sunnudagur, febrúar 25, 2007

1. sunnudagur í föstu


Fjólublámi í loftinu. Tími Passíusálma fram að fyrsta sunnudegi eftir fyrsta fulla tungl eftir vorjafndægur. Reiknið nú!

föstudagur, febrúar 16, 2007

Bókaormur kemst í kálhaus

Loksins loksins náði ég að klára Rigningu í Nóvember eftir Auði Ólafsdóttur. Skemmtileg og vel skrifuð bók. Ég hef í langan tíma ætlað að lesa þessa bók en alltaf hafa skólabækur og annað dundur staðið í vegi fyrir því.



Í kjölfarið var plastið rifið af annari bók sem hefur prýtt hillur mínar í eitt ár. Loksins loksins kemst ég í Karitas án titils en ég hef heyrt marga lofsama þá bók, eins og hún snerti einhverja strengi í hjörtum fólks. Fyrsti kaflinn lofar góðu og Kristín er fantagóður og þéttur penni.


Síðast en ekki síst er ég að lesa þessa sjálfshjálparbók eftir John Bradshaw í íslenskri þýðingu. Og geri merkilegar uppgötvanir í hverri setningu. Bók sem mig grunar að hafi valdið þöglum byltingum í lífi margra.

föstudagur, febrúar 09, 2007

Útkoma

Út eru komnar tvær nýjar bækur hjá Nykri: Gárungagap eftir Emil Hjörvar Petersen og Oubliette eftir Kára Pál Óskarsson.
Fást í öllum betri bókabúðum.
Og í fórum skáldanna á afslætti, skyldir þú rekast á þá á förnum vegi.

sunnudagur, febrúar 04, 2007

Ocimum basilicum

Ljóðaupplestur Nykurs var hin besta skemmtun og gekk nokkuð vel að mínu mati. Reyndar finnst mér skelfilega ógnvekjandi að lesa sjálf en kemst í gegnum það með frösum eins og ,,stígðu inn í óttann", ,,engri áhættu fylgja engin mistök" og það besta er ,,slepptu tökunum á öðrum og skoðunum þeirra".

Það sem kætir mig mest er hve litskrúðugur Nykurinn er með ólíka einstaklinga og ólík skáld. Fjölbreytileikinn er styrkleiki og í þessari fullkomnu uppskrift hrópa ég ,,pant vera basilíkan!!!". Þessa dagana er basilíka uppáhalds kryddjurtin mín og fær að fljóta með í alla potta. Ég hef hafnað bragðgóðu tilboði um að vera hvítlaukssaltið í hópnum og held mig við basilíkuna (einær jurt af varablómaætt). Þau ykkar sem hafið ekki smakkað basilíku skuluð gera það strax!