þriðjudagur, ágúst 14, 2012

Örnefnaskrá hin nýja

Þegar síðsumarið læðist að manni í vaxandi hauströkkrinu birtist ný örnefnaskrá sem minnir á liðið sumar.

Suður af eldhúsvaskinum eru þurrkuð birkilauf í dalli sem minna mig á Birkitrén við Engihjalla.

Í hánorður út frá eldhúsborðinu eru tvær krukkur í skáp. Önnur er með Blóðberg frá Hamarsfirði og hin með Vallhumal frá Eggertsgötu. Sunnan við það kúra kartöflur frá Kjarrhólmanum í ísskáp en enn lengra í suður þar af situr þurrkaður þari í vasa sem hefur ferðast alla leið úr fjörunni við bæinn Urðarteig.

Þegar ég fór í fótabað í sumar við Maríuhöfn flæktist þari í peysunni minni sem nú prýðir baksýnisspegilinn í bílnum (sko þarinn, ekki peysan) og þess vegna hugsa ég svo oft um fótabað við aksturinn.

Svona ætla ég að taka sumarið með mér inn í veturinn og leyfa nýjum örnefnum að vekja minningar.

sunnudagur, ágúst 05, 2012

Solanum tuberosum

Krækti mér (bókstaflega) í nokkur jarðepli úr kartöflugarðinum áðan. Ég er ekki frá því að kærleikskveðjurnar sem útsæðið fékk í vor áður en moldinni var sópað yfir séu að skila sér.

Ef ég væri hagfræðingur mundi ég eflaust finna það út að kílóverðið á þessum kartöflum væri mun hærra en út úr búð. En það verður að taka með í reikningsdæmið ánægjuna sem hlýst af vappi um kartöflugarða. Að fara átta ferðir með vatnskönnuna eftir stígnum í grasi sem nær bráðum mjöðmum og sjá kvöldsólina leika við dansandi tré. Og lyktin...maður lifandi.

Henti alls konar í pott og úr varð svo góður réttur að hér fáið þið drög að uppskrift:

Slatti nýjar kartöflur
Ein stór gulrót (í bitum)
Hvítkál (í bitum)
Smá engifer
Slatti af pastaslaufum

Allt soðið í vatni
Vatninu helt af þegar soðið.

Kartöflurnar stappaðar í pottinum.
Slatti af kryddsmjöri
Meiri engifer
Smá karrý
Hálf dós af Sólskinssósu (fæst tilbúin í Bónus)

Gott að gúffa í sig yfir Ólympíuleikunum í sjónvarpinu!!

Bon appetit!

fimmtudagur, ágúst 02, 2012

Af Krísuvíkurleið

Stundum langar mann bara að tjá sig. Beint inn í tómið á þessu loftþétta neti. Þá biður egóið um eitthvað flott, eitthvað djúpt, eitthvað sniðugt og krassandi. En stundum (bara stundum) nær maður að dempa þetta freka egó, pakka því ofan í tösku og senda í næsta flug til Grænlands. En það kemur alltaf aftur. Taskan dúkkar alltaf uppi við útidyrahurðina og egóið laumar sér yfir þröskuldinn. Hefur ekki einu sinni fyrir því að sýna vegabréfið.

Það var ekki þetta sem ég vildi segja. Opnaði þetta til að tjá mig um Krísuvíkurleið. Mér finnst svo skemmtilegt hvað sú leið hefur náð að lauma sér inn í orðatiltæki og vona svo heitt og innilega að Vegagerðin geri þessa leið ekki auðvelda yfirferðar (kannski hefur það gerst nú þegar, hvað veit ég sem fer of sjaldan út af mínum slóða).

Um daginn sá ég fólk tjá sig á netinu um það hvað fólk er mikil fífl. En ég vildi segja ykkur, fólk er ekki fífl. Fólk er undursamlega fallegt. Fólk er nóg, núna. Við förum bara svo skemmtilegar Krísuvíkurleiðir í samskiptum. Og erum svo undursamlega skapandi þegar við flækjum þetta einfalda líf. Þá hafið þið það! (Ætlaði að setja inn mynd af draumkenndum fjöllum frá Krísuvík en Annie Hall heimtaði pláss)

miðvikudagur, ágúst 01, 2012