föstudagur, október 28, 2011

mánudagur, október 24, 2011

Af fjarveru þess hrímföla og tímagjafir

Rifjaði loksins upp hlaupahringinn í ljósaskiptunum áðan. Laufblöðin gáfu byr undir báða skó. Fannst alltaf eins og þessi hrímföli hlyti að hafa augun á mér en sá hann hvergi, bara fullt af starandi ljósastaurum. Annars minnir það mig alltaf á popp þegar ég heyri laufblöðin braka undir skónum. Popp löðrandi í salti.

Fann nýja merkingu í því að GEFA sér tíma til að... - gaf mér sem sagt flotta gjöf áðan og þáði.

laugardagur, október 15, 2011

Fjórir á Richter

Sat í stofusófanum kl. 09:45 í morgun og fann sófann hreyfast. Nokkrar hugsanir þutu í gegnum hugann og að lokum komst ég að þeirri niðurstöðu að líklegast hefði þetta verið jarðskjálfti, sem reyndist rétt.

Það fyndna er hins vegar að ég hef tvisvar áður upplifað jarðskjálfta (reyndar mun stærri en þennan) og í öll þessi þrjú skipti er fyrsta hugsunin alltaf jafn furðuleg. Árið 2000 hugsaði ég á Árbæjarsafninu: ,,Hvaða trukkur er þetta?" árið 2008 hugsaði ég í vinnunni ,,Ég er að skrá lag eftir Megas, best að koma sér í skjól" en núna var fyrsta hugsunin sem poppaði upp: ,,Hvað er páfagaukurinn að gera?"

föstudagur, október 14, 2011

Sleipir fiskar


Er í fyrsta skipti að þýða af einhverri alvöru. Glími við óskiljanlegan fræðitexta eftir George Steiner um "The Hermeneutic Motion" og reyni að koma honum yfir á skiljanlega íslensku. Kannski verða allar þýðingar léttar héðan í frá?

Hugsa stöðugt þessa vikuna:
Ég á að vera í Frankfurt
Ekki lafmóð að draga orð eins og netadræsur á íslenska fjöru
Ég á að vera fluga á vegg í Frankfurt
í bókahillu
ljósmyndaðri

(Fann myndina á þessari síðu: http://www.flickr.com/photos/hallur/page29/ (verður maður ekki að passa upp á höfundarréttinn?))