þriðjudagur, nóvember 29, 2005

Blikksmiðir í Edinborg

Já veisluhöldin og ferðalögin halda áfram. Það er ekki eins og maður sé illa haldinn, fátækur námsmaður þessa mánuðina slíkt er veldið á manni þessi misserin. Jú enn ein utanlandsferðin, núna til Edinborgar á árshátíðarferð rómaðrar blikksmiðju í bænum. Við skötuhjúin skulfum undan köldu skosku rigningunni og yljuðum okkur í flóðalýstum búðunum. Jólagjafirnar voru afgreiddar á einu bretti og Edinborgarkastali gnæfði yfir í öllum sínum ljóma. Niðurstaða að ferð lokinni: hingað kem ég aftur (að sumri til)!!! Nú gefst ég endanlega upp á því að setja inn myndir - hefur ekki tekist hingað til, rembdist við að setja flotta mynd af Esjunni við þann texta og mynd frá Búdapest við tilsvarandi texta þannig að mynd af Edinborgarkastala verður að bíða frekari færni í tölvuklambri af minni hálfu.

sunnudagur, nóvember 13, 2005

Að gleyma jöklum

Og veisluhöldin halda áfram. Í gærkvöldi fór ég á árshátíð í hjálparsveitinni minni. Hún var haldin í hlöðu og viðstaddir voru í lopapeysum með stórar og sterkar flöskur á borðum. Einn maður úr sveitinni sem er ýmist undir bílum að gera við, úti á bát eða uppi á fjöllum sat ofurölvi við borð og sagði í miðri frásögn ,,æ ég er búinn að drekka svo mikið að ég man ekki nafnið á jöklinum sem við fórum yfir" og var alveg miður sín. Þá er það svart, þegar maður er búinn að drekka frá sér nöfn á jöklum!!! Verst hvað það er langt síðan ég hef farið í almennilega gönguferð. Þessa dagana hreyfi ég mig ekki nema á milli bíls og húss og borða súkkulaði í tonnatali. Og kaffi, já og kaffi.

föstudagur, nóvember 11, 2005

Ferðin til Búdapestar

var draumi líkust. Ferðaðist með samstarfskonu minni á fyrsta farrými, gisti á flottu hóteli og sótti ráðstefnu um einkaleyfa-upplýsingar (gagnabanka og slíkt). Ráðstefnan var haldin á fimm stjörnu hóteli og fyrirlesararnir voru mjög formfastir í þeirri sterku hefð að standa við púltið og masa í hátalara, jafnvel með glærusýningu. Áhorfendur þurftu ekkert að gera annað en að hlusta. Í þeirri kennslufræði sem ég er að læra þykir fyrirlestrarformið dæmt til að mistakast, áheyrendur meðtaka ekki efnið vel og sofna fljótt - kannski á þessi áhersla ekki við um fullorðna. Allaveganna virðist hefðin festast harðar og harðar í kennsluaðferðum eftir því sem nemendahópurinn er eldri og lærðari. Fórum í leðruðum rútum í lögreglufylgd í þinghúsið í Búdapest og gengum um gyllta sali sem eru ólýsanlegir. Fengum endalaust góðan mat en lentum síðan á Slóvena sem útnefndi sig persónulegan leiðsögumann fyrir okkur um sögu Ungverjalands, Slóveníu og fleira. Hann var alltaf að segja okkur hvað ungverskar konur eru sérstaklega klárar að hugsa alltaf um fjölskylduna sína og sauma og prjóna (og ekki á flandri í útlöndum, langt frá heimili og börnum eins og við). Kvöldið í þinginu var himneskt enda ekki annað hægt þar sem brot af himnaríki var sitt í veggi og loft byggingarinnar. Næsta kvöld á eftir fórum við í fornri lest á stórt lestarsafn og átum á okkur gat ásamt um 4-500 manns af öllum þjóðernum - og allir áttu það sameiginlegt að fýla einkaleyfi (jéjéjé). Jazzbandið mynti mig á myndirnar hans Woody litla. Einhverra hluta vegna féllu fyrirlestrarnir alveg í skuggann fyrir matnum, vínunum og mannflórunni. Eftir að hafa borðar þríréttar í öll mál kastaði napur vindurinn mér að flugrútunni og heima tóku við bleyjuskipti (og auðvitað góð faðmlög) og skyr.

föstudagur, nóvember 04, 2005

Finnst þér ekki Esjan vera sjúkleg?

Sæbrautin fram og aftur. Tryggvi keyrir Sæbrautina fram og aftur á hverjum degi. Á bíl merktum fyrirtækinu og þegar hann bíður á rauðu ljósi við Höfðatún finnur hann hvernig spennan magnast. Í sama mund og hann beygir inn á Sæbrautina finnur hann traustið og haustið koma til sín af hafi. En hann segir þetta engum því tilfinningin er óræð og fálmkennd, úr tómu lofti gripin, af úfnu hafi fengin. Tryggvi endasendist eftir götunni í sendiför dagsins, á bíl merktum fyrirtækinu, og hún fylgir honum eftir alla leið. Eins og gestgjafi fylgir gesti sínum alla leið út að hliði, fylgir hún honum þar til hann beygir í suður. Og þá sér hann í baksýnisspeglinum hvernig hún dillar skottinu og hverfur lúpuleg bak við næsta hús.
Við aksturinn fer hann að hugsa og lætur hugann reika. Þá kemur að því einn dumbaðan rigningadag að hann veit að hún er tík sem spangólar við hafið. Hann er ekki fyrr kominn á Sæbrautina en hún mætir við hlið hans, lallar með honum með lafandi tunguna, gjóar til hans augunum annars lagið og lætur ekkert trufla sig í trausti sínu.
Og þegar dumbaði rigningadagurinn er að kvöldi kominn ýlfrar hún lágt undir lágnætti og þá veit hann að hún saknar hans nú þegar og mun flaðra upp um hann næsta dag. Því núna veit hún að hann veit.
Næsta dag smýgur einstaka sólargeisli í gegnum vindbarin ský. Hann þykist ekki taka eftir henni, blístrar í hina áttina, hækkar í útvarpinu og plokkar slummu úr nefinu. Þá urrar hún út í loftið, lyftir upp fæti og mígur yfir hann.
Esjan er tík.
Lesbók Moggans 22.1.2005