fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Af fjallvegum

Vestur Eiríksgötu

Þegar þú færð fjallþunga í herðarnar veistu að þú ert þegar á fjallvegi og þarft að auka hraðann svo þunginn búi ekki til holu í veginn, og þú festist til frambúðar. Í óbyggðum í miðri borg er ekkert verra en hola á miðjum vegi og áttaviltur ökumaður í henni miðri.

En skammt undan er stuðlabergsturn með rauðaugu sem horfa inn í dagana og kljúfa næturnar geislum sínum. Í forgrunni að himni og skýjum í hæstu hæðum. Og á slaginu 16:05 á degi hverjum fyllist gatan af bílum á hægri ferð vegna vaktaskipta spítalans. Hundruðir hnúa um stýri með fjallrendur undir nöglunum og allan þann þunga sem því fylgir. Föl andlit á leið úr vinnu og ekkert í veröldinni sem minnir á rauðhærðan víking.

Þegar sumri tekur að halla og haustið leggst til svefns skaltu vera viðbúinn því versta. Því í fyrsta vetrarsnjónum muntu frá fjallþunga í herðarnar og spóla í skafli við umferðarljósin. Og þegar rafmagnið fer af, í sömu andrá, geturðu hætt að spóla og ráðið áttirnar af ljósinu í turninum.

Þessum vita í úthafi svamlandi skreiða.


(Lesbók janúar 2005)

Engin ummæli: