föstudagur, ágúst 29, 2014

Brotakennd drög að skýrslum


* Klukkan er 22:11 og bráðum komnir tveir sólarhringar síðan ég hætti á fésbókinni. Bráðum, bara bráðum, hætti ég að hugsa í fésbókar-statusum. Þegar ég sé eitthvað skemmtilegt, geri stórkostlega hluti eða heyri stórmerkilegar setningar þá sit ég á mér, útvarpa ekki á vegg heldur reyni að hemja mig. Sendi kannski gusu hingað.
* Klukkan er 22:16 og ég er að elda pasta. Þorskbitarnir og kartöflurnar (ásamt súkkulaðiáti) fyrr í kvöld dugðu ekki til.
* Ætli það sé hægt að lesa yfir sig? Borða yfir sig? Vera yfir sig? Er að velta fyrir mér þessu fallegu samsetningu að gera eitthvað ,,yfir sig".
* Þegar ég flutti fyrir nokkrum árum henti ég heilu stöflunum af glósum úr háskólanámi mínu. Í kvöld langaði mig að kíkja á nokkur námskeið (hefðbundið föstudagskvöld) og sá að ég hafði einmitt ekki hent þeim glósum.
* Fann möppur úr námskeiðum frá árinu 2001, bókmenntir fyrri alda og stefnur í bókmenntafræði. Glósutexta eftir Matthías Viðar um Guðberg Bergsson og Steinar Sigurjónsson. Textahefti frá Birnu Bjarnadóttur og Guðna Elíassyni. Hópvinnublöð ýmissa nemenda sem ég sé að ég hef kynnst síðar á lífsleiðinni (Fía, Hrafnhildur, Kolbrá, hæ!). Útkrotaða texta, ritgerðir og pælingar. Framandi eins og eftir aðra manneskju.
* Fyrr í dag varð mér hugsað um rúm í fjarlægu húsi og síðan hringdi pabbi þegar ég var í mjólkurkælinum í Bónus og fór að tala um þetta sama rúm.
* Hef undanfarið velt því fyrir mér hvort allt þetta mikla efni sem ég hef lesið í námi mínu og síðan gleymt séu glataðar vinnustundir. Hvort vitneskjan lúri djúpt í undirvitundinni eða sitji ofan á húðinni eins og ósýnilegt húðflúr. Flest af því sem ég hef lesið um ævina hef ég síðan gleymt.
* Klukkan er 22:22 og pastað fer að vera tilbúið. Ætla að gusa ólífuolíu á það með heimagerða pestóinu og einhverrri lífrænni baunablöndu. Ólífuolían mun bjarga heiminum einn daginn, tryggja mýkt liðamóta og sjálfsmildi í feitu hári.
* Verði mér að góðu!
* Já og þessi mynd dúkkaði upp þegar ég tæmdi myndavélina áðan. Veit ekki hvað ég var að hugsa. Eflaust einhver tenging við það þegar Sigurður Pálsson kennir ljóðagerð og byrjar á því að hvetja nemendur til að skrúfa frá krananum og undrast, skoða og sjá. Undur.
* Og svo setti ég líka parmesan ost á pastað. Man að í síðasta samtali okkar mömmu talaði hún um það hvað hún elskaði parmesan ost. Nú fæ ég mér ekki parmesan án þess að hugurinn hvarfli þangað.

Engin ummæli: