fimmtudagur, júní 29, 2006



Þá er búið að landa miða á Nick Cave í september, þökk sé Sólveigu vinkonu minni. Taugatitringur í nokkra mínútur en síðan mikil gleði!!

þriðjudagur, júní 27, 2006

Síðasta...



Bráðum hætti ég að feta í fótsport Einsteins. Og hætti að klóra mér í höfðinu yfir teikningum eins og þessari. Síðasta vinnuvikan og allt er ,,síðasta" eitthvað. Síðasti þriðjudagurinn, síðasti fundurinn, síðasti kaffisopinn... Og 8 ára uppsafnað drasl af pappír, tölvupósti, gulum miðum og bréfklemmum eiga hug minn allan.

föstudagur, júní 23, 2006

Krækja

Æ ég kann ekki að setja krækjur inn á síðuna. Set eina hér og hver veit nema fleiri komi síðar. Hér er bloggið hennar Díönu, hún er andlegur lærimeistari minn og ég mæli með pælingum hennar.

laugardagur, júní 17, 2006



Lauk lestri á Sumarljósinu eftir Jón Kalman fyrir stuttu, hef kvatt hópinn og keyrt út úr þorpinu. Ég er byrjuð að ráfa um Römbluna og fleiri götur í Barcelona í fylgd Skugga Vindsins.

föstudagur, júní 16, 2006

Vaktir



Áhugaverð vika að baki. Stóð vaktina síðasta laugardag í Kolaportinu og seldi mannflóru góss og glásir. Á mánudaginn fékk ég glimrandi góðar fréttir sem verða opinberaðar hér síðar. Sama dag fór ég í Landsbjargargalla og stóð vaktina fyrir framan Egilshöll. Fór síðan inn að sjá Roger Waters og til að komast alveg upp að sviðinu var ég í skærgulu vesti með orðinu ,,gæsla" - það var furðuleg staða. Waters var flottur en mér fannst verst að fá ekki að vera með snarkandi talstöð.
Það sem eftir lifði vikunnar fór í rigningasudda og vinnu. Pælingar feykirófunnar viðhalda stöðugu sumri í sálinni.

sunnudagur, júní 11, 2006

sunnudagur, júní 04, 2006

Yfirvarp



Hlustið á þetta (mæli með "I dont wanna grow up") við lesturinn.

Í gær fór ég með dótturina út á leikvöll og varð svo yfirmáta þakklát fyrir yfirvarpið sem ég hef núna. Get rólað til himna og æft stökkin á mölina. Gleymi mér í sandkassanum og missi mig í kökuskreytingar. Rifja upp þekkinguna á viðskiptafræðinni í búðarleikjum. Fæ aftur fiðringinn í eltingaleikjum. Sór þess eyð í rennibrautinni að hætta aldrei að leika mér, sama hversu ,,barnalegt" það þykir.

Hver veit nema ég smakki sand í næstu ferð?

fimmtudagur, júní 01, 2006

Hágæðagrilltangir



Þeim fækkar skiptunum sem ég hlusta á eitthvað annað en Útvarp Latabæ og þá hellist ótrúlegur fróðleikur til mín úr bílaútvarpinu. Heyrði í morgun að ef ég kaupi Toyota Corolla þá fylgir stór grillpakki með þar sem m.a. eru hágæðagrilltangir. Hvernig tangir ætli það séu? Fjarstýrðar? Eða með ljósi svo hægt sé að grilla í myrkrinu næsta vetur? Ég sökkvi mér ofan í ómerkilega auglýsingar þessa dagana, mæni á auglýsingaskilti og syndi um bloggheima - geri allt til að gleyma úrslitum kosninganna.