föstudagur, nóvember 04, 2005

Finnst þér ekki Esjan vera sjúkleg?

Sæbrautin fram og aftur. Tryggvi keyrir Sæbrautina fram og aftur á hverjum degi. Á bíl merktum fyrirtækinu og þegar hann bíður á rauðu ljósi við Höfðatún finnur hann hvernig spennan magnast. Í sama mund og hann beygir inn á Sæbrautina finnur hann traustið og haustið koma til sín af hafi. En hann segir þetta engum því tilfinningin er óræð og fálmkennd, úr tómu lofti gripin, af úfnu hafi fengin. Tryggvi endasendist eftir götunni í sendiför dagsins, á bíl merktum fyrirtækinu, og hún fylgir honum eftir alla leið. Eins og gestgjafi fylgir gesti sínum alla leið út að hliði, fylgir hún honum þar til hann beygir í suður. Og þá sér hann í baksýnisspeglinum hvernig hún dillar skottinu og hverfur lúpuleg bak við næsta hús.
Við aksturinn fer hann að hugsa og lætur hugann reika. Þá kemur að því einn dumbaðan rigningadag að hann veit að hún er tík sem spangólar við hafið. Hann er ekki fyrr kominn á Sæbrautina en hún mætir við hlið hans, lallar með honum með lafandi tunguna, gjóar til hans augunum annars lagið og lætur ekkert trufla sig í trausti sínu.
Og þegar dumbaði rigningadagurinn er að kvöldi kominn ýlfrar hún lágt undir lágnætti og þá veit hann að hún saknar hans nú þegar og mun flaðra upp um hann næsta dag. Því núna veit hún að hann veit.
Næsta dag smýgur einstaka sólargeisli í gegnum vindbarin ský. Hann þykist ekki taka eftir henni, blístrar í hina áttina, hækkar í útvarpinu og plokkar slummu úr nefinu. Þá urrar hún út í loftið, lyftir upp fæti og mígur yfir hann.
Esjan er tík.
Lesbók Moggans 22.1.2005

Engin ummæli: