fimmtudagur, júlí 21, 2005

Guð gaf mér mann eftir að þessi 50 orða örsaga var samin

Rif úr síðu minni

Mig vantar rjóðan mann sem segir kinnroðalaust sögur úr fornum bókum. Spilar á harmoníku fyrir hrútana og dansar af mér skóna undir hlöðuvegnum. Grætur yfir dauðu flugunum á mykjuhaugnum og óförum Helgu fögru. Ég tek rif úr síðu minni, sveifla því eins og slöngu og hrópa: ,,Guð, gefðu mér mann!"

(og teljið nú!!)

föstudagur, júlí 15, 2005

Í kjarna mannkynsins eru bústnar konur og tannlausir karlar

Í gegnum aldirnar hefur ekkert breyst, þrátt fyrir iðnbyltinguna, sjálfstæði, stríð og uppskerubresti. Bústnar konur hafa alltaf ruggað sér eins í lendunum og tannlausir karlar snýtt sér af krafti. Sá hlymur ómar um aldir.

Þegar ég les skáldverk

býð á höfundinum sæti í sófanum, býð honum kaffi sem hann afþakkar af kurteisi (svo ég slepp við að setja bolla á borð fyrir gest sem aðrir sjá ekki) og síðan ræði ég málin við skáldið um verkið, um setningar, samhengi orðanna og dálæti mitt á lífleika persónanna. Og skáldið er ekkert nema eyru þar sem ég tala í stuðluðum stökum og lausbundnum rímum.

Fúga í c-moll

Einu sinni dreymdi mig um að leggjast yfir formgerð fúgunnar og skrifa síðan sögu í sama stíl. Margradda söng sem skiptist á stefjum. En ég lét þar við sitja, að detta þetta í hug.
Hvenær ætli einhverjum detti í hug að semja blogg-tónverk með því að taka upp á band upplestur af þúsundum bloggsíðna á öllum heimsins tungum og spila síðan allt kraðakið þar sem hömrun á lyklaborð slær taktinn. Yrði gott sýnishorn af nútímanum: gargandi geðveiki!

Leynibloggarinn!!

Ég hef ekki sagt neinum frá þessu bloggi mínu. Fer samt annars lagið inn á síðuna til að athuga hvort einhver hafi gert athugasemdir við orð mín. Eins og ég leiti að staðfestingu á því að einhver lesi þetta, eða að enginn lesi þetta. Kann ekki að setja upp teljara - kann bara að pikka á lyklaborð. Í hvert sinn sem ég set inn færslu hugsa ég ,,Hana hér, nú skrifa ég á hverjum degi, því ekki nennir fólk að lesa færslulausa síðu, gamlar fréttir" og síðan hraðspólar klukkan og ég ranka aftur við mér mörgum vikum síðar. Var að hugsa um að dæla inn gömlum prósum og brotum úr örsögum (örbrotum).

Þokumóða við ströndina

Það var þokumóða við ströndina þegar hann gekk frá sjoppunni í verbúðina. Sjávarmistur við landganginn þegar hann færði töskuna frá þreyttu höndinni yfir á þá sprækari. Og svo aftur til baka. Það sem átti að vera ein vertíð í litlu þorpi, eitt ævintýri áður en landshlutaflakk hæfist, varð að fimmtíu árum í þessu þorpi. Súlka, eiginkona, barn, hús og grafa. Fimmtíu ár af vinnu, með fjallið yfir sé og þokumóðu í nösunum, á stöku stað.
Þetta vissi hann ekki þegar hann gekk yfir í verbúðina og hugsaði að nú þyrfti hann að venjast því að hafa fjall austan megin við sig, ekki vestan, og haf vestan megin við sig, ekki austan. Og þokumóðan minnti á heimaslóðir en seinna, fimmtíu árum síðar, vissi hann sem er: þoka er óalgeng í þessum landshluta.