mánudagur, september 17, 2012

Drama

Það fylgdi því furðanlega lítið drama að klambra saman einu stykki drama í sumar. Sýnt verður brotabrot af afrakstrinum í kvöld í Þjóðleikhúskjallaranum kl. 19:30 (ásamt 10 öðrum verkum).

Búin að dvelja undanfarið inni í hausnum á Birnu sem hleypur í fyrsta skipti hálfmaraþon með ýmsum skemmtilegum afleiðingum. Reyndar kom smá stífla í skrifin í júlí og ágúst og þá fór mín bara út að skokka til að komast í burtu frá tölvunni. Var alvarlega farin að hugsa um að prufa að skrifa sveitt í hlaupagallanum, en það stig örvæntingar varð aldrei að veruleika. Á það bara inni.

Hef annars verið að glugga í bókina Tóma rýmið eftir Peter Brook og heilluð af skemmtilegum pælingum og vangaveltum. Hér er smá brot af bls. 60:

,,Leiklistin er líklega erfiðust allra miðla, eða ætti að vera það sé hún stunduð af alvöru. Hún er miskunnarlaus og leyfir ekki mistök eða að eitthvað fari til spillis. /.../ Tvær klukkustundir eru stuttur tími en jafnframt heil eilífð. Mikil list felst í því að geta eytt tveimur klukkustundum af tíma almennings. Samt sem áður er listin, sem einkennist af þessum skelfilega vanda, mestmegnis unnin í kæruleysi. Í hættulegu tómarúmi er ekki hægt að læra raunverulega list leikhússins víða, þannig að við hneigjumst að leikhúsi sem býður ást í stað vísinda." o.s.frv.

Lærdómurinn sem ég dreg af þessu öllu er að vissan er falskur vinur þegar kemur að leikhúsinu. Óvissan er föst breyta. Ég er alveg viss um það og þar af leiðandi á stöðugum villigötum, hlaupandi í hringi. Æ það hefur svo margt viturlegt og flott verið sagt um leikhús - best að hlusta bara og njóta.

Engin ummæli: