fimmtudagur, maí 31, 2007
61 gráða norður, 21 vestur
Eftir að hafa tekið GPS punkta á vel völdum stöðum í borginni að morgni Hvítasunnudags komst ég að þeirri almennu vitneskju að nánast allt borgarlandið er á sömu lengdar- og breyddargráðu. Það skeikar bara um mínútur og sekúndur. Skeikar því ekki alls staðar, í lífinu, ef því er að skipta?
Lauk sömuleiðis um helgina bókinni Never let me go eftir Kazuo Ishiguro. Höfundur sem er ótrúlega lunkinn við að skrifa texta með þunga, ofurþunga undiröldu.
Annars þarf ég að athuga hvort ég sé nokkuð að brjóta höfundarrétt með því að birta kápumyndir. Einhver upplýsi mig sem veit betur!! Verandi rótandi í þannig rétti alla daga þá hef ég kannski fengið snefil af virðingu fyrir honum.
fimmtudagur, maí 17, 2007
Óformlegar þreifingar
hafa dunið á manni í fréttatímunum undanfarna daga. Mér er fyrirmunað að skilja hvað þetta þýðir nákvæmlega. Sögnin að þreifa hefur vissulega þá merkingu að leita fyrir sér, kanna möguleika eða undirtektir. Sé hin merking orðisins hins vegar skoðuð: snerta á, fara höndum um, fálma eða þukla - þá verða hinar óformlegu þreifingar óneitanlega spaugilegar.
Á þriðjudaginn gerðist ég svo fræg að valda minni fyrstu aftanákeyrslu. Það kom ekki að sök þar sem blikkdósirnar beygluðust lítið og farþegar sluppu algjörlega heilir. Lögreglan kom á svæðið (eftir að ég reyndi að hóa í þau þegar þau keyrðu framhjá) og við Friðsemd fylltum út tjónaskýrsluna. Strax í gær kom bréf frá tryggingafélaginu þar sem þeir innheimta frá mér tjónaskýrsluna. Og síðastliðna nótt vakti lögreglan okkur upp og þar sem ég stóð svefndrukkin fyrir framan laganna verði þá hvarflaði að mér eitt sekúndubrot að þeir væru komnir til að hirða ökudólginn eða að innkalla tjónaskýrsluna. En síðan kom á daginn að þeir fóru íbúðavillt í leit sinni að drykkfelldur ökuníðingi.
Annars náði ég í skottið á Pétursþingi í dag. Erindi Péturs sjálfs í lok þingsins var glæsilegt - það mun eflaust birtast í einhvers konar safnriti næsta haust, mæli með því þegar þar að kemur. Hver veit nema þetta verði flutt í Víðsjá í næstu viku en upptökutækin mölluðu allan tímann.
fimmtudagur, maí 10, 2007
Fríða frænka
er í Klassart, og líka Smári frændi. Og reyndar er Pálmar bróðir þeirra kominn á bassann og þá vantar bara Særúnu í bakraddirnar. Góð lög sem verða betri við hverja hlustun. Eftirvænting eftir disknum magnast. Skoðið þessi lög.
þriðjudagur, maí 08, 2007
Ekki meir, Geir!
Var fyrirsögn á frægum plötudómi sem margir muna enn eftir. Setningin hefur lifnað við í kollinum á mér eftir að auglýsingar með Geir segja að traust efnahagsstjórn sé stærsta velferðarmálið. Hvað er efnahagsstjórn? Hvað er traust efnahagsstjórn? Hvenær verður hún ótraust? Einhverra hluta vegna sé ég alltaf XD sem flokk fyrirtækja og atvinnurekenda - veit ekki alveg af hverju.
Næst held ég að XD muni segja: það kom vor á eftir vetrinum og síðan kom sumar - en ekkert víst að það gerist aftur að ári ef önnur ríkisstjórn verður við líði.
Næst held ég að XD muni segja: það kom vor á eftir vetrinum og síðan kom sumar - en ekkert víst að það gerist aftur að ári ef önnur ríkisstjórn verður við líði.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)