sunnudagur, ágúst 31, 2014

Vitundin dulda

sem starfar stöðugt í leyni eða undir yfirborðinu og á bak við ósýnilega himnu.Langar að vitna í stórmerkileg orð sem spruttu upp af síðum bókarinnar The Road Less Traveled eftir M. Scott Peck:

"Through a complex of factors, our conscious self-concept almost always diverges to a greater or lesser degree from the reality of the person we actually are. We are almost always either less or more competent than we believe ourselves to be. The unconscious, however, knows who we really are. A major and essential task in the process of one's spiritual development is the continuous work of bringing one's conscious self-concept into progressively greater congruence with reality." (bls. 250-251)

Bestu óskir um samslátt sjálfsvitundar, meðvitundar og undirvitundar, stöðuga harmóníu.

föstudagur, ágúst 29, 2014

Brotakennd drög að skýrslum


* Klukkan er 22:11 og bráðum komnir tveir sólarhringar síðan ég hætti á fésbókinni. Bráðum, bara bráðum, hætti ég að hugsa í fésbókar-statusum. Þegar ég sé eitthvað skemmtilegt, geri stórkostlega hluti eða heyri stórmerkilegar setningar þá sit ég á mér, útvarpa ekki á vegg heldur reyni að hemja mig. Sendi kannski gusu hingað.
* Klukkan er 22:16 og ég er að elda pasta. Þorskbitarnir og kartöflurnar (ásamt súkkulaðiáti) fyrr í kvöld dugðu ekki til.
* Ætli það sé hægt að lesa yfir sig? Borða yfir sig? Vera yfir sig? Er að velta fyrir mér þessu fallegu samsetningu að gera eitthvað ,,yfir sig".
* Þegar ég flutti fyrir nokkrum árum henti ég heilu stöflunum af glósum úr háskólanámi mínu. Í kvöld langaði mig að kíkja á nokkur námskeið (hefðbundið föstudagskvöld) og sá að ég hafði einmitt ekki hent þeim glósum.
* Fann möppur úr námskeiðum frá árinu 2001, bókmenntir fyrri alda og stefnur í bókmenntafræði. Glósutexta eftir Matthías Viðar um Guðberg Bergsson og Steinar Sigurjónsson. Textahefti frá Birnu Bjarnadóttur og Guðna Elíassyni. Hópvinnublöð ýmissa nemenda sem ég sé að ég hef kynnst síðar á lífsleiðinni (Fía, Hrafnhildur, Kolbrá, hæ!). Útkrotaða texta, ritgerðir og pælingar. Framandi eins og eftir aðra manneskju.
* Fyrr í dag varð mér hugsað um rúm í fjarlægu húsi og síðan hringdi pabbi þegar ég var í mjólkurkælinum í Bónus og fór að tala um þetta sama rúm.
* Hef undanfarið velt því fyrir mér hvort allt þetta mikla efni sem ég hef lesið í námi mínu og síðan gleymt séu glataðar vinnustundir. Hvort vitneskjan lúri djúpt í undirvitundinni eða sitji ofan á húðinni eins og ósýnilegt húðflúr. Flest af því sem ég hef lesið um ævina hef ég síðan gleymt.
* Klukkan er 22:22 og pastað fer að vera tilbúið. Ætla að gusa ólífuolíu á það með heimagerða pestóinu og einhverrri lífrænni baunablöndu. Ólífuolían mun bjarga heiminum einn daginn, tryggja mýkt liðamóta og sjálfsmildi í feitu hári.
* Verði mér að góðu!
* Já og þessi mynd dúkkaði upp þegar ég tæmdi myndavélina áðan. Veit ekki hvað ég var að hugsa. Eflaust einhver tenging við það þegar Sigurður Pálsson kennir ljóðagerð og byrjar á því að hvetja nemendur til að skrúfa frá krananum og undrast, skoða og sjá. Undur.
* Og svo setti ég líka parmesan ost á pastað. Man að í síðasta samtali okkar mömmu talaði hún um það hvað hún elskaði parmesan ost. Nú fæ ég mér ekki parmesan án þess að hugurinn hvarfli þangað.

fimmtudagur, ágúst 14, 2014

Vænghaf og hugarflug


Það er taugasálfræðilega áhugaverð blanda að skokka meðfram sjónum (helst í roki) með hrífandi tónlist í eyrunum. Mér finnst eins og ég hafi bloggað um þetta áður, svo merkilegt er þetta. Eitthvað furðulegt gerist þegar ég hreyfist í rýminu (súrefnisríku rými) og tónarnir flæða um líkamann og taktvissar hreyfingarnar setja hugann af stað. Ekki skal það bregðast að síðustu metrana þarf ég að gefa í af því að ný hugmynd hefur kviknað. Orðasamhengi og setningar hafa raðað sér upp á áhugaverðan hátt í takt við hugmyndina. Ný orð vilja tjá nýja hugsun. Um leið er ekkert nýtt undir sólinni. Þessar hugleiðingar kviknuðu rétt áðan:

Ég sit í flugvél sem tekur á loft. Hún hækkar smám saman flugið og brýst í gegnum skýin upp í himinblámann. Um leið og ljósið fyrir öryggisbeltin eru slökkt tilkynnir flugfreyjan í hátalaranum: ,,Kæru farþegar. Velkomin heim. Við tilheyrum himninum. Vinsamlegast losið öryggisbeltin. Hér er best að falla í frjálsu falli í faðm ástarinnar, þrárinnar eða Guðs. Því eins og Dante benti margoft á í paradísarkafla hins Guðdómlega gleðileiks þá eru himnarnir fullir af ást. Þeir eru fullir af okkur, núna, við erum ást. Allt er ást. Losið ykkur úr fjötrunum, standið upp og látið ykkur falla. Velkomin heim."

Þannig er það nú.