fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Jæja


Þennan dag fyrir mörgum árum fæddist þessi strákslega snót á myndinni. Í Hafnarfirði. Ekkert er vitað um meðgönguna, þaðan af síður fæðinguna né fyrstu æviárin. Fyrir því eru þó haldbærar sannanir að hún braggast vel í dag, drekkur kaffi í kassavís og bryður suðusúkkulaði á milli sopa.

sunnudagur, febrúar 05, 2006

Himbrimi


er orð dagsins á fugli dagsins. Fyrir nokkrum árum fór ég í könnunarleiðangur út fyrir borgarmörkin. Á Kleifarvatni synti einmana Himbrimi og ég fór út að Krísuvíkurbergi að skoða fugla. Maður þarf ekki að leggja á sig ferðalag þvert yfir landið (t.d. á Hornbjarg eða Látrabjarg) til að komast í almennilegt fuglabjarg - það er eitt rétt fyrir utan borgina. Í kjölfarið varð þessi texti til:

Í sama mund og Kolla reytir sig á Vigri situr Grágæsamóðir í makindum við Tjörnina og virðir aðvífandi skáldkonu ekki viðlits. Hún reytir sig alla svo næðingurinn smígur inn í holótt beinin en Grágæsamóðirin setur verndarvæng yfir ungana og þykist ekki sjá flugþrána í göngulagi skáldkonunnar.

Á sama tíma stígur Skarfur upp á stein við Stykkishólm, breiðir út vængina og messar yfir óhreinum sálum svartfugla. Hann minnist Súlunnar sem mistókst lending á Eldey vegna mergðarinnar og Geirfuglabeinsins undir fit Lundans á skeri skammt frá. Hann varar við ofbeldishneigðum Störrum sem slást í þakskeggi við Óðinsgötu á meðan einmana Himbrimi syndir um Kleifarvatn í leit að slagsmálum. Lofsamar varnarlist Fýlsins sem spúði á ferðamenn við Krísuvíkurberg og dyggðir Ritunnar sem veitti syndugri Álku sáluhjálp á næstu syllu.
Að lokum minnir hann á að Haftyrðillinn er farinn fyrir fullt og allt, flúinn undan skítugum hugsunum fugla á útskerjum.

Og þegar Skarfurinn setur vængina niður hvísla öldurnar amen og ungi sleppur undan væng Grágæsamóðurinnar.

Á Vigri brýtur goggur gat á heiminn og skáldkonan gengur um Tjörnina með hugann við sprungur í himninum og verður ekki vör við gæsaunga undir fæti.

sunnudagur, janúar 29, 2006

Annað sýnishorn af Fjallvegum í Reykjavík


Suðurlandsbraut í vestur (við Hallarmúla)
Þennan veg, í þessa átt, er best að keyra á sólríkum og heiðskýrum degi. Ekki sakar að hafa nýlokið lestri á Snæfellsjökli í garðinum og vera með andrúm bókarinnar enn fyrir vitunum. Nærsýnir fægi þokuna af gleraugunum en réttsýnir skulu setja upp sólgleraugu. Með hraði. Því annars geta syndir heimsins endurvarpast af jöklinum og blindað saklaus augu. Andvarinn má vera úr hvaða átt sem er, af hafi eða frá nærliggjandi húsum. Hann má hafa læðst meðfram veggjum og liðið á milli húsa áður en hann smígur inn um opna bílrúðuna. Um fram allt verður hann að vera þögull og hægur svo að þú verðir hans ekki var, svo að hann feyki ekki andrúmi nýlesinnar bókar frá vitunum og hástemdar hugsanir fjúki ekki aftur í skott.

Óvæntir hlutir gerast sjaldan. En þegar það gerist er það eins og rennblautur alki þurrkist upp, alls kostar óvíst og kannski einu sinni á ævi, gefi maður því gætur. Fyrir vikið að manni vikið eins og konfektmola í harðæri, mjúkar hægðir í harðlífi.

Því stundum, endrum og sinnum, lónir Snæfellsjökull í nesinu í fjarska. Hangir í lausu lofti, albúinn til uppstigningar. Upphafinn af nefmæltu skáldi, eins og ekkert sé eðlilegra fyrir ofvaxinn klaka en að vera bendlaður við kristnihald. Þegar þú keyrir Suðurlandsbrautina í vestur, til móts við Laugardalinn, skaltu horfa á jökulinn og meðtaka þau skilaboð sem hann sendir þér. Og þá veistu að hann mun stíga upp til himna, setjast við hægri hönd borgarinnar og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða. En fyrst þarf að kossfesta hann, deyða og grafa og Pílatus er ennþá í felum í borginni. Þú veist ekki hvar hann er en þegar þú keyrir Suðurlandsbrautina áfram í vestur hverfur Snæfellsjökull á bak við hús og þú skimar eftir landshöfðingjanum á milli húsa, í húsasundum og nærliggjandi bílum.

Og þú keyrir þennan veg á hverjum degi, um hádegi, með Snæfellsjökul í garðinum í aftursætinu og forðast að líta á bókasafnssektina fyrir aftan þig. Þegar þú keyrir þennan veg, í þessa átt, á sólríkum og heiðskýrum degi máttu umfram allt ekki gleyma sólgleraugunum. Því einn daginn muntu sjá landshöfðingjanum bregða fyrir milli húsa og þú lítur í áttina að jöklinum og þá verður hann horfinn. Stiginn upp til himna.

miðvikudagur, janúar 25, 2006

,,Hvað var það sem dróg þig á brott þennan dag?"

Í tilefni þess að nú hefur dauðadómur íslenskunnar verið kveðinn upp leyfi ég þessari setningu að koma hér fram. Gott dæmi um arfaslaka íslensku sem hljómar í titillaginu á einhverju arfaslæmu lagi sem ég hef verið að heyra á rás tvö - ég hef aldrei náð kynningunni á laginu og leikur því forvitni á að vita hvort þetta sé frumsaminn texti eða þýddur úr engilsaxnesku. En dauðadómurinn hefur valdið því að ég fór að grúska í rykugum bókum til að leyta að bók eða ljóði eftir Eggert Ólafsson þar sem íslenskan er kona sem liggur banaleguna (læt vita ef ég finn þetta).

Enskan er eins og uppistöðulón sem breiðir sér yfir íslenskuna, ber fram leir í ástkæra ilhýra læki.

fimmtudagur, janúar 19, 2006

Skrattfærsla

Ég drattast hér yfir skólaverkefni um kennsluaðferðina Skrattfærslu (Devil's Advocacy) þar sem kenna þarf nemendum að vera ósammála eigin skoðunum og geta orðað gangrök. Landsleikur í handbolta glymur í bakgrunni og þegar áhorfendur hvetja liðið áfram finn ég fyrir hvatningu. Eftir því sem klappið magnast þá pikka ég hraðar. Ég þykist bara heita Ísland og fæ endalausa hvatningu. Góð leið til námsárangur!

Orð huldumanna ber að virða

Þegar Kalmaninn mælir, þagna svitastorkin andlit. Ræðu hans má finna hér.

mánudagur, janúar 16, 2006

Norsk tekaka a la Rúna í Kaldárseli

Í upphafi 10. áratugar síðustu aldar starfaði ég í Kaldárseli. Þar var Sigrún Sumarrós ráðskona, í daglegu tali kölluð Rúna. Hún bakaði nánast á hverju kvöldi yndislega norska teköku sem ég elskaði. Eitt sumarið náði ég að bæta á mig 5 kílóum á 4 vikum þökk sé þeirri norsku. Núna hef ég tekið uppskriftina upp á mína arma og ligg í kökunni þessa köldu og myrku daga.

Norsk tekaka

150 gr. smjörlíki
250 gr. sykur
140 gr. hveiti
125 gr. kókósmjöl
2 egg
2 tsk. lyftiduft

Krem:
150 gr. flórsykur
2-3 msk smjörlíki
2 msk kaffi
2 msk kakó

Njótið!!

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Eru niðurgangstímar framundan?

Heyrði í morgun fyrir tilviljun viðtal í útvarpsþætti. Þar var verið að ræða við einhvern viðskipta-spekúlant um ýmislegt varðandi starfsmannaleigur og atvinnumarkaðinn. Viðmælandinn lenti í þeim ógöngum að tala um uppgangstímana sem nú eru og í framhaldi um "niðurgangs"tíma sem gætu verið framundan.
Hræðilega ógöngur þar!!

Annars finnst mér fyndið að sjá stutt viðtöl í sjónvarpsfréttum við framáfólk úr viðskiptalífinu. Mér finnst svo algengt að það tali óvenju hratt og óskýrt og maður (enda er maður hægur í tíðinni) þarf að hafa sig allan við til að skilja - t.d. held ég að þegar einhver segir fjárfsting á miklu hraða þá er það einhver sem er klár og snar í snúningum og fjárfstir hægri vinstri hraðar en ljósið!!

sunnudagur, janúar 08, 2006

Dauðasyndirnar sjö

Hér má sjá dauðasyndir uppfinningamannsins. Þessa syndir eru eflaust ansi algengar. Ætli sé hægt að yfirfæra þær yfir á rithöfunda? Eða aðrar starfsstéttir? Tjáið ykkur!

Braut fegurðarinnar, braut sannleikans


Reykjanesbraut er fallegasta braut landsins. Ef ekki heimsins. Aðeins vetrarbrautin gæti staðist samanburð. Hlutfall apalhrauns og helluhrauns er fullkomið, mosar og fléttur út um allt og þar er nánast alltaf rok. Á björtun dögum sést út á Snæfellsjökul.
Ég mæli sérstaklega með rútuferð eftir brautinni. Vanti þig hugljómun eða innblástur þá sestu í SBK rútu eða flugrútuna og óvæntir hlutir gerast.

laugardagur, janúar 07, 2006

Stífla


í ennisholum getur haft víðtæk áhrif. Stíflan breiðist út um allt. Hún stíflar hugsanir og setur hellur í eyrun svo maður greinir ekki bull frá kjaftæði. Kemur af stað ritstíflu þannig að bullið berst fram í fingurgóma. Ég legg mig í líma um, af augljósum ástæðum, að forðast vaska og salerni.

þriðjudagur, janúar 03, 2006

Ljóðhornið

Svo undir tók


Sumir kaffisopar
eru svo fullir
af hamingju

að mann undrar
og getur sér til um
að hún búi
í kaffibaunum
sem voru týndar
á kólumbískri plantekru
um leið og samstarfsfélagi
sagði skrítlu

Svo undir tók
á ekrunni

laugardagur, desember 31, 2005

fimmtudagur, desember 29, 2005

Óskar og bleikklæddu konuna

ætti að lesa í öldrunarstarfi kirknanna í Reykjavíkurprófastdæmum. Þá mundu þær öldruðu bleikklæddu konur sem jafnframt eru fyrrverandi glímukappar fá þá hugmynd að heimsækja barnaspítalann.

þriðjudagur, desember 27, 2005

Óskar og bleikklædda konan


var hin ljúfasta lesning. Komst ekki yfir í þriðja hlutann á þríleiknum eftir Erik-Emmanuel Schmitt þar sem jólin brustu á. Fékk tvær bækur í jólagjöf, annars vegar Sumarljós eftir Jón Kalman og hins vegar ævisögu Halldórs Laxness eftir Halldór Guðmundsson. Dembdi mér beint í Laxnesinn og tek Halldór með mér í rúmið þessi kvöldin. Verst hvað hann er feitur og þungur. Ævisagan er skemmtileg lesning og mikilvægt í fyrstu köflunum að höfundur minni mann á aldur skáldsins því maður fer ósjálfrátt að hugsa að hann sé um 30 ára þegar hann er í raun 19 ára. Af hverju var maður ekki svona unglingur? Lokaði sig af á afskekktu erlendu hóteli til að ljúka tveimur handritum - láta mömmu gömlu borga brúsann?? Þarf að ná að klára ævisöguna ásamt Sumarljósinu fyrir miðjan janúar því þá taka skólabækurnar yfirhöndina.

laugardagur, desember 17, 2005

Þreif áðan umgjörðina um jólamatinn

Hlustaði á suðaustan strekking í varpinu með hausinn í ísskápnum. Það skal ekki væsa neinn strekkingum um jólaölið og hrygginn í skápnum þegar stundin kemur. Þegar jötur heimsins dæsa yfir jöxlunum sem róta í þeim á hverjum degi. Og léttreykt, sykurbrúnuð hamingjan stígur úr varpinu með hugheilar kveðjur. Einu sinni á ári fær maður að heyra þetta spariorð ,,hugheilar" - ekkert hálfkák eða ,,hughálfar" neitt. Sem sagt ég ætlaði að fá mér bjór (þann eina sem til er í íbúðinni, væntanlega ekki sá eini í húsinu því hér búa hundruðir) og þrífa ísskápinn. En snerist síðan hugur og ákvað að þrífa hann að afloknu skyrdrykkjaþambi og fá mér síðan mjólkurglas með marmaraköku. Og lesa síðan bókina Óskar og bleikklædda konan (ef ég man titilinn rétt). Svona er maður orðinn ráðsettur kökufíkill.

Ég var einu sinni tónlistarnörd

Heillaðist af Messiaen og keypti ævisögu hans í erlendri bókabúð. Límdi upp á vegg mynd af honum þar sem hann stendur með alpahúfu í miðjum frönskum skógi að skrifa niður fuglasöng.
Gekk svo langt að kaupa viðtal við hann á geisladiski og þegar diskurinn var kominn í tækið kom í ljós að viðtalið fór fram á frönsku sem ég skildi lítið í.


Fór ein á tónleika sinfóníuhljómsveitar Bournemouth til að hlusta á Vorblót eftir Stravinsky, átti erfitt með mig því mig langað að hoppa úr sætinu og dansa. Rútan sem flutti mig á tónleikana var full af ellilífeyrisþegum með silfurgrátt hár í kollum. En þetta var fyrir rúmlega 10 árum síðan.

Og ég missti mig í brit-poppinu í kringum 1994-1997. Heillaðist af Elastica og fannst Justin Frischermann söngkonan ansi kúl, þar sem hún var þáverandi kærasta Damons í Blur og fyrrverandi hans Brett Anderson í Suede - ansi kúl stelpa. Hvað ætli hún sé að gera núna? Ætli Elastica sé ennþá til? Kannski er hún að troða upp í kvöld á pub í Sheffield, heimabæ Pulp.


Komst á snoðir um Kristin Hersh og uppgötvaði Blond on Blond og Desire með karlinum Bob. Að ógleymdu Waits æðinu sem hefur enn ekki hjaðnað. Hann átti afmæli 7. des síðastliðinn. Verst hvað mann langar alltaf í viskí þegar maður hlustar á hann. Og verst hvað ég og viskí eigum stutta en slæma sögu saman. Verst að mér finnst viskí ekkert sérstaklega gott.

Verst hvað hausinn á mér er fullur af gagnslitlum tónlistarupplýsingum.

þriðjudagur, desember 13, 2005

Hún stormaði um í sjóstormi við hafið

Hafdís bjó í litlu húsi við sjóinn og þar var alltaf rok. Græn málningin var byrjuð að flagna af húsinu og axlirnar á snúrunum farnar að síga undan þvottinum sem sveiflaði sér í rokinu á hverjum degi. Stundum náðu svunturnar að losa sig af snúrunum og flugu út á haf. Hún var þybbin með rauðar kinnar og bjúg á puttunum. Hárið var þykkt og sítt og féll niður á bak eins og gruggugur foss sem ýfðist upp í rokinu. Stundum leit hún upp frá þvottinum og horfði á sjóinn froðufella, brjótast um í bylgjunum og taka heljarstökk að landi. En það var sama hvað sjórinn reyndi, hann sogaðist alltaf til baka. Og á hverjum degi var rok, en henni var alveg sama því hún vann og hamaðist eins og stormsveipur með rauðar varir. Hún skrúbbaði, skúraði, eldaði og saumaði. Hún stormaði um í sjóstormi við hafið. Karlinn hennar hét Hafliði og var langur og mjór og fölur. Alla daga formælti hann rokinu og þorði ekki út því þá fauk hann um eins og fjöður. Og hann kallaði konu sína Hafdísarmey og sá hana stundum storma framhjá. En á kvöldin lokkaði hún hann til sín með söng sem rétt heyrðist í vindinum. Og Hafliði var vindbarinn og stormsleginn eftir faðmlögin hennar sem voru eins og litlar rokrákir. Því svo var hún hlaupin aftur til starfa. Stundum gat fokið í hana þegar hann neitaði að mála húsið. Hann vildi frekar horfa á hana út um saltþveginn gluggann og formæla rokinu. Og hann var ekki glaður daginn sem hún læsti hann úti með græna málningu. Þá faðmaði hann snúrustaurana og hrópaði á hjálp framan í vindgusurnar. ,,Við búum á síprumpandi hjara í einhverju rassgati," sagði hann og vildi flytja á betri slóðir. Röddin hennar yfirgnæfði rokið, hún hrópaði ,,nei!" og við það sat.
Tímarit Máls og Menningar, september 2005

fimmtudagur, desember 01, 2005

Af huldumanni


Það stefnir í að bókin Sumarljós og svo kemur nóttin eftir Jón Kalman Stefánsson verði jólabókin í ár frá mér til mín. Ég stökk hæð mína af gleði úr græna sófanum yfir Kastljósinu áðan þegar sú bók var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna enda höfundurinn fantagóður. Reyndar hafði ég stokkið nokkrum sekúndum áður yfir bókinni Hrafninn eftir Vilborgu Davíðsdóttur, það verður nýársgjöfin frá mér til mín í ár. En aftur að Jóni. Allt frá því að Sumarið bakvið brekkuna kom út hef ég reynt að lesa allt eftir hann enda heillaði sá bókaflokkur mig það mikið að ég gaf sjóaranum föður mínum allar bækurnar og hann kolféll fyrir Sumrinu og vitnaði í ,,ekkert er jafn sorglegt og skurðir í rigningu" og fleira spaklegt í heilt ár á eftir. Þegar ég síðan þurfti aftur að lesa bókina í íslenskunámi fór ég og keypti loksins bókina og þá sagði forleggjarinn mér að sígandi lukka bókarinnar kæmi á óvart þar sem höfundur hafði bannað að bókin yrði auglýst. Það þótti mér mjög virðingarvert í auglýsingahelvítinu sem allir virðast knúnir til að taka þátt í.