fimmtudagur, september 30, 2021

Hugleiðingar um grát og tár - útvarpspistill nr. 3

 Grátur í trúarbrögðum, goðafræði og bókmenntum



Við getum rakið táraslóð mannsins í gegnum aldirnar. Tár hafa verið tengd við heilagleika og hetjudáðir, þau eiga að sýna heilindi fólks og þeirra innri mann. Í Biblíunni er allt vaðandi í tárum. Í Davíðssálmi nr. 56 segir: ,,Þú hefur talið hrakninga mína, safnað tárum mínum í sjóð þinn, þau eru rituð í bók þína." Hér eru dæmi úr Harmljóðunum:


Hagar var egypsk ambátt sem átti soninn Ísmael með Abraham. Hún grét eftir að Abraham hafði sent hana í útlegð í eyðimörkina en Guð heyrði grát hennar og bjargaði henni. Hina grátandi Hagar má finna víða á málverkum allt frá 17. öld.

Heilagur Frans frá Assisí missti smám saman sjónina í elli sinni og ástæðan var talin ofgnótt tára. Þarna eru tárin tengd við heilagleika, heilagur Frans var sannur, án uppgerðar og bókstaflega grét úr sér augun.

Við grátmúr gyðinga er búist við gráti og hátíðleika eða alvörugefni. Að gráta við vegginn sýnir dýpt trúarinnar.

Í íslam er sérstakur hópur grátara í pílagrímsförinni til Mekka sem kallast ,,grátandi súfistar“ og tár þeirra endurspegla heilindi þeirra og dulræna upplifun.

Jesús grét þegar hann frétti andlát Lasarusar og í Jóhannesarguðspjalli segir einfaldlega: ,,Þá grét Jesús." (Jóh. 15.35)

Á miðöldum voru tár mikilvægur hluti af trúrækni og samkvæmt sögunni voru dæmi þess að sett væri skál af vatni á höfuðið á styttu af Maríu mey og til að tryggja táraflaum var settur spriklandi fiskur í vatnið. Reglulega spretta fram tár á styttum af Maríu mey víða um heim, hún grætur yfir dauða sonar síns en líka yfir syndum heimsins.




Flest grátum við sáran þegar við missum ástvin. Ef aðeins tár okkar gætu vakið ástvin okkar til lífsins, en við vitum af biturri reynslu að svo er ekki. Samt grátum við mikið og oft og það er leiðin sem við fetum í gegnum sorgina. Tárin leiða okkur aftur inn í lífið.

Elsta ritaða heimildin um grát er á leirtöflum frá Kanaanslandi sem eru frá fjórtándu öld fyrir Krist. Á einu brotinu segir frá gyðjunni Anat sem grætur þegar hún fréttir andlát bróður síns, Ba'als. Þegar Anat grætur mettar hún sig tárum og drekkur tárin eins og vín. Droparnir úr augum hennar vekja Ba'al aftur til lífsins.

Í norrænni goðafræði býðst Hel til að hleypa Baldri aftur í ríki lifenda ef allt lifandi og kvikt grætur Baldur. Gráturinn hefst og það er auðvelt að gera sér í hugarlund hvernig þetta hefur hljómað. Allt kvikt grét, allir menn, guðir, hlutir og svo framvegis. Allt og allir grétu, nema Loki í líki tröllkonunnar Þakkar. Sá forherti sem grætur ekki kemur í veg fyrir endurkomu Baldurs. Þegar manneskja deyr gráta ástvinir og þeim líður eins og allur heimurinn, allt kvikt, gráti með þeim en kannski er alltaf einhvers staðar þurreygur Loki sem kemur í veg fyrir endurkomu og endurfundi í lifanda lífi.

Í Ummyndunum (e. Metamorphosis) Óvíðs er fjallað um Kýönu, vatnadís sem leysist upp í tárum sínum (fimmta bók, s. 155):

En Kýana, sem harmaði rán gyðjunnar og vanvirtan rétt lindar sinnar, geymdi í hljóðu hjarta sér ólæknandi und. Hún leystist öll upp í tárum og rann saman við vatnið sem hún hafði fram að þessu búið í sem gyðja. Það mátti sjá limi hennar mýkjast, bein hennar svigna, neglur hennar linast. Og fyrst allra bráðnuðu fínlegustu líkamshlutarnir, blágrænt hárið, fingur og fótleggir, því að ekki er óravegur frá grönnum limum til kalds vatns. Næst á eftir þessu leysast aclir, bak, síður og brjóst upp í mjóar vantssprænur. Og loks, í stað lifandi blóðs, rennur tært vatn inn í holar æðar hennar, uns ekkert er eftir af henni sem festa má fingur á.

Finna má fleiri sambærileg dæmi í Ummyndunum Óvíðs. Þau sem bráðna með tárum eiga það sameiginlegt að vera óhuggandi og í viðkvæmri stöðu. Allt eru þetta konur sem leysast upp vegna yfirgangs karla.

Kannski er eitthvað svipað í gangi í sögunni um Lísu í Undralandi. Þar grætur Lísa svo mikið að það myndast pollur sem stækkar og að lokum svamlar hún um í eigin tárum, hún flýtur yfir í breyttan heim.

Stundum hræðist ég grátinn því ég er hrædd um að geta ekki hætt, að ég leysist upp í tárum, að tárin láti mig fljóta yfir á ókunnar slóðir því stundum er þar stjórnlaus óreiða og ofsi.

Í Njáls sögu kom Skammkell þeirri sögu af stað að Gunnar á Hlíðarenda hefði grátið undan Otkatli. Það var dropinn sem fyllti mælinn hjá Gunnari, hann hélt af stað og drap Otkel og Skammkel.

Í Njálsbrennu er Skarphéðinn spurður hvort hann gráti (kafli 130): „Gunnar Lambason hljóp upp á vegginn og sér Skarphéðin. Hann mælti svo: „Hvort grætur þú nú Skarphéðinn?“ „Eigi er það,“ segir Skarphéðinn, „en hitt er satt að súrnar í augunum.“....“

Á vefsíðunni Snöru er hægt að kalla fram leit að þeim stöðum í heildarverkum Halldórs Laxness þar sem grátur og tár koma við sögu. Dæmin eru fjölmörg. Í Sjálfstæðu fólki kemur fram að Bjarti leiðist grátur og hann verður ráðþrota þegar Ásta Sóllilja grætur og reynir af veikum mætti að hugga hana. Ég gæti trúað því að Ásta Sóllilja sé sú persóna sem grætur hvað mest í sögunni.

Stökkvum fram til nútímans. Árið 2020 kom út bókin Aprílsólarkuldi eftir Elísabetu Jökulsdóttir og þar eru þessar harmrænu línur um grát þegar sögupersónan áttar sig almennilega á andláti föður síns:

... þá ætlaði hún að gráta einsog Dettifoss yfir því en ýtti Dettifoss sorgarinnar aftur ofaní líkamann, það var einsog það væri orðið of seint að gráta, hún var búin að læra það einsog læstur stafur á bók, að heimurinn hrynur ofaná mann ef maður grætur. Og ef maður grætur yfir einhverju þá trúir maður því. Það verður raunverulegt. Þess vegna grét hún ekki. (bls. 30)

Eitt tár sprettur úr fyrsta tárakirtlinum í árdaga og flæðir frá manni til manns í gegnum aldirnar, rennur niður kinnarnar á Maríu Mey, Jesú, dýrlingum, vatnadísum, goðum og gyðjum, hetjum og andhetjum, okkur öllum, mér og þér. Tárið er það sem tengir okkur saman, blaut augu fylgja mennskunni. Tárakirtlarnir hafa ekki verið tæmdir, þeir verða aldrei tæmdir.

Ég ætla að enda þetta á eigin ljóði úr bókinni Bjarg, við erum stödd á 7. hæð í átta hæða blokk í íbúð 7a:

Fjóla raðar böngsum með hliðum

sér skrokk þjóða úti

setur sæng yfir haus

 

muldrar í koddann:

Þú sæla heimsins svala lind

 

Um þessar mundir

gráta læknar í

sár sjúklinga

 

Skurðlæknar opna

brynna músum

og sauma fyrir

 

Ljósmæður lauga

fæðingar í

tárum sínum

 

Sálfræðingar safna

í krukkur

 

Prestar bæta þeim

í kaleikinn

 

Leikskólakennarar hafa tekið

sér stöðu við rólurnar

 

Bara tár lækna

sár

 

Fjóla dregur sæng

frá níu ára

strikuðum

kinnum





Og HÉR er hægt að hlusta (mixað af Lydíu Grétarsdóttur), hefst á mínútu 11 :-)

Engin ummæli: