þriðjudagur, júlí 18, 2006



Ein af þeim mörgu gloríum sem ég hef fengið í gegnum tíðina var að kaupa Eyrbyggju á ensku til að slá tvær flugur í einu höggi - viðhalda enskunni og lesa íslendingasögu. Síðan þá hefur bókin legið ólesin í hillunni.
Klárað Skugga vindsins á Akureyri í síðustu viku og var mjög ánægð með bókina. Upplifði í miðju ferðalagi þann tómleika að hafa enga bók að leita til. Þegar ég er heima bölva ég öllum ólesnu bókunum sem taka tíma minn frá skriftum en þegar ég hef enga nærtæka þá er eins og eitthvað vanti. Byrjaði á Eyrbyggju (á íslensku) um leið og ég kom heim til að vera betur undirbúinn fyrir miðaldabókmenntastappið næsta haust.

Á morgun fer ég í nýju vinnuna að semja um kaup og kjör. Var að spá í að fara með hárið í tagl og tala djúpum rómi. Gæti kannski híft kaupið upp um einn launaflokk við það að setja á mig bláa bindið sem ég keypti í Englandi árið 1995. Kannski ég dembi á mig rakspíra.

Ef einhvern vantar enska útgáfu af Eyrbyggju þá látið mig vita.

sunnudagur, júlí 16, 2006



Gaddakylfa er komin á píanóið í dulargervi blómavasa - fínt að grípa til hennar ef innbrotsþjófar mæta. Líður stundum eins og laumufarþega um borða í glæpaskipi. Annars var fríið fyrir norðan fyrirtak og blíða annan hvern dag en rigning hina. Brúðkaup Nonna og Rósu í gær að Hólum var alveg glæsileg veisla og takk fyrir okkur!

laugardagur, júlí 08, 2006



Þá hefst ferðalag til Akureyrar, veðurspáin segir rigning. Ljúkum ferðinni í brúðkaupi á Hólum (vonandi í brakandi blíðu). Það verður gaman að sjá hve fljótt internet-fráhvarfseinkennin segja til sín. Áhugasamir um ,,diskóey vestur af Grænlandi" (orðabókarlýsing á kvenmannsnafni) fylgist með Kastljósi næsta þriðjudag.

miðvikudagur, júlí 05, 2006



Fyrir þau ykkar sem eruð á leið til suður Englands mæli ég með þessu hóteli. Lily Langtry hefur eitthvað verið að ásækja mig og vill að ég skrifi pistil um sig.

Annars er allt að gerast á þessum dimmu júlídögum. Míkrafónninn besti vinur minn í vinnunni og á morgun fæ ég tækifæri til að segja þjóðsöguna um Marbendil í annað skipti í sömu vikunni. Komin með nýja vinnu. Rigningin dunar. Síðasta sunnudag gekk ég til fundar við fortíð mína og hitti sjálfa mig fimm ára. Alltaf nýr ótti til að yfirstíga. Úði og rigning handan við næsta hól. Næsta vika verður frí á Akureyri með stuttri dagsferð í höfuðborgina, sem hljómar furðulega öfugsnúið. Og rigning.

fimmtudagur, júní 29, 2006



Þá er búið að landa miða á Nick Cave í september, þökk sé Sólveigu vinkonu minni. Taugatitringur í nokkra mínútur en síðan mikil gleði!!

þriðjudagur, júní 27, 2006

Síðasta...



Bráðum hætti ég að feta í fótsport Einsteins. Og hætti að klóra mér í höfðinu yfir teikningum eins og þessari. Síðasta vinnuvikan og allt er ,,síðasta" eitthvað. Síðasti þriðjudagurinn, síðasti fundurinn, síðasti kaffisopinn... Og 8 ára uppsafnað drasl af pappír, tölvupósti, gulum miðum og bréfklemmum eiga hug minn allan.

föstudagur, júní 23, 2006

Krækja

Æ ég kann ekki að setja krækjur inn á síðuna. Set eina hér og hver veit nema fleiri komi síðar. Hér er bloggið hennar Díönu, hún er andlegur lærimeistari minn og ég mæli með pælingum hennar.

laugardagur, júní 17, 2006



Lauk lestri á Sumarljósinu eftir Jón Kalman fyrir stuttu, hef kvatt hópinn og keyrt út úr þorpinu. Ég er byrjuð að ráfa um Römbluna og fleiri götur í Barcelona í fylgd Skugga Vindsins.

föstudagur, júní 16, 2006

Vaktir



Áhugaverð vika að baki. Stóð vaktina síðasta laugardag í Kolaportinu og seldi mannflóru góss og glásir. Á mánudaginn fékk ég glimrandi góðar fréttir sem verða opinberaðar hér síðar. Sama dag fór ég í Landsbjargargalla og stóð vaktina fyrir framan Egilshöll. Fór síðan inn að sjá Roger Waters og til að komast alveg upp að sviðinu var ég í skærgulu vesti með orðinu ,,gæsla" - það var furðuleg staða. Waters var flottur en mér fannst verst að fá ekki að vera með snarkandi talstöð.
Það sem eftir lifði vikunnar fór í rigningasudda og vinnu. Pælingar feykirófunnar viðhalda stöðugu sumri í sálinni.

sunnudagur, júní 11, 2006

sunnudagur, júní 04, 2006

Yfirvarp



Hlustið á þetta (mæli með "I dont wanna grow up") við lesturinn.

Í gær fór ég með dótturina út á leikvöll og varð svo yfirmáta þakklát fyrir yfirvarpið sem ég hef núna. Get rólað til himna og æft stökkin á mölina. Gleymi mér í sandkassanum og missi mig í kökuskreytingar. Rifja upp þekkinguna á viðskiptafræðinni í búðarleikjum. Fæ aftur fiðringinn í eltingaleikjum. Sór þess eyð í rennibrautinni að hætta aldrei að leika mér, sama hversu ,,barnalegt" það þykir.

Hver veit nema ég smakki sand í næstu ferð?

fimmtudagur, júní 01, 2006

Hágæðagrilltangir



Þeim fækkar skiptunum sem ég hlusta á eitthvað annað en Útvarp Latabæ og þá hellist ótrúlegur fróðleikur til mín úr bílaútvarpinu. Heyrði í morgun að ef ég kaupi Toyota Corolla þá fylgir stór grillpakki með þar sem m.a. eru hágæðagrilltangir. Hvernig tangir ætli það séu? Fjarstýrðar? Eða með ljósi svo hægt sé að grilla í myrkrinu næsta vetur? Ég sökkvi mér ofan í ómerkilega auglýsingar þessa dagana, mæni á auglýsingaskilti og syndi um bloggheima - geri allt til að gleyma úrslitum kosninganna.

föstudagur, maí 26, 2006

Hrun á skipulagi

Framtíðarplön síðustu 6 mánaða hrundu í gær, fæ ekki að útskrifast vegna skorts á einingum (og dómgreind ónafngreindra). Þegar eitthvað hrynur geta óvæntir hlutir vaxir úr rústunum - allt fer eins og þá á að fara. Ég skima eftir arfa eða grasi í rykmekkinum.

Keyrði framhjá ungum sjálfstæðismönnum í dag og fylltist gremju (best að fara ekki út í þá sálma). Finnst sorglegast af öllu að í velmegunarþjóðfélaginu okkur þá er normið hinn hrausti, vinnandi karlmaður og allt annað er utanveltu og mætir afgangi á einhvern hátt: konur (fá flestar lægri laun en karlkynið), börn, aldraðir, öryrkjar.

föstudagur, maí 19, 2006



á tveimur vikum hefur grasið grænkað
Aspirnar eru að taka við sér í Asparvogi
(þær eru að ná yfirhöndinni í Kópavogi, kosningarnar næstu helgi verða blekking)
Keilir og Trölladyngja út um stofugluggann

mánudagur, maí 15, 2006

Sögur úr nóttinni



Stundum koma hversdagslegar en bragðgóðar sögur til manns úr óvæntum áttum. Eftir örstutt innlit í bæjarlífið síðustu helgi ákvað ég stuttu eftir miðnætti að taka enga áhættu og setjast inn í næsta leigubíl. Þar sem leigubílaspjall getur verið jafn skemmtilegt og það er þurrt þá prufaði ég að brjóta ísinn með því að spyrja ,,lítur ekki bara út fyrir rólegt kvöld?" og bílstjórinn svaraði: ,,jú það er öruggt þegar fréttist að þú hefur yfirgefið svæðið" - þar með náði hann að bræða mig.
Ég ræddi við gamla karlinn um samanburð á bílamenningu á Íslandi og Þýskalandi og ýmislegt fleira.
Þegar bíllinn keyrði inn í myrkrið á Nýbýlaveginum kom sagna-andinn yfir bílstjórann og hann rifjaði með hláturgusum upp þessa sögu:

Þegar ég var að keyra með konunni minni í Þýskalandi þá rákumst við eitt kvöldið á íslenskan bíl í miðju Þýskalandi. Það var augljóst að bílinn var frá Íslandi því hann var með gamalt og gott J númer. Svo skemmtilega vildi til að ég átti hjá mér gamlan sektarmiða í vasanum og ég laumaði honum undir bílþurrkuna á þeim íslenska (hláturgusa). Síðan biðum við átekta til að sjá viðbrögðin hjá eigandanum en ekkert bólaði á honum. Þar sem við vorum tímabundin urðum við að fara og gaman hefði verið að sjá svipinn á eigandanum (hlátur). Við vitum ekki enn hvort eigandinn var íslenskur eða þýskur.

Kannski er gamli íslenski sektarmiðinn sem rataði á íslenska bílinn í Þýskalandi ennþá stór ráðgáta í lífi einhvers.

föstudagur, maí 12, 2006



Ef ég fengi að ráða þá væru helgimyndir frá miðöldum upp um alla veggi í íbúðinni minni. Ég hef hins vegar sætt mig við ljósmynd af ölduróti við klappir í Nýju Mexíkó sem gætu allt eins verið úr ólgandi íslenskri fjöru.

þriðjudagur, maí 09, 2006



Ljóðið er sest niður
í formi misturs

vorið er bara yfirvarp

fimmta frumefnið er
að taka bólfestu

heimsyfirráð
skríður handan
við húshorn

fimmtudagur, maí 04, 2006

Allt milli himins og jarðar

Er það eina sem mér datt í hug sem titill því mig langar að segja frá ýmsu merkilega ómerkilegu. Við mæðgurnar röltum í rokinu í morgunn á leikskólann. Á leiðinni var ekki þverfótandi fyrir ánamöðkum. Ábyrgðarfull móðirin benti dótturinni á undur náttúrunnar en átti síðan fullt í fangi með að vera góð fyrirmynd og trampa ekki á verslings skriðdýrunum. Hvað gerðist? Af hverju komu þeir upp í nótt/morgunn? Hvernig bárust boðin á milli þeirra?

Tilboðum um ókeypis skólagráður rignir hingað inn og hver veit nema maður láti freistast. Efast þó um að ég geti pantað kennsluréttindanám og leyfisbréf til að vera kennari á netinu. Það væri þó þægilegt að losna við þetta púl að þurfa að frumlesa um 80% af efninu og hamast við að leggja á minnið kenningar og karla fyrir prófið í næstu viku. Og komast upp með það, taka fínt próf og gleyma síðan herlegheitunum viku síðar. Þetta er dæmi um slæman vana sem maður heldur ósjálfrátt í af því að maður hefur komist upp með það hingað til. Vonandi verður raunin ekki önnur í ár.

Örlítið af orð-skrímslum sem ég hef heyrt. ,,Endursölugóður" er farið að heyrast í bíla-auglýsingum, hvað er nú það? Og ,,íbú(ð)alýðræði" er eitthvað sem frambjóðendur tönglast á og ég skil ekki heldur hvað þýðir. Sjálfstæðisflokkurinn lofar ,,fleiri gæðastundum" - hvað er nú það? er þetta kosningaloforð sem er hægt að standa við? Annars er orðskrímslið ,,heildarlausnir" að hjaðna í auglýsingum en það hefur valdið mér miklum kvölum að heyra það. Mikið hefur maður það gott þegar maður hefur ekki undan öðru að kvarta en furðulegum orðskrímslum sem mæta manni á stangli.

föstudagur, apríl 28, 2006

Þegar orðin taka völdin, á kvöldin


Ég hef óbeit á leiðinlegur ritgerður og leiðinlegur ritgerðarsmíðum. Þess vegna er ég að reyna hið ómögulega, þ.e. að gera ritgerð um hræðilega leiðinlegt efni að spennandi og skemmtilegum texta. Í ritgerðina eru komnar hugleiðingar um fræ (ekki bagalegt fyrir guðfræðinginn) og hún er byggð upp eins og ferðalag þar sem lesandanum er reglulega bent út um rúðuna til hægri eða vinstri handar (ekki bagalegt fyrir leiðsögumanninn). Skrifin eru líka óvissuferð því áfangastaðurinn er óljós og næsta setning ókannað land. Þetta stefnir í vitleysu. Endar með árekstri úti á víðáttu! Orðin eru að taka völdin.