fimmtudagur, maí 17, 2007

Óformlegar þreifingar


hafa dunið á manni í fréttatímunum undanfarna daga. Mér er fyrirmunað að skilja hvað þetta þýðir nákvæmlega. Sögnin að þreifa hefur vissulega þá merkingu að leita fyrir sér, kanna möguleika eða undirtektir. Sé hin merking orðisins hins vegar skoðuð: snerta á, fara höndum um, fálma eða þukla - þá verða hinar óformlegu þreifingar óneitanlega spaugilegar.

Á þriðjudaginn gerðist ég svo fræg að valda minni fyrstu aftanákeyrslu. Það kom ekki að sök þar sem blikkdósirnar beygluðust lítið og farþegar sluppu algjörlega heilir. Lögreglan kom á svæðið (eftir að ég reyndi að hóa í þau þegar þau keyrðu framhjá) og við Friðsemd fylltum út tjónaskýrsluna. Strax í gær kom bréf frá tryggingafélaginu þar sem þeir innheimta frá mér tjónaskýrsluna. Og síðastliðna nótt vakti lögreglan okkur upp og þar sem ég stóð svefndrukkin fyrir framan laganna verði þá hvarflaði að mér eitt sekúndubrot að þeir væru komnir til að hirða ökudólginn eða að innkalla tjónaskýrsluna. En síðan kom á daginn að þeir fóru íbúðavillt í leit sinni að drykkfelldur ökuníðingi.

Annars náði ég í skottið á Pétursþingi í dag. Erindi Péturs sjálfs í lok þingsins var glæsilegt - það mun eflaust birtast í einhvers konar safnriti næsta haust, mæli með því þegar þar að kemur. Hver veit nema þetta verði flutt í Víðsjá í næstu viku en upptökutækin mölluðu allan tímann.

Engin ummæli: