sunnudagur, desember 23, 2012

Heimsendir í útvarpstækinu

Ég verð stöðugt þeirrar gæfu aðnjótandi að fá bíl með annað hvort biluðu eða skrítnu útvarpi. Þannig að úr verður að ég stafla geisladiskum í bílinn og hlusta á þá. Þessa aðventuna hefur Chet Baker fengið að óma um rennireiðina og skapað óvænta jólastemningu með sinni mjúku rödd. Þegar frumburðurinn óx úr grasi tók ég uppeldishlutverkið svo alvarlega að í bílnum ómaði stöðugt Útvarp Latibær en núna er ég blessunarlega laus við það gól og el börnin í staðinn upp með Tom Waits, Fleet Foxes og Oscar Peterson. Átta ára dóttirin á nú þegar uppáhalds lag á nýjasta disknum með P J Harvey. Í sumar ómaði úr aftursætinu oftar en ekki ósk um Pítuson frá þeim þriggja ára.

Í ljósi þess að ég hef eytt haustinu í að skoða leikrit og rembast eins og jólarjúpa við að skrifa nokkur slík fannst mér þessi klausa úr laginu ,,Not for me" með Chet Baker algjör snilld:


With love to lead the way
I've found more clouds of grey
than any Russian play could guarantee




Annars ætlaði ég að skrifa eitthvað viturlegt um heimsendi. En veit ekki hvað skal segja. Þegar dóttirin hringdi í angist til mín vegna yfirvofandi heimsendis þá sannfærði ég hana um að hann yrði ekki. Beit síðan í tunguna og vonaði heitt að ég gæti staðið við stóru orðin. Er ekki annars nokkuð hressandi að fá góða áminningu um að allt getur endað, einn daginn? Eilífðin er kannski bara þreytandi til lengdar. Það virðist líka fylgja okkur mannfólkinu að vilja vita allt fram í tímann, og þá látum við smámál eins og heimsendi ekki fara framhjá okkur. Eitt hefði ég hins vegar getað lofað dótturinni (en gleymdi því alveg) en það er að heimurinn mun breytast. Heimsmyndir breytast og enda. Á hverri mínútu deyr fólk sem var heimur út af fyrir sig. Þannig að með flókinni fabúleringu er hægt að færa góð rök fyrir því að heimsendir hafi orðið þann 21. des. Heimsendir verður á hverjum degi. Oft á dag.

Og á eftir heimsendi kemur jólaljósið. Þið fáu kuldastrá sem lítið hér inn, við ykkur hef ég bara eitt að segja: Gleðilegt jól!


laugardagur, desember 08, 2012

Lýst er eftir einfaldleikanum - síðast sást til hans í miðasölunni á BSÍ




Fæ reglulega sent í tölvupósti gullkorn dagsins og þar kennir ýmissa góðra grasa. Í október kom þetta: „Einfaldleiki er að sjá fegurð í því ósvikna í lífinu og hrífast ekki af sýndarmennsku".

Í kjölfarið fór ég að velta fyrir mér sýndarmennsku og hvað felst í henni. Í grunninn snýst sýndarmennska um að fela eða breiða yfir ákveðna hluti hjá sjálfum sér og draga fram eða ýkja aðra til að stýra áliti annarra og reyna að líta vel út í augum annarra. Hins vegar held ég að sýndarmennska geti laumað sér auðveldlega inn hjá manni t.d. þegar maður vafrar um og tjáir sig á fésbókinni og ég tala nú ekki um bloggið. Allt snýst þetta um framsetningu á sjálfinu og þá er spurning hvort framsetningin sé einhver önnur í vefheimum og raunheimum. Er maður kannski stöðugt að setja sjálfan sig á svið? Sýndarmennskan er út um allt í auglýsingadoðanum og lekur inn um minnstu glufur.

Kannski er eina leiðin til að komast undan sýndarmennskunni að vera sannur/sönn í kjarna sínum og leyfa heiminum að sjá mann eins og maður er með sinn sérstaka kokteil af kostum og löstum, brestum og bestum, styrkleikum og veikleikum. Eins og gullkornið segið „að sjá fegurð í því ósvikna í lífinu“ og þá þarf maður að leita hið ósvikna uppi og ákveða fyrir sig (ekki aðra eða heiminn) hvað er ósvikið og ekta. Með því að sækjast efir því sem er ekta færist maður sjálfkrafa í burtu frá sýndarmennskunni. Að sjá fegurð er líka afstaða og ákvörðun.


Ætla að rölta niður á BSÍ og taka næstu rútu sem stefnir á ósvikna ekta-landið. Það er svo gott að sitja í rútu. Í hvaða veðri sem er. 

Rútan mun fara beint upp að dyrum að heimili mínu og fegurðin verður bæði þar og hér. Einfalt.