sunnudagur, september 18, 2005

Hvar er draumurinn?

Þriðjudaginn 13. sept. sat ég í Norræna húsinu og hlustaði á viðtal við rithöfundana Javie Cercas og James Meek. Silja Aðalsteinsdóttir settist við hliðina á mér og mig langaði að spyrja: Hvenær kemur næsti hefti af TMM? Því ég vissi ekki að þá þegar var heftið (með litlu sögunni minni) komið í póstkassann heima. En hún var fljót að flytja sig um set yfir til kunningja. Smám saman fylltist salurinn og einhvern tímann í miðju viðtali (tímaskynið hvarf) kom gömul kona inn í salinn. Hún var í síðri rauðri kápu og ég hugsaði samstundist að greyið kerlingin hefði álpast þarna inn af einhverri rælni, kannski ætlað á salernið en endað í viðtali á útlensku. Hún settist við hliðina á mér og eftir miklar vangaveltur komast ég að þeirri niðurstöðu að hún var á réttum stað. En þá kom drungaleg hugsun óvænt í flasið á mér. Í gegnum árin hef ég oft skrifað um gamlar kerlingar og allt í einu fannst mér þessi kona vera fulltrúi þeirra allra - sendiboði úr skrifum mínum sem þurfti að koma til mín skilaboðum, fyrir hönd allra heimsins kerlinga. Eins og að persóna úr skrifum mínum væri mætt til að ræða við mig, til að leiðrétta rangan misskilning eða koma skoðunum sínum betur að inn í textann. Þegar viðtalinu við James Meek lauk og fólk reis á fætur þá leit ég opinmynnt á konuna, tilbúin að hlusta á visku hennar.

Fimmtudaginn 15. sept mætti ég óvenju snemma í Iðnó og ekki einu sinni búið að opna salinn. Þegar hann opnaði gat ég valið mér sæti af kostgæfni, annað en hægt er að segja um þá sem voru svo óheppnir að mæta 20-30 mín. síðar. Paul Auster var stjarna kvöldsins en Einar Kárason og Kristín Eiríksd. komu sterk inn. Að vanda mætti ég ein, enda ekki miklum bókmenntaáhuga að dreifa á meðal vina og vandamanna (að undanskildum skipstjóranum föður mínum, en hann mundi ekki láta sjá sig í léttvínssamsæti sem þessu) og reyndi að vera svolítið kúl á því. Hverfa dularfull út um hurðina og fyrir utan var margt um manninn og ég reyndi að missa ekki kúlheitin við það að ganga út úr húsinu. Og sá ekki steypustólpa sem stóð upp úr stéttinni og rakst harkalega utan í hann. Beit á jaxlinn en gat ekki annað en misst út úr mér ,,ááá" en með kúlheit í röddinni og strunsaði af stað að bílnum.

Næsta dag framkallaðist marblettur á hægra lærinu á mér. Mér finnst ég sjá svip Austers í blettinum.

Í gærkvöldi endaði ég á balli með Sálinni. Hljómsveitin sem ég dýrkaði sem unglingur en sneri síðan baki við því ég þurfti frekar að hlusta á Waits, Cave, P.J. Harvey og Breeders. Vinkona mín hefur haldið tryggð sinni við Sálina og ég lét tilleiðast. Þetta fékk mig til að rifja upp árið þegar hljómplatan ,,Hvar er draumurinn?" kom út. Þá sat ég límd við útvarpstækið og náði upptökum af frumflutningi allra laganna. Kunni þau síðan utanað loksins þegar platan kom út. Kannski eru textarnir hans Stebba miklir, duldir áhrifavaldar í skrifum mínum - hvur veit??

Sem sagt spennandi vika að baki, full af hori á öxl - og horið heldur áfram að streyma úr kvefaðri dóttur minni. Ekki gott að líta of mikið um öxl því þá gæti nef mitt fests í horinu.

Engin ummæli: