þriðjudagur, nóvember 29, 2011


Í dag verð ég á opnum báti í brimróti orða
Langt yfir utan ystu strandir
Eys kjölvatni úr kinnungnum

Lokaskil á morgun

laugardagur, nóvember 05, 2011


Í gær mætti ég of seint í tíma, út af ljóði.

Það er eftir Pétur Gunnarsson.

föstudagur, nóvember 04, 2011

föstudagur, október 28, 2011

mánudagur, október 24, 2011

Af fjarveru þess hrímföla og tímagjafir

Rifjaði loksins upp hlaupahringinn í ljósaskiptunum áðan. Laufblöðin gáfu byr undir báða skó. Fannst alltaf eins og þessi hrímföli hlyti að hafa augun á mér en sá hann hvergi, bara fullt af starandi ljósastaurum. Annars minnir það mig alltaf á popp þegar ég heyri laufblöðin braka undir skónum. Popp löðrandi í salti.

Fann nýja merkingu í því að GEFA sér tíma til að... - gaf mér sem sagt flotta gjöf áðan og þáði.

laugardagur, október 15, 2011

Fjórir á Richter

Sat í stofusófanum kl. 09:45 í morgun og fann sófann hreyfast. Nokkrar hugsanir þutu í gegnum hugann og að lokum komst ég að þeirri niðurstöðu að líklegast hefði þetta verið jarðskjálfti, sem reyndist rétt.

Það fyndna er hins vegar að ég hef tvisvar áður upplifað jarðskjálfta (reyndar mun stærri en þennan) og í öll þessi þrjú skipti er fyrsta hugsunin alltaf jafn furðuleg. Árið 2000 hugsaði ég á Árbæjarsafninu: ,,Hvaða trukkur er þetta?" árið 2008 hugsaði ég í vinnunni ,,Ég er að skrá lag eftir Megas, best að koma sér í skjól" en núna var fyrsta hugsunin sem poppaði upp: ,,Hvað er páfagaukurinn að gera?"

föstudagur, október 14, 2011

Sleipir fiskar


Er í fyrsta skipti að þýða af einhverri alvöru. Glími við óskiljanlegan fræðitexta eftir George Steiner um "The Hermeneutic Motion" og reyni að koma honum yfir á skiljanlega íslensku. Kannski verða allar þýðingar léttar héðan í frá?

Hugsa stöðugt þessa vikuna:
Ég á að vera í Frankfurt
Ekki lafmóð að draga orð eins og netadræsur á íslenska fjöru
Ég á að vera fluga á vegg í Frankfurt
í bókahillu
ljósmyndaðri

(Fann myndina á þessari síðu: http://www.flickr.com/photos/hallur/page29/ (verður maður ekki að passa upp á höfundarréttinn?))

laugardagur, mars 19, 2011

Af tónum

Það er alltaf jafn gaman að uppgötva nýja tónlist, og þar með nýtt andrúmsloft. Tvær nýjustu uppgötvanirnar sem ég vil koma út í heiminn eru Ray og Kalli.
Kalli heitir Karl Henrý Hákonarson og gaf nýlega út diskinn "Last train home" hjá Smekkleysu. Ótrúlega ljúfir tónar - hér er gott dæmi um flott lag. Mæli með þessum diski!

Svo er það Ray LaMontagne - hef verið að hlusta á fyrsta diskinn hans Trouble og líkar vel. Gaman að vita að ég á eftir að skoða 3 nýrri afurðir frá honum.
Hér er titillagið af Trouble. Og hulstrið er flott!

miðvikudagur, mars 16, 2011

Á vegi mínum


verður stundum eitthvað áhugavert. Um daginn rakst ég á orð sem vakti athygli mína. Gamalt hugtak sem reyndist nýtt fyrir mér. Þekkti það samt vel, eins og eitthvað forngrískt drif í huganum (drif eru mér ofarlega í huga þar sem drifskaftið fór undan bílnum í vikunni).

Rak nefið ofan í heimspekibók og fann þennan hressandi heilagraut sem slíkur lestur getur verið. Þar var minnst á Atlas heilkenni. Atlas fékk skipun frá Seifi um að bera heiminn á herðum sér. Margir kannast við þessa tilfinningu að bera heiminn á herðum sér. Þá er ótrúlega ljúft að leggja hann niður eða einfaldlega kasta honum frá sér eða sparka honum út í loftið. Heimurinn fer hvort eð er sjálfkrafa á sinn rétta stað í sólkerfinu.

laugardagur, mars 12, 2011

Af blaðabunka

Það vill svo til um þessar mundir að ég er bæði með áskrift að DV og helgaráskrift að Morgunblaðinu. Í gær hafði ég ekki tíma til að tæma póstkassann svo að blaðabunkinn var stór sem beið mín í morgun. Það tók nánast daginn að komast í gegnum dramað í DV, minningargreinarnir í Mogganum í gær og í dag, Fréttablaðið í dag og Fréttatímann í gær.

Niðurstaða dagsins er: Það er hámark samviskuseminnar að lesa allt sem lendir í póstkassanum!

föstudagur, mars 11, 2011

Er mál að mæla?


Ætli það ekki. Ýmislegt hefur á dagana drifið síðan í mars 2009. Merkast er að í september það sama ár fæddist Sölvi sem er núna 18 mánaða sólargeisli. Nokkrum vikum síðar skilaði ég BA ritgerð og lauk þar með íslenskunáminu, í bili. Nóvember það sama ár kom út bókin Svuntustrengur með örsögum og smásögum.

Á árinu 2010 las ég fullt af fyrirsögnum, þambaði kaffi, hélt eldheitar ræður um ástandið og pólitíkina yfir fjölskyldumeðlimum, naut mín í fæðingarorlofi, skrásetti smá tónlist sem hljómar um hvippin og hvappinn og margt fleira.

Nú er komið 2011 og tíminn teymir mig á eftir sér. Hef fyrir því haldbærar sannanir þegar aldurinn færist yfir þá hraðar tíminn sér.