laugardagur, desember 31, 2005

fimmtudagur, desember 29, 2005

Óskar og bleikklæddu konuna

ætti að lesa í öldrunarstarfi kirknanna í Reykjavíkurprófastdæmum. Þá mundu þær öldruðu bleikklæddu konur sem jafnframt eru fyrrverandi glímukappar fá þá hugmynd að heimsækja barnaspítalann.

þriðjudagur, desember 27, 2005

Óskar og bleikklædda konan


var hin ljúfasta lesning. Komst ekki yfir í þriðja hlutann á þríleiknum eftir Erik-Emmanuel Schmitt þar sem jólin brustu á. Fékk tvær bækur í jólagjöf, annars vegar Sumarljós eftir Jón Kalman og hins vegar ævisögu Halldórs Laxness eftir Halldór Guðmundsson. Dembdi mér beint í Laxnesinn og tek Halldór með mér í rúmið þessi kvöldin. Verst hvað hann er feitur og þungur. Ævisagan er skemmtileg lesning og mikilvægt í fyrstu köflunum að höfundur minni mann á aldur skáldsins því maður fer ósjálfrátt að hugsa að hann sé um 30 ára þegar hann er í raun 19 ára. Af hverju var maður ekki svona unglingur? Lokaði sig af á afskekktu erlendu hóteli til að ljúka tveimur handritum - láta mömmu gömlu borga brúsann?? Þarf að ná að klára ævisöguna ásamt Sumarljósinu fyrir miðjan janúar því þá taka skólabækurnar yfirhöndina.

laugardagur, desember 17, 2005

Þreif áðan umgjörðina um jólamatinn

Hlustaði á suðaustan strekking í varpinu með hausinn í ísskápnum. Það skal ekki væsa neinn strekkingum um jólaölið og hrygginn í skápnum þegar stundin kemur. Þegar jötur heimsins dæsa yfir jöxlunum sem róta í þeim á hverjum degi. Og léttreykt, sykurbrúnuð hamingjan stígur úr varpinu með hugheilar kveðjur. Einu sinni á ári fær maður að heyra þetta spariorð ,,hugheilar" - ekkert hálfkák eða ,,hughálfar" neitt. Sem sagt ég ætlaði að fá mér bjór (þann eina sem til er í íbúðinni, væntanlega ekki sá eini í húsinu því hér búa hundruðir) og þrífa ísskápinn. En snerist síðan hugur og ákvað að þrífa hann að afloknu skyrdrykkjaþambi og fá mér síðan mjólkurglas með marmaraköku. Og lesa síðan bókina Óskar og bleikklædda konan (ef ég man titilinn rétt). Svona er maður orðinn ráðsettur kökufíkill.

Ég var einu sinni tónlistarnörd

Heillaðist af Messiaen og keypti ævisögu hans í erlendri bókabúð. Límdi upp á vegg mynd af honum þar sem hann stendur með alpahúfu í miðjum frönskum skógi að skrifa niður fuglasöng.
Gekk svo langt að kaupa viðtal við hann á geisladiski og þegar diskurinn var kominn í tækið kom í ljós að viðtalið fór fram á frönsku sem ég skildi lítið í.


Fór ein á tónleika sinfóníuhljómsveitar Bournemouth til að hlusta á Vorblót eftir Stravinsky, átti erfitt með mig því mig langað að hoppa úr sætinu og dansa. Rútan sem flutti mig á tónleikana var full af ellilífeyrisþegum með silfurgrátt hár í kollum. En þetta var fyrir rúmlega 10 árum síðan.

Og ég missti mig í brit-poppinu í kringum 1994-1997. Heillaðist af Elastica og fannst Justin Frischermann söngkonan ansi kúl, þar sem hún var þáverandi kærasta Damons í Blur og fyrrverandi hans Brett Anderson í Suede - ansi kúl stelpa. Hvað ætli hún sé að gera núna? Ætli Elastica sé ennþá til? Kannski er hún að troða upp í kvöld á pub í Sheffield, heimabæ Pulp.


Komst á snoðir um Kristin Hersh og uppgötvaði Blond on Blond og Desire með karlinum Bob. Að ógleymdu Waits æðinu sem hefur enn ekki hjaðnað. Hann átti afmæli 7. des síðastliðinn. Verst hvað mann langar alltaf í viskí þegar maður hlustar á hann. Og verst hvað ég og viskí eigum stutta en slæma sögu saman. Verst að mér finnst viskí ekkert sérstaklega gott.

Verst hvað hausinn á mér er fullur af gagnslitlum tónlistarupplýsingum.

þriðjudagur, desember 13, 2005

Hún stormaði um í sjóstormi við hafið

Hafdís bjó í litlu húsi við sjóinn og þar var alltaf rok. Græn málningin var byrjuð að flagna af húsinu og axlirnar á snúrunum farnar að síga undan þvottinum sem sveiflaði sér í rokinu á hverjum degi. Stundum náðu svunturnar að losa sig af snúrunum og flugu út á haf. Hún var þybbin með rauðar kinnar og bjúg á puttunum. Hárið var þykkt og sítt og féll niður á bak eins og gruggugur foss sem ýfðist upp í rokinu. Stundum leit hún upp frá þvottinum og horfði á sjóinn froðufella, brjótast um í bylgjunum og taka heljarstökk að landi. En það var sama hvað sjórinn reyndi, hann sogaðist alltaf til baka. Og á hverjum degi var rok, en henni var alveg sama því hún vann og hamaðist eins og stormsveipur með rauðar varir. Hún skrúbbaði, skúraði, eldaði og saumaði. Hún stormaði um í sjóstormi við hafið. Karlinn hennar hét Hafliði og var langur og mjór og fölur. Alla daga formælti hann rokinu og þorði ekki út því þá fauk hann um eins og fjöður. Og hann kallaði konu sína Hafdísarmey og sá hana stundum storma framhjá. En á kvöldin lokkaði hún hann til sín með söng sem rétt heyrðist í vindinum. Og Hafliði var vindbarinn og stormsleginn eftir faðmlögin hennar sem voru eins og litlar rokrákir. Því svo var hún hlaupin aftur til starfa. Stundum gat fokið í hana þegar hann neitaði að mála húsið. Hann vildi frekar horfa á hana út um saltþveginn gluggann og formæla rokinu. Og hann var ekki glaður daginn sem hún læsti hann úti með græna málningu. Þá faðmaði hann snúrustaurana og hrópaði á hjálp framan í vindgusurnar. ,,Við búum á síprumpandi hjara í einhverju rassgati," sagði hann og vildi flytja á betri slóðir. Röddin hennar yfirgnæfði rokið, hún hrópaði ,,nei!" og við það sat.
Tímarit Máls og Menningar, september 2005

fimmtudagur, desember 01, 2005

Af huldumanni


Það stefnir í að bókin Sumarljós og svo kemur nóttin eftir Jón Kalman Stefánsson verði jólabókin í ár frá mér til mín. Ég stökk hæð mína af gleði úr græna sófanum yfir Kastljósinu áðan þegar sú bók var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna enda höfundurinn fantagóður. Reyndar hafði ég stokkið nokkrum sekúndum áður yfir bókinni Hrafninn eftir Vilborgu Davíðsdóttur, það verður nýársgjöfin frá mér til mín í ár. En aftur að Jóni. Allt frá því að Sumarið bakvið brekkuna kom út hef ég reynt að lesa allt eftir hann enda heillaði sá bókaflokkur mig það mikið að ég gaf sjóaranum föður mínum allar bækurnar og hann kolféll fyrir Sumrinu og vitnaði í ,,ekkert er jafn sorglegt og skurðir í rigningu" og fleira spaklegt í heilt ár á eftir. Þegar ég síðan þurfti aftur að lesa bókina í íslenskunámi fór ég og keypti loksins bókina og þá sagði forleggjarinn mér að sígandi lukka bókarinnar kæmi á óvart þar sem höfundur hafði bannað að bókin yrði auglýst. Það þótti mér mjög virðingarvert í auglýsingahelvítinu sem allir virðast knúnir til að taka þátt í.