakna ég og man að mig dreymdi heilmikið, fullt af verkefnum með fullt af alls konar fólki en get ekki fyrir mitt litla líf munað neitt, bara andrúmið og að ég man að ég man. Um daginn sagði pabbi  mér að það er talið gott til upprifjunar á draumum að liggja alveg kyrr undir sænginni og hreyfa tærnar, þá komi draumarnir fram. Ég prufa stöðugt en ekkert gerist. Sveiflan kannski eitthvað vitlaus eða draumarnir búnir að gera sitt gagn, brjótast kannski fram í textum eftir mörg ár í öðru húsi. Stundum er líf mitt í litlum radíus, stundum stórum.(Nýrri flaumur)
Það er fátt jólalegra en Eyrarbakki í desember og unga stúlkan í sjoppunni staðfesti við mig í dag að Rauða húsið er meira veitingastaður en kaffihús og ég þakkaði pent fyrir mig og reyndi að renna ekki á hausinn á göngunni til baka með jólaöl, snakk, lakkríssúkkulaði og pestó í pokanum og öll þessu litlu sætu hús sem eru í þyrpingum hér og þar og svo fór framhjá krakkahópur á hestbaki og allir hestarnir með rauðar húfur og ég fór auðvitað upp á sjóvarnargarðinn en þá var fjara og sjórinn svo langt í burtu en sjóndeildarhringurinn jafn stór og síðast og þetta litla hús hér er algjör draumur svo gott að sofa í þögninni og hlusta eftir músum en engar mýs só far en húsið er fullkomið fyrir utan gítarinn sem vantar í þetta hús því fátt er betra en að hvíla lúnar skrifhendur með því að plokka strengi en ég get bara tekið minn eigin næst og svo gramsa ég í ljóðum og opnaði áðan nítján skjöl þar sem alls konar ljóð síðustu ára hafa dreift sér um tölvuna en ég rak út nefið rétt áðan því loftsteinar eru víst að hrynja til jarðar en sá ekki neitt fyrir skýjum en ég þarf að komast suður og held ég fari á morgun eða hinn ef veður leyfir því pabbi gamli er veikur og getur ekki svarað í síma og þá langar mig að mæta á staðinn og sitja hjá honum og njóta nærverunnar fór allt í einu að hugsa um það í dag hvort spegilfrumurnar okkur muni breytast eða hvort þær þjáist á nærveruskorti sérstaklega hjá staklingum sem hitta bara aðra í tölvum/símum en ekki raunheimum og þá svelta spegilfrumurnar eða breyta sér og aðlagast en ef ég hugsa betur um það þá hef ég bara talað í raunheimum í dag við eina manneskju en það er unga stúlkan í sjoppunni og ég hreinlega varð að spyrja hana út í Rauða húsið bara til að geta átt einhver samskipti við einhvern í raunheimi og leyfa spegilfrumunum mínum að starfa örstutt svo er nú það.


mánudagur, nóvember 24, 2014

Takk, kæru tónlistarkennarar!

Þið vitið það kannski öll en ég vil samt endurtaka (varúð smá prédikun): Tónlistin hefur heilunarmátt, lækningamátt og það að spila, semja og/eða njóta tónlistar eru gífurleg andleg verðmæti. Tónlistin fer nefnilega beint inn í líkamann og umbreytir frumunum (mín prívat kenning, órökstudd), sefar, huggar, kætir, grætir.

Í 10 ár fékk ég að læra á píanó og stúdera með því tónfærði, hljómfræði, tónheyrn og tónlistarsögu. Í einn vetur prufaði ég líka að læra á gítar. Þetta var í tónlistarskóla Sandgerðis og síðar í tónlistarskóla Keflavíkur. Síðan bættist við eitt ár í orgelnámi (gekk ekki alveg nógu vel) með tilheyrandi tónheyrn og kirkjutónlistarsögu.

Ég vil fá að þakka þessum kennurum fyrir að auka lífsgæði mín og auðga líf mitt:
Píanó: Margrét Pálmadóttir (1 vetur), Björg Ólínudóttir (1 vetur), Frank Herlufsen (margir vetur) og Guðmundur Magnússon (margir vetur).
Gítar: Þórarinn Björnsson
Orgel: Árni Arinbjarnarson
Ýmsar aðrar greinar: Oliver Kentish, Eiríkur Árni Sigtryggsson, Smári Ólason, Guðrún Tómasdóttir (tók smá söng í tónskóla þjóðkirkjunnar) og svo voru tímarnir hjá Þórarni Björnssyni í tónlistarsögu ógleymanlegir.Satt best að segja veit ég ekki hvar ég væri í dag ef ég hefði ekki fengið að glamra í öll þessi ár. Stundum skil ég ekki þolinmæðina sem mamma sýndi þegar ég tók Czherny æfingar dag eftir dag, viku eftir vikur og svo mánuðum og árum skipti. Dúrar og mollar í tveimur áttundum með brotnum hljómum og krómantískum skölum. Svo endaði ég ferilinn á toppnum þegar ég flutti fuglslega tónlist eftir Olivier Messiaen í 6. stigs prófinu.


Allt í einu er ég farin að naga mig í handabökin yfir því að hafa hætt en í dag glamra ég öðru hverju og dusta þá rykið af Tchaikovsky, Rachmaninoff og Bítlunum. Svo er voðalega gaman að finna hljómaganginn í Nick Cave lögum og pikka upp laglínuna. Færa það síðan yfir á gítarinn.Tónlistarkennarar vinna ómentanleg störf þar sem börn og fullorðnir fá að finna tónlistina á eigin skinni. Og læra að æfingin skapar meistarann og að agi, æfing og seigla gefa uppskeru. Vonandi þarf verkfall kennara ekki að dragast á langinn en stjórnvöld gera sér vonandi grein fyrir því að tónlistarkennarar eru upp til hópa mjög, mjög þolinmóðar týpur.


sunnudagur, nóvember 02, 2014

Nokkur orð um pistil, hafið, kaffi, rjóma og hugrásir, já og rokið góða

Ég held ég hafi verið svona hálft ár að skrifa þennan pistil í krækjunni, ef ekki lengur. Samt stakk ég fyrst niður penna fyrir um 2-3 vikum og þá spratt hann upp úr undirvitundinni. Hann hefði vel getað endað hér en birtist þar með dyggri aðstoð tveggja yfirlesara, það er svo mikil gjöf að fá yfirlestur:

http://www.hugras.is/2014/10/pistill-listin-ad-deyja-aftur-og-aftur/

Núna er hafið svo dökkblátt að það fer nánast út í svart en hvítar öldurnar í rokinu bæta það upp. Mig langar í kaffi, og rjóma, ætli öldurnar kalli á rjóma? Kjalarnesið ófært og veðurtepptingar (skrítið orð, varla segir maður veðurteppingar) boða komu jólanna og það er að byrja leikrit eftir 5 mínútur í útvarpinu, þá þarf kona að verða sér úti um kaffi og rjóma og leggja hendur í kjöltu og hlusta á rokið í heyrnatólunum og leyfa því að blása upp nýjum og gömlum hugsunum. Góðar stundir.

sunnudagur, október 19, 2014

Stuðlabergið í Breiðholti

Á sunnanverðu Snæfellsnesi er stór stuðlabergsveggur sem nefnist Gerðuberg. Stuðlaberg verður til þegar hraun kólnar á sérstakan hátt og klofnar niður í stöpla. Í Breiðholtinu er menningarmiðstöð sem ber sama nafn, Gerðuberg, og húsið minnir um margt á reglulegt mósaíkmunstur stuðlabergsins.Fyrir nokkrum árum bjó ég í Hjallahverfinu í Kópavogi og þá var oft styttra að sækja þjónustu yfir í Breiðholtið en í Hamraborgina (og mun færri hraðahindranir á leiðinni). Þess vegna fór ég að venja komur mínar á bókasafnið í Gerðubergi. Ég gekk reglulega í gegnum síbreytilegt sýningarrýmið í innganginum upp tröppurnar, með hönd dótturinnar í annarri hendi og fullan poka af bókum sem höfðu safnað sektum í hinni hendinni. Barnadeildin á bókasafninu var vinsæl og styttan af Grýlu nálægt afgreiðslunni vakti jafnan skelfingu dótturinnar. Stundum var staldrað við á kaffihúsinu og öðru hverju kom fyrir að við römbuðum á hverfishátíðir, leiksýningar eða sýningaropnanir. Myndlistarsýningarnar við innganginn vöktu alltaf eftirtekt og römmuðu inn komu og brottför (stundum þurfti að draga barnið út) og urðu jafnvel uppspretta fjörugra umræðna.

Smám saman áttaði ég mig á mikilvægi þessa húss og sá hvernig það slær eins og hjarta í miðju Breiðholtsins. Allt í einu þótti mér Breiðholtið skemmtilegur staður og fór að öfunda það fólk sem býr nálægt Gerðubergi því það er svo nálægt bókum og fjölbreyttri menninguna (og þar að auki með sundlaug í næsta húsi).
            
Spólum nú fram til dagsins í dag, eða næstum því. Í september spruttu fram starfsárabæklingar ólíkra menningarstofnana. Þar eru á ferðinni matseðlar vetrarins sem menningarþyrstir borgarbúar geta virt fyrir sér og valið úr af kostgæfni. Þetta eru stofnanir á borð við RÚV, Sinfóníuna, Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið og Tjarnarbíó. Í kringum nóvember/desember ár hvert þegar jólabókarflóðið er í hámarki birtast í blöðunum úttektir sérfræðingar á bestu og verstu bókakápunum. Þetta tíðkast víst ekki þegar kemur að dagskrárbæklingum. Þegar rennt er yfir starfsárabæklinga haustsins kennir ýmissa grasa og yfirleitt fléttast vel saman upplýsingagjöf í fallegri umgjörð myndefnis. Það kom skemmtilega á óvart að fá vetrardagskrá RÚV í einum bæklingi sem gefur áhorfendum/áheyrendum góða yfirsýn yfir starfsemina. Í bæklingaflóðinu sker bæklingurinn frá Gerðubergi sig hins vegar úr með mynd á forsíðunni af málverki eftir Katrínu Matthíasdóttir. Umbrotið er ólíkt öllum hinum, stórt plakat í stærð A2 sem er brotið í átta hluta eins og landakort.
Dagskráin í bæklingi Gerðubergs spannar ágúst til desember og þegar mest lætur eru alls 13 viðburðir í einum og sama mánuðinum. Þar eru fjórar gerðir af kaffihúsi: handverkskaffi, spilakaffi, bókakaffi og heimspekikaffi. Þar að auki eru jazztónleikar og klassískir tónleikar einu sinni í mánuði. Ólíkar myndlistarsýningar eru á tímabilinu, ýmsir fyrirlestrar sem tengjast bókmenntum og Café Lingua kynnir í hverjum mánuði eitt tungumál. Á fimmtudögum er fræðsla um ýmislegt eins og sjálfsrækt, foreldrahlutverkið, mannréttindi. Í gegnum tíðina hafa reglulega verið haldin Ritþing í Gerðubergi þar sem sjónum er beint sérstaklega að einum höfundi hverju sinni. Í október verður þingað um Jón Kalman Stefánsson.

Gerðuberg er ein af menningarstofnunum Reykjavíkurborgar og hefur verið starfandi í rúmlega 30 ár. Eins og þegar hefur komið fram er Borgarbókasafnið þar til húsi en líka félagsstarf eldri borgara. Kvæðamannafélagið Iðunn heldur þar fundi og Möguleikhúsið er reglulega með leiksýningar fyrir börn. Þarna mætast kynslóðirnar í húsi sem minnir um margt á mósaíkmunstur stuðlabergsins.

            
Í miðbænum er hvergi hús eins og Gerðuberg. Kannski getur aldrei orðið til hús eins og Gerðuberg í miðborg Reykjavíkur þar sem listagreinar hólfa sig niður í sérstök hús og allt er svo miklu stærra í sniðum en í einu úthverfi. Það er eitthvað alveg sérstakt við Gerðuberg sem er ekki til staðar annars staðar í borginni. Vantar okkur ekki fleiri Gerðuberg um alla borg, allt frá Grafarholti til Granda?

föstudagur, október 03, 2014

Sending

Í ljósi væntanlegs flóðs hefur Þórbergur þetta að segja um málið:

„Allar bækur eru góðar. Og allar bækur eru vondar. Engar bækur er allar góðar, og engar heldur allar vondar. Allar bækur eru bæði góðar og vondar eða vondar og góðar.“ (Einum kennt - öðrum bent)


Hann bað  mig um að koma þessu til skila og þá hef ég hér með staðið mína plikt.

Gleðileg flóð!

miðvikudagur, október 01, 2014

Undarlegt

er það hvernig dulvitundin starfar.

Fyrir mörgum árum skrifaði ég langa sögu um Sólrúnu, áttræða kerlingu sem fer á flandur. Við Sólrún tókum góðar rispur, vissum aldrei hvert við vorum að fara en vorum komnar langleiðina til Akureyrar þegar handritið fór ofan í skúffu.

Í fyrra skrifaði ég leikrit um Stefaníu, áttræða konu sem er komin á endastöðina (segi ekki meira).

Fór áðan að dansa með nokkrum góðum konum. Sagan um Stefaníu fór með mér í nokkra hringi, sveiflaðist til og allt í einu poppuðu upp spurningar:

* Er Sólrún Stefanía?
* Er Stefanía Sólrún?

Nú þarf ég að gramsa í skjölum, kíkja og lesa og spyrja Sólrúnu: ,,Hæ, heyrðu, ertu nokkuð Stefanía, seinna sko?" og svo spyr ég Stefaníu: ,,Hæ, afsakaðu truflunina, haltu bara áfram að dansa en getur verið að þú sért Sólrún, áður en þú endaðir hér?"

Síðan þarf ég að leggjast á meltuna og hlusta. HLUSTA á þessa veiku rödd sem muldrar á bak við þilið!

þriðjudagur, september 23, 2014

Af útlegð

Í lok ágúst ákvað ég að prufa nýja tegund af útlegð: Loka reikningnum á fésbókinni og sjá hvað gerist. Fyrsta daginn virkjaði ég óvart reikninginn aftur með því að kveikja á Spotify. Í snarheitum fór ég aftur inn á fésið og lokaði. Spotify var því út úr myndinni og youtube notað í staðinn. Síðan varð þögn, andvari.

Einbeitingin varð betri, ég fór að horfa á bíómyndir, lesa bækur og gera margt annað skemmtilegt. Nú fer að líða að því að ég skunda aftur inn á völlinn og þá verður mikið fjör. Stærsta áskorunin verður að fara ekki aftur í varðstöðuna (eða vaktavinnu í sjálfboðastarfi) - þ.e. vera alltaf á verði og fylgjast með og vakta og passa að maður missi örugglega ekki af neinu.

Hann er ótrúlega sterkur þrýstingurinn að nota þennan miðil. Á þessum mánuði hef ég til dæmis misst af ýmsum viðburður, tilkynningum, samtölum (sem er kannski bara allt í lagi) en það sem er sárast er að ég sé ekki myndir af syninum á leikskólanum. Reyndar varð þrýstingurinn svo mikill að ég þurfti að stofna alter ego til að taka þátt í tveimur hópum, ég hefði átt erfitt uppdráttar í skólanum ef ég hefði ekki gert það.

Ætla nú samt að lesa þessa úttekt vel áður en ég opna reikninginn:
https://www.linkedin.com/today/post/article/20140922010418-49573554-when-you-stop-checking-facebook-constantly-these-10-things-will-happen

Niðurstaðan er þessi:
Fésbókin er ekki samfélagsmiðill, hún er þjóðfélagsmiðill. Þegar ég loka reikningnum mínum er ég að miklu leyti að stimpla mig út úr íslensku samfélagi.

laugardagur, september 20, 2014

Smjörbaunapestó dagsins :-)

Mér er lífsins ómögulegt að fylgja uppskriftum. Brotaviljinn er yfirleitt mjög einbeittur og ef ég neyðist til þess (að fylgja uppskrift það er að segja) þá gerist það yfirleitt bara einu sinni því svo vil ég breyta hlutföllum, bæta nýju kryddi og gera tilraunir.Nú hafa pestóævintýrin leitt mig á nýjar brautir. Tók nýlega ástfóstri við smjörbaunir. Það er eitthvað alveg sérstaklega gott við þær. Útbjó áðan þennan gjörning sem smakkast guðdómlega (við undirleik First Aid Kit, mæli með því):

Soðnar smjörbaunir (tja, sirka fimm bollar, má vera meira)
Grænkál (slatti af blöðum)
Hvítlauksrif
Parmesan ostur (slatti)
Olía (namm)
Sítrónusafi

Allt maukað saman og svo gúffað í sig, smurt á brauð, slett yfir salatið, pastað og allt mögulegt. Spurning að smyrja þessu á kinnarnar og sjá hvað gerist.

Það er svo leiðinlegt að fylgja alltaf uppskrifum. Svo miklu skemmtilegra að prufa eitthvað nýtt, taka áhættu og þá getur allt orðið óætt en það er þess virði. Ég nálgast textagerð á nákvæmlega sama hátt, eða reyni það.