laugardagur, apríl 22, 2006

Hamfarahlaup í sálinni


Finn hvergi prósann um göngu við rætur Eyjafjallajökuls sem ég lofaði hér fyrr. Textar eiga það til að gufa upp úr tölvum - kannski sem betur fer. En í tilefni þess að hlaup er komið í Skaftá þá dustaði ég rykið af gömlum texta um hlaup í annarri á. Það er óttalegt svartnætti í þessum texta, en svona koma hann bara. Þessi prósi á heima í safni prósa sem allir fjalla um náttúruhamfarir á einhvern hátt - hefur allt legið í salti í 2 ár enda erfitt viðfangsefni.

Skeiðarárhlaup
Dill og aðrar viðkvæmar jurtir

Þegar dillið lafir og drýpur í átt að dauðanum, sækir hann vatn í ofboði, verður viðkvæmur og meyr í fjósinu og drýpur í átt að fjalli ofan af traktornum. Þá má ekkert koma upp á til þess að hann riðlist ekki úr jafnvægi, til þess það heyrist ekki smellur í höfðinu og flóðgáttir opnast, hamfarahlaup í jökulá hefjist. Þá er nóg að traktorinn þenji sig, hrúturinn sendi óræða augngotu eða að svart ský sveimi yfir fjallinu, þá brestur á. En þá daga sem dillið sperrir sig, horfir út um gluggann og bætir litlum sprota við sig, syngur hann fyrir hrútinn, mokar flórinn af gleði og heyrir ekki drunur og bresti traktorsins. Þá daga þrífur hann stígvélin og horfir með lotningu til fjallsins helga. Sendir því sterka strauma og jafnvel bænir, og kallar það sínaífjall sálarinnar. Og dillið heldur áfram að drjúpa og sperrast, á víxl.
Hann sparkaði af alefli í traktorsdekkið, sendi fjallinu puttann og meig ofan í ómokaðan flórinn. Danglaði stígvélunum af sér og lét þau þeytast inn í fatahengið og tók til við að hella upp á kaffi, með látum. Smellurinn í höfðinu var löngu þagnaður, mesti jökulruðningurinn farinn að sjatna. Mallið í kaffivélinni sefaði hann, lægði vindinn, svo hann settist við eldhúsborðið og nokkur tár hrundu. En síðan þurrkaði hann kinnarnar og harkaði af sér. Gerði sér ferð að stofuglugganum og sá að dillið var að jafna sig og að þau tvö virtust ætla að halda daginn út. Hann girti sig og hellti slurk af rommi út í kaffið og kom sér fyrir í slitnum stólnum. Í sjónvarpinu sá hann fréttir af hamfaraflóði, Skeiðarárhlaup sópaði vegi og brú á haf út, barðist áfram í sótsvörtum beljanda. Eitthvað bærðist innra með honum eins og hann vissi hvernig ánni liði, þekkti þær hömlur sem bresta fyrr eða síðar.
Uppsöfnunin í Grímsvötnum hafði gefið eftir, ruðst inn í síkvika ánna og lagt hana undir sig. Aurvatnið braut niður lönd og brýr en byggði upp sandsléttur og aura, í sárabætur. Og sandurinn stækkaði og tíbráin breikkaði á björtum dögum og ekkert fyrir Skúminn annað að gera en að hvílast á sandinum, setjast að á Ingólfshöfða og verja höfðann fyrir ágangi ferðamanna. Að lokum, mörgum dögum síðar, sjatnaði jökulhlaupið en dillið og maðurinn í slitna stólnum höfðu ekkert veður af því.
Því morguninn eftir upphaf hlaupsins svipti hann sænginni af sér og fór á brókinni beint fram í stofu. Dillið var dautt í stofuglugganum og hann fór út í fjárhús og skaut sig. Með kindabyssu og hrúturinn sendi óræða augngotu.

Engin ummæli: