föstudagur, október 07, 2005

Fjallvegir í Reykjavík - sýnishorn

  • Lítið sýnishorn af fjallvegum í Reykjavík - einn af mörgum!! Kannski koma fleiri síðar.

  • Tom arkar krullhærður og djúpraddaður norður Lækjargötu

    Slarkið setur harkið í sálina og ég veit að svartar krullurnar standa út í loftið. Ég arka norður Lækjargötu, staldra við ljósastaur og muldra lag um tóma viskísflösku. Það er móskuleg þoka í röddinni og textinn leiðist út í súrrealíska frasa um heimsendi í súpuskálinni. Ég sé strætisvagn og hugsa mig ekki tvisvar um. Vagnstjórinn lítur mig hornauga. Léttklædd kona vindur sér að mér og biður mig, bljúgróma, að syngja um Downtown train en ég lít út um gluggann og segir henni eins og er ,,því miður það er ekki hægt, ekki í borg eins og þessari þar sem eru engar lestir”. ,,Og engir lestir” bætir hún við og strýkur mér um lærið. Við það tekur vagninn af stað og morgunbirtan ræðst að mér frá glugganum, eins og herskari svartra regnhunda. Ég styð mig við súluna og mæni út um framrúðuna. Og þegar vagninn stöðvar á rauðu ljósi við Lækjartorgið blasir Esjan við mér. Það er slark og hark í morgunskímunni og Esjan er hvít. Minnir mig á að það er ennþá vetur, svartur vetur með hvítum snjórákum. Ég get ekki beðið eftir nóttinni. Nóttin er köttur sem malar við fætur mér, mjúkur og svartur. Pissar viský yfir skóna mína. Fyllir þá af gullnum vökva sem ég drekk þar til ég vakna í strætisvagni. Á rauðu ljósi við Lækjartorgið, á leið norður Lækjargötu, og Esjan blasir við mér, dettur í flasið á mér. Þannig vakna ég á hverjum morgni, vagnstjórinn lítur mig hornauga og léttklædd kona situr við hlið mér, í fýlu því ég neita að syngja angurværa rámsöngva.

2 ummæli:

Huginn sagði...

Þetta er ansi skemmtilegur texti..

bjarney sagði...

Takk fyrir það!