þriðjudagur, desember 16, 2014

Útburður

Útvarpspistill fór í loftið áðan. Textinn er að hluti til ennþá í dulvitundinni og þegar ég las þetta upp þurfti ég ítrekað að minna mig á að anda. Ekki gleyma að anda. En málefnið er brýnt: lestur, tungumál, bækur og hvernig við skynjum heiminn í gegnum bækur og hinn illi virðisaukaskratti. Byrjar á mínútu 26. Hljóðin frá sýningu Haraldar Jónssonar skapa andrúmsloftið. Hlustið líka á alla hina snilldina.

http://www.ruv.is/sarpurinn/vidsja/16122014

Það er sérstaklega ánægjulegt að  þátturinn skuli vera stútfullur af konum!!

mánudagur, desember 15, 2014

15. desember


,,Á afmælisdaginn minn er ég alltaf jafn hissa á því að ég skuli ná að verða eldri en mamma." Þetta sagði mamma við mig þegar ég hringdi í fyrra til að óska henni til hamingju með afmælið. Amma Fríða í Sandvík var 61 árs þegar hún lést og mamma virtist alltaf búast við því að hennar biðu sömu örlög. Hún talaði mjög blátt áfram og opinskátt um dauðann og alltaf brá mér jafn mikið þegar setning byrjaði á ,,Þegar ég dey, þá ..." og þá vildi ég frekar taka upp léttara hjal. Í þessu símtali fyrir nákvæmlega ári síðan vissum við hvorugar að í raun átti hún bara 36 daga eftir á lífi.

Mamma hélt alla tíð mikið upp á Björgvin Halldórsson og síðustu ár fór hún oft fögrum orðum um Mugison. Þetta lag fær því að hljóma til minningar um fallega og ljúfa konu.




laugardagur, desember 13, 2014

Um flækju ólíkra þráða

(Vikugamall flaumur)
Í eyrunum hljóma sögur sem Sun Kil Moon sönglar í einföldum laglínum og ég les mér til um náttúrufræðirit Jóns lærða og langar að komast beint í handritin og hugsa um að fá mér kaffi og læt hugann reika til sonarins sem bakar piparkökur í leikskólanum og dótturinnar sem prjónar bangsaföt í skólanum og svo reyni ég að gleyma ekki fegurðinni sem er fólgin í kyrrlátum snjóflyksum á trjágreinum og varða leið mína um gangstéttar þennan dag þar sem öllu ægir saman en það er ekkert nýtt, þetta er bara venjulegur dagur með óvenjutæran huga. Svona gerist margt í einu á sama tíma á mörgum plönum og sviðum og víddum. Ólíkir þræðir þjappast saman í flækju sem er í raun ekki flækja heldur lífið eins og það er. Dreymdi í nótt sápukúlugjörning með krakkahópi og enn einn morguninn vakna ég og man að mig dreymdi heilmikið, fullt af verkefnum með fullt af alls konar fólki en get ekki fyrir mitt litla líf munað neitt, bara andrúmið og að ég man að ég man. Um daginn sagði pabbi  mér að það er talið gott til upprifjunar á draumum að liggja alveg kyrr undir sænginni og hreyfa tærnar, þá komi draumarnir fram. Ég prufa stöðugt en ekkert gerist. Sveiflan kannski eitthvað vitlaus eða draumarnir búnir að gera sitt gagn, brjótast kannski fram í textum eftir mörg ár í öðru húsi. Stundum er líf mitt í litlum radíus, stundum stórum.



(Nýrri flaumur)
Það er fátt jólalegra en Eyrarbakki í desember og unga stúlkan í sjoppunni staðfesti við mig í dag að Rauða húsið er meira veitingastaður en kaffihús og ég þakkaði pent fyrir mig og reyndi að renna ekki á hausinn á göngunni til baka með jólaöl, snakk, lakkríssúkkulaði og pestó í pokanum og öll þessu litlu sætu hús sem eru í þyrpingum hér og þar og svo fór framhjá krakkahópur á hestbaki og allir hestarnir með rauðar húfur og ég fór auðvitað upp á sjóvarnargarðinn en þá var fjara og sjórinn svo langt í burtu en sjóndeildarhringurinn jafn stór og síðast og þetta litla hús hér er algjör draumur svo gott að sofa í þögninni og hlusta eftir músum en engar mýs só far en húsið er fullkomið fyrir utan gítarinn sem vantar í þetta hús því fátt er betra en að hvíla lúnar skrifhendur með því að plokka strengi en ég get bara tekið minn eigin næst og svo gramsa ég í ljóðum og opnaði áðan nítján skjöl þar sem alls konar ljóð síðustu ára hafa dreift sér um tölvuna en ég rak út nefið rétt áðan því loftsteinar eru víst að hrynja til jarðar en sá ekki neitt fyrir skýjum en ég þarf að komast suður og held ég fari á morgun eða hinn ef veður leyfir því pabbi gamli er veikur og getur ekki svarað í síma og þá langar mig að mæta á staðinn og sitja hjá honum og njóta nærverunnar fór allt í einu að hugsa um það í dag hvort spegilfrumurnar okkur muni breytast eða hvort þær þjáist á nærveruskorti sérstaklega hjá staklingum sem hitta bara aðra í tölvum/símum en ekki raunheimum og þá svelta spegilfrumurnar eða breyta sér og aðlagast en ef ég hugsa betur um það þá hef ég bara talað í raunheimum í dag við eina manneskju en það er unga stúlkan í sjoppunni og ég hreinlega varð að spyrja hana út í Rauða húsið bara til að geta átt einhver samskipti við einhvern í raunheimi og leyfa spegilfrumunum mínum að starfa örstutt svo er nú það.


mánudagur, nóvember 24, 2014

Takk, kæru tónlistarkennarar!

Þið vitið það kannski öll en ég vil samt endurtaka (varúð smá prédikun): Tónlistin hefur heilunarmátt, lækningamátt og það að spila, semja og/eða njóta tónlistar eru gífurleg andleg verðmæti. Tónlistin fer nefnilega beint inn í líkamann og umbreytir frumunum (mín prívat kenning, órökstudd), sefar, huggar, kætir, grætir.

Í 10 ár fékk ég að læra á píanó og stúdera með því tónfærði, hljómfræði, tónheyrn og tónlistarsögu. Í einn vetur prufaði ég líka að læra á gítar. Þetta var í tónlistarskóla Sandgerðis og síðar í tónlistarskóla Keflavíkur. Síðan bættist við eitt ár í orgelnámi (gekk ekki alveg nógu vel) með tilheyrandi tónheyrn og kirkjutónlistarsögu.

Ég vil fá að þakka þessum kennurum fyrir að auka lífsgæði mín og auðga líf mitt:
Píanó: Margrét Pálmadóttir (1 vetur), Björg Ólínudóttir (1 vetur), Frank Herlufsen (margir vetur) og Guðmundur Magnússon (margir vetur).
Gítar: Þórarinn Björnsson
Orgel: Árni Arinbjarnarson
Ýmsar aðrar greinar: Oliver Kentish, Eiríkur Árni Sigtryggsson, Smári Ólason, Guðrún Tómasdóttir (tók smá söng í tónskóla þjóðkirkjunnar) og svo voru tímarnir hjá Þórarni Björnssyni í tónlistarsögu ógleymanlegir.



Satt best að segja veit ég ekki hvar ég væri í dag ef ég hefði ekki fengið að glamra í öll þessi ár. Stundum skil ég ekki þolinmæðina sem mamma sýndi þegar ég tók Czherny æfingar dag eftir dag, viku eftir vikur og svo mánuðum og árum skipti. Dúrar og mollar í tveimur áttundum með brotnum hljómum og krómantískum skölum. Svo endaði ég ferilinn á toppnum þegar ég flutti fuglslega tónlist eftir Olivier Messiaen í 6. stigs prófinu.


Allt í einu er ég farin að naga mig í handabökin yfir því að hafa hætt en í dag glamra ég öðru hverju og dusta þá rykið af Tchaikovsky, Rachmaninoff og Bítlunum. Svo er voðalega gaman að finna hljómaganginn í Nick Cave lögum og pikka upp laglínuna. Færa það síðan yfir á gítarinn.



Tónlistarkennarar vinna ómentanleg störf þar sem börn og fullorðnir fá að finna tónlistina á eigin skinni. Og læra að æfingin skapar meistarann og að agi, æfing og seigla gefa uppskeru. Vonandi þarf verkfall kennara ekki að dragast á langinn en stjórnvöld gera sér vonandi grein fyrir því að tónlistarkennarar eru upp til hópa mjög, mjög þolinmóðar týpur.


sunnudagur, nóvember 02, 2014

Nokkur orð um pistil, hafið, kaffi, rjóma og hugrásir, já og rokið góða

Ég held ég hafi verið svona hálft ár að skrifa þennan pistil í krækjunni, ef ekki lengur. Samt stakk ég fyrst niður penna fyrir um 2-3 vikum og þá spratt hann upp úr undirvitundinni. Hann hefði vel getað endað hér en birtist þar með dyggri aðstoð tveggja yfirlesara, það er svo mikil gjöf að fá yfirlestur:

http://www.hugras.is/2014/10/pistill-listin-ad-deyja-aftur-og-aftur/

Núna er hafið svo dökkblátt að það fer nánast út í svart en hvítar öldurnar í rokinu bæta það upp. Mig langar í kaffi, og rjóma, ætli öldurnar kalli á rjóma? Kjalarnesið ófært og veðurtepptingar (skrítið orð, varla segir maður veðurteppingar) boða komu jólanna og það er að byrja leikrit eftir 5 mínútur í útvarpinu, þá þarf kona að verða sér úti um kaffi og rjóma og leggja hendur í kjöltu og hlusta á rokið í heyrnatólunum og leyfa því að blása upp nýjum og gömlum hugsunum. Góðar stundir.

sunnudagur, október 19, 2014

Stuðlabergið í Breiðholti

Á sunnanverðu Snæfellsnesi er stór stuðlabergsveggur sem nefnist Gerðuberg. Stuðlaberg verður til þegar hraun kólnar á sérstakan hátt og klofnar niður í stöpla. Í Breiðholtinu er menningarmiðstöð sem ber sama nafn, Gerðuberg, og húsið minnir um margt á reglulegt mósaíkmunstur stuðlabergsins.



Fyrir nokkrum árum bjó ég í Hjallahverfinu í Kópavogi og þá var oft styttra að sækja þjónustu yfir í Breiðholtið en í Hamraborgina (og mun færri hraðahindranir á leiðinni). Þess vegna fór ég að venja komur mínar á bókasafnið í Gerðubergi. Ég gekk reglulega í gegnum síbreytilegt sýningarrýmið í innganginum upp tröppurnar, með hönd dótturinnar í annarri hendi og fullan poka af bókum sem höfðu safnað sektum í hinni hendinni. Barnadeildin á bókasafninu var vinsæl og styttan af Grýlu nálægt afgreiðslunni vakti jafnan skelfingu dótturinnar. Stundum var staldrað við á kaffihúsinu og öðru hverju kom fyrir að við römbuðum á hverfishátíðir, leiksýningar eða sýningaropnanir. Myndlistarsýningarnar við innganginn vöktu alltaf eftirtekt og römmuðu inn komu og brottför (stundum þurfti að draga barnið út) og urðu jafnvel uppspretta fjörugra umræðna.

Smám saman áttaði ég mig á mikilvægi þessa húss og sá hvernig það slær eins og hjarta í miðju Breiðholtsins. Allt í einu þótti mér Breiðholtið skemmtilegur staður og fór að öfunda það fólk sem býr nálægt Gerðubergi því það er svo nálægt bókum og fjölbreyttri menninguna (og þar að auki með sundlaug í næsta húsi).
            
Spólum nú fram til dagsins í dag, eða næstum því. Í september spruttu fram starfsárabæklingar ólíkra menningarstofnana. Þar eru á ferðinni matseðlar vetrarins sem menningarþyrstir borgarbúar geta virt fyrir sér og valið úr af kostgæfni. Þetta eru stofnanir á borð við RÚV, Sinfóníuna, Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið og Tjarnarbíó. Í kringum nóvember/desember ár hvert þegar jólabókarflóðið er í hámarki birtast í blöðunum úttektir sérfræðingar á bestu og verstu bókakápunum. Þetta tíðkast víst ekki þegar kemur að dagskrárbæklingum. Þegar rennt er yfir starfsárabæklinga haustsins kennir ýmissa grasa og yfirleitt fléttast vel saman upplýsingagjöf í fallegri umgjörð myndefnis. Það kom skemmtilega á óvart að fá vetrardagskrá RÚV í einum bæklingi sem gefur áhorfendum/áheyrendum góða yfirsýn yfir starfsemina. Í bæklingaflóðinu sker bæklingurinn frá Gerðubergi sig hins vegar úr með mynd á forsíðunni af málverki eftir Katrínu Matthíasdóttir. Umbrotið er ólíkt öllum hinum, stórt plakat í stærð A2 sem er brotið í átta hluta eins og landakort.




Dagskráin í bæklingi Gerðubergs spannar ágúst til desember og þegar mest lætur eru alls 13 viðburðir í einum og sama mánuðinum. Þar eru fjórar gerðir af kaffihúsi: handverkskaffi, spilakaffi, bókakaffi og heimspekikaffi. Þar að auki eru jazztónleikar og klassískir tónleikar einu sinni í mánuði. Ólíkar myndlistarsýningar eru á tímabilinu, ýmsir fyrirlestrar sem tengjast bókmenntum og Café Lingua kynnir í hverjum mánuði eitt tungumál. Á fimmtudögum er fræðsla um ýmislegt eins og sjálfsrækt, foreldrahlutverkið, mannréttindi. Í gegnum tíðina hafa reglulega verið haldin Ritþing í Gerðubergi þar sem sjónum er beint sérstaklega að einum höfundi hverju sinni. Í október verður þingað um Jón Kalman Stefánsson.

Gerðuberg er ein af menningarstofnunum Reykjavíkurborgar og hefur verið starfandi í rúmlega 30 ár. Eins og þegar hefur komið fram er Borgarbókasafnið þar til húsi en líka félagsstarf eldri borgara. Kvæðamannafélagið Iðunn heldur þar fundi og Möguleikhúsið er reglulega með leiksýningar fyrir börn. Þarna mætast kynslóðirnar í húsi sem minnir um margt á mósaíkmunstur stuðlabergsins.

            
Í miðbænum er hvergi hús eins og Gerðuberg. Kannski getur aldrei orðið til hús eins og Gerðuberg í miðborg Reykjavíkur þar sem listagreinar hólfa sig niður í sérstök hús og allt er svo miklu stærra í sniðum en í einu úthverfi. Það er eitthvað alveg sérstakt við Gerðuberg sem er ekki til staðar annars staðar í borginni. Vantar okkur ekki fleiri Gerðuberg um alla borg, allt frá Grafarholti til Granda?

föstudagur, október 03, 2014

Sending

Í ljósi væntanlegs flóðs hefur Þórbergur þetta að segja um málið:

„Allar bækur eru góðar. Og allar bækur eru vondar. Engar bækur er allar góðar, og engar heldur allar vondar. Allar bækur eru bæði góðar og vondar eða vondar og góðar.“ (Einum kennt - öðrum bent)


Hann bað  mig um að koma þessu til skila og þá hef ég hér með staðið mína plikt.

Gleðileg flóð!

miðvikudagur, október 01, 2014

Undarlegt

er það hvernig dulvitundin starfar.

Fyrir mörgum árum skrifaði ég langa sögu um Sólrúnu, áttræða kerlingu sem fer á flandur. Við Sólrún tókum góðar rispur, vissum aldrei hvert við vorum að fara en vorum komnar langleiðina til Akureyrar þegar handritið fór ofan í skúffu.

Í fyrra skrifaði ég leikrit um Stefaníu, áttræða konu sem er komin á endastöðina (segi ekki meira).

Fór áðan að dansa með nokkrum góðum konum. Sagan um Stefaníu fór með mér í nokkra hringi, sveiflaðist til og allt í einu poppuðu upp spurningar:

* Er Sólrún Stefanía?
* Er Stefanía Sólrún?

Nú þarf ég að gramsa í skjölum, kíkja og lesa og spyrja Sólrúnu: ,,Hæ, heyrðu, ertu nokkuð Stefanía, seinna sko?" og svo spyr ég Stefaníu: ,,Hæ, afsakaðu truflunina, haltu bara áfram að dansa en getur verið að þú sért Sólrún, áður en þú endaðir hér?"

Síðan þarf ég að leggjast á meltuna og hlusta. HLUSTA á þessa veiku rödd sem muldrar á bak við þilið!

þriðjudagur, september 23, 2014

Af útlegð

Í lok ágúst ákvað ég að prufa nýja tegund af útlegð: Loka reikningnum á fésbókinni og sjá hvað gerist. Fyrsta daginn virkjaði ég óvart reikninginn aftur með því að kveikja á Spotify. Í snarheitum fór ég aftur inn á fésið og lokaði. Spotify var því út úr myndinni og youtube notað í staðinn. Síðan varð þögn, andvari.

Einbeitingin varð betri, ég fór að horfa á bíómyndir, lesa bækur og gera margt annað skemmtilegt. Nú fer að líða að því að ég skunda aftur inn á völlinn og þá verður mikið fjör. Stærsta áskorunin verður að fara ekki aftur í varðstöðuna (eða vaktavinnu í sjálfboðastarfi) - þ.e. vera alltaf á verði og fylgjast með og vakta og passa að maður missi örugglega ekki af neinu.

Hann er ótrúlega sterkur þrýstingurinn að nota þennan miðil. Á þessum mánuði hef ég til dæmis misst af ýmsum viðburður, tilkynningum, samtölum (sem er kannski bara allt í lagi) en það sem er sárast er að ég sé ekki myndir af syninum á leikskólanum. Reyndar varð þrýstingurinn svo mikill að ég þurfti að stofna alter ego til að taka þátt í tveimur hópum, ég hefði átt erfitt uppdráttar í skólanum ef ég hefði ekki gert það.

Ætla nú samt að lesa þessa úttekt vel áður en ég opna reikninginn:
https://www.linkedin.com/today/post/article/20140922010418-49573554-when-you-stop-checking-facebook-constantly-these-10-things-will-happen

Niðurstaðan er þessi:
Fésbókin er ekki samfélagsmiðill, hún er þjóðfélagsmiðill. Þegar ég loka reikningnum mínum er ég að miklu leyti að stimpla mig út úr íslensku samfélagi.

laugardagur, september 20, 2014

Smjörbaunapestó dagsins :-)

Mér er lífsins ómögulegt að fylgja uppskriftum. Brotaviljinn er yfirleitt mjög einbeittur og ef ég neyðist til þess (að fylgja uppskrift það er að segja) þá gerist það yfirleitt bara einu sinni því svo vil ég breyta hlutföllum, bæta nýju kryddi og gera tilraunir.



Nú hafa pestóævintýrin leitt mig á nýjar brautir. Tók nýlega ástfóstri við smjörbaunir. Það er eitthvað alveg sérstaklega gott við þær. Útbjó áðan þennan gjörning sem smakkast guðdómlega (við undirleik First Aid Kit, mæli með því):

Soðnar smjörbaunir (tja, sirka fimm bollar, má vera meira)
Grænkál (slatti af blöðum)
Hvítlauksrif
Parmesan ostur (slatti)
Olía (namm)
Sítrónusafi

Allt maukað saman og svo gúffað í sig, smurt á brauð, slett yfir salatið, pastað og allt mögulegt. Spurning að smyrja þessu á kinnarnar og sjá hvað gerist.

Það er svo leiðinlegt að fylgja alltaf uppskrifum. Svo miklu skemmtilegra að prufa eitthvað nýtt, taka áhættu og þá getur allt orðið óætt en það er þess virði. Ég nálgast textagerð á nákvæmlega sama hátt, eða reyni það.

miðvikudagur, september 17, 2014

Fruma í hljóðskúlptúr

Þannig líður mér núna.

Fyrir röð tilviljana (eða ekki) fékk ég í sumar að snara texta yfir á íslensku og lesa upp á hljóðsnældu (eða aðra betri græju, hljóðsnælda hljómar bara svo vel) og listakonan Agathe Simon tók allt saman og blandaði inn í alþjóðlegan hljóðskúlptúr sem er hluti af listagjörningi hennar sem tengist Antartíku.

Hér er skúlptúrinn:
http://www.agathesimon.com/?page_id=2544&lang=en

Merkilegt og mjög áhugavert listaverk þar sem hljóð, myndir og textar blandast saman í tilbúinni sögu um konu sem fer í sína hinstu för til Antartíku. Ferðadagbækur hennar (ímyndaðar) leika meðal annars stórt hlutverk og textarnir í hljóðverkinu koma úr þeim. Sýningin mun ferðast um heiminn og gaman væri að fá hana til Íslands.


Voila!

þriðjudagur, september 02, 2014

Rétt í þessu

var ég að tengja.

Eitthvað við þetta lag með Önnu Calvi minnir mig á Suede!


Og ég fór að hugsa að Anna væri kvenlega útgáfan af Suede en svo hugsað ég að kannski væri bara Suede karllæga útgáfan af Önnu og þó að þeir hafi komið á sjónarsviðið á undan (eftir því sem ég best veit) þá þýði það ekkert endilega að þeir séu fyrirmyndin. Kannski er Anna músan hans Bretts án þess að hann geri sér grein fyrir því. Kannski er Anna áhrifavaldurinn. Hér er til dæmis eitt gamalt og mjög gott með Suede (frábært crescendo þarna á ferðinni). Ég gleymi því seint þegar ég sá þetta í sjónvarpinu fyrir 20 árum.




Góðar stundir!!

pssst Anna kemur á Airwaves í ár :-)

sunnudagur, ágúst 31, 2014

Vitundin dulda

sem starfar stöðugt í leyni eða undir yfirborðinu og á bak við ósýnilega himnu.



Langar að vitna í stórmerkileg orð sem spruttu upp af síðum bókarinnar The Road Less Traveled eftir M. Scott Peck:

"Through a complex of factors, our conscious self-concept almost always diverges to a greater or lesser degree from the reality of the person we actually are. We are almost always either less or more competent than we believe ourselves to be. The unconscious, however, knows who we really are. A major and essential task in the process of one's spiritual development is the continuous work of bringing one's conscious self-concept into progressively greater congruence with reality." (bls. 250-251)

Bestu óskir um samslátt sjálfsvitundar, meðvitundar og undirvitundar, stöðuga harmóníu.

föstudagur, ágúst 29, 2014

Brotakennd drög að skýrslum


* Klukkan er 22:11 og bráðum komnir tveir sólarhringar síðan ég hætti á fésbókinni. Bráðum, bara bráðum, hætti ég að hugsa í fésbókar-statusum. Þegar ég sé eitthvað skemmtilegt, geri stórkostlega hluti eða heyri stórmerkilegar setningar þá sit ég á mér, útvarpa ekki á vegg heldur reyni að hemja mig. Sendi kannski gusu hingað.
* Klukkan er 22:16 og ég er að elda pasta. Þorskbitarnir og kartöflurnar (ásamt súkkulaðiáti) fyrr í kvöld dugðu ekki til.
* Ætli það sé hægt að lesa yfir sig? Borða yfir sig? Vera yfir sig? Er að velta fyrir mér þessu fallegu samsetningu að gera eitthvað ,,yfir sig".
* Þegar ég flutti fyrir nokkrum árum henti ég heilu stöflunum af glósum úr háskólanámi mínu. Í kvöld langaði mig að kíkja á nokkur námskeið (hefðbundið föstudagskvöld) og sá að ég hafði einmitt ekki hent þeim glósum.
* Fann möppur úr námskeiðum frá árinu 2001, bókmenntir fyrri alda og stefnur í bókmenntafræði. Glósutexta eftir Matthías Viðar um Guðberg Bergsson og Steinar Sigurjónsson. Textahefti frá Birnu Bjarnadóttur og Guðna Elíassyni. Hópvinnublöð ýmissa nemenda sem ég sé að ég hef kynnst síðar á lífsleiðinni (Fía, Hrafnhildur, Kolbrá, hæ!). Útkrotaða texta, ritgerðir og pælingar. Framandi eins og eftir aðra manneskju.
* Fyrr í dag varð mér hugsað um rúm í fjarlægu húsi og síðan hringdi pabbi þegar ég var í mjólkurkælinum í Bónus og fór að tala um þetta sama rúm.
* Hef undanfarið velt því fyrir mér hvort allt þetta mikla efni sem ég hef lesið í námi mínu og síðan gleymt séu glataðar vinnustundir. Hvort vitneskjan lúri djúpt í undirvitundinni eða sitji ofan á húðinni eins og ósýnilegt húðflúr. Flest af því sem ég hef lesið um ævina hef ég síðan gleymt.
* Klukkan er 22:22 og pastað fer að vera tilbúið. Ætla að gusa ólífuolíu á það með heimagerða pestóinu og einhverrri lífrænni baunablöndu. Ólífuolían mun bjarga heiminum einn daginn, tryggja mýkt liðamóta og sjálfsmildi í feitu hári.
* Verði mér að góðu!
* Já og þessi mynd dúkkaði upp þegar ég tæmdi myndavélina áðan. Veit ekki hvað ég var að hugsa. Eflaust einhver tenging við það þegar Sigurður Pálsson kennir ljóðagerð og byrjar á því að hvetja nemendur til að skrúfa frá krananum og undrast, skoða og sjá. Undur.
* Og svo setti ég líka parmesan ost á pastað. Man að í síðasta samtali okkar mömmu talaði hún um það hvað hún elskaði parmesan ost. Nú fæ ég mér ekki parmesan án þess að hugurinn hvarfli þangað.

fimmtudagur, ágúst 14, 2014

Vænghaf og hugarflug


Það er taugasálfræðilega áhugaverð blanda að skokka meðfram sjónum (helst í roki) með hrífandi tónlist í eyrunum. Mér finnst eins og ég hafi bloggað um þetta áður, svo merkilegt er þetta. Eitthvað furðulegt gerist þegar ég hreyfist í rýminu (súrefnisríku rými) og tónarnir flæða um líkamann og taktvissar hreyfingarnar setja hugann af stað. Ekki skal það bregðast að síðustu metrana þarf ég að gefa í af því að ný hugmynd hefur kviknað. Orðasamhengi og setningar hafa raðað sér upp á áhugaverðan hátt í takt við hugmyndina. Ný orð vilja tjá nýja hugsun. Um leið er ekkert nýtt undir sólinni. Þessar hugleiðingar kviknuðu rétt áðan:

Ég sit í flugvél sem tekur á loft. Hún hækkar smám saman flugið og brýst í gegnum skýin upp í himinblámann. Um leið og ljósið fyrir öryggisbeltin eru slökkt tilkynnir flugfreyjan í hátalaranum: ,,Kæru farþegar. Velkomin heim. Við tilheyrum himninum. Vinsamlegast losið öryggisbeltin. Hér er best að falla í frjálsu falli í faðm ástarinnar, þrárinnar eða Guðs. Því eins og Dante benti margoft á í paradísarkafla hins Guðdómlega gleðileiks þá eru himnarnir fullir af ást. Þeir eru fullir af okkur, núna, við erum ást. Allt er ást. Losið ykkur úr fjötrunum, standið upp og látið ykkur falla. Velkomin heim."

Þannig er það nú.

þriðjudagur, júlí 15, 2014

Komið með föturnar,

hristið fram klútana, verið tilbúin með dælurnar, kæra starfsfólk á flugvellinum Charles de Gaulle. Börnin mín munu bráðum lenda og skjálfandi móðirin er tryllt af tilhlökkun og mun að öllum líkindum bresta í mikinn gleðigrát við að fá þau í fangið, þessa fallegu unga.



Framundan er nýr kafli í París :-)

mánudagur, júlí 14, 2014

Frelsi

Hér er Bastilludagurinn og í kvöld fer ég út að leita uppi flugelda. Merkilegur dagur og fallegir hestarnir sem töltu meðfram Signu fyrr í dag.

Fékk sting í hjartað og maginn fór á hvolf þegar herþoturnar tóku oddaflug yfir borgina í morgun. Svipað gerðist um daginn þegar hermenn með alvæpni stigu óvænt inn í metrólest. Fæ alltaf ælu í hálsinn þegar ég sé stríðsminjasöfn og upphafningu stríða. Hugsaði síðan: Það var rétt ákvörðun hjá mér að fæðast í herlausu landi.

Skil ekki fyrirbærið her og vopn. Eigum við möguleika á raunverulegu frelsi á meðan þessi fyrirbæri eru til á jörðinni?

fimmtudagur, júlí 03, 2014

Tíðarandinn

er skrítin skepna, ósýnilegur og allt um lykjandi, kannski eins og lykt sem ólík nef nusa uppi og finna ólíka lykt (ég elska reyndar svitalykt en það er efni í sér pistil). Ég hef verið að rekast á óþægileg og afhjúpandi orð sem ég tengi við tíðarandann og fésbókina og netheima og nútímann. Orðin eru ...

[Mynd af fiskineti og skrilljón föstum fiskum.]

Orðin eru: viðurkenningarþörf og sýniþörf. Og svo er hægt að blanda við það gægjuþörf og þá er komin fullkomin fésbókarhegðun (ég er sjálf á kafi í þessum hugminnkandi efnum og fóðra sýniþörfina hérna). Fjarskipti eru víst bara ein tegund af samskiptum og koma ekki í staðinn fyrir nærskipti (einmitt, nýtt orð). Um daginn ráfaði ég hér um göturnar og uppgötvaði að ég var að láta fésbókina skekkja sýn mína á heiminn. Mér fannst eins og allir væru að byrja saman, ættu trúlofunarafmæli eða brúðkaupsafmæli og hamingjusprengjur að sprynga einhvers staðar langt í burtu. Ég datt sem sagt í fómó-fár  (fomo: fear of missing out) og alls konar annað. Æ, ég veit ekki, ég bæði elska fésbókina og óttast hana. Áhrif hennar eru lúmsk.

[Mynd af straumþungri á.]

Hægt og sígandi breytast viðhorf og samhorf (já nýtt orð) og nærskiptin rýrna og við vöknum upp með næringarskort. Æ, ég skil ekki þessar flækjur en segi bara að lokum: Verum vakandi, við lifum á flóknum tímum.

miðvikudagur, júlí 02, 2014

Þessir dagar

Hef ekkert að segja, hér er sól og flóð af fólki sem ráfar um göturnar. Hími yfir leikriti, laga og færi til og breyti. Ég les upphátt, prufa hlutverkin til að átta mig á hljóminum og taktinum. Ef nágrannar sjá mig inn um gluggann þá furða þeir sig eflaust á þessum hamagangi og skjálftanum í stúlkunni þarna hinum megin. Svei mér þá held ég þurfi að panta leiklestur til að átta mig á þráðunum, áður en ég læt ræsa prentvélarnar (ef þetta er leikbært og prenthæft). Langar svo að hefja jaðarútgáfu leikrita, setja á bók texta í biðstöðu, texta sem eiga heima annars staðar og vilja lifna við, tímabundinn stjarfi.

Hingað kom með mér bókin Steingerð vængjapör eftir Tor Ulven. Fletti tvisvar af handahófi og kem tvisvar niður á sama ljóðið, leyfi því að fylgja hér (þýðandi er Magnús Sigurðsson):

Sittu hjá mér
vina, segðu frá

þeim dögum þegar

ég verð
ekki til.

þriðjudagur, júlí 01, 2014

Innblástur

kallar á fráblástur og svo er líka til áblástur. Af einhverri rælni datt ég inn í bíómyndina "Ashes and Snow" sem er eftir Gregory Colbert og frá árinu 2005. Reyndar er myndin hluti af myndlistarsýningu með ljósmyndum og nokkrum Haiku myndum. Ég mundi vilja sjá þessa sýningu á Íslandi (ef hún hefur ekki verið þar nú þegar og ég ekki tekið eftir því).

Hér er heimasíða listamannsins: https://gregorycolbert.com/

Ljóðræn mynd, svífandi, skynjandi um samband manna og dýra og flæði og snertingu og svo framvegavegis. Þegar ég fór að gramsa á netinu um þessa mynd rak það á fjörur mínar að tónlistarmaðurinn Jóhann Jóhannsson á tóna í myndinni. Þegar leið á myndina fór ég að kannast við mig. Undrastúlkan mín, hún Bat for lashes, notaði greinilega atriði úr myndinni í myndbandi við það lag hennar sem hefur veitt mér hvað mestan innblástur. Kannski af því tónarnir og orðin og allt andrúmsloftið er á margra faðma dýpi. Í undirdjúpunum er yfirborð sjávar eins og himinn. Hér er það:





Brauðmolaspeki dagsins er: Anda inn, inn, inn -  svo út.      Innblásumst.

mánudagur, júní 30, 2014

Jafnvægi í heimi hormónanna

Fyrir nákvæmlega 10 árum síðan sat ég oft í sófanum í Engihjallanum með lítinn stelpuunga á brjósti. Þá átti ég það til að kveikja á sjónvarpinu og HM í fótbolta var það eina sem var í boði. Yfirleitt get ég ekki setið kyrr undir svona leikjum, þarf að vaska upp eða ranka við mér að mæna út um gluggann. Ég sökk sem sagt inn í þennan heim fyrir 10 árum, sat kyrr og lærði að meta boltann. Fljótlega sá ég að allt getur gerst. Sá möguleiki skapar svo mikla spennu því allt getur gerst.

[Mynd af bolta á grasi.]

Núna heyri ég óminn af heimsmeistarakeppninni, sé veggjakrot um alla netheima, fréttamiðla, sjónvarpsskjái á veitingastöðum og hróp og köll. Að ekki sé talað um lætin þegar Alsírbúar vinna. Um daginn fögnuðu þeir/þau (virðast bara vera karlmenn) til kl. 3 um nóttina með gargi og bílflauti á Signubökkum. Fánar blöktu úr bílrúðum.

[Mynd af öskrandi körlum.]

Núna fer keppnin að ná hámarki og ég hef áhyggjur af ójafnvæginu sem þetta skapar í hormónaflæði heimsins. Í heiminum er núna allt of mikið af testósteróni, karlorkan tröllríður heiminum. Við þurfum jafnvægi, þurfum hlýju og blíðu og meira estrógen. Kvenorku. Á milli leikja þyrftu að vera beinar útsendingar frá brjóstagjöfum eða dansi. Það getur ekki verið gott að keyra karlhormónin upp í svona miklar öfgar. Samsetning hormóna stjórnar deginum okkar og er kokteill sem blandar sér saman sjálfur, í þeim hlutföllum sem æviskeiðið, tíðahringurinn eða eitthvað allt annað stjórnar.

[Mynd af blúndum og fjöðrum.]

Ég bið bara um estrógen á skjáinn, meira estrógen fyrir heiminn.

sunnudagur, júní 29, 2014

Rotturnar við Notre Dame

Ég á stefnumót kl. 1 í nótt. Ég á að mæta við hliðið hér úti. Þá munu tvær konur koma og fara með mér að skoða rotturnar við Notre Dame. Þegar ljósin sem lýsa upp kirkjuna eru slökkt koma þær víst á stjá í hundruðatali. Það verða myndavélar.

Í gærkvöldi fór ég á sýningu á stuttri heimildarmynd um leiðangur til Anartika en það er landsvæði sem tilheyrir engri þjóð og er sameign allra. Fékk snert af heimþrá við að sjá landslag og rok sem minnir á Ísland. Eftir sýninguna kom kona frá Suður-Afríku að okkur finnsku konunni og sagði: ,,Á 10 dögum ætlum við að gera verkefni um brúðkaup Jóhönnu af Örk. Hún giftist aldrei, við þurfum að láta hana giftast. Við þurfum að búa til kjól." Við hinar sögðum auðvitað ,,Já, fínt." Verkefnið er ennþá að leita sér forms og ekki víst að Jóhanna verði með áfram en rotturnar vilja komast að.

Þess vegna á ég stefnumót í kvöld. Það verður spennandi að sjá hvað gerist. Best af öllu er að rjúfa (þó ekki sé nema öðru hverju) einangrunina, hina lamandi einangrun, sem fylgir því að skrifa.

laugardagur, júní 28, 2014

Ágengar hljóðbylgjur, mörk og mildin ein

Fór á tónleika í gær. Þrjú hljóðfæri (held ég) og tveir flytjendur. Orgel, rafmagnssnúrur og dót á borði og ótrúlega fallegt lítið, spes og gamaldags rafmagnspíanó. Verkið var nánast einn samfelldur hljómur í klukkutíma. Ágengar hljóðbylgjur sem hjúpa. Til skiptis óþægilegt og svæfandi.

En vildi segja annað.

Ráfaði um daginn í kringum hjartakirkjuna á Montparnasse hæðinni og settist í lítinn garð. Þar voru stálpaðir krakkar að hlaupa um og leika sér. Þau voru að stríða hvert öðru, halda, þvinga, biðja um frelsi og ekki veita frelsi, setja mörk en ekki virða þau, læra að mörk eru ekki virt. Ég þekki svo vel svona leiki. Þeir virðast saklausir en mér finnast þeir stórhættulegir. Og þessi setning poppaði upp: Að setja ekki mörk eru ofbeldi gegn manni sjálfum - að virða ekki mörk er ofbeldi gegn öðrum.

Hitti börnin mín bara á netinu þessa dagana og sakna þeirra óendanlega mikið. Fæ að faðma þau um miðjan júlí og hlakka mikið til. Um daginn hringdi ég í dótturina og hún sagði: ,,Því miður er ég núna að borða svo ég get ekki talað við þig núna. Það er matartími." Ég verð sjaldan eins stolt og þegar dóttir mín setur mér mörk. Og ég virði þau. Mér finnst það eitt það mikilvægasta sem hægt er að kenna og læra: að setja mörk, halda mörk og virða mörk. Í því er fólgin bæði sjálfsvirðing og virðing gagnvart öðrum.

Já og svo er það mildin. Orðið sjálfsmildi dúkkar stöðugt upp í kollinum á mér. Og brosmildi. Í mildinni er mýkt. Þarf að melta mildina betur, tala eflaust meira um hana seinna.

föstudagur, júní 27, 2014

Hreyfing í rými

Í gærkvöldi stökk ég í Metró, þræddi mig frá línu eitt yfir á fjögur og stökk upp á yfirborðið í hverfi sem er allt öðruvísi en það sem ég bý í. Svolítið eins og að koma til annars lands. Við götuna sem ég fór eftir voru hárgreiðslustofur í röðum og inni á einni þeirra sátu allir makindalega, horfðu upp í loftið eða ofan í síma og hárlubbarnir um allt. Gólfið var loðið. En ég hélt áfram eftir götunni yfir í dansstúdíóið til að dansa 5 rytma dans. Dansaði í tvo klukkutíma með um 70 manns - við flæddum, spörkuðum, kýldum, hrisstum, svitnuðum og svifum um rýmið (finn ekki fleiri orð í augnablikinu, þau koma kannski á eftir). Allir hlógu, brostu og kannski féllu nokkur hljóðlát tár. Úr flæði yfir í stakkató yfir í kaós yfir í lýrík yfir í kyrrð. Það er næstum ekkert fallegra í heiminum en sjálfsprottinn dans. Þar sem líkaminn fær að taka yfir, rafboðin í höfðinu fá hvíld, og hreyfingin tekur völdin. Svo nauðsynlegt að losna úr viðjum rökhugsunar.

Dansinn kemur upprunalega frá Gabriellu Roth og hér er myndband sem útskýrir fyrirbærið:


Og svo er hægt að finna kennara um allan heim og stökkva á línu eitt yfir á fjögur, fara í jörðina og upp aftur, í flugvél, lest eða bíl og dansa. Dansadansa og dansa. Á eyjunni köldu er líka hægt að dansa - sjá hér: http://www.dansfyrirlifid.is/en/

Í ferlinu verður hreinsun, opnun, útrás og traust. Eitthvað óvænt, eitthvað nýtt. Hlýtt.

fimmtudagur, júní 26, 2014

Fögnum óreiðunni (nokkur orð um straum og kaós og forðun og þess háttar)

[Hér er mynd af húmkenndu landi.]

Hér í Frakklandi eru mánudagar Lundi og hvítvínið sem ég keypti um daginn heitir Saumur. Sem er næstum því Straumur. Straumur er saumfar þess sem flæðir. Vatn, rafmagn og kannski eitthvað fleira sem ég kem ekki auga á. Straumfar. Flæðistraumur.

[Mynd af árbakka, nokkur blóm.]

Í gær fór ég að tvo ólíka viðburði sem tengjast skrifum, útgáfu og bókum. Fyrst var það tveggja klukkutíma umræður útgefenda, kennara, umboðsmanns og bóksala um útgáfuheiminn og bóksölu. Einhver óljós forvitni rak mig af stað. Í salnum var fullt af alls konar fólki en þegar spurningarnar fóru að flæða um greindi ég örvæntingu og ótta. Fólk vildi vita hvað væri best að gera og vildi læra réttu trixin til að fá umboðsmann og svo útgáfu og svo líka góða sölu. Öskubuskuþráin. Spurningar komu fram eins og: Þarf höfundur að hafa heimasíðu? Hvernig er best að senda handritið til umboðsmanns? o.s.frv. Ég gekk út og þessi spurning spratt fram og ásækir mig enn: „Þurfum við að læra að þekkja strauminn til að geta fylgt honum? Þurfum við að fylgja straumnum? Er það list?“ Flæðistraumur.

[Mynd af rykugum straumbreyti.]

Hinn viðburðurinn var öllu ánægjulegri. Á efri hæðinni í bókabúðinni Shakespeare & Company var búið að raða upp stólum í örlitlu rými. Um er að ræða eldgamla og sögufræga bókabúð sem selur bækur á ensku og þær flæða upp um alla veggi. Flæðistraumur. Hillur og mublur eru eldgamlar og alveg sérstakur andblær þarna inni. Kathryn Heyman hélt fyrirlestur í klukkutíma undir yfirskriftinni „The Art & Carpentry of Fiction.“ (Kathryn er ástralskur höfundur). Skemmtilegur, fræðandi og gagnlegur fyrirlestur á margan hátt. Hún lagði upp helstu byggingaþætti hinnar hefðbundnu sögu með vilja persónunnar, bresti hennar, hindranir og bjargvættinum. Þættir sem ég held að sé gaman að þekkja en þarf líka að brjóta upp. Það sem ég hjó sérstaklega eftir var umfjöllun hennar um kaós. Hún sagði að líklegast þarf höfundurinn að ganga í gegnum sömu hluti og persónur hans, að á einhvern hátt muni það speglast. Og að kaós sé mjög mikilvægt í ferlinu þ.e. að persónan og höfundurinn missi algjörlega fótanna, sjái engan tilgang, missi von, missi tökin og upplifi algjöra óreiðu. Þegar persónan/höfundurinn kemst í gegn getur viðkomandi séð tilgang, jafnvel æðri tilgang, í ferlinu og hvernig allt hefur breyst. Í því samhengi benti hún á einhvern sem tók viðtöl við fólk sem fékk sjúkdóm og glímdi við veikindi og að þar væru þrjú atriði sem hver og einn þyrfti að fara í gegnum: 1. Fyrstu fréttir teknar inn en fólk ætlar samt að komast í gegn og þetta verði allt í lagi og hafi engin áhrif. 2. Algjört kaós og vonleysi. 3. Líður betur og sér tilgang með öllu saman, sér breytinguna sem reynslan hefur knúið fram. Það sé hins vegar mjög algengt að fólk fari beint frá fyrsta stiginu yfir á það þriðja og sleppi við óþægindin sem fylgir kaósinu. Hins vegar sýni rannsóknir að þessir sjúklingar eru lengur að ná sér andlega eftir veikindin heldur en þeir sem fóru í gegnum kaós. Áhugavert.

[Línur, strik, hringir, krass, flækja.]

Forðunarfíkn ýtir óreiðunni burt. En svo er spurning hvort það sé ekki líka einhver tegund af forðunarfíkn sem verður til þess að ég eltist við svona viðburði í stað þess að sitja kyrr og skrifa? Halda inn í óreiðuna, á móti straumnum. Merkilegt hvað tjáningarþörfin er misjöfn á milli daga og líka mismikil þörfin fyrir að varpa henni síðan út í rýmið, rúmið, tómarúmið, óreiðuna. Fögnum óreiðunni.