föstudagur, október 30, 2015

Þegar madrígalarnir þagna

Í fjarlægu landi fannst nýverið kona sem reyndist hvorki sjálfbær né arðbær (til hægri á myndinni). Þessi sama kona hefur þann háttinn á að syngja daglega fyrir fólkið í landinu sem nýtur þess að hlýða á söng hennar. Söngur hennar er jafnvel orðinn hluti af daglegu munstri margra, þegar madrígalinn byrjar á morgnana klukkan ellefu fara margir ósjálfrátt að huga að hádegismatnum. Svona mætti lengi telja. Stjórnvöld í þessu landi komust að því að hún er í raun óarðbær og vilja grípa í taumana. Ráðherra söngmála sagði í viðtali: ,,Við munum auðvitað ekkert slátra henni, þetta er bara grundvöllur til frekari umræðna um það hversu slæm staða hennar er. Við þurfum að gera eitthvað í málinu, við þurfum að draga hana saman."


Þær sögur eru á reiki að söngur hennar sé hægt og sígandi að hverfa, að fljótlega munu madrígalarnir þagna og þar með munu landsmenn glíma við ótímabæran næringarskort því hádegismaturinn mun gleymast. En þetta eru óstaðfestar sögur. Rétt í þessu hvíslaði lítill fugl: ,,Stjórnvöld ætla ekki að slátra henni, en þau ætla að svelta hana, það er svo miklu mannúðlegra, markaðsöflin verða að ráða, öllu óarðbæru ber að útrýma."

Engin ummæli: