föstudagur, nóvember 11, 2005

Ferðin til Búdapestar

var draumi líkust. Ferðaðist með samstarfskonu minni á fyrsta farrými, gisti á flottu hóteli og sótti ráðstefnu um einkaleyfa-upplýsingar (gagnabanka og slíkt). Ráðstefnan var haldin á fimm stjörnu hóteli og fyrirlesararnir voru mjög formfastir í þeirri sterku hefð að standa við púltið og masa í hátalara, jafnvel með glærusýningu. Áhorfendur þurftu ekkert að gera annað en að hlusta. Í þeirri kennslufræði sem ég er að læra þykir fyrirlestrarformið dæmt til að mistakast, áheyrendur meðtaka ekki efnið vel og sofna fljótt - kannski á þessi áhersla ekki við um fullorðna. Allaveganna virðist hefðin festast harðar og harðar í kennsluaðferðum eftir því sem nemendahópurinn er eldri og lærðari. Fórum í leðruðum rútum í lögreglufylgd í þinghúsið í Búdapest og gengum um gyllta sali sem eru ólýsanlegir. Fengum endalaust góðan mat en lentum síðan á Slóvena sem útnefndi sig persónulegan leiðsögumann fyrir okkur um sögu Ungverjalands, Slóveníu og fleira. Hann var alltaf að segja okkur hvað ungverskar konur eru sérstaklega klárar að hugsa alltaf um fjölskylduna sína og sauma og prjóna (og ekki á flandri í útlöndum, langt frá heimili og börnum eins og við). Kvöldið í þinginu var himneskt enda ekki annað hægt þar sem brot af himnaríki var sitt í veggi og loft byggingarinnar. Næsta kvöld á eftir fórum við í fornri lest á stórt lestarsafn og átum á okkur gat ásamt um 4-500 manns af öllum þjóðernum - og allir áttu það sameiginlegt að fýla einkaleyfi (jéjéjé). Jazzbandið mynti mig á myndirnar hans Woody litla. Einhverra hluta vegna féllu fyrirlestrarnir alveg í skuggann fyrir matnum, vínunum og mannflórunni. Eftir að hafa borðar þríréttar í öll mál kastaði napur vindurinn mér að flugrútunni og heima tóku við bleyjuskipti (og auðvitað góð faðmlög) og skyr.

Engin ummæli: