þriðjudagur, september 23, 2014

Af útlegð

Í lok ágúst ákvað ég að prufa nýja tegund af útlegð: Loka reikningnum á fésbókinni og sjá hvað gerist. Fyrsta daginn virkjaði ég óvart reikninginn aftur með því að kveikja á Spotify. Í snarheitum fór ég aftur inn á fésið og lokaði. Spotify var því út úr myndinni og youtube notað í staðinn. Síðan varð þögn, andvari.

Einbeitingin varð betri, ég fór að horfa á bíómyndir, lesa bækur og gera margt annað skemmtilegt. Nú fer að líða að því að ég skunda aftur inn á völlinn og þá verður mikið fjör. Stærsta áskorunin verður að fara ekki aftur í varðstöðuna (eða vaktavinnu í sjálfboðastarfi) - þ.e. vera alltaf á verði og fylgjast með og vakta og passa að maður missi örugglega ekki af neinu.

Hann er ótrúlega sterkur þrýstingurinn að nota þennan miðil. Á þessum mánuði hef ég til dæmis misst af ýmsum viðburður, tilkynningum, samtölum (sem er kannski bara allt í lagi) en það sem er sárast er að ég sé ekki myndir af syninum á leikskólanum. Reyndar varð þrýstingurinn svo mikill að ég þurfti að stofna alter ego til að taka þátt í tveimur hópum, ég hefði átt erfitt uppdráttar í skólanum ef ég hefði ekki gert það.

Ætla nú samt að lesa þessa úttekt vel áður en ég opna reikninginn:
https://www.linkedin.com/today/post/article/20140922010418-49573554-when-you-stop-checking-facebook-constantly-these-10-things-will-happen

Niðurstaðan er þessi:
Fésbókin er ekki samfélagsmiðill, hún er þjóðfélagsmiðill. Þegar ég loka reikningnum mínum er ég að miklu leyti að stimpla mig út úr íslensku samfélagi.

laugardagur, september 20, 2014

Smjörbaunapestó dagsins :-)

Mér er lífsins ómögulegt að fylgja uppskriftum. Brotaviljinn er yfirleitt mjög einbeittur og ef ég neyðist til þess (að fylgja uppskrift það er að segja) þá gerist það yfirleitt bara einu sinni því svo vil ég breyta hlutföllum, bæta nýju kryddi og gera tilraunir.



Nú hafa pestóævintýrin leitt mig á nýjar brautir. Tók nýlega ástfóstri við smjörbaunir. Það er eitthvað alveg sérstaklega gott við þær. Útbjó áðan þennan gjörning sem smakkast guðdómlega (við undirleik First Aid Kit, mæli með því):

Soðnar smjörbaunir (tja, sirka fimm bollar, má vera meira)
Grænkál (slatti af blöðum)
Hvítlauksrif
Parmesan ostur (slatti)
Olía (namm)
Sítrónusafi

Allt maukað saman og svo gúffað í sig, smurt á brauð, slett yfir salatið, pastað og allt mögulegt. Spurning að smyrja þessu á kinnarnar og sjá hvað gerist.

Það er svo leiðinlegt að fylgja alltaf uppskrifum. Svo miklu skemmtilegra að prufa eitthvað nýtt, taka áhættu og þá getur allt orðið óætt en það er þess virði. Ég nálgast textagerð á nákvæmlega sama hátt, eða reyni það.

miðvikudagur, september 17, 2014

Fruma í hljóðskúlptúr

Þannig líður mér núna.

Fyrir röð tilviljana (eða ekki) fékk ég í sumar að snara texta yfir á íslensku og lesa upp á hljóðsnældu (eða aðra betri græju, hljóðsnælda hljómar bara svo vel) og listakonan Agathe Simon tók allt saman og blandaði inn í alþjóðlegan hljóðskúlptúr sem er hluti af listagjörningi hennar sem tengist Antartíku.

Hér er skúlptúrinn:
http://www.agathesimon.com/?page_id=2544&lang=en

Merkilegt og mjög áhugavert listaverk þar sem hljóð, myndir og textar blandast saman í tilbúinni sögu um konu sem fer í sína hinstu för til Antartíku. Ferðadagbækur hennar (ímyndaðar) leika meðal annars stórt hlutverk og textarnir í hljóðverkinu koma úr þeim. Sýningin mun ferðast um heiminn og gaman væri að fá hana til Íslands.


Voila!

þriðjudagur, september 02, 2014

Rétt í þessu

var ég að tengja.

Eitthvað við þetta lag með Önnu Calvi minnir mig á Suede!


Og ég fór að hugsa að Anna væri kvenlega útgáfan af Suede en svo hugsað ég að kannski væri bara Suede karllæga útgáfan af Önnu og þó að þeir hafi komið á sjónarsviðið á undan (eftir því sem ég best veit) þá þýði það ekkert endilega að þeir séu fyrirmyndin. Kannski er Anna músan hans Bretts án þess að hann geri sér grein fyrir því. Kannski er Anna áhrifavaldurinn. Hér er til dæmis eitt gamalt og mjög gott með Suede (frábært crescendo þarna á ferðinni). Ég gleymi því seint þegar ég sá þetta í sjónvarpinu fyrir 20 árum.




Góðar stundir!!

pssst Anna kemur á Airwaves í ár :-)