fimmtudagur, október 27, 2005

Í morgun sköruðust tvær tilviljanir

í lífi mínu. Ég keyrði í frostinu vestur Álfhólsveginn á leiðinni í tíma í Lífsleikni að kenna um samkynhneigð - og í útvarpinu ómaði viðtal í Laufskálanum um samkynhneigð. ,,Skemmtileg tilviljun" hugsaði ég og lagði bílnum, en þá beið önnur bak við næsta horn. Kennslan mín frestaðist um viku þar sem leikkonan Guðrún Ásmundsdóttir var mætt á svæðið og hún valdi að tala um heim ljóðsins. Fjallaði m.a. um Jón úr Vör og las með svo miklum tilþrifum úr Þorpinu að mér vöknaði um augun. Einmitt fyrr í vikunni var ég að kenna íslensku og lét nemendur greina ljóð úr Þorpinu. ,,Skemmtileg tilviljun" hugsaði ég og fékk að heyra um músétin eintök Jóns af bókinni (kannski meira um það síðar - það rataði reyndar í ljóð í hádeginu sem síðan gufaði út í frostið með banananum sem datt úr pokanum mínum þegar ég arkaði djúpt hugsi úr búðinni). Já margar eru furðurnar í heimi kennaranemans - ætli álfarnir við álfhólsveginn hafi eitthvað með þetta að gera?

Meira um ferðalagið til Vínar (eða öllu heldur ferðalagið til Kaupmannahafnar)

Á þremur dögum upplifði ég 4 flugtök og 4 lendingar á ferð minni til Vínar. Margt rennur í gegnum hugann á slíkum andartökum og margar óvæntar spurningar koma fram, t.d. kom þessi: ,,Hvernig ætli mér myndi líða ef í flugvélinni væri leikari sem er ein að aðalpersónunum í Lost???" En að öðru: í flugvélinni á leiðinni til Kaupmannahafnar sat Bragi Ólafsson rithöfundur nokkrum sætaröðum fyrir framan mig. Hann sat einn við gluggann og sætið við hlið hans laust. Mig klæjaði í fingurna að setjast hjá honum og verða óþolandi sessunautur eins og í bókinni Gæludýrunum - en ég sat á mér.

laugardagur, október 22, 2005

,,Yfir heiðan morgun"

Á einhverju bókainnkaupafyllerínu hér um árið (örugglega í Perlunni) keypti ég ljóðabókina ,,Yfir heiðan morgun" eftir Stefán Hörð Grímsson. Beit það síðan í mig að þessa bók ætti ég að geyma og gefa einhverjum ljóðelskum ættingja eða vini við gott tækifæri. En síðan eru liðin mörg ár og einhvern veginn hefur bókin gleymst ofan í skúffu í glansandi plastinu. Þar sem ég er að fara að kenna í næstu viku um atómskáldin og þ.á.m. Stefán Hörð þá tók á þá ákvörðun að finna bókina. Gramsaði í gærkvöldi í skúffunni, dróg hana fram, settist hátíðlega við tölvuna og reyndi að vinna á plastinu. Aftan á bókinni var örlítið gaf á plastinu og ég ákvað að leggja þar til atlögu. En þá skrapa ég í bókina með nöglinni og snarhætti. Því gatið í plastinu, á bókinni hans Stefán Harðar, blasti við mér eins og starandi brostið auga vants. Ennþá er bókin í plastinu, mér finnst eins og hún heimti að vera í örygginu sem plastið veitir - kannski geri ég aðra atlögu á eftir og hver veit nema vötnunum fjölgi.

Í Vín eru margar styttur

Skrapp í þrjá daga til Vínarborgar núna í október - þurfti að sækja námskeið um einkaleyfagagnabanka!!! Hljómar spennandi! Vín minnti mig svolítið á blöndu af Munchen og Prag. Fullt af fallegum görðum og ef maður leit upp með glæsilegu byggingunum voru alltaf einhverjir ábúðafullir englar eða heilagar meyjar að mæla mann út. Ég náði að villast eitt skiptið og af ótta við að virðast "túristi" þá hvarflaði ekki að mér að draga upp kortið á miðri götu og reka nefið ofan í það. Settist frekar inn á matsölustað og reyndar að festa ljósmyndaminni á kortið. Og það bjargaðist - komst fyrir vikið í gegnum hvern hallargarðinn á fætur öðrum. Það var furðuleg upplifun en þar sem ég ferðast svo sjaldan þá hef ég alltaf mikinn vara á mér í útlöndunum. Og þegar ég gekk um gangana á flugstöðinni þá slakaði ég á því ég vissi: ,,við erum öll túrista hér inni" - kannski túristar í eigin lífi?? Í vélinni frá Kaupmannahöfn var allt pakkað af fólki og þegar við lentum loksins gat ég stunsað út í Flugrútun (að sjálfsögðu eftir að hafa fjárfest í vinum mínum Winston og Peter Lehmann). Vegaframkvæmdir í Hafnarfirði ollu því að við rúntuðum þann bæ þveran og endilangan og þegar við loksins, loksins komum á BSÍ þá var kæruleysið alveg búið að ná tökum á mér - ég hljóp út úr rútunni - kurteis dani hljóp á eftir mér með veskið mitt (sem ég hef misst á leiðinni) og sem ég beið eftir leigubíl uppgötvaði ég: Ég gleymdi töskunni í rútunni!!! Og rútan var farin burt, taskan fór sem sagt aðra ferð á Leifstöð og ég hrósaði happi daginn eftir þegar ég sótti hana þar sem fartölvan lifði allt ferðalagið af. En ég ætlaði ekki að skrifa um Vín - frekar bók eftir Stefán Hörð Grímsson - set það í næstu færslu.

föstudagur, október 07, 2005

Fjallvegir í Reykjavík - sýnishorn

  • Lítið sýnishorn af fjallvegum í Reykjavík - einn af mörgum!! Kannski koma fleiri síðar.

  • Tom arkar krullhærður og djúpraddaður norður Lækjargötu

    Slarkið setur harkið í sálina og ég veit að svartar krullurnar standa út í loftið. Ég arka norður Lækjargötu, staldra við ljósastaur og muldra lag um tóma viskísflösku. Það er móskuleg þoka í röddinni og textinn leiðist út í súrrealíska frasa um heimsendi í súpuskálinni. Ég sé strætisvagn og hugsa mig ekki tvisvar um. Vagnstjórinn lítur mig hornauga. Léttklædd kona vindur sér að mér og biður mig, bljúgróma, að syngja um Downtown train en ég lít út um gluggann og segir henni eins og er ,,því miður það er ekki hægt, ekki í borg eins og þessari þar sem eru engar lestir”. ,,Og engir lestir” bætir hún við og strýkur mér um lærið. Við það tekur vagninn af stað og morgunbirtan ræðst að mér frá glugganum, eins og herskari svartra regnhunda. Ég styð mig við súluna og mæni út um framrúðuna. Og þegar vagninn stöðvar á rauðu ljósi við Lækjartorgið blasir Esjan við mér. Það er slark og hark í morgunskímunni og Esjan er hvít. Minnir mig á að það er ennþá vetur, svartur vetur með hvítum snjórákum. Ég get ekki beðið eftir nóttinni. Nóttin er köttur sem malar við fætur mér, mjúkur og svartur. Pissar viský yfir skóna mína. Fyllir þá af gullnum vökva sem ég drekk þar til ég vakna í strætisvagni. Á rauðu ljósi við Lækjartorgið, á leið norður Lækjargötu, og Esjan blasir við mér, dettur í flasið á mér. Þannig vakna ég á hverjum morgni, vagnstjórinn lítur mig hornauga og léttklædd kona situr við hlið mér, í fýlu því ég neita að syngja angurværa rámsöngva.

Vegurinn til Hólmavíkur leiddi mig hingað


Óskar Árni Óskarsson er flott prósaskáld. Hann og afi minn eiga lítið sameiginlegt - nema kannski að rata í sinn hvorn pistilinn eftir mig í hinu víðlesna tímariti Bókasafnið hér um árið. Geri tilraun til að láta þá fylgja hér - athugið pistlarnir mínir eru neðst! http://www.bokasafnid.is/26arg/baekuroglif.html Ef Óskar Árni er hestamaður eða söngvari, nú eða tekur í nefið þá á hann kannski eitthvað sameiginlegt með afa mínum heitnum - en ég efast um að svo sé.