þriðjudagur, desember 26, 2006

Tsunami

Í dag eru tvö ár liðin frá flóðbylgjunni á Indlandshafi. Hér er ókláraður texti sem ég skrifaði í kjölfarið.

Með titrandi tsunami tár

Lítið rumsk á botninum og skrímslið vaknaði af dvala. Reis upp og æddi af stað í allar áttir, í einu. Öskraði niður í djúpið svo dimmt og svart að enginn heyrði nema næmir fiskar og dýr til stranda. Bungaðist yfir hafflötinn og þegar kom að landi setti það upp vegginn og skellti sér yfir allt sem á vegi þess varð. Gekk á land og murkaði lífið úr hverri tóru.

Á landakortinu eru dregnar öruggar línur milli lands og sjávar og tunglið togar hafið fram og til baka. En hafið gekk á land og át lítil börn, óheppna ferðamenn og fátækt bóndafólk. Sölumaður sólgleraugna hvítnaði með munninn fullan af sjó. Sóldýrkandi sá sólina aftur, liðinn. Kornabarn sveif með straumnum úr örmum. Sárfætt kona stóð í rústunum, leitandi ellefu barna sinna. Ellefu brosandi munna, tuttugu og tveggja dansandi fóta.

Áður en aldan kom sogaðist sjórinn frá landi. Þúsundir spriklandi fiska lágu á þurru landi og fólkið þeysti út að ströndinni, til að týna fiska og taka myndir. Til að ganga í opinn dauðann.

Ég týndi úrinu mínu, giftingarhringnum, skóm og sokkum. Ég týndi barninu mínu. Ég týndi lífi. Hef ekki ennþá fundið það, er í þann veginn að gefa upp alla von. Í þann veginn að týna líka voninni. Ég mun aldrei í lífinu gleyma táraflóðinu sem ég drukknaði í. Þeir sem stóðu og horfðu á okkur deyja dóu líka, lífsþorstinn hvarf og sorginn gekk á land og murkaði lífslöngun úr öllu kviku.

Heilar breiður af blómum. Þúsundir blóma á þúsund ofan. Með titrandi tár, sem tilbiðja guð sinn og deyja.

2 ummæli:

Díana Ósk sagði...

VÁ!!! Bjarney... hvenær koma bækurnar út?!?!!

bjarney sagði...

Vonandi kemur ein lítil út á árinu 2007 - ég læt þig vita!!